Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Svavar og Steingrímur hefðu kostað yfir 400 milljarða

Nú liggur fyrir nýr samningur um Icesave sem gengur út á að íslenskir skattgreiðendur taki á sig skuldir, sem þeim ber ekki lögum samkvæmt. Því er mikilvægt að þingmenn samþykki ekki slíkan samning án þess að vísa honum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Annars mun þjóðin klofna. 

En það er magnað að bera saman þann samning sem nú liggur fyrir og þann sem Svavar Gestsson gekk frá og Steingrímur J. ætlaði þjóðinni að gleypa og borga. Með þeim hefði þjóðin misst fjárhagslegt sjálfstæði og verið dæmt til fátæktar.

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur gert góðan samanburð á þessum tveimur samningum:

"Kostnaðurinn við Svavars-samninginn var: 

  • Ónúvirtur um 479 milljarðar,
  • Miðað við 6% ávöxtunarkröfu um 300 milljarðar,    
  • Miðað við áfallinn kostnað 2016 um 180 milljarðar (en þá á eftir að borga allan höfuðstól, vexti og vaxtavexti)

 Kostnaðurinn við nýjan Icesave samning er:

  •  Miðað við áfallinn kostnað 2016 um 47 milljarðar (en þá er búið að greiða höfuðstólinn vexti og vaxtavexti).

Munurinn á Svavars samningnum og nýja samningnum er því 432 milljarðar! Fyrir þá upphæð væri hægt að lækka skuldir heimilanna um milli 30-40% flatt!"


Steingrímur J. verður að axla ábyrgð og víkja

Mikil er ábyrgð Steingríms J. Sigfússonar, sem ætlaði sér að keyra Svavars-samningana í gegn sumarið 2009. Munurinn á nýjum samningi og þeim gamla er um 400 milljarðar króna.  Fjármálaráðherrar hafa neyðst til að segja af sér af minna tilefni.

Steingrímur J. Sigfússon lýsti því yfir á síðasta ári að Svavar Gestsson væri að lenda glæsilegum samningum. Og þegar ljóst var hvað í þeim fólst sagði Steingrímur kokhraustur að tekist hafi "að landa hérna um það bil eins hagstæðu samkomulagi í þessu annars mjög erfiða máli og þungbæra máli fyrir okkur sem þjóð".Hvorki meira né minna.

Jóhanna Sigurðardóttir var skýrmælt þegar hún sagði:

"Ég held að þó við hefðum beðið að þá hefðum við ekki fengið betri niðurstöðu í þetta mál."

Nú hefur dómurinn verið kveðinn upp. Það munar 400 milljörðum króna. 

Það er merkilegt að Steingrímur J. Sigfússon vill ekki bera nýja samninginn saman við Svavars-samninginn. Telur slíkt ekki sanngjarnt. Af hverju er það ekki sanngjarnt að skattgreiðendur velti fyrir sér 400 milljörðum króna? 

Ábyrgð Steingríms J. Sigfússonar er mikil og hana getur hann ekki axlað með öðrum hætti en að víkja úr stóli fjármálaráðherra. Hið sama á við um Jóhönnu Sigurðardóttur.

Hitt er svo annað að nýr samningur breytir í engu um þá staðreynd að engin lagaleg skylda hvílir á Íslendingum að taka að sér að greiða skuldir einkabanka. Slíka skyldu verður aldrei hægt að leggja á landsmenn án þess að þeir samþykki það í þjóðaratkvæðagreiðslu.


mbl.is „Risaáfangi í endurreisn Íslands“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúnaðarbrestur milli Sjálfstæðisflokks og atvinnurekenda

Afleiðingar Icesave-deilunnar hafa verið margvíslegar og ætla ég þá ekki að ræða að sinni um þá fráleitu ætlan ríkisstjórnarinnar að láta íslenska skattgreiðendur greiða skulir sem þeim ber ekki að greiða.

Þeir eru margir sem hafa hvatt til þess að gengið verði frá samningum við Hollendinga og Breta. Jafnvel Svavars-samningarnir voru taldir svo góðir að nauðsynlegt væri að skrifa undir því annars væri hætta á því að landið breyttist í Norður-Kóreu eða Kúbu norðursins. Ekkert slíkt hefur gerst. 

Forystumenn Samtaka atvinnulífsins og ASÍ hafa verið einna duglegastir við áróðurinn fyrir Icesave-samningum og gengið þar erinda annars vegar Breta og Hollendinga og Steingríms J. Sigfússonar hins vegar.

Greinilega er að Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins er ofboðið en í samtali við Spegilinn á RÚV síðasta þriðjudag gagnrýndi Bjarni framgöngu aðila vinnumarkaðarins í Icesave málinu frá upphafi:

"Þar til þeir hafa beðist afsökunar á því að hafa hvatt til staðfestingar á upphaflegum Icesave samningi  þá finnst mér þessir aðilar vera fullkomlega ótrúverðugir , vegna þess að ekkert af því sem þeir hafa haldið fram um Icesave deiluna og áhrif þess á að málið leystist ekki hefur staðist. Bara ekki neitt."

Trúnaðarbresturinn er því mikill og erfitt er að sjá hvernig hægt er að berja í brestina við núverandi aðstæður.


mbl.is Fundum um Icesave lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki skilað miklu

Það væri kannski sök sér að verja einhverjum milljónum króna í að kaupa sérfræðiaðstoð ef hún skilaði einhverju. Ég veit hins vegar ekki hvort Árni Páll þarf á meiri aðstoð að halda en Gylfi Magnússon.
mbl.is Keyptu sérfræðiráðgjöf fyrir 54 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

181 þúsund eiga engan fulltrúa

Um það bil 144 þúsund kjósendur sátu heima þegar kosið var á stjórnlagaþing. Þannig eiga yfir 181 þúsund kjósendur engan fulltrúa á stjórnlagaþingi. Hins vegar eru stjórnlagaþingmenn fulltrúar um 46 þúsund kjósenda.

Þetta sýnir hversu fráleitt allt þetta mál er.


mbl.is 44% fengu ekki fulltrúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Marklaust plagg

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er því miður byggt á sandi. Það var byggt á sandi þegar það var lagt fram og á því hefur engin breyting orðið. Ljóst er að hagvöxtur verðu lítill eða enginn á komandi ári og því má reikna með að tekjuforsendur frumvarpsins séu í besta falli veikar og í versta falli byggðar á óskhyggju þess sem neitar að horfast í augu við raunveruleikann.

Stórkostlegar blekkingar eru settar fram í frumvarpinu þar sem stórir liðir eru í raun færðir út fyrir efnahag. Þetta á við um framkvæmdir í vegamálum og einnig væntanlega byggingu háskólasjúkrahúss, þegar og ef í hana verður ráðist. 

En það á ekki að koma neinum á óvart að fjárlagafrumvarpið sé marklaust plagg. Í ríkisstjórninni ráða ferðinni einstaklingar sem eru á móti hagvexti, sem þeir telja að sé af hinu illa og einkenni hins kapítalíska þjóðfélags. Þess vegna er barist gegn öllu því sem horfir til framfara í atvinnumálum þjóðarinnar. 


mbl.is Tekjur lækka um 11 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einbeittur vilji til ólöglegra samninga

Greinilegt er að það er einbeittur vilji ríkisstjórnarinnar að leggja Icesave-klafa á íslenska skattgreiðendur á komandi árum. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon, ætla sér að semja við Breta og Hollendinga, hvað sem tautar og raular. Einhverjir hefðu sagt af minna tilefni að um einbeittan brotavilja sé að ræða, því engin lagaleg rök eru fyrir því að þjóðnýta skuldir einkafyrirtækis með þeim hætti sem á að gera.

Allar dómdagsspár um að allt færi hér til heljar, ef ekki yrði gengið án tafar til samninga og íslenskir skattgreiðendur skuldsettir næstu áratugi, hafa reynst rugl. Við erum ekki Norður-Kórea líkt og Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor spáði. Einkafyrirtæki hafa fengið fjármögnun erlendra banka. Staða Íslands er á margan hátt betri en annarra þjóða s.s. Írlands, einmitt vegna þess að komið var í veg fyrir að almenningur tæki á sig skuldir banka.

Nú verður stjórnarandstaðan að standa þétt saman og berjast gegn Icesave-samningi ef í honum felst að íslenskur almenningur taki á sig skuldir sem þeir bera enga lagalega ábyrgð á. Og um leið eiga þeir að krefjast þess að Steingrímur J. Sigfússon, Jóhanna Sigurðardóttir og Svavar Gestsson, sem mesta ábyrgð bera á hinum upprunalega samningi, biðji þjóðina afsökunar. Í framhaldinu geta menn síðan látið rannsaka hvernig staðið hefur verið að málum allt frá hruni fjármálakerfisins.


mbl.is Niðurstaða vonandi í vikunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfgakennd og órökrétt pólitísk stefna

sigmundur_davi.jpg

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, skrifar stórgóða grein í Morgunblaðið í dag. Hann bendir á að með neyðarlögunum í október 2009 hafi íslenska ríkið verið varið. Sigmundur veltir því fyrir sér hvort núverandi ríkisstjórn hefði haft kjark til að setja neyðarlögin - ríkisstjórn sem stöðugt bugtar sig og beygir fyrir kröfuhöfum og alþjóðastofnunum. Með neyðarlögunum voru eignir varðar en það gleymdist að huga að skuldunum. Þannig var það verk að verja íslenskan almenning fyrir áhrifum af falli einkabankanna ekki nema hálfklárað, að mati Sigmundar Davíðs.

Niðurstaða formanns Framsóknarflokksins er einföld og undir hana er tekið:

"Í stað þess að klára verkið og nýta hina miklu kosti sem Ísland hafði í stöðunni hafa valdhafarnir litið fyrst og fremst á hrunið sem tækifæri til að innleiða öfgakennda og órökrétta pólitíska stefnu. Á sama tíma hefur fólk sem hefur aldrei talið það nógu merkilegt að vera Íslendingur reynt að upphefja sjálft sig og afstöðu sína með því að túlka hrunið sem skipbrot íslensks samfélags og Íslendinga sem þjóðar. Það telur sig hafa fengið sönnun þess að Íslendingar séu spilltir aular; allir nema það sjálft, sjálfskipuðu gáfumennirnir og utangarðsmennirnir.

Þrot bankakerfisins hér og annars staðar var afleiðing af sama falska fjármálakerfinu. Það varð ekki vegna íslensku stjórnarskrárinnar, umræðuhefðar þingsins, smæðar samfélagsins eða sölu ríkisfyrirtækja. En ef við viljum leysa efnahagsvandann verðum við að gera okkur grein fyrir raunverulegum orsökum hans. Hætti menn að líta á hrunið fyrst og fremst sem réttlætingu fyrir pólitískum öfgum blasir við að við Íslendingar höfum meiri og betri tækifæri en flestar aðrar þjóðir ef við þorum að nýta þau."


Nú verða menn að standa í lappirnar

Ef það er rétt að enn einu sinni sé búið að semja um Icesave-skuldir, er nauðsynlegt að stjórnarandstaðan standi í lappirnar. Skilaboð kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni í febrúar voru skýr; þeir vilja ekki að skuldir einkafyrirtækja séu þjóðnýttar og lagðar á herðar skattgreiðenda.

Það er rétt sem John Dizard segir í grein sinni í FT, að Evrópusambandið hefur engan áhuga á því að Icesave-deilan verði leyst fyrir dómstólum. Og af hverju halda menn að það sé? 

Stefna íslenskra stjórnvalda í Icesave-deilunni á að vera og getur aldrei verið annað en einföld. 

  • Íslendingar standa við allar skuldbindingar sínar samkvæmt lögum.
  • Engin lagaleg skylda er á íslenskum skattgreiðendum að axla skuldir Landsbankans vegna Icesave-reikninga. Ágreiningur við bresk og hollensk stjórnvöld er réttarágreiningur. Úr honum er leyst með úrlausn hlutlausra dómstóla. Slík aðferð tilheyrir meginreglum hjá öllum ríkjum Vestur-Evrópu. Ísland, líkt og aðrar frjálsar þjóðir, býr við reglur réttarríkisins.

Líklegt er að enn og aftur verði snúið upp á hendur í þingsölum til að þvinga nýjum Icesave-samningi í gegn. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra virðist tilbúinn til að ganga ótrúlega langt til að koma þessum klafa á íslenska skattgreiðendur. Til þess hefur hann óskoraðan stuðning Jóhönnu Sigurðardóttur.

Því verður ekki trúað að þingmenn stjórnarandstöðunnar og Sjálfstæðisflokksins sérstaklega, taki ekki til varna fyrir landsmenn.


mbl.is Icesave samkomulag áhugavert fordæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt íhaldinu að kenna!!

 Auðvitað var allt íhaldinu að kenna. Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgðina á hruninu og Samfylkingin var saklaus dreginn inn í ríkisstjórn. Þannig má í stuttu máli draga saman niðurstöður svokallaðrar umbótanefndar Samfylkingarinnar. Mér er til efs að nokkrar umbætur verði innan Samfylkingarinnar a.m.k. ekki með umbótanefndinni.

Skýrsla umbótanefndarinnar minnir svolítið á strákinn sem sparkaði boltanum í rúðuna sem brotnaði: Þetta var Nonna að kenna, hann fékk mig til að koma í fótbolta. 

Ekki verður betur séð en að skýrsla umbótanefndarinnar sé leitin að afsökuninni til þess að forðast að axla nokkra raunverulega ábyrgð eða horfast í augu við staðreyndir. Ráðherrum Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni með Sjálfstæðisflokknum er lýst sem saklausum og hrekklausum einstaklingum: 

"Þeir beygðu sig undir þær venjur sem skapast höfðu á langri valdatíð Sjálfstæðisflokksins og leyfðu honum því að alda þeirri forystu sem hann hafði haft í samstarfi við Framsóknarflokkinn. Þetta dró úr möguleikum Samfylkingarráðherranna til að móta eigin sýn á stöðu mála. Samfylkingin sá þannig vanda bankanna í sama ljósi og samstarfsflokkurinn og var þrátt fyrir mikla sérfræðiráðgjöf og undirbúningsvinnu ekki fær um að greina á milli innri vanda og ímyndarvanda. Upplýsingar um raunverulega stöðu mála, þar á meðal viðvaranir sem komu fram með ýmsum hætti frá áramótum 2008, sem og gagnrýni erlendra sérfræðinga á bankakerfið féllu í grýttan jarðveg. Samfylkingin
nýtti ekki öflugustu sérfræðingana til að greina vandann, né var upplýsingum deilt með þeim hætti að þær nýttust til fulls eða að af þeim væri hægt að draga réttar ályktanir."

Niðurstaða umbótanefndarinnar er sú að Samfylkingin hafi verið veikari aðilinn í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn:

"Þetta varð til þess að stefnumál flokksins voru ekki sett fram af nægilegri festu, starfshættir og forgangsröðun samstarfsflokksins ríktu áfram með sama hætti og fyrr og Samfylkingin sætti sig við hún gæti aðeins búist við því að með lagni mætti þoka Sjálfstæðisflokknum inn á „rétta braut“ þegar fram í sækti. Andvaraleysi einkenndi því afstöðu Samfylkingarinnar framan af og þegar líða tók á árið 2008, samskonar afneitun og hjá samstarfsflokknum."

Samfylkingin og sérstaklega ráðherrar hennar voru því undir slæmum áhrifum frá tuddunum í Sjálfstæðisflokknum. Í sakleysi sínu "lenti" Samfylkingin í slæmum félagsskap, en það var ekki henni að kenna. Tuddarnir leyfðu Samfylkingunni aldrei að ráða og því fór sem fór. Ef Samfylkingin hefði hins vegar fengið að ráða för væri allt miklu betra.
mbl.is Fylgdu ekki eigin stefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband