Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Davíð: Stjórnarkreppa hefði verið betri
Fimmtudagur, 30. desember 2010
Davíð Oddsson segir að stjórnarkreppa hefði reynt Íslendingum betri en ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Efnahagsástandið væri miklu betra hér á landi.
Í ítarlegu viðtali við Gísla Frey Valdórsson í veglegu áramótablaði Viðskiptablaðsins gefur Davíð sitjandi ríkisstjórn ekki háa einkunn. Hann telur hana verri en enga:
"Ég er reyndar þeirrar skoðunar að ef þannig hefði háttað eftir að stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var farin frá og við þær aðstæður hefði verið stjórnarkreppa og engin formleg ríkisstjórn, heldur aðeins starfsstjórn alveg til þessa dags, þá væri efnahagsástandið miklu betra. Þannig að núverandi ríkisstjórn er mun verri en engin."
Aðspurður um af hverju hann telji stjórnarkreppu betri svarar Davíð:
"Vegna þess að þessi stjórn hefur lagt stein í götu allrar þróunar. Þróunin hefði getað verið markviss vegna þeirra meginlína sem dregnar höfðu verið áður en ríkisstjórn Geirs [Haarde] fór frá."
Ljúfir, góðir og hlýðnir þingmenn
Miðvikudagur, 29. desember 2010
Sigurður Þorsteinsson auglýsir á bloggsíðu sinni eftir hlýðnum þingmönnum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Þeir verða að vera undirgefnir og tilbúnir að éta það sem úti frýs: Síðan segir Sigurður:
"Engar kröfur eru gerða um sjálfstæða hugsun, og alls engar kröfur um þekkingu um þekkingu á efnahagsmálum. Reyndar verður þeim sem hafa þekkingu á efnahagsmálum og eru viljugir að koma þeirri þekkingu á framfæri, hafnað.
Þingmenn með áhuga á að naga kjötbein eru sérstaklega velkomnir en ekki þeir sem hafa áhuga á að veiða mýs, hamstra og fugla.
Umsækjendur verða að undirbúa sig undir að tímabil ráðningar getur orðið mjög stutt. Umsóknir sendist í pósthólf Jóhönnu Sigurðardóttur eða Steingríms Sigfússonar merkt ,,allt á leiðinni til andskotans"."
Jónas Bjarnason orðar þetta með öðrum hætti en hugsunin er svipuð:
"Auðvitað vilja Jóhanna og Steingrímur hafa þingmennina góða og ljúfa svo þeir bara séu sammála þeim og séu ekki með neitt múður í þinginu. Þau eiga bara að greiða atkvæði og þegja, er það ekki?"Sagði AGS beita fjárkúgun
Miðvikudagur, 29. desember 2010
Lilja Mósesdóttir er hægt en örugglega að segja skilið við Vinstri græna og Steingrím J. Sigfússon sérstaklega. Það er ágætt hjá henni að halda orðum formannsins til haga en Steingrímur J. hefur farið í 180 gráður þegar kemur að samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS), og skal látið liggja á milli hluta hvort hann sem stjórnarandstæðingur hafði rétt fyrir sér eða ekki.
Lilja hefði átt að rifja upp fleiri ummæli og skoðanir Steingríms á þessum tímamótum. Læt því fylgja með nokkrar tilvitnanir um AGS en þó sérstaklega Icesave.
Krafa AGS fjárkúgun
Ég hef heyrt þann orðróm að þarna séu tengsl á milli og ef það er svo að þetta sé fyrirfram skilyrði af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þess að koma hér að málum, að við gerum upp öll þessi ósköp í Bretlandi og Hollandi án þess að það liggi endilega fyrir að okkur sé lagalega og þjóðréttarlega skylt að gera það, þá er það auðvitað ekkert annað en fjárkúgun. Þá eru allar okkar verstu martraðir að rætast hvað varðar aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Steingrímur J. Sigfússon formaður VG í samtali við Mbl.is 22. október 2008.
Íslenska ríkið ber ekki ábyrgð
Eins og lögfræðingar hafa bent á var hlutverk innlánatryggingakerfa samkvæmt reglum ESB/EES- svæðisins aldrei að takast á við allsherjar bankahrun, heldur aðeins fall einstakra banka. Sama sjónarmið kemur fram í skýrslum og yfirlýsingum frá Seðlabaka Evrópu og framkvæmdastjórn ESB.
Veigamikil rök hnigu því strax frá upphafi að því að íslenska ríkið bæri ekki ábyrgð á skuldum vegna Icesave-reikninganna umfram þá upphæð sem var til staðar í Tryggingasjóði innistæðueigenda.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, í grein sem birtist í Morgunblaðinu í 24. janúar 2009.
Hægt af afstýra stórslysi
Í ljósi þessa er mesta örlagastundin í Icesave-málinu í raun enn eftir. Enn er hægt að afstýra stórslysi fyrir íslenska þjóð. Taki Tryggingarsjóðurinn hins vegar við skuldunum er ljóst að þá verður ekki aftur snúið: Þá hefur þjóðin endanlega verið skuldsett á grundvelli pólitískra þvingunarskilmála sem ríkisstjórnin hafði ekki dug í sér til að standa gegn. Stjórnarseta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er því að reynast þjóðinni dýrkeypt, í þessu sem öðru. En þessari vöru fæst ekki skilað, eins og sagt er, heldur virðist ríkisstjórnin ætla að sitja áfram, án þess að boða til kosninga, þar til það er orðið endanlegt og óafturkræft að skuldir vegna þessarar fjárglæfrastarfsemi lendi á þjóðinni og komandi kynslóðum.
Steingrímur J. Sigfússon í grein sem birtist í Morgunblaðinu í 24. janúar 2009 um Icesave-málið.
Ég treysti Svavari Gestssyni
Ég treysti Svavari Gestssyni. Ég veit að hann er að gera góða hluti og ég lofa þér því að það er í sjónmáli að hann landi og hans fólk glæsilegri niðurstöðu fyrir okkur ...
Ég held að við getum átt þar í vændum farsælli niðurstöðu en kannski leit út fyrir að vera.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í Zetunni, umræðuþætti á mbl.is í mars 2009 aðspurður um stöðuna í Icesave-viðræðunum við Breta og Hollendinga
Ekki verið að ganga frá Icesave-samkomulagi
Það er verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær eru ekki hafnar heldur eru könnunarþreifingar eða könnunarviðræður í gangi. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála. Staða málsins er sú að það eru könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra svarar Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni 3. júní 2009 eða tveimur dögum áður en Icesace-samningar voru undirritaðir
Lilja rifjar upp orð Steingríms um AGS | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook
Vinstri menn hafa engan skilning á verðmætasköpun
Miðvikudagur, 29. desember 2010
Liðsmenn Vinstri grænna leita nú skýringa á þeim erfiðleikum sem flokkurinn á við að glíma. Þingflokkurinn er sundraður og líf ríkisstjórnarinnar hangir á bláþræði. Lilja Mósesdóttir hugar að því að segja skilið við þingflokkinn og Atli Gíslason svarar fjölmiðlum á latínu; Cogito ergo sum [ég hugsa, þess vegna er ég]. Ásmundur Einar Daðason bíður átekta, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir þingflokksformaður er í barnseignarleyfi og Ögmundur Jónasson tekur til varna fyrir þá þingmenn sem ekki studdu fjárlagafrumvarp formanns Vinstri grænna og ríkisstjórnarinnar.
Teitur Bergþórsson, kennari og félagi í VG, segir í grein í Fréttablaðinu að ástæða þess að það hriktir í stoðum ríkisstjórnarinnar sé sú að "VG keypti Samfylkinguna of dýru verði - seldu sannfæringu sína í ESB málinu og þurfa svo aftur að selja sjávarútvegsstefnu sína gagnvart íhaldinu, til þess að eiga möguleika á að ganga frá Ísseifsmálinu".
Teitur telur að pólitík gangi út á málamiðlanir en svo virðist sem að VG geti klofnað í tvær fylkingar:
"Munurinn á þessum klofningi og þegar Alþýðubandalagið klofnaði er sá að nú eru þetta málefnaárekstrar en í hinu tilvikinu persónulegt skítkast á báða bóga."
Framtíð Vinstri grænna er ekki sérstaklega björt í huga Teits. Flokkurinn standi frammi fyrir því að verða "lítill samstilltur stjórnarandstöðuflokkur um ókomna framtíð eða stór lítt samstilltur flokkur sem gæti komist í stjórn öðru hvoru og haft áhrif".
Teitur bendir á að innan VG séu tveir mjög svo hæfir forystumenn og á þar annars vegar við Steingrím J. Sigfússon og að líkindum Ögmund Jónasson. Teitur telur að þeir verði að víkja og leiða nýjan formann til valda, - formann sem báðar fylkingar flokksins geti sætt sig við:
"Sveigjanlegan samningamann sem þó getur haldið uppi þeim aga sem þarf að vera í hópsamstarfi."
Í huga Teits er sundrungin í þingflokki VG ekki alvond ef hún verður til þess að fella núverandi ríkisstjórn. Teitur er líkt og margir aðrir búinn að gefast upp á ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, sem hann beið svo lengi eftir. Ástæðan er sú að þegar "að uppbyggingu kemur, og endurreisn hefst, blasir við, að vinstrimenn - upp til hópa - hafa nákvæmlega engan skilning á því með hvaða hætti verðmætasköpun verður til".
Dómur Teits er afdráttarlaus:
"Þessi ríkisstjórn er komin á endastöð og nú eiga leiðir að skilja."
Teitur elur þá von í brjósti að næsta ríkisstjórn verði mynduð með þátttöku Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Hreyfingarinnar. Ekki er ég viss um að honum verði að ósk sinni, jafnvel þó Teitur hafi trú á því að Styrmir Gunnarsson nái að bræða saman slíka stjórn ásamt Steingrími J. og Þór Saari.
Grein Teits er hins vegar merkilegt og gott innlegg í umræðuna. Það er alltaf gleðilegt þegar fylgismenn Vinstri grænna skrifa á þennan hátt þar sem áhersla er lögð á uppbyggingu atvinnulífsins. Greinin ber þess merki að innan VG eru einstaklingar sem skilja vel "með hvaða hætti verðmætasköpun verður til". Þeir mættu hins vegar láta heyra meira og oftar í sér.
Misvísandi skilaboð um samstarf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook
"Ég hugsa, þess vegna er ég"
Þriðjudagur, 28. desember 2010
Svar Atla Gíslasonar við spurningu blaðamanns er merkileg. Svarið er hnitmiðað og segir meira en mörg orð. "Ég hugsa, þess vegna er ég," segir Atli og kemst að því að hann sé til sem stjórnmálamaður með sjálfstæða hugsun en ekki bundinn á klafa flokksforystunnar.
Lilja Mósesdóttir hefur þegar stigið fyrsta skrefið í að segja skilið við þingflokk Vinstri grænna eða eins og hún segir í samtali við Fréttablaðið:
"Ef það er almennt skoðun stjórnarliða að við séum steinar í götu þeirra sé ég ekki annað en að við þurfum að bjóðast til að yfirgefa stjórnarliðið svo það geti haldið störfum sínum áfram."
Varla er hægt að skilja orð Atla öðruvísi en sem skilaboð um hans eigið sjálfstæði og frjálsa hugsun gagnvart þingflokknum. Ásmundur Einar Daðason, sem orðið hefur fyrir miklu aðkasti undanfarna daga, segir lítið en Ögmundur Jónasson tekur upp hanskann fyrir hann:
"Ásmundi Einari spái ég bjartri framtíð í íslenskum stjórnmálum. Hvers vegna? Jú vegna þess að hann er fylginn sér, heiðarlegur, skeleggur og drengur góður. Ég er oftast sammála honum."
Erfitt er að sjá að hægt verði að bera klæði á vopnin þegar þingflokkur Vinstri grænna kemur saman 5. janúar næstkomandi.
Ummæli Lilju eðlileg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Gott að línur skýrist
Mánudagur, 27. desember 2010
Ég vona að Guðbirni og öðrum þeim sem standa að stofnun þessa flokks gangi allt í haginn. Fyrirfram verður það hins vegar dregið í efa að mikil eftirspurn sé meðal miðju- og hægrimanna á Íslandi eftir flokki sem kennir sig við eitthvað norrænt - ekki eftir að hafa fengið að kynnast norrænni velferð í tæp tvö ár.
Guðbjörn starfaði lengi innan Sjálfstæðisflokksins en var mjög ósáttur við mikinn meirihluta landsfundarfulltrúa vegna stefnunnar í Evrópumálum. Á bloggsíðu sinni 27. júní síðastliðinn tilkynnti hann úrsögn sína og neitaði því að hún væri eingöngu vegna óánægju með stefnu flokksins varðandi aðild að Evrópusambandinu. Helst var á honum að skilja að ástæðuna mætti rekja til Davíðs Oddssonar, sem hætti í stjórnmálum fyrir liðlega fimm árum. En Guðbjörn boðaði þegar stofnun nýs stjórnmálaflokks:
"Það er vinna framundan við að skipuleggja og stofna nýjan heiðarlegan og ráðvandan miðjuflokk með léttri hægri sveiflu. Hér verður um að ræða flokk, þar sem venjulegt fólk ræður ferðinni og þar sem hagsmunir Íslendinga og íslenskra fyrirtækja verða settir í fyrsta sæti. Við munum ekki gera mun á fyrirtækjum eða mönnum og reyna að hygla sérstaklega að bændum eða útgerðarmönnum þó þeir eigi allt gott skilið. Miðju- og hægrimenn gera sér grein fyrir að við verðum að framleiða og vinna okkur út úr vandanum og að öflugt atvinnulíf er undirstaða velferðar, menntunar og menningar. Við munum ekki aðeins hafa í huga og styðjast við ákvæði stjórnsýslulaga, stjórnarskrár og annarra laga þegar okkur hentar líkt og margir ráðherrar virðast gera heldur fylgja lagafyrirmælum út í ystu æsar. Ólíkt gömlu flokkunum, sem allir voru stofnaðir til að verja hagsmuni einhverra ákveðinna hópa í þjóðfélaginu, mun þessi flokkur einmitt að forðast sérhagsmunagæslu. Hagsmunir borgaranna og fyrirtækjanna í landinu, velferð þeirra og frelsi verður í forgrunni. Það er ekki ekki nóg að tala um frelsi, ábyrgð og umhyggju, heldur verður maður að lifa í samræmi við þessi orð og það hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki gert undanfarin 10 ár og engar líkur á að hann geri það á næstu árum eða áratugum."
17. nóvember skrifar Guðbjörn á bloggsíðu sína:
"Einsýnt er að nýr frjálslyndur og ESB hlynntur flokkur á miðjunni mun fæðast og gera Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki lífið leitt og taka til sín mikið fylgi á miðjunni."
Það er ágætt ef til verður borgaralegur flokkur undir forystu Guðbjörns eða einhvers félaga hans sem leggur áherslu á aðild Íslands að Evrópusambandinu. Slíkt skerpir aðeins línurnar í stjórnmálunum - línur sem oft hafa ekki verið skýrar.
Segir viðbrögð góð við nýjum flokki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Gleðileg jól
Föstudagur, 24. desember 2010
Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla. Vona að þið fáið að njóta hátíðarinnar í faðmi fjölskyldu og vina.
Hér syngur ein magnaðasta söngkona allra tíma, Mahalia Jackson, eitt af fallegri jólalögunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook
Sendiherrum fjölgar og lítt sparað í utanríkisþjónustunni
Fimmtudagur, 23. desember 2010
Ekki er hægt að skilja þessa frétt öðruvísi en að sendiherrum verði fjölgað um tvo á komandi ári. Ekki bendir það til mikillar íhaldssemi í utanríkisráðuneytinu í meðferð fjármuna almennings. Ég hef margoft bent á nauðsyn þess að skera upp utanríkisþjónustuna og spara stórkostlega fjármuni. Það er úrelt hugsun að halda úti sendiráðum um allan heim.
Sendiráð, fastanefndir og ræðisskrifstofur með útsendum starfsmönnum nefnast einu nafni sendiskrifstofur, segir á vef utanríkisráðuneytisins. Þannig starfrækja íslenskir skattgreiðendur 21 sendiskrifstofu í 17 löndum. Auk þessa er Þróunarsamvinnustofnun með fimm sendiskrifstofur í jafnmörgum löndum.
Ég benti á það í pistli á T24 í október nokkru eftir að fjárlagafrumvarpið var lagt fram að við Íslendingar ætlum að halda úti utanríkisþjónustu sem mun kosta um 11 þúsund milljónir króna. Þar af munu sendiráð og fastanefndir kosta 2.675 milljónir króna. "Um það verður ekki deilt að fyrir sjálfstæða þjóð er mikilvægt að halda uppi samskiptum við önnur ríki meðal annars með því að standa undir kostnaði við sendiráð. En útþensla íslensku utanríkisþjónustunnar er orðin þannig að almennt samkomulag hlýtur að nást um að skera hana upp og endurhugsa frá grunni áður en lagt er í að kollvarpa heilbrigðiskerfinu um allt land."
Ég lagði til að eftirfarandi sendiráðum og aðalræðisskrifstofum yrði lokað:
- Á Indlandi og Japan. Sparnaður 147,2 milljónir króna.
- Í Kanada, jafnt sendiráð sem aðalræðisskrifstofa: Sparnaður 89,9 milljónir króna
- Í Finnlandi og í Svíþjóð: Sparnaður 131,7 milljónir króna.
- Í Frakklandi, Austurríki og Bretlandi. Sparnaður 397,4 milljónir króna.
Sendiherraskipti í Brussel | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Björn Valur er vanur dylgjum
Miðvikudagur, 22. desember 2010
Björn Valur Gíslason, sem er sérstakur sendiherra Steingríms J. Sigfússonar, er vanur því að fara fram með dylgjur og aðdróttanir í garð pólitískra andstæðinga. Það kemur ekkert á óvart lengur í þeim efnum.
Á fundi Alþingis 10. júní síðastliðinn gekk Björn Valur fram af öllum sómakærum mönnum sem hlustuðu á umræðu á Alþingi. Þá réðist Björn Valur með ótrúlegum og svívirðilegum hætti að Sigurði Kára Kristjánssyni. Mér finnst rétt að rifja þá umræðu upp:
Björn Valur Gíslason:
"Virðulegi forseti. Undir lok síðasta árs krafðist minni hlutinn á Alþingi undir forustu Sjálfstæðisflokksins þess að fá hina mjög svo virtu lögfræðistofu Mishcon de Reya til liðs við sig vegna Icesave-málsins sem þá var til umræðu. Alþingi varð við óskum stjórnarandstöðunnar og sagðist greiða lögfræðistofunni fyrir viðvikið enda var fullyrt af hálfu stjórnarandstöðunnar að umrædd lögfræðistofa væri öðrum fremri á þessu sviði og til þess bærari en aðrar að varpa nýju ljósi á málið. Annað kom í ljós. (Gripið fram í: Hún vann fyrir ríkisstjórnina.) Pappírarnir streymdu reyndar úr tölvum stofunnar hingað til lands í hundraðavís (Gripið fram í: Hún vann fyrir ríkisstjórnina.) en reyndust við frekari skoðun einskis virði og ekki til að varpa nýju ljósi á málið að nokkru leyti. Látum það (Gripið fram í.) liggja á milli hluta, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson.
Fyrir þessa gagnslausu vinnu greiddi Alþingi 22 millj. kr. (Gripið fram í.) eftir að hafa náð að kría út afslátt hjá lögfræðistofunni. Það var hins vegar greinilegt á þessum tíma að umrædd lögfræðistofa, Mishcon de Reya, hafði náin tengsl hingað til lands, til stjórnarandstöðunnar, og nokkuð ljóst hvert þau tengsl lágu. Því langar mig til að spyrja hv. þingmann ég tek það fram að ég var ekki búinn að vara hv. þingmann við þessari spurningu og ætlast ekki til þess að hann svari hér og nú. (Gripið fram í.) Ég varpa þeirri spurningu til hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar í þessu sambandi: Hver, ef einhver, hafa tengsl hans við þessa lögfræðistofu verið? Átti hv. þingmaður einhver samskipti við lögfræðistofuna Mishcon de Reya á þeim tíma þegar hann var aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins eða meðan hann gegndi þingmennsku fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og hver voru þessi tengsl?
Síðast en ekki síst, í ljósi viðhorfa þingmannsins til styrkjamála, þeirrar umræðu sem hefur verið á þingi og þeirrar háu upphæðar sem Alþingi greiddi lögfræðistofunni fyrir enga vinnu: Þáði hv. þingmaður einhverjar greiðslur frá stofunni fyrir vinnu hans og (Gripið fram í.) og aðkomu að málinu? (Forseti hringir.) Ég óska eftir því að þingmaðurinn svari þessari spurningu ef hann getur, (Forseti hringir.) annars láti hann það bíða."
Sigurður Kári Kristjánsson:
"Herra forseti. Ég ætla að svara hérna þessum makalausu yfirlýsingum og aðdróttunum hv. þm. Björns Vals Gíslasonar um meint tengsl mín við lögfræðistofuna Mishcon de Reya sem hæstv. ríkisstjórn réði til starfa fyrir sig. Hann lætur að því liggja að ég hafi síðar, vegna aðkomu þeirrar stofu að vinnu fyrir þingið, haft einhverja aðkomu að því máli og jafnvel þegið greiðslur frá lögmannsstofunni.
Það er algjörlega rangt. Þetta eru svívirðilegar ávirðingar sem hv. þingmaður kemur með á hendur mér. Ég hef engin tengsl við þessa stofu. Ég samdi ekki við hana um að hún ynni fyrir Alþingi. Það gerðu formaður fjárlaganefndar og skrifstofa Alþingis. Það gerði ég ekki og það gerði Sjálfstæðisflokkurinn ekki. Ég skil ekki af hverju íslensk stjórnmál þurfa að vera komin niður (Forseti hringir.) á það plan sem hv. þm. Björn Valur Gíslason (Forseti hringir.) hefur dregið þau niður á. Það er honum (Forseti hringir.) og flokki hans til skammar að bera þessar sakir á mig eða (Forseti hringir.) aðra þingmenn hér og hann ætti að skammast sín og biðjast afsökunar." [Kliður í þingsal.]
Einar K. Guðfinnsson:
"Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum dagskrárlið vegna þess að ég tel að hæstv. forseti hefði átt að víta hv. þm. Björn Val Gíslason. (Gripið fram í: Heyr.) Það er óþolandi að hv. þingmaður bregði sér hér í hlutverk rógberans og beri sakir á menn til þess eins að láta þá reyna að afneita þeim. Þetta er þekkt fyrirbæri en hefur aldrei notið mikillar virðingar.
Látum þá neita því, sögðu menn vestur í Bandaríkjunum, og höfðu skömm fyrir. Hv. þingmaður ætti að skammast sín. Hv. þingmaður hefur verið í þeirri stöðu sem varaformaður fjárlaganefndar að kalla eftir alls konar nefndarálitum og sérfræðiálitum sem greitt er fyrir. Engum dettur í hug að ætla að hann hafi haft af því fjárhagslega hagsmuni, en þetta var það sem hann sagði í raun og veru, hann fór niður á slíkt plan. (VigH: Rétt.) Ef hv. þingmaður er maður að meiri ætti hann að koma hér upp og biðjast afsökunar."
Hægt er að lesa eða hlusta á umræðuna á vef Alþingis. Umræðan var tvíþætt, annars vegar um störf þingsins og hins vegar um fundarstjórn.
Biður Kristján Þór afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ógeðsleg ormagryfja
Miðvikudagur, 22. desember 2010
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, skrifar leiðara á Evrópuvaktinni um samstarfið í ríkisstjórninni. Hann segir að fréttir Morgunblaðsins og mbl.is undanfarna daga gefa innsýn í samstarf flokkanna. Vert er að vekja athygli á skrifunum en Styrmir samstarf Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sé í rúst. En þrátt fyrir það muni ríkisstjórnin sitja eins lengi og sætt er.
"Þetta þýðir að stjórnarsamstarfið er í rúst og fréttir Morgunblaðsins og mbl.is hafa veitt almenningi innsýn í ormagryfju, sem er með þeim ógeðslegri, sem sést hafa í íslenzkri pólitík á síðari tímum og hafa þær þó verið margar.
Þetta þýðir hins vegar ekki að ríkisstjórnin sé að fara frá. Hún mun sitja eins lengi og sætt er. En þetta þýðir hins vegar, gagnstætt því sem ætla mátti fyrir nokkrum vikum, að það eru minni líkur en meiri á því, að ríkisstjórnin sitji út kjörtímabilið.
Það kann að vera styttra í kosningar en margir halda."