Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hjörleifur hæðist að forystu VG

Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherra og áhrifamaður innan Vinstri grænna hæðist að forystu flokksins í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Tilefnið er hjáseta þremenninganna svokölluðu við afgreiðslu fjárlaga og viðbrögð flokksforystunnar. Steingrímur J. Sigfússon formaður flokksins hefur lítt haft sig í frammi undanfarna daga en þess í stað sent út varamenn af ýmsu toga eins og Hjörleifur gerir góðlátlegt grín að.

Hjörleifur segir meðal annars í grein sinni:

"Nú hélt maður að eftir þrautir og vökunætur myndi þingflokkur VG fara til síns heima og láta kyrrt um sinn og sjá til hvort ekki rjátlaðist af mönnum ólundin uns aftur verði hringt bjöllum við Austurvöll. En þar misreiknuðu menn sig, því að fjórða valdið, fjölmiðlarnir okkar, gáfu sem oftar engin grið. Á fjórða sunnudegi í aðventu var varalið VG kallað fram á völlinn: Varaformaðurinn Katrín, varaformaður fjárlaganefndar Björn Valur og varaformaður þingflokks Árni Þór, öll á einni og sömu kvöldvaktinni hjá RÚV. Og þá fyrst varð landslýð ljóst í hversu bráðri hættu landsstjórnin er stödd vegna vélabragða þremenningaklíkunnar.

Öll áttu þau í varaliðinu það sammerkt að fordæma með sterkum orðum afstöðu þremenninganna og voru sammælt um að þeirra síðarnefndu biði það verkefni "að vinna sig út úr þeim vanda sem þau eru komin í og öðlast á ný traust og trúnað yfirgnæfandi meirihluta þingflokksins" (Björn Valur). Varaformaður flokksins sagði: "Að sjálfsögðu er þetta alvarlegur núningur, þetta er hreinn ágreiningur" og upp úr áramótum komi í ljós hvort þingflokkurinn klofnar eða hvort takist að bera klæði á vopnin. Árni Þór sagði málflutning þremenninganna ósanngjarnan, rangan og ódrengilegan. "Þessir þingmenn verða sjálfir að svara því hvort þeir treysti sér til að vinna með okkur hinum... þau verða að leggja sig fram um að endurheimta það traust."

Hjörleifur segir að ljóst sé að réttur hafi verið settur yfir hinum "bersyndugu" en þeir geti notað jóladagana og búið "sig undir að feta svipugöngin inn í hin helgu vé þingflokksins, þar sem postulatalan 12 stendur vörð". Hæðnislega segist Hjörleifur vonast til að þar sé enginn Júdas. Síðan lýkur Hjörleifur grein sinni á eftirfarandi orðum:

"Eftir á að koma í ljós hvort nokkrum detti í hug yfir hátíðarnar gömul sögn um flísina og bjálkann. Á meðan bíðum við hin í söfnuðinum eftir að þremenningaklíkan sýni umbeðin iðrunarmerki og allt falli í ljúfa löð."

Þannig heldur farsinn í þingflokki Vinstri grænna áfram. Árni Þór, sem er starfandi formaður þingflokksins, ræðir ekki við stóran hluta þingflokksins þar af tvo ráðherra. Steingrímur J. hefur dregið sig í hlé en sendir vara-þetta og vara-hitt til að láta svipuhöggin dynja á þeim sem ekki er rætt við.


Ögmundur setur ofaní við Árna Þór

Eldar halda áfram að brenna innan þingflokks Vinstri grænna - eða kannski er allt helfrosið. Nú hefur Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra séð sig knúinn til að leiðrétta og setja ofaní við Árna Þór Sigurðsson starfandi þingflokksformann VG.

Árni Þór var í viðtali hjá Helga Seljan í Kastljósi í gærkvöldi (mánudag) og virtist taugaveiklaður. En þrátt fyrir það hafði Árni Þór stór orð um þrjá félaga sína sem sátu hjá við afgreiðslu fjárlaga. Hann sakaði þá um ódrengilega framkomu. Þá sagðist hann ekki trúa frétt Morgunblaðsins í gærmorgun um að þingmennirnir hefðu átt samráðsfund með Ögmundi Jónassyni, Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landsbúnaðarráðherra og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur sem er í fæðingarorlofi, en Árni Þór leysir hana af sem formaður þingflokksins. Því miður spurði Helgi Seljan ekki þeirrar augljósu spurningar hvort Árni Þór hefði ekki rætt við ráðherrana eða Guðfríði Lilju um hvort fréttin ætti við rök að styðjast. Slíkt hefði verið eðlilegt og í samræmi við skyldur starfandi þingflokksformanns. En kannski lýsir það ástandinu í þingflokksherbergi VG að menn eru hættir að ræða þar saman. Þar er allt helforsið og stór grýlukerti teygja sig niður úr loftinu, svo vitnað sé til ónefnds þingmanns.

Ögmundur hefur greinilega talið sig nauðbeygðan til þess að leiðrétta Árna Þór. Á heimasíðu sinni skrifar hann, eftir viðtalið í Kastljósi:

"Flokksfélagi minn - starfandi þingflokksformaður í fjarveru Guðfríðar Lilju  Grétarsdóttur, sem er í fæðingarorlofi - segist vart trúa Morgunblaðsfrétt um að hjásetumenn hafi átt spjallfund með tveimur ráðherrum, Jóni Bjarnasyni og Ögmundi Jónassyni ásamt þingflokksformanni í fæðingarorlofi.  Honum er alveg óhætt að trúa fréttinni - enda var ég búinn að staðfesta spjallið  í viðtali við fréttamiðil."


Mogginn stendur best að vígi

Enn sem komið er hefur þessi þróun ekki náð svo langt hér á landi. Prentmiðlar eru enn með mun stærri hluta auglýsinga en vefmiðlar. Ég veit ekki af hverju. Kannski er það íhaldssemi auglýsenda og kannski er það tregða birtingahúsa og auglýsingastofa. Þó er notkun vefmiðla gríðarleg hér á landi og öll rök eru fyrir því að mun meira auglýsingafé renni til birtinga á netinu.

Allt er þetta spurning um tíma því netmiðlarnir munu sækja enn frekar fram hér á landi. Og í baráttunni um auglýsingafé stendur útgáfufélag Morgunblaðsins langbest að vígi. Mbl.is ber höfuð og herðar yfir alla íslenska netmiðla, hvort heldur litið er til gæða eða fjölda notenda. 


mbl.is Netið fram úr dagblöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hótanir eru meginstef í pólitík Jóhönnu

johannahotar.jpg

Í gær var það rifjað upp hvernig Jóhanna Sigurðardóttir notar hótanir til að ná fram sínum pólitískum markmiðum. Þannig gekk hún út af ríkisstjórnarfundi í september 1993 vegna andstöðu sinnar við fjárlagafrumvarp komandi árs. Þá var Jóhanna félagsmálaráðherra. 

En þetta er langt í frá að vera eina dæmið um að Jóhanna noti hótanir til að ná sínu fram. Skiptir engu hvort hún er óbreyttur þingmaður eða ráðherra eða jafnvel forsætisráðherra. Þetta staðfesti Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins á Bylgjunni. 

Vert að rifja upp fleiri dæmi en Jóhanna var félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar frá júlí 1987 til september 1988, þegar stjórnin sprakk með hvelli. Í nóvember 1987 hafði Alþingi til meðferðar frumvarp um breytingar á lögum um húsnæðislánakerfið. Jóhanna lagði mikla áherslu á að frumvarpið yrði að lögum en þar var meðal annars gengið út frá því að þeir sem áttu skuldlausar eða skuldlitlar eignir hefðu ekki sömu réttindi og þeir sem enga eign áttu eða voru að stækka við sig vegna fjölskyldustærðar.

Þjóðviljinn fjallaði um málið í fjögurra dálka frétt á baksíðu undir fyrirsögninni: Jóhanna hefur í hótunum. Þar sagði meðal annars:

"Jóhanna Sigurðardóttir hótar því að sitja ekki ríkisstjórnarfundi verði frumvarp hennar um húsnæðislánakerið ekki afgreitt fyrir áramót. Frumvarpið var afgreitt úr félagsmálanefnd í gær en mestur styrr hafði staðið um  gildistíma frumvarpsins."

Síðar í fréttinni sagði:

"Jóhanna leggur mikla áherslu á að lögin verði samþykkt fyrir jól og hefur hótað að sitja ekki ríkisstjórnarfundi verði forsætisráðherra ekki við þeirri ósk hennar."

Þessi fyrirsögn varð Sigmund innblástur fyrir enn eina snilldarteikninguna.


Árni Þór lifir í pólitískum draumaheimi

Rétt liðlega 37% kjósenda styðja ríkisstjórnarflokkana. Fylgi beggja flokkanna hrapar í könnun MMR sem birt var í Fréttablaðinu á laugardag. Vinstri grænir fengju 16,4% atkvæða og tíu þingmenn ef gengið yrði til kosninga nú en í apríl mældist stuðningurinn 27,7%. Flokkurinn hefur því misst yfir 11%-stig á átta mánuðum. Á sama tíma sækir Sjálfstæðisflokkurinn í sig veðrið.

Þingmenn Vinstri grænna skynja þetta fylgishrap ágætlega og eru órólegir - ekki síst þingmenn órólegu deildarinnar. Að einhverju leyti verður að horfa á hjásetu þrímenninganna við afgreiðslu fjárlaga út frá þessum staðreyndum. Þeir átta sig á að fimm núverandi þingmenn flokksins muni ekki ná kjöri miðað við könnun MMR. 

En Árni Þór Sigurðsson, starfandi þingflokksformaður Vinstri grænna lifir í einhverjum draumaheimi stjórnamálanna. Í umræðum á Stöð 2 í gærkvöldi (sunnudag) sagði hann um stöðu Steingríms J. Sigfússonar flokksformanns:

"Það hefur komið fram í skoðanakönnun um langt skeið að hann nýtur stuðnings þjóðarinnar og reyndar líka kjósenda Vinstri grænna þegar að það er brotið upp."

Hvernig Árni Þór fær þetta út með hliðsjón af staðreyndum er ofar skilningi flestra.


mbl.is Samráð um hjásetu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna félagsmálaráðherra: Er óbundin af fjárlagafrumvarpi

johanna-teikning2.jpg

Á þeim tæpu tveimur árum sem Jóhanna Sigurðardóttir hefur setið í stóli forsætisráðherra hefur ímynd hennar gjörbreyst. Heilög Jóhanna, eins og Jón Baldvin kallaði hana, nýtur ekki lengur þeirrar virðingar sem hún hafði í hugum margra. Þeir sem standa höllum fæti líta ekki lengur til hennar sem sérstakan talsmann. Jafnvel helstu stuðningsmenn Jóhönnu Sigurðardóttur átta sig á gjörbreyttri stöðu hennar og tala um nauðsyn þess að nýr maður komi í brúnna. 

Jóhanna Sigurðardóttir var félagsmálaráðherra í fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddsson, - svokallaðri Viðeyjarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Í september 1993 gekk hún út af ríkisstjórnarfundi þegar verið var að afgreiða fjárlagafrumvarpið og lýsti því yfir að hún væri óbundin. Vert er að rifja þetta upp í tilefni af hjásetu þriggja þingmanna Vinstri grænna við afgreiðslu fjárlaga. 

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins er skorinorður palladómur um Jóhönnu Sigurðardóttur en þar segir:

"Í öllum þeim ríkisstjórnum sem Jóhanna Sigurðardóttir sat undir forystu annarra varð vandræðagangur tengdur henni við afgreiðslu sérhverra fjárlaga. Hún hafði aldrei neinn minnsta áhuga á málum annarra ráðherra eða ríkisstjórnarinnar sem heildar. Hún einblíndi undantekningarlaust á eigin mál og þá nánast aðeins á hvað kæmi í hlut „hennar ráðuneytis“ við deilingu sameiginlegra framlaga. Ef sérfræðingar myndu skoða feril hennar á þingi á meðan hún sat sem almennur ráðherra í ríkisstjórn myndu þeir sjá að hún tók aldrei undir eitt hornið með öðrum ráðherrum, hvorki í eigin flokki né annarra stjórnarflokka. Það skipti engu máli hversu þungum árásum einstakir samráðherrar hennar sátu undir eða ríkisstjórnin í heild, ef hennar mál voru ekki til umræðu lyfti hún ekki litla fingri til stuðnings félögum sínum."

Og síðar segir:

"Hótanir um brotthlaup frá ríkisstjórnarborði og úrsögn úr flokki lágu jafnan í loftinu á meðan á þessari ömurlegu og árvissu kúgun á ríkisfé stóð."

Óhætt er að halda því fram að hér heldur Davíð Oddsson um pennan en eins og Björn Bjarnason segir í pistli á heimasíðu sinni hefur Davíð ekki sagt mikið um samskiptin við Jóhönnu:

"Við sem sátum með þeim á þingi í stuðningsflokkum ríkisstjórnarinnar komumst ekki hjá því að fylgjast með stöðugri viðleitni til að „hafa Jóhönnu góða“. Davíð gegndi hlutverki sáttasemjara innan Alþýðuflokksins. Hann sat yfir Jóhönnu milli ríkisstjórnarfunda til að róa hana og vinda ofan af tortryggni hennar í garð Jónanna."

Jónarnir, sem Björn vísar til eru Jón Baldvin Hannibalsson og Jón Sigurðsson, sem síðast var formaður Fjármálaeftirlitsins en var ráðherra í Viðeyjarstjórninni áður en hann fór í Seðlabankann.

Jón Baldvin Hannibalsson hefur ekki verið í hópi aðdáenda Davíðs Oddssonar eftir að sá síðarnefndi ákvað að láta þann fyrrnefnda og gamla Alþýðuflokkinn róa, eftir fjögurra ára stjórnarsamstarf. Og sjaldan er Jón Baldvin tilbúinn til að taka undir með Davíð. En hann er sammála lýsingunni á Jóhönnu sem sett var fram í Reykjavíkurbréfinu. Í viðtali við Sigurjón M. Egilsson á Sprengisandi á Bylgjunni  að morgni sunnudags. Þar sagði Jón Baldvin meðal annars:

"Það heyrði til haustverkanna að sitja yfir Jóhönnu og fá hana til að vera með. Það var ekki hægt, hún var ekki til viðtals. Jóhanna var þá í því hlutverki sem Lilja Mósesdóttir er í núna og neitaði að taka þátt í niðurskurði á sínum málaflokki."  [Hér er stuðst við frásögn Pressunar]

Meðfylgjandi teikning eftir Sigmund skýrir þetta jafnvel enn betur en orð þeirra Davíð og Jóns Baldvins. Gagnrýni Jóhönnu á Lilju Mósesdóttur, sem sat hjá þegar greidd voru atkvæði um fjárlagafrumvarpið, eru því hjáróma og ótrúverðug. Flestir aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar gætu haft uppi svipaða gagnrýni á Lilju, Atla Gíslason og Ásmund Einar Daðason, fyrir hjásetuna, en ekki Jóhanna Sigurðardóttir. Fortíð hennar  leyfir henni ekki slíkt. En það skiptir Jóhönnu engu.

Eins og áður segir gekk Jóhanna út af ríkisstjórnarfundi vegna ósættis um fjárlagafrumvarpið. Vert er að birta frétta Morgunblaðsins laugardaginn 11. september 1993:fretta-johanna.jpg

FJÁRLAGAFRUMVARPIÐ var afgreitt á fundi ríkisstjórnarinnar í gærmorgun. Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra segist vera óbundin af þeirri samþykkt en hún gekk af fundinum áður en frumvarpið var tekið til afgreiðslu. Ástæðan er mikill ágreiningur um húsaleigubætur og fjármögnun þeirra og einnig segist Jóhanna hafa mikla fyrirvara um ýmsa þætti í heilbrigðis- og menntamálum, þar sem ekki hafi fengist niðurstaða sem hún sætti sig við. Aðspurð hvort hún væri á leið út úr ríkisstjórninni segist Jóhanna ekki hafa ein svarið við því heldur yrðu forsætisráðherra og hugsanlega einnig formaður Alþýðuflokksins að taka afstöðu til þeirra fyrirvara sem hún hefði.

Jóhanna segist hafa gert kröfu um að tekin yrði stefnumarkandi ákvörðun um að koma á húsaleigubótum og að frumvarp þess efnis yrði lagt fram á Alþingi í haust, þótt hún hefði fallist á að það tæki ekki gildi fyrr en 1. janúar 1995. Í samþykkt ríkisstjórnarinnar í gær er hins vegar gert ráð fyrir að frumvarpið verði ekki lagt fram fyrr en á þinginu 1994-95 og að viðbótarútgjöld vegna húsaleigubótanna verði tekið úr félagslega íbúðakerfinu, sem þýddi fækkun um allt að 200 félagslegar leiguíbúðir, að sögn Jóhönnu. Segist hún aldrei geta fallist á það.

Segist hún hafa gert tillögu um að 300 millj. kr. viðbótarútgjöld sem talið er að húsleigubæturnar kosti ríkissjóð á ári myndu rúmast innan þeirra heildarútgjalda sem nú væri varið í húsnæðiskostnað úr ríkissjóði og var sú tillaga rædd á fundi með forsætisráðherra á fimmtudag. Fjármálaráðherra hefði hins vegar komið með allt aðra tillögu á ríkisstjórnarfundinn í gær sem hefði verið samþykkt eftir að hún yfirgaf fundinn.

Hús fyrir Hæstarétt

"Að ráðast þarna alfarið á félagslega íbúðakerfið er algjörlega óásættanlegt fyrir mig og ég trúi því ekki að þingflokkur Alþýðuflokksins ljái því lið. Formaður Alþýðuflokksins heldur því þó fram að þingflokkurinn styðji það, en það verður þá bara að koma í ljós," sagði Jóhanna. "Mér er gert að fjármagna þetta innan húsnæðiskerfisins, en á sama tíma, og við þessar aðstæður, er verið að koma upp húsnæði fyrir Hæstarétt, sem kostar allt að 500 milljónir króna og ekki er dómsmálaráðherra gert að fjármagna það með þeim fjármunum sem ráðuneyti hans hefur yfir að ráða heldur eru það aukaútgjöld úr ríkissjóði," sagði Jóhanna.

"Það vita allir mína afstöðu til húsaleigubótanna og ýmissa þátta varðandi heilbrigðis- og menntamálin og ef þau atriði verða eins og þau líta út núna mun ég ekki telja mig bundna af fjárlögum og þá hlýtur málið að vera í höndum forsætisráðherra og hugsanlega formanns Alþýðuflokksins," sagði hún.


Ekki gefist upp fyrir Jóhönnu

Guðlaugur Þór gefst ekki upp fyrir Jóhönnu sem reynir allt til að fela upplýsingar.

Það er því miður þannig að Jóhanna Sigurðardóttir telur að gegnsæi og opin stjórnsýsla eigi aðeins við þegar aðrir en hún sitja í ríkisstjórn. Hefði forsætisráðherra svarað þingmanninum Jóhönnu Sigurðardóttur, með sama hætti og hún svaraði fyrirspurn Guðlaugs Þórs, hefði allt orðið vitlaust. Þá hefði verið hrópað og ráðherra sakaður um leyndarhyggju og að sýna þingheimi óvirðingu. 


mbl.is Segir Jóhönnu staðfesta leynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsætisráðherra blekkir þingheim

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra gaf þingheimi rangar og villandi upplýsingar þegar hún svaraði skriflega fyrirspurn Guðlaugs Þór Þórðarsonar um um kostnað ráðuneyta við aðkeypta þjónustu, ráðgjöf og sérverkefni. Fyrirspurnin var gerð í framhaldi af tilraun ráðherrans til að afvegaleiða þingheim á liðnu hausti með skriflegu svari við annarri fyrirspurn sem sá er þetta skrifar lagði fram. Fyrirspurnin hljóði svo:

  1. Hver hefur kostnaður við aðkeypta þjónustu, ráðgjöf og sérverkefni á vegum ráðuneyta verið á tímabilinu maí 2007 til maí 2010?
  2. Hversu stór hluti kostnaðarins hefur verið vegna aðkeyptrar þjónustu, ráðgjafar og sérverkefna sem unnin hafa verið af núverandi og fyrrverandi starfsmönnum og kennurum íslenskra háskóla?
  3. Hvernig skiptist kostnaðurinn eftir ráðuneytum?
  4. Hvernig skiptist kostnaðurinn eftir einstökum aðkeyptum sérverkefnum, þjónustu og ráðgjöf, sundurgreint annars vegar eftir háskólum og hins vegar eftir einstökum starfsmönnum og kennurum? 

Það tók Jóhönnu Sigurðardóttur nokkra mánuði að svara þessari fyrirspurn og það ekki fyrr en gengið var ítrekað eftir svörum. Með því að gengið gegn þingsköpum. Svarið, þegar það kom loksins, var hvorki fugl né fiskur og kom ráðherrann sér hjá því að svara fyrirspurninni með furðulegum hætti. Þessa vegna hélt Guðlaugur Þór áfram með málið og nú hefur komið í ljós að Jóhanna Sigurðardóttir hefur haldið upplýsingum leyndum. Vegna þessa hefur Guðlaugur Þór krafist þess að Ríkisendurskoðun fari yfir málið og ekki verður öðru trúað en að forsætisnefnd Alþingis verði við málaleitan hans, enda málið alvarlegt. 

Ég tók hins vegar saman yfirliti yfir þann sérfræðikostnað sem forsætisráðherra upplýsti og er hægt að sjá það á T24.is sem og bréf Guðlaugs Þór til forsætisnefndar Alþingis en þar koma fram upplýsingar sem sýna svart á hvítu hvernig forsætisráðherra hefur reynt að blekkja þingheim og almenning.

Hér má sjá svar Jóhönnu við fyrri fyrirspurninni. Þar bar ráðherra meðal annars fyrir sig að ráðuneytið hefði ekki starfsmannalista háskólanna né upplýsingar um hverjir hafa verið fyrrverandi og núverandi starfsmenn eða kennarar við íslenska háskóla.

Hér er síðan svar Jóhönnu við fyrirspurn Guðlaugs Þórs.


mbl.is Sakar forsætisráðherra um að leyna upplýsingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarbúar eiga skilið öfluga stjórnarandstöðu

Hanna Birna Kristjánsdóttir á ekki annan kost en að segja af sér sem forseti borgarstjórnar. Hún getur ekki tekið þátt í því leikriti sem fer fram í Ráðhúsinu. Sem forseti borgarstjórnar tekur hún ákveðna pólitíska ábyrgð sem hún getur ekki axlað sem leiðtogi stjórnarandstöðu.

Hún eiga sjálfstæðismenn í borgarstjórn að hefja sókn og efla stjórnarandstöðuna í Reykjavík. Borgarbúar ætlast til þess og eiga það skilið.


mbl.is Hlýt að íhuga að hætta sem forseti borgarstjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur í vondri stöðu

Því verður ekki trúað að Ögmundur Jónasson greiði ekki atkvæði með því að nýjum Icesave-samningi verði vísað í þjóðaratkvæði. Ekki keypti hann ráðherrastólinn fyrir samvisku sína og skoðanir?

Annars er staða Ögmundar í þingflokki Vinstri grænna óviss eftir að Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason, sögðu sig frá fjárlagafrumvarpinu og lýstu með því vantrausti á fjármálarstjórn ríkisins og þar með á fjármálaráðherra. Þau þrjú hafa verið nánir samherjar Ögmundar og þá sérstaklega þeir tveir síðarnefndu, í órólegu deildinni. Ekki verður annað séð en að andstaða þeirra hafi veikt stöðu Ögmundar a.m.k. í ríkisstjórninni. Baklandið er hægt og bítandi að segja skilið við þingflokk Vinstri grænna.

Þess vegna vaknar sú spurning hvort Ögmundur sé hægt og bítandi að hrekjast út í horn Steingríms J. Sigfússonar og þess vegna sé hann ekki tilbúinn til að taka einarða afstöðu með því að þjóðaratkvæðagreiðsla verði um Icesave. Þess vegna talar hann með þeim óljósa hætti sem hann gerir.


mbl.is „Samþykktum að málið færi til þingsins“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband