Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

181 þúsund eiga engan fulltrúa

Um það bil 144 þúsund kjósendur sátu heima þegar kosið var á stjórnlagaþing. Þannig eiga yfir 181 þúsund kjósendur engan fulltrúa á stjórnlagaþingi. Hins vegar eru stjórnlagaþingmenn fulltrúar um 46 þúsund kjósenda.

Þetta sýnir hversu fráleitt allt þetta mál er.


mbl.is 44% fengu ekki fulltrúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Marklaust plagg

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er því miður byggt á sandi. Það var byggt á sandi þegar það var lagt fram og á því hefur engin breyting orðið. Ljóst er að hagvöxtur verðu lítill eða enginn á komandi ári og því má reikna með að tekjuforsendur frumvarpsins séu í besta falli veikar og í versta falli byggðar á óskhyggju þess sem neitar að horfast í augu við raunveruleikann.

Stórkostlegar blekkingar eru settar fram í frumvarpinu þar sem stórir liðir eru í raun færðir út fyrir efnahag. Þetta á við um framkvæmdir í vegamálum og einnig væntanlega byggingu háskólasjúkrahúss, þegar og ef í hana verður ráðist. 

En það á ekki að koma neinum á óvart að fjárlagafrumvarpið sé marklaust plagg. Í ríkisstjórninni ráða ferðinni einstaklingar sem eru á móti hagvexti, sem þeir telja að sé af hinu illa og einkenni hins kapítalíska þjóðfélags. Þess vegna er barist gegn öllu því sem horfir til framfara í atvinnumálum þjóðarinnar. 


mbl.is Tekjur lækka um 11 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einbeittur vilji til ólöglegra samninga

Greinilegt er að það er einbeittur vilji ríkisstjórnarinnar að leggja Icesave-klafa á íslenska skattgreiðendur á komandi árum. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon, ætla sér að semja við Breta og Hollendinga, hvað sem tautar og raular. Einhverjir hefðu sagt af minna tilefni að um einbeittan brotavilja sé að ræða, því engin lagaleg rök eru fyrir því að þjóðnýta skuldir einkafyrirtækis með þeim hætti sem á að gera.

Allar dómdagsspár um að allt færi hér til heljar, ef ekki yrði gengið án tafar til samninga og íslenskir skattgreiðendur skuldsettir næstu áratugi, hafa reynst rugl. Við erum ekki Norður-Kórea líkt og Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor spáði. Einkafyrirtæki hafa fengið fjármögnun erlendra banka. Staða Íslands er á margan hátt betri en annarra þjóða s.s. Írlands, einmitt vegna þess að komið var í veg fyrir að almenningur tæki á sig skuldir banka.

Nú verður stjórnarandstaðan að standa þétt saman og berjast gegn Icesave-samningi ef í honum felst að íslenskur almenningur taki á sig skuldir sem þeir bera enga lagalega ábyrgð á. Og um leið eiga þeir að krefjast þess að Steingrímur J. Sigfússon, Jóhanna Sigurðardóttir og Svavar Gestsson, sem mesta ábyrgð bera á hinum upprunalega samningi, biðji þjóðina afsökunar. Í framhaldinu geta menn síðan látið rannsaka hvernig staðið hefur verið að málum allt frá hruni fjármálakerfisins.


mbl.is Niðurstaða vonandi í vikunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfgakennd og órökrétt pólitísk stefna

sigmundur_davi.jpg

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, skrifar stórgóða grein í Morgunblaðið í dag. Hann bendir á að með neyðarlögunum í október 2009 hafi íslenska ríkið verið varið. Sigmundur veltir því fyrir sér hvort núverandi ríkisstjórn hefði haft kjark til að setja neyðarlögin - ríkisstjórn sem stöðugt bugtar sig og beygir fyrir kröfuhöfum og alþjóðastofnunum. Með neyðarlögunum voru eignir varðar en það gleymdist að huga að skuldunum. Þannig var það verk að verja íslenskan almenning fyrir áhrifum af falli einkabankanna ekki nema hálfklárað, að mati Sigmundar Davíðs.

Niðurstaða formanns Framsóknarflokksins er einföld og undir hana er tekið:

"Í stað þess að klára verkið og nýta hina miklu kosti sem Ísland hafði í stöðunni hafa valdhafarnir litið fyrst og fremst á hrunið sem tækifæri til að innleiða öfgakennda og órökrétta pólitíska stefnu. Á sama tíma hefur fólk sem hefur aldrei talið það nógu merkilegt að vera Íslendingur reynt að upphefja sjálft sig og afstöðu sína með því að túlka hrunið sem skipbrot íslensks samfélags og Íslendinga sem þjóðar. Það telur sig hafa fengið sönnun þess að Íslendingar séu spilltir aular; allir nema það sjálft, sjálfskipuðu gáfumennirnir og utangarðsmennirnir.

Þrot bankakerfisins hér og annars staðar var afleiðing af sama falska fjármálakerfinu. Það varð ekki vegna íslensku stjórnarskrárinnar, umræðuhefðar þingsins, smæðar samfélagsins eða sölu ríkisfyrirtækja. En ef við viljum leysa efnahagsvandann verðum við að gera okkur grein fyrir raunverulegum orsökum hans. Hætti menn að líta á hrunið fyrst og fremst sem réttlætingu fyrir pólitískum öfgum blasir við að við Íslendingar höfum meiri og betri tækifæri en flestar aðrar þjóðir ef við þorum að nýta þau."


Nú verða menn að standa í lappirnar

Ef það er rétt að enn einu sinni sé búið að semja um Icesave-skuldir, er nauðsynlegt að stjórnarandstaðan standi í lappirnar. Skilaboð kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni í febrúar voru skýr; þeir vilja ekki að skuldir einkafyrirtækja séu þjóðnýttar og lagðar á herðar skattgreiðenda.

Það er rétt sem John Dizard segir í grein sinni í FT, að Evrópusambandið hefur engan áhuga á því að Icesave-deilan verði leyst fyrir dómstólum. Og af hverju halda menn að það sé? 

Stefna íslenskra stjórnvalda í Icesave-deilunni á að vera og getur aldrei verið annað en einföld. 

  • Íslendingar standa við allar skuldbindingar sínar samkvæmt lögum.
  • Engin lagaleg skylda er á íslenskum skattgreiðendum að axla skuldir Landsbankans vegna Icesave-reikninga. Ágreiningur við bresk og hollensk stjórnvöld er réttarágreiningur. Úr honum er leyst með úrlausn hlutlausra dómstóla. Slík aðferð tilheyrir meginreglum hjá öllum ríkjum Vestur-Evrópu. Ísland, líkt og aðrar frjálsar þjóðir, býr við reglur réttarríkisins.

Líklegt er að enn og aftur verði snúið upp á hendur í þingsölum til að þvinga nýjum Icesave-samningi í gegn. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra virðist tilbúinn til að ganga ótrúlega langt til að koma þessum klafa á íslenska skattgreiðendur. Til þess hefur hann óskoraðan stuðning Jóhönnu Sigurðardóttur.

Því verður ekki trúað að þingmenn stjórnarandstöðunnar og Sjálfstæðisflokksins sérstaklega, taki ekki til varna fyrir landsmenn.


mbl.is Icesave samkomulag áhugavert fordæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt íhaldinu að kenna!!

 Auðvitað var allt íhaldinu að kenna. Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgðina á hruninu og Samfylkingin var saklaus dreginn inn í ríkisstjórn. Þannig má í stuttu máli draga saman niðurstöður svokallaðrar umbótanefndar Samfylkingarinnar. Mér er til efs að nokkrar umbætur verði innan Samfylkingarinnar a.m.k. ekki með umbótanefndinni.

Skýrsla umbótanefndarinnar minnir svolítið á strákinn sem sparkaði boltanum í rúðuna sem brotnaði: Þetta var Nonna að kenna, hann fékk mig til að koma í fótbolta. 

Ekki verður betur séð en að skýrsla umbótanefndarinnar sé leitin að afsökuninni til þess að forðast að axla nokkra raunverulega ábyrgð eða horfast í augu við staðreyndir. Ráðherrum Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni með Sjálfstæðisflokknum er lýst sem saklausum og hrekklausum einstaklingum: 

"Þeir beygðu sig undir þær venjur sem skapast höfðu á langri valdatíð Sjálfstæðisflokksins og leyfðu honum því að alda þeirri forystu sem hann hafði haft í samstarfi við Framsóknarflokkinn. Þetta dró úr möguleikum Samfylkingarráðherranna til að móta eigin sýn á stöðu mála. Samfylkingin sá þannig vanda bankanna í sama ljósi og samstarfsflokkurinn og var þrátt fyrir mikla sérfræðiráðgjöf og undirbúningsvinnu ekki fær um að greina á milli innri vanda og ímyndarvanda. Upplýsingar um raunverulega stöðu mála, þar á meðal viðvaranir sem komu fram með ýmsum hætti frá áramótum 2008, sem og gagnrýni erlendra sérfræðinga á bankakerfið féllu í grýttan jarðveg. Samfylkingin
nýtti ekki öflugustu sérfræðingana til að greina vandann, né var upplýsingum deilt með þeim hætti að þær nýttust til fulls eða að af þeim væri hægt að draga réttar ályktanir."

Niðurstaða umbótanefndarinnar er sú að Samfylkingin hafi verið veikari aðilinn í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn:

"Þetta varð til þess að stefnumál flokksins voru ekki sett fram af nægilegri festu, starfshættir og forgangsröðun samstarfsflokksins ríktu áfram með sama hætti og fyrr og Samfylkingin sætti sig við hún gæti aðeins búist við því að með lagni mætti þoka Sjálfstæðisflokknum inn á „rétta braut“ þegar fram í sækti. Andvaraleysi einkenndi því afstöðu Samfylkingarinnar framan af og þegar líða tók á árið 2008, samskonar afneitun og hjá samstarfsflokknum."

Samfylkingin og sérstaklega ráðherrar hennar voru því undir slæmum áhrifum frá tuddunum í Sjálfstæðisflokknum. Í sakleysi sínu "lenti" Samfylkingin í slæmum félagsskap, en það var ekki henni að kenna. Tuddarnir leyfðu Samfylkingunni aldrei að ráða og því fór sem fór. Ef Samfylkingin hefði hins vegar fengið að ráða för væri allt miklu betra.
mbl.is Fylgdu ekki eigin stefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið brenglaða gildismat

Gildismatið er eitthvað brenglað hjá hinni norrænu velferðarstjórn. Nú á að hætta að veita langveikum börnum heimahjúkrun og spara með því 50 milljónir króna eða svo. Þannig forgangsraðar velferðarstjórnin sem hefur skipað yfir 250 nefndir með tilheyrandi kostnaði. Ekki er talin ástæða til að hætta að úthluta styrkjum úr opinberum sjóðum. Styrkþegar ríkisins eru í skjóli en langveik börn og fjölskyldur þeirra ekki. Í gær var 35 milljónum króna úthlutað úr Þjóðhátíðarsjóði meðal annars til Ríkisútvarpsins.

Á sama tíma og fjölskyldulífi þeirra sem verst standa er stefnt í tvísýnu og raunar kollvarpað, heldur utanríkisráðuneytið áfram sinni starfsemi líkt og ekkert hafi gerst. Hundruðum milljóna er varið í umsókn um aðild að Evrópusambandinu og hundruðum milljónum er eytt í að halda úti sendiráðum og sendinefndum út um allan heim.

Ef við erum orðin svo aum að geta ekki veitt langveikum börnum hjálp, getum við ekki verið svo forhert að  halda úti sendiráði á Indlandi fyrir 88 milljónir á komandi ári. Væri ekki einnig rétt að lækka framlög til fiskgæðaverkefnis í Úganda sem kostar 120 milljónir og verja þó ekki væri nema helming þeirrar fjárhæðar til að standa vörð um íslenskar fjölskyldur sem berjast hetjulegri baráttu við erfiða sjúkdóma?

Það er eitthvað öfugsnúið við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Þeir sem ættu að vera fremstir eru settir aftast en góðærisverkefnin fá sitt.

Ég hef áður lagt til að skorið verði niður í utanríkisþjónustunni og a.m.k. er hægt að spara þar 766 milljónir króna á komandi ári. Þetta er hægt með því að loka nokkrum sendiráðum og aðalræðisskrifstofum:

  • Á Indlandi og Japan. Sparnaður 147,2 milljónir króna.
  • Í Kanada, jafnt sendiráð sem aðalræðisskrifstofa: Sparnaður 89,9 milljónir króna
  • Í Finnlandi og í Svíþjóð: Sparnaður 131,7 milljónir króna.
  • Í Frakklandi, Austurríki og Bretlandi. Sparnaður 397,4 milljónir króna.

Komið í veg fyrir þjóðargjaldþrot en samt er höfðað sakamál

Eftir því sem tíminn líður og upplýsingar verða betri, kemur æ betur í ljós hversu fráleitt það var af meirihluta Alþingis að samþykkja að höfða sakamál gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra fyrir landsdómi. Þar sátu gamlir pólitískir andstæðingar Geirs að svikráðum. En hefndin verður ekki eins sæt og þeir vonast eftir.

Hefði ríkisstjórn Geirs H. Haarde farið leið Íra og gengið í ábyrgð fyrir skuldum einkabanka (sem Steingrímur J. og Jóhanna gera ítrekaðar tilraunir til að gera með Icesave), væri íslenska þjóðin gjaldþrota. En þá hefði hann líklega sloppið við málshöfðun.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri hlýtur að vera kallaður fyrir landsdóm sem vitni til að útskýra fyrir dómendum af hverju viðbrögð Geirs og ríkisstjórnar hans við falli bankanna, kom í veg fyrir þjóðargjaldþrot.


mbl.is Seðlabankastjóri: Íslensk stjórnvöld brugðust rétt við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarleg skilaboð til Sjálfstæðisflokksins

Niðurstöður í nýjasta þjóðarpúlsi Gallup fela í sér alvarleg skilaboð til stjórnarandstöðunnar og Sjálfstæðisflokksins sérstaklega. Þrátt fyrir ótrúlegan vandræðagang í öllu sem ríkisstjórnin tekur sér fyrir hendur, tekst Sjálfstæðisflokknum ekki að sækja fram og auka fylgi sitt. Þvert á móti eru vísbendingar um að lítillega hafi dregið úr fylgi flokksins frá október til nóvember.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að endurheimta stöðu sína sem kjölfesta í íslenskum stjórnmálum verður hann að endurnýja traust og trúnað við launþega og atvinnurekendur. Sjálfstæðisflokkurinn gaf Íslendingum ákveðin loforð og flokkurinn verður að viðurkenna í fullkominni hreinskilni, að í hraða nýrrar aldar og í sjálfumgleði velgengninnar, misstu menn á stundum sjónar á því sem mestu skiptir og er rist í steintöflur sjálfstæðisstefnunnar.

Ég skrifaði pistil um skilaboðin á T24.is


Hin nýja valdastétt með annarra manna peninga

Enn á ný er Framtakssjóður Íslands á ferðinni og ætlar nú að seilast til valda í stærsta verslunarfyrirtæki landsins. Og ég stóð í þeirri trú að sjóðurinn hefði næg verkefni meðal annars að rétta við rekstur Húsasmiðjunnar. 

Framtakssjóðurinn er að stærstum hluta í eigu nokkurra lífeyrissjóða og síðan ríkisins í gegnum Landsbankann. Þeir sem stýra sjóðnum eru hægt og bítandi að leggja undir sig íslenskt viðskiptalíf í krafti annarra manna peninga.

Ég hef áður varað við að Framtakssjóðurinn skuli taka yfir eða eignast hluti í fjölda fyrirtækja í samkeppnisrekstri. Slíkt er ekki aðeins varhugavert heldur ámælisvert. Slíkt mun skekkja samkeppnisumhverfi fyrirtækja. Iðgjöld starfsmanna fyrirtækja sem eru í samkeppni við þau fyrirtæki sem Framtakssjóðurinn hefur eða mun eignast eru nýtt til að styðja við bakið og efla keppinautana. Þetta á við kaup sjóðsins á Vestia af Landsbankanum og hugsanleg kaup á ráðandi hlut í Högum. Nýskipan íslensks viðskiptalífs má ekki byggja enn á ný með þeim hætti að sum fyrirtæki eigi óeðlilegan aðgang að láns- og áhættufé. 

Í lokin er ver að muna að margir þeirra lífeyrissjóða sem standa að Framtakssjóðnum hafa þurft að skerða lífeyrisréttindi sjóðsfélaga sinna. Stjórnendur sjóðanna ætla þrátt fyrir það að ávaxta fé í áhættusömum rekstri. Hætta en sú að ávöxtun lífeyrissjóðanna verður lakari og það kemur niður á lífeyrisréttindum í framtíðinni. Ég hef líkt þessu við að pissa í skóinn sinn – manni verður hlítt stutta stund en síðan kemur ofkælingin.


mbl.is Tilboðin í Haga undir væntingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband