Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Dómstólar skipta ráðherra engu

“Hjá öðrum lýðræðisþjóðum hefði ráðherra sem brýtur svo gróflega lög og reglur verið látinn fjúka. En hér á landi er allt leyfilegt hjá ráðherrum og þeir komast upp með allt. Ef ráðherrar eru ósáttir við lög eiga lögin bara að víkja en ekki þeir að þeirra mati.”

Þessi hörðu orð lét Jóhanna Sigurðardóttir falla á þingi 16. apríl 2004. Tilefnið var að kærunefnd jafnréttismála hafði gefið út það álit að Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, hefði ekki virt jafnréttislög við skipan hæstaréttardómara.

Tæpum fimm árum síðar komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að Jóhanna Sigurðardóttir hefði sem félagsmálaráðherra gerst brotleg við 21. grein stjórnsýslulaga þegar hún vék einstaklingi úr stjórnarnefnd fatlaðra og skipaði annan. Í viðtali við Helga Seljan í Kastljósi 16. febrúar 2009 (en þá var Jóhanna orðin forsætisráðherra) var hún óbetranleg og sagðist ekkert þurfa að læra af dómi héraðsdóms. Ekki hafi “óeðlilega að þessu” staðið að víkja viðkomandi úr stjórnarnefndinni en sér þætti “fullkomlega óeðlilega hafa verið staðið” að málsókninni. Með öðrum orðum: Í huga Jóhönnu er það óeðlilegt að einstaklingur leiti réttar síns ef hún sem ráðherra brýtur stjórnsýslulög.

Á miðvikudag staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands um að ógilda ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra sem neitaði að staðfesta hluta aðalskipulags Flóahrepps varðandi Urriðafossvirkjun. Viðbrögð Svandísar eru ekki að biðja íbúa Flóahrepps afsökunar á stjórnsýslu sinni sem hefur valdið fjárhagslegum skaða. Nei, hún ætlar að fara í endurskoðun á lagaumhverfi við gerð skipulags. Í frétt Morgunblaðsins segir:

“Svandís sagði að ráðuneytið þyrfti að fara yfir dóminn og skoða hvort lagaumhverfi væri nægilega skýrt fyrir sveitarfélögin sem bera ábyrgð á skipulagsvinnunni. Eitt af því sem þyrfti að skoða væri hvort framkvæmdaaðilar gætu tekið þátt í hverju sem er.”

Þannig bregðast ráðherrar ríkisstjórnarinnar við niðurstöðum dómstóla. Jóhanna Sigurðardóttir gagnrýnir einstakling sem sækir rétt sinn til dómstóla þegar ráðherra brýtur stjórnsýslulög og Svandís Svavarsdóttir ætlar bara að breyta lögum því dómstólar komust ekki að niðurstöðu sem henni er þóknanleg. Er nema furða að fyrstu viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttir við úrskurði Hæstaréttar um ólögmæti kosninga til stjórnlagaþings, hafi verið þau að best væri að Alþingi færi í kringum um dóminn með því að skipa 25 stjórnlagaþingsmenn á grunni niðurstöðu ólöglegra kosninga.

Þannig er íslenskt framkvæmdavald í dag.


mbl.is Landsvirkjun í biðstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðskiptaævintýri FL Group

Það vakti nokkra athygli þegar tilkynnt var 17. febrúar 2006 að FL Group hefði keypt liðlega 8% hlut í danska fyrirtækinu Bang & Olufsen A/S. Flestir Íslendingar þekkja fyrirtækið og flesta hefur dreymt um að kaupa eitthvað af þeim tækjum sem fyrirtækið framleiðir. Fáum hafði dottið í hug að kaupa stóran hlut í fyrirtækinu. Kaup FL á hlutum í Bang & Olufsen kitlaði því hégómagirnd Íslendinga og ekki skemmdi að um danskt fyrirtæki var að ræða.

Samkvæmt upplýsingum FL var markaðsverðmæti hlutarins um 7,5 milljarðar króna. Í mars var tilkynnt um að FL hefði aukið hlut sinn og ætti nú 10,1%. Þegar fyrstu kaupin voru tilkynnt var lokagengi bréfa í Bang & Olufsen 765 danskar krónur.  Gengið lækkaði nokkuð eftir það og var 746 danskar krónur í lok 7. mars þegar greint var frá auknum hlut.

Rúmu ári eftir að FL keypti fyrstu hlutabréfin í Bang & Olufsen seldi félagið bréfin með um 110 milljóna króna tapi. Gengi bréfanna var komið niður í 700 danskar krónur á hlut.


mbl.is Óvænt forstjóraskipti hjá B&O
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað hefur breyst frá 30. desember 2009?

Alþingi samþykkti  ofbeldissamninga við Breta og Hollendinga í annað sinn 30. desember 2009. Síðar neitaði forsetinn að staðfesta lögin um ríkisábyrgð og í mars á liðnu ári höfnuðu 98% þeirra sem afstöðu tóku að gangast í ábyrgð fyrir skuldum einkafyrirtækis. Áður en ríkisábyrgðin var samþykkt af meirihluta þingsins var breytingatillaga Péturs H. Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að efnt skyldi til þjóðaratkvæðis felld með 33 atkvæðum gegn 30.

Breytingartillaga Péturs var einföld en þar sagði meðal annars í 1. grein:

"Bera skal heimild fjármálaráðherra til að veita ríkisábyrgð skv. 1. mgr. undir þjóðaratkvæðagreiðslu allra atkvæðisbærra manna svo fljótt sem verða má og eigi síðar en sex vikum frá gildistöku laganna. Heimildin skal veitt sé meiri hluti gildra atkvæða fylgjandi því."

Allir þingmenn stjórnarandstöðunnar, auk nokkurra stjórnarþingmanna studdu tillögu Péturs Blöndal, en það dugði ekki til. Pétur sagði við atkvæðagreiðsluna:

"Hér er lagt til að borgarar þessa lands taki ákvörðun um það hvort þeir vilji taka á sig þessar gífurlegu skuldbindingar, sem ekki aðeins þeir, heldur líka börnin þeirra og barnabörn, munu greiða. Ég treysti þeim fullkomlega til þess ..."

Einar K. Guðfinnsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu:

"Hvers vegna er þjóðinni ekki treyst? Óttast ríkisstjórnin kannski þjóðina og vilja hennar? Þetta mál á að bera undir ákvörðunarvald íslensku þjóðarinnar. Ég segi því já."

Illugi Gunnarsson var afdráttarlaus og taldi að sár yrði í þjóðarsálinni ef þjóðin fengi ekki að taka afstöðu til ríkisábyrgðar:

"En í þessu máli er það svo að gangi það fram geta afleiðingar þess orðið svo alvarlegar fyrir íslenska þjóð að það eru þung og sterk rök fyrir því að þjóðin kveði sjálf upp sinn dóm í þessu máli. Það verður sár í þjóðarsálinni ef þetta mál fær ekki að fara til þjóðarinnar og þjóðin að segja skoðun sína beint."

Um það verður ekki deilt að þeir samningar sem nú liggja fyrir eru miklu hagstæðari en fyrri samningar. En eftir sem áður er ætlun ríkisstjórnarinnar að leggja fram opna ríkisábyrgð á skuldum einkafyrirtækis.

Það er rétt sem Illugi Gunnarsson sagði á þingi að Icesave mun skilja eftir sár í þjóðarsálinni ef þjóðin fær ekki sjálf að ákveða framgang málsins. Sárið verður enn dýpra en áður ef Alþingi ætlar með öllu að hunsa skoðun 98% kjósenda sem höfnuðu ríkisábyrgð fyrir tæpu einu ári. Það er því óskiljanlegt af hverju þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki þegar sett það sem skilyrði að frumvarp fjármálaráðherra um ríkisábyrgð öðlist ekki gildi nema með samþykkt meirihluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvað hefur breyst frá 30. desember 2009? Svarið er; lítið annað en ein þjóðaratkvæðagreiðsla í framhaldi af synjun forseta Íslands.


mbl.is Forystufólk í stjórnarflokkunum vill ekki þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

United-maður gerir Eiði gott

Enginn efast um hæfileika Eiðs Smára. Eftir erfiða tíma er vonandi að okkar maður fái tækifæri til að sýna hvað í honum býr. Mark Hughes knattspyrnustjóri virðist ánægður með Eið Smára.

Einlægir stuðningsmenn Man United vitum að maður sem reis hæst á sínum ferli þegar hann spilaði á besta liði heims, kann að meta hæfileika. Hughes mun gera Eiði Smára gott.


mbl.is Hughes: Eiður er í góðu formi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðrof milli þings og þjóðar

Við skulum hafa eitt á hreinu: Þingmenn geta ekki samþykkt samninga við Breta og Hollendinga og veitt ríkisábyrgð á Icesave-skuldum Landsbankans, án þess að bera slíka ákvörðun undir þjóðina.Taki Alþingi slíka ákvörðun, verður ekki aðeins trúnaðarbrestur milli þings og þjóðar heldur siðrof með afleiðingum sem eru margfalt þyngri en nokkur peningaleg skuld.

Allt frá hruni hefur mörgum stjórnmanninum verið tíðrætt um siðferði í viðskiptum og stjórnmálum. Stór orð hafa fallið um siðleysi og áhersla lögð á að siðrof hafi orðið í samfélaginu með skelfilegum afleiðingum. 

Í setningarræðu á landsfundi Samfylkingarinnar í mars 2009 var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi formaður, afdráttarlaus þegar hún leit til baka til að skila það sem hafði gerst:

"Ég hef almennt reynt að átta mig á því hvað hafi brugðist, hvað hafi hrundið af stað þeirri atburðarás sem leiddi til þessara hamfara og hvar og hvenær hún hófst. Ég hef síðast en ekki síst reynt að skilja það siðrof sem varð í íslensku samfélagi þegar ákveðinn hópur manna hætti að sækja sér viðmið í íslenskan veruleika, tók upp lífshætti erlendra auðmanna og gaf goðsögninni um stéttlaust samfélag á Íslandi langt nef."

Í ágúst 2009 hélt Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra ræðu á Hólahátíð og fjallaði þar meðal annars um siðferði og sagði:

"Það var hin blinda efnis- og markaðshyggja, það var dýrkun græðginnar, það var það siðrof sem var að verða í íslensku samfélagi sem við erum að súpa seyðið af."

 Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði í Morgunblaðsgrein 8. september 2009 að "hagsmunatengsl og siðrof komu okkur í hrunið".

 Þannig er hægt að nefna fjölmörg önnur dæmi. 

Ögrun

Auðvitað hafa þingmenn frelsi til að hafa þá skoðun að það þjóni hagsmunum Íslendinga best að samþykkja þá samninga við Breta og Hollendinga, sem nú liggja fyrir. Ég er ekki sammála þeim - þvert á móti eigi íslensk stjórnvöld að standa á lagalegum rétti þjóðarinnar í þessu máli sem öðrum. Um hina efnahagslegu áhættu sem fólgin er í því að veita ríkisábyrgð vegna Icesave, ætla ég ekki að ræða að þessu sinni. 

Staðreyndin er sú að þeir samningar sem nú liggja fyrir eru á sama grunni og þeir samningar sem þjóðin hafnaði með afgerandi hætti í mars á síðasta ári. Um 93% þeirra sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni sagði þvert nei við því að gangast í ábyrgð fyrir skuldum sem Landsbanki Íslands stofnaði til með starfsemi sinni í Hollandi og Bretlandi.

Það er með öllu óskiljanlegt að nokkur þingmaður velti því fyrir sér af nokkurri alvöru að samþykkja ríkisábyrgð og nýja samninga , án þess að sækja til þess sérstakt umboð til þjóðarinnar. Skiptir engu hverju djúpa sannfæringu menn hafa um nýja samninga. Það er fráleitt að halda að hægt sé að fara á bakvið landsmenn - í skjóli þess að nú séu samningar hagstæðari en áður - án þess að það hafi ekki einhverjar afleiðingar. Fyrst þá verður raunveruleg gjá milli þings og þjóðar. Ögrunin sem felst í því að hunsa þjóðaratkvæðagreiðslu mun valda siðrofi.
mbl.is Ýta á alla takka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afstaða sjálfstæðismanna mikil vonbrigði

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd leggja til í nefndaráliti að fallist verði á þá samninga sem liggja fyrir við bresk og hollensk stjórnvöld. Þar með verður veitt ríkisábyrgð á skuldum einkafyrirtækisins Landsbankans - verið er að þjóðnýta tap einkafyrirtækja. Þessi afstaða félagana minna veldur miklum vonbrigðum. 

Það er mikil ögrun við íslenskan almenning ef meirihluti Alþingis samþykkir hina nýju Icesave-samninga. Yfirgnæfandi meirihluti kjósenda hafnaði því í þjóðaratkvæðagreiðslu í mars á liðnu ári, að ríkissjóður gengist í ábyrgð vegna Icesave-skulda Landsbankans. Fyrirliggjandi samningar og frumvarp fjármálaráðherra um ríkisábyrgð, byggja á sömu forsendum og þjóðin hafnaði, þ.e.a.s. að eðlilegt teljist að íslenskir skattgreiðendur beri ábyrgð á starfsemi einkabanka í öðrum löndum. Um 93% þeirra sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni sögðu nei við þessum skilningi. Undir þetta viðhorf hefur breska stórblaðið Financial Times tekið. Í leiðara blaðsins í desember var á það bent að ríkisábyrgð á Icesave byggi ekki á lagalegum grunni og alls ekki á sanngirni. Bent var á þá augljósu staðreynd að bresk eða hollensk yfirvöld myndu aldrei taka á sig kröfur erlenda innistæðueigenda upp á þriðjung landsframleiðslu, ef einn af stóru bönkunum þeirra færi á hausinn.

Þingmenn geta og hafa ekkert leyfi til að samþykkja hinn svokallaða nýja Icesave-samning. Því miður virðist sem brestur sem kominn í varðstöðu þeirra þingmanna sem staðið hafa vaktina. Ef það er vilji Íslendinga að taka á sig þessar skuldbindingar, sem þeim ber engin lagaleg skylda til, þá verða þeir sjálfir að ákveða það í þjóðaratkvæðagreiðslu. 63 þingmenn hafa engan siðferðilegan rétt til að taka slíka ákvörðun.
mbl.is Þjónar hagsmunum að ljúka Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Makalaust bréf Jóhönnu - reynir að beita eftirlitsstofnun þrýstingi

Bréf Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra til Ríkisendurskoðunar, þar sem reynt er að hafa áhrif á rannsókn sjálfstæðrar eftirlitsstofnunar, er fordæmalaust.

Fáir ef nokkrir þingmenn hafa talað oftar um ábyrgð ráðherra en Jóhanna Sigurðardóttir. Hún hefur talað fyrir nauðsyn þess að herða ákvæði laga um ráðherraábyrgð og meðal annars taka á því ef ekki eru veittar réttar upplýsingar. Í ræðu á Alþingi 15. mars 2005 hafði Jóhanna framsögu fyrir tillögu til þingsályktunar, sem flutt er af öllum þingmönnum Samfylkingarinnar. Samkvæmt tillögunni var lagt til að fram færi heildarendurskoðun á lögum um landsdóm og lögum um ráðherraábyrgð. Þingmaðurinn Jóhanna Sigurðardóttir sagði meðal annars:

"Varla þarf um það að deila að mikilvægt er að hægt sé að treysta upplýsingum sem ráðherrar gefa Alþingi. Það er grundvallaratriði til að styrkja þingræðið í landinu og eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Því er nauðsynlegt að lög um ráðherraábyrgð taki til tilvika eins og þeirra ef ráðherrar veita röng eða villandi svör við fyrirspurnum frá alþingismönnum eða við meðferð mála á Alþingi, svo og gagna og upplýsinga sem ráðherrar eða ráðuneytin gefa Alþingi eða einstökum þingnefndum við umfjöllun stjórnarfrumvarpa eða annarra mála sem fyrir liggja."

Í þessu sannast að orð og athafnir fara ekki alltaf saman.  En bréf Jóhönnu til Ríkisendurskoðunar og Alþingis, bendir til þess að hún óttist niðurstöður rannsóknarinnar. Kannski að Jóhanna sé því feginn að endurskoðun á lögum um ráðherraábyrgð hafi ekki farið fram eins og hún vildi að gert væri.

Hér er hægt að lesa bréfið í heild.


mbl.is Bréf Jóhönnu hefur ekki áhrif á málið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðlindir í eigu og undir stjórn Íslendinga

Tvennt er fráleitt: Í fyrsta lagi að endurskoða stjórnarskrá, - grundvallarlög - í andstöðu við stóran hlut þjóðarinnar. Í öðru lagi að endurskoða stjórnarskrá í einhverju óðagoti, með upphrópunum einhvers pólitísks rétttrúnaðar og í þeirri trú að ástæður hrunsins eigi sér rætur í ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Einn þeirra sem hefur haldið því fram að stjórnarskráin sé ágæt er Sigurður Líndal lagaprófessor. Hann hefur oftar en einu sinni bent á þá einföldu staðreynd að það séu draumórar að rekja megi hrunið 2008 til stjórnarskrárinnar. Með slíku sé verið að dylja vandann. Sigurður hefur áhyggjur af því að í skjóli merkingarleysis orða hafi þrifist óstjórn og spilling bæði í stjórnmálum og atvinnulífi og til hennar megi rekja margvíslegan ófarnað.

Í stórgóðri grein sem Sigurður skrifar í Fréttablaðið fjallar hann um tískuorð sem einkenna umræðuna, þar á meðal að "auðlindir verði þjóðareign". Jóhanna Sigurðardóttir hefur farið mikinn í þessum efnum eftir að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að kosningar til stjórnlagaþings hefðu verið ólöglegar. Hún hefur sakað "íhaldið" að standa í vegi fyrir því að ákvæðum um þjóðareign auðlinda verði í stjórnarskrá. Hér talar Jóhanna enn og aftur gegn staðreyndum.

"Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar," segir í 1. grein laga um stjórn fiskveiða. Um þetta hefur verið pólitísk samstaða. Í mars 2007 lagði Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra og Jón Sigurðsson, þá viðskiptaráðherra, fram frumvarp til breytinga á stjórnarskránni um breytingar á stjórnarskránni. Lagt var til að ný grein bættist við:

"Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign, þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila skv. 72. gr. Ber að nýta þær til hagsbóta þjóðinni, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ekki skal þetta vera því til fyrirstöðu að einkaaðilum séu veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum samkvæmt lögum."

 Í stjórnmálaályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins 2010 segir:

"Eign og ráðstöfunarréttur á auðlindum er og verði í höndum þjóðarinnar."

Það liggur því fyrir að "íhaldið" hefur ekki staðið í vegi fyrir að ákvæði um að "auðlindir séu sameigin þjóðarinnar".

Vandinn sem við er að glíma er hins vegar sú orðanotkun sem einkennir umræðuna um breytingar á stjórnarskrá. Það er eitt að segja að auðlindir skuli vera þjóðareign og annað að setja slíkt ákvæði inn í stjórnarskrá en gæta jafnframt að gildandi ákvæðum um eignarrétt og atvinnufrelsi. Varla er að ætlun Jóhönnu Sigurðardóttur eða annarra að ganga á eignarrétt.

Í áðurnefndri grein bendir Sigurður Líndal á vandann:

"En um hvað er verið að tala; hvað merkir þetta orð: "þjóðareign"? - Nú eru lendur og lóðir margar í einkaeign, einnig eru víðlend svæði eign ríkis og sveitarfélaga. Auðlindir sem þar er að finna eru eign eigandans, hvort heldur einkaaðila, ríkis eða sveitarfélags. Með veiðireynslu öfluðu menn sér upphaflega veiðiréttinda með námi eða töku á eigendalausum verðmætum - fiski - sem síðar voru nánar afmörkuð með lögum þegar nauðsynlegar reyndist að takmarka sókn í nytjastofnana. Þessi réttindi njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar a.m.k. sem atvinnuréttindi, jafnvel bein eignarréttindi að sumra mati. Þessu hefur aldrei verið andmælt með lagalegum rökum. Orðið þjóðareign í þessu samhengi er þannig merkingarlaust í lögfræðilegum skilningi. Ef nota á það í víðtækari merkingu - eins og Íslendingar "eigi" landið, tunguna og fornbókmenntirnar - er það ónothæft í lagatextum og allri rökræðu."

Nú kann að vera að hægt sé að ná viðunandi niðurstöðu um þjóðareign þeirra auðlinda sem eru nú þegar í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga. En þá væri samhliða skynsamlegt að setja inn ákvæði er leggi bann við því að yfirráð og stjórnun á nýtingu þeirra verði með beinum eða óbeinum hætti framseld til annarra ríkja eða alþjóðlega samtaka. 


mbl.is Alþingi hefji endurskoðun stjórnarskrár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórhættuleg hugmynd

Hugmyndin um að leggja sérstakt iðgjald á fjármálafyrirtæki til að greiða niður vexti vegna Icesave-samninganna, er stórhættuleg þó að hún sé sett fram af góðum hug. Afleiðingarnar verða skelfilegar ef þingmönnum dettur í hug að hrinda hugmyndinni í framkvæmd.

Við skulum láta liggja á milli hluta, að hugmyndin um sérstakt Icesave-iðgjald, byggir á þeirri ranghugmynd að Icesave-skuldir Landsbankans sé skuld sem Íslendingar eigi að taka á sínar herðar. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins er tillagan um Icesave-iðgjaldið komin frá Margréti Tryggvadóttur þingmanni Hreyfingarinnar. Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins er greinilega hlynnt tillögunni. Í viðtali við Morgunblaðið segir hún:

"Þetta myndi þýða að fjármálakerfið mun borga fyrir þann hlut sem fellur á íslenska ríkið vegna Icesave, sem er þá fyrst og fremst vaxtakostnaður. Sá aukakostnaður kemur þá væntanlega fram í vaxtamun eða hagræðingu í rekstri hjá fjármálafyrirtækjunum. Önnur hugmynd er að sækja féð beint með bankaskatti."

Tvennt mun gerast með Icesave-iðgjaldinu. Annars vegar mun íslenska fjármálakerfið verða lamað með gríðarlegum álögum og möguleikar þess til að sinna atvinnulífinu og íslenskum almennings skerðast stórkostlega. Eini raunhæfi möguleiki banka og sparisjóða til að standa undir iðgjaldinu er að hækka vaxtamun - fjármunirnir verða ekki sóttir í hagræðingu sem fjármálafyrirtækin þurfa að fara í til að laga reksturinn. Aukinn vaxtamunur verður sóttur til þeirra sem eiga sparifé og til hinna sem skulda. Þannig munu útlánavextir hækka með afleiðingum sem þingmönnum ættu að vera ljósar. Skuldabyrði heimila og fyrirtækja þyngist og fjármögnun nýrra tækifæra í atvinnu verða dýrari. Og samhliða munu innlánsvextir lækka og þar með verður gengið á hagsmuni sparifjáreigenda sem munu örugglega flýja með fjármuni sína annað - líklega í ríkispappíra. Eftir standa lömuð fyrirtæki, skuldug heimili og fjármálakerfi sem mun aldrei rísa undir nafni.

Hugmyndir sem settar eru fram í góðri trú eru ekki alltaf til heilla fyrir land og þjóð. Allra síst ef þær byggja á misskilningi.


mbl.is Innistæðutryggingagjald í Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband