Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Vanmetinn fjárlagahalli

Samkvæmt breytingum meirihluta fjárlaganefndar verður halli á ríkissjóði 37,3 milljarðar króna. Engar líkur eru á því að þetta verði niðurstaðan þar sem tekjuforsendur frumvarpsins eru í besta falli veikar. Þá er líkur á því að útgjöld séu einnig vanmetin. Það stefnir því í að fjárlagahallinn á komandi ári verði töluvert meiri. Að líkindum nær 50 milljörðum en 40 milljörðum.

Halli á ríkissjóði kallar á auknar skuldir sem komandi kynslóðir þurfa að greiða. Við þetta bætist síðan einbeittur (brota)vilji Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar að koma Icesave-skuldum á herðar íslenskra skattgreiðenda. 

Er nema furða að Ásmundur Einar Daðason vilji ekki taka þátt í þessum leik, en Árni Þór Sigurðsson er hins vegar alltaf tilbúinn þegar kallið kemur. Það var erfitt fyrir ríkisstjórnina að koma frumvarpinu úr nefnd vegna uppreisnar þingmanna vinstri grænna. Spurningin er hvort níu milljarða útgjaldaukning sé nægjanleg til að róa uppreisnarseggina.

p.s.

Á ruv.is segir:

"Oddný Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar, segir talsvert miklar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu. Í fjárhæðum muni mest um vaxtabæturnar en þar séu teknar til baka 1900 milljónir. Síðan fari 6 milljarðar í sérstakar vaxtabætur en þar séu tekjur á móti frá fjármálafyrirtækjum. Einnig sé 175 milljóna króna pottur sem fyrir ráðuneyti velferðamála, menntamálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti. Auk fái löggæsla sinn skerf. Þetta sé til að hægt verði að bregðast við óvæntum atvikum á árinu 2011."

Nú hljóta landsmenn að spyrja: Hvaða "óvænt" atvik á komandi ári er ríkisstjórnin að búa sig undir með því að auka framlög til löggæslunnar?


mbl.is Útgjöld hækka um 9 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur hræðist þjóðina

Steingrímur J. Sigfússon er óvenju hógvær í viðtalinu við mbl.is sem sýnir kannski vel að sagan er honum ekki hliðholl. En það er algjörlega rangt hjá fjármálaráðherra að halda því fram að ákvörðun um að vísa Icesave-samningunum í þjóðaratkvæði sé í höndum annarra. Ráðherrann veit betur en reynir að leiða umræðuna á villigötur. Slíkt er hvorki drengilegt né skynsamlegt pólitískt fyrir mann sem vildi knýja í gegn samninga um þjóðargjaldþrot.

Auðvitað er það í höndum alþingismanna að ganga svo frá málum að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja samninga um Icesave. Því verður ekki trúað að meirihluti sé fyrir samningum á þingi ef ekki er ákvæði um að þeir öðlist ekki gildi án þess að meirihluti kjósenda samþykki þá.

En Steingrímur vill ekki þjóðaratkvæði, ekki frekar en um gömlu samningana sem var hafnað af 98% kjósenda. Hvorki hann né Jóhanna Sigurðardóttir, sem í orði segist berjast fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum, tóku þátt í kosningunum í mars síðastliðnum. 

Laugardaginn 6. mars hafði Morgunblaðið það eftir Steingrími að hann hefði velt gildi þjóðaratkvæðagreiðslunnar talsvert fyrir sér:

"Ég sé takmarkaðan tilgang í því að taka þátt í þessari kosningu. Til þess að svona kosning þjóni einhverjum tilgangi þarf hún að mínu mati að uppfylla tvennt, það þurfa að vera í boði einhverjir skýrir valkostir og það þarf að vera í mögulegri útkomu kosningarinnar einhver lausn á einhverju viðfangsefni. Hvorugt er í boði í þessu tilviki eins og nú er málum háttað."

Svo segir mér hugur að Steingrímur J. Sigfússon vilji helst að ofangreind orð hefðu aldrei verið sögð, líkt og hann hlýtur að iðrast þess að hafa staðið að Svavars-samningunum svokölluðu, þó hann viðurkenni það aldrei. Verst er þó að ráðherrann haldi áfram að leiða umræðuna á villigötur. 


mbl.is Vill ekki þjóðaratkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfugmæli spunavélanna

Ívar Páll Jónsson blaðamaður á Morgunblaðinu skrifar hárbeittan pistil í blaðið í dag þar sem hann bendir á hvernig ríkisstjórnin beitir spunavélinni til hins ýtrasta, þannig að fólk átti sig ekki á því hvað er í raun og veru í gangi.

Hann skrifar:

"Það væri efni í mun lengri grein að rekja öll öfugmælin sem hér voru nefnd í byrjun. Einna augljósasti stjórnarspuninn er þó að hér stöðvist allt atvinnulíf – ekkert fyrirtæki fái lánafyrirgreiðslu, verði ekki samið um að skattgreiðendur taki á sig Icesave-skuldbindingu einkabankans Landsbankans. Þvílík fjarstæða.

Eina dæmið sem spunameistarar valdhafanna geta nefnt um slíkt er að Fjárfestingabanki Evrópu, pólitískt Evrópuapparat, setji þetta skilyrði til þess að lána Landsvirkjun. Þeim hefur yfirsést að þrjú stór íslensk fyrirtæki, Össur, Marel og Icelandic Group, hafa öll fengið lán í erlendum myntum á síðasta rúma árinu."

Ívar Páll er ekki sérstaklega bjartsýnn þegar kemur að Icesave-samningunum og hefur ekki mikla trú á því að stjórnarandstaðan standi í lappirnar. Vonandi hefur hann rangt fyrir sér:

"Því miður bendir flest til þess, að þjóðin ætli að kokgleypa spunann í þetta skiptið, eftir langdregna baráttu við andskota sína í stjórnarráðinu. Stjórnarandstaðan lyppast vafalaust niður, langþreytt og þvæld, og þjóðin hrópar í kór fyrir framan firðtjaldið:

STRÍÐ ER FRIÐUR

FRELSI ER ÁNAUÐ

FÁFRÆÐI ER MÁTTUR."


mbl.is Icesave-samningarnir á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Okkur skjátlaðist, segir skáldið

Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur er ekki fullur iðrunar en iðrast þó í grein sem hann skrifar í Fréttablaðið í dag. En iðrunin kemur ekki í veg fyrir að hann haldi áfram að ausa úr skálum reiði sinnar gagnvart Sjálfstæðisflokknum. 

Rithöfundurinn játar að hafa haft rangt fyrir sér í Icesave-málinu og skrifar:

"Um það er þarflaust að þrefa: Okkur skjátlaðist. Við, þessi minnihluti landsmanna sem vildum ljúka Icesave-málinu um síðustu áramót, fá þetta út úr heiminum og halda áfram út úr kreppunni með hjálp annarra þjóða - okkur skjátlaðist, við paníkeruðum.

Samningurinn sem nú liggur fyrir í Icesave-málinu er svo miklu hagstæðari en sá sem þá lá fyrir að um það er þarflaust að þrefa heldur ættum við að gleðjast og þakka þeim sem náðu fram svo miklu hagfelldari niðurstöðu - ekki síst forsetanum.

Vera kann að á móti komi tjón vegna frosinna lánamarkaða - þótt ef til sé það lánafrost líka viss blessun því að engar virkjanaframkvæmdir hafa fyrir vikið orðið og engin lán verið tekin í ámóta hálfvitagang - og forsendur hafa breyst en það breytir engu: Okkur skjátlaðist."

Guðmundur Andri reynir (fullur iðrunar) að réttlæta fyrir lesendum af hverju hann og skoðanabræður hans vildu samþykkja Icesave-samninginn sem að öllu öðru óbreyttu hefði leitt til þjóðargjaldþrots. En allt er þetta Sjálfstæðisflokknum að kenna því eins og skáldið segir:

"Icesave er afurð Sjálfstæðisflokksins sem afhenti vildarmönnum á silfurfati banka sem tók þá sex ár að setja í þrot með óvenju miklum tilþrifum. Í Icesave-deild bankans starfaði gjörvöll ungliðadeild Sjálfstæðisflokksins og það voru helstu innherjar flokksins sem gerðu fyrsta og versta Icesave-samninginn."

Það er merkilegt með menn eins og Guðmund Andra að þegar hann hefur rangt fyrir sér þá er skýringanna alltaf að leita hjá hinu vonda íhaldi.

Hvernig getur Ögmundur stutt Jóhönnu?

Ögmundur segir að Jóhanna Sigurðardóttir hafi hótað stjórnarslitum á síðasta ári ef Icesave-samningarnir yrðu ekki samþykktir. Hann segir að rétt skuli vera rétt þegar hann leiðréttir orð forsætisráðherra og Steingríms J. Sigfússonar.

Það er erfitt að átta sig á því af hverju Ögmundur telur ekki nauðsynlegt að vísa nýjum samningum til þjóðarinnar. Slíkt hlýtur að vera eðlilegt í ljósi þeirrar miklu andstöðu sem hefur verið við allt málið. Verði það ekki gert er ljóst að gjá mun myndast milli þings og þjóðar svo vitnað sé í orð forseta af öðru tilefni. 

Ögmundur verður hins vegar að svara því af hverju hann telur eðlilegt að sitja í ríkisstjórn með fólki sem með ofbeldi reyndi að koma Icesave-samningunum í gegn á síðasta ári? Hvernig getur hann stutt það að fjármálaráðherra sitji áfram? Hvernig getur hann setið í ríkisstjórn undir forsæti konu, sem hótaði honum öllu illu, til að koma samningum í gegn sem ljóst er að hefðu leitt til þjóðargjaldþrots?

Þessum spurningum verður Ögmundur að svara áður en hann veltir því fyrir sér hvort forsetinn staðfesti ný lög um Icesave eða ekki.


mbl.is Icesave á endastöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítill friður á stjórnarheimilinu

Ekki virðist vera mikill friður á stjórnarheimilinu. Steingrímur J. Sigfússon neitar því að Jóhanna Sigurðardóttir hafi hótað stjórnarslitum ef Vinstri grænir styddu ekki Icesave-samningana á liðnu ári. Jóhanna Sigurðardóttir neitar einnig en Ögmundur Jónasson segir að rétt skuli vera rétt; stjórnarslitum hafi verið hótað.

Í fréttum RÚV furðar Ögmundur Jónasson sig á neitun þeirra Steingríms og Jóhönnu enda eigi öllum að vera ljóst að hvers vegna hann gekk út úr ríkisstjórn á liðnu ári:

"Mér var sagt á mjög afdráttarlausan hátt, á fleiri fundum en einum, að ríkisstjórnin myndi fara frá ef við yrðum ekki samstiga í þessu máli. Ég var ekki reiðubúinn til að gera það, vildi ekki sprengja ríkisstjórnina og því fór sem fór. Þetta er alveg afdráttarlaust og kýrskýrt."

En Ögmundur vill reyna að halda friðinn og segir að hótunin sé liðin tíð:

"En hitt er ég alveg staðráðinn í að segja og hvar sem er: Svona var þetta og rétt skal vera rétt."

Hótun er stjórnunarstíll sem virðist skila árangri, eins og sést ágætlega í því hve Jóhönnu hefur tekist vel að teyma Vinstri græna í átt að Evrópusambandinu þar sem Árni Þór Sigurðsson, er harður aðildarsinni. 


mbl.is Úrslitaatriði að fá Buchheit að borðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svavar og Steingrímur hefðu kostað yfir 400 milljarða

Nú liggur fyrir nýr samningur um Icesave sem gengur út á að íslenskir skattgreiðendur taki á sig skuldir, sem þeim ber ekki lögum samkvæmt. Því er mikilvægt að þingmenn samþykki ekki slíkan samning án þess að vísa honum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Annars mun þjóðin klofna. 

En það er magnað að bera saman þann samning sem nú liggur fyrir og þann sem Svavar Gestsson gekk frá og Steingrímur J. ætlaði þjóðinni að gleypa og borga. Með þeim hefði þjóðin misst fjárhagslegt sjálfstæði og verið dæmt til fátæktar.

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur gert góðan samanburð á þessum tveimur samningum:

"Kostnaðurinn við Svavars-samninginn var: 

  • Ónúvirtur um 479 milljarðar,
  • Miðað við 6% ávöxtunarkröfu um 300 milljarðar,    
  • Miðað við áfallinn kostnað 2016 um 180 milljarðar (en þá á eftir að borga allan höfuðstól, vexti og vaxtavexti)

 Kostnaðurinn við nýjan Icesave samning er:

  •  Miðað við áfallinn kostnað 2016 um 47 milljarðar (en þá er búið að greiða höfuðstólinn vexti og vaxtavexti).

Munurinn á Svavars samningnum og nýja samningnum er því 432 milljarðar! Fyrir þá upphæð væri hægt að lækka skuldir heimilanna um milli 30-40% flatt!"


Steingrímur J. verður að axla ábyrgð og víkja

Mikil er ábyrgð Steingríms J. Sigfússonar, sem ætlaði sér að keyra Svavars-samningana í gegn sumarið 2009. Munurinn á nýjum samningi og þeim gamla er um 400 milljarðar króna.  Fjármálaráðherrar hafa neyðst til að segja af sér af minna tilefni.

Steingrímur J. Sigfússon lýsti því yfir á síðasta ári að Svavar Gestsson væri að lenda glæsilegum samningum. Og þegar ljóst var hvað í þeim fólst sagði Steingrímur kokhraustur að tekist hafi "að landa hérna um það bil eins hagstæðu samkomulagi í þessu annars mjög erfiða máli og þungbæra máli fyrir okkur sem þjóð".Hvorki meira né minna.

Jóhanna Sigurðardóttir var skýrmælt þegar hún sagði:

"Ég held að þó við hefðum beðið að þá hefðum við ekki fengið betri niðurstöðu í þetta mál."

Nú hefur dómurinn verið kveðinn upp. Það munar 400 milljörðum króna. 

Það er merkilegt að Steingrímur J. Sigfússon vill ekki bera nýja samninginn saman við Svavars-samninginn. Telur slíkt ekki sanngjarnt. Af hverju er það ekki sanngjarnt að skattgreiðendur velti fyrir sér 400 milljörðum króna? 

Ábyrgð Steingríms J. Sigfússonar er mikil og hana getur hann ekki axlað með öðrum hætti en að víkja úr stóli fjármálaráðherra. Hið sama á við um Jóhönnu Sigurðardóttur.

Hitt er svo annað að nýr samningur breytir í engu um þá staðreynd að engin lagaleg skylda hvílir á Íslendingum að taka að sér að greiða skuldir einkabanka. Slíka skyldu verður aldrei hægt að leggja á landsmenn án þess að þeir samþykki það í þjóðaratkvæðagreiðslu.


mbl.is „Risaáfangi í endurreisn Íslands“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúnaðarbrestur milli Sjálfstæðisflokks og atvinnurekenda

Afleiðingar Icesave-deilunnar hafa verið margvíslegar og ætla ég þá ekki að ræða að sinni um þá fráleitu ætlan ríkisstjórnarinnar að láta íslenska skattgreiðendur greiða skulir sem þeim ber ekki að greiða.

Þeir eru margir sem hafa hvatt til þess að gengið verði frá samningum við Hollendinga og Breta. Jafnvel Svavars-samningarnir voru taldir svo góðir að nauðsynlegt væri að skrifa undir því annars væri hætta á því að landið breyttist í Norður-Kóreu eða Kúbu norðursins. Ekkert slíkt hefur gerst. 

Forystumenn Samtaka atvinnulífsins og ASÍ hafa verið einna duglegastir við áróðurinn fyrir Icesave-samningum og gengið þar erinda annars vegar Breta og Hollendinga og Steingríms J. Sigfússonar hins vegar.

Greinilega er að Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins er ofboðið en í samtali við Spegilinn á RÚV síðasta þriðjudag gagnrýndi Bjarni framgöngu aðila vinnumarkaðarins í Icesave málinu frá upphafi:

"Þar til þeir hafa beðist afsökunar á því að hafa hvatt til staðfestingar á upphaflegum Icesave samningi  þá finnst mér þessir aðilar vera fullkomlega ótrúverðugir , vegna þess að ekkert af því sem þeir hafa haldið fram um Icesave deiluna og áhrif þess á að málið leystist ekki hefur staðist. Bara ekki neitt."

Trúnaðarbresturinn er því mikill og erfitt er að sjá hvernig hægt er að berja í brestina við núverandi aðstæður.


mbl.is Fundum um Icesave lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki skilað miklu

Það væri kannski sök sér að verja einhverjum milljónum króna í að kaupa sérfræðiaðstoð ef hún skilaði einhverju. Ég veit hins vegar ekki hvort Árni Páll þarf á meiri aðstoð að halda en Gylfi Magnússon.
mbl.is Keyptu sérfræðiráðgjöf fyrir 54 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband