Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Lítil frétt um Árna Þór

Hún er lítil, látlaus og í einum dálki á blaðsíðu 2 í Mogganum, fréttin um Árna Þór Sigurðsson, starfandi þingflokksformann. Fyrirsögnin er: Níu á félagsfundi VG í Skagafirði. Þar kemur fram að aðeins níu hafi mætt á félagsfund VG í Skagafirði sem haldinn var á Mælifelli. Haft er eftir Úlfari Sveinssyni, fundarstjóra og varaformanns svæðafélags VG, að litlu fleiri hafi mætt á opinn fund sem haldinn var á eftir lokuðum félagsfundi, eða 11-12.

Fyrirfram hefði mátt ætla að Skagfirðingar hefðu áhuga á að heyra í Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra sem var framsögumaður ásamt Árna Þór Sigurðssyni, Lilju Rafney Magnúsdóttur og Auði Lilju Erlingsdóttur, framkvæmdastjóra VG. En nei, þeir voru fáir sem létu sjá sig.

Úlfar kann hins vegar skýringuna. Frétt Morgunblaðsins lýkur á þessum orðum:

"Úlfar sagði að skýringin á slakri mætingu væri sú að Skagfirðingar hefðu lítinn áhuga á að hlusta á það sem Árni Þór Sigurðsson hefði fram að færa. Fundarmenn hefðu á hinn bóginn lýst stuðningi við Jón Bjarnason og Ásmund Einar Daðason."


Þá fyrst höfum við áhyggjur

Kalt vatn hlýtur að renna milli skinns og hörunds á íslenskum skattgreiðendum þegar þeir lesa að Björn Valur Gíslason, varaformaður fjárlaganefndar. meti stöðuna þannig að "vinnan" við Icesave-samningana gangi vel í fjárlaganefnd. Sagan kennir að þá fyrst eigi þeir hafa hafa áhyggjur.

Björn Valur er einn þeirra þingmanna sem hvað harðast hafa barist fyrir því að þjóðnýta tap einkabanka og senda reikninginn til almennings. Hann studdi Svavars-samningana og lagði mikið á sig að sannfæra almennings um nauðsyn þess að þeir yrðu samþykktir. 

Í byrjun síðasta árs skrifaði Björn Valur á heimasíðu sína (11. janúar 2010):

"Því hefur verið haldið fram að með Icesave-samningunum sé verið að setja óheyrilegar byrðar á komandi kynslóðir Íslendinga, sumir segja um alla framtíð. Ekkert þessu líkt er að finna í öllum þeim gögnum sem Alþingi hefur borist frá fjölmörgum aðilum við umfjöllun málsins."

Björn Valur var mjög ósáttur við að Ólafur Ragnar Grímsson skyldi ekki samþykkja lög um Icesave og sagði:

"Það er því hjákátlegt að þurfa að hlusta á svokallaða sérfræðinga, innlendra og erlendra, haldi því fram að komandi kynslóðir Íslendinga komi til með að greiða þessar skuldir. Enn grátlegra er þó að hlusta á fjölmiðlafólk láta þessa vitleysu yfir sig ganga án þess að bregðast við sem bendir til þess að fjölmiðlar láti stjórnast af umræðunni gagnrýnislaust. Það er áhyggjuefni ef svo er, ekki síst í komandi kosningabaráttu vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar."

7. september síðastliðinn skrifaði þingmaðurinn:

"Ég fæ ekki með nokkru móti séð að íslenska þjóðin, íslenskur almenningur, heimili og fyrirtæki,  hafi gott af því að málinu sé haldið í því horfi sem það er í dag. Fyrir því eru engin haldbær rök. Þeirra ábyrgð er mikil sem hafa lagt sig alla fram um að koma í veg fyrir lausn málsins og haft erindi sem erfiði.

Nú er kominn tími til að loka þessu máli, kalla það aftur inn á þing og samþykkja þann samning sem í boði er áður en málið versnar enn frekar, öllum til tjóns."

Björn Valur hefur alla tíð sýnt einbeittan vilja til að koma Icesave-skuldum Landsbankans yfir á almenning. Lagaleg álitamál skipta litlu og enn minna virðist skipta máli hversu þungar klyfjarnar eru. Maðurinn sem var tilbúinn til að samþykkja Svavars-samningana mun ekki skoða hina nýju samninga af mikilli nákvæmni.


mbl.is Segir Icesavevinnu ganga vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áróðurinn fyrir Icesave hafinn

Áróðurinn fyrir því að Alþingi samþykki Icesave-samningana er hafinn að nýju, líkt og gert var þegar Svavars-samningarnir voru gerðir í júní 2009. Þá var hver sérfræðingurinn á fætur öðrum dreginn fram til að styðja við spádóma um efnahagslega einangrun og svartnætti. Jafnvel virðulegur hagfræðiprófessor taldi að á Íslendingum bæri siðferðileg skylda til að taka á sig Icesave-klyfjar, þó engin lagalegar kvaðir væru þar fyrir hendi.

Niðurstaða könnunar Gallup, sem Ríkisútvarpið greinir frá, er merkileg fyrir tvennt. Það er ekki meirihluti fyrir því að leggja skuldir einkabanka á skattgreiðendur og mikill minnihluti landsmanna gerir sér grein fyrir hvað í nýjum Icesave-samningum felst. Samkvæmt útreikningum Gamma gæti "skuldin" verið allt að 233 milljörðum króna en í besta falli 26 milljarðar. 

Nú hefur verið upplýst að fjármálaráðuneyti Steingríms J. Sigfússonar, gerir ráð fyrir því að íslenskir skattgreiðendur greiði liðlega 26 milljarða króna á þessu ári vegna Icesave og alls nær 59 milljarða fram til ársins 2016.

Mikið hefði verið gaman ef Gallup hefði spurt:

Ert þú fylgjandi eða andvígur því að íslenskir skattgreiðendur greiði 26,1 milljarð króna á þessu ári vegna Icesave-skulda Landsbankans?

Ég held að niðurstaðan hefði orðið önnur en Ríkisútvarpið greindi frá.

Eitt er víst í mínum huga eins og ég hef sagt áður:

"Þingmenn geta og hafa ekkert leyfi til að samþykkja hinn svokallaða nýja Icesave-samning. Það er nauðsynlegt að allir þingmenn sem hafa staðið vaktina haldi því áfram og berjist gegn samningnum. Ef það er vilji Íslendinga að taka á sig þessar skuldbindingar, sem þeim ber ekki, þá verða þeir sjálfir að ákveða það í þjóðaratkvæðagreiðslu. 63 þingmenn hafa engan siðferðilegan rétt til að taka slíka ákvörðun."


mbl.is Tæpur helmingur vill samþykkja Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin vinnur gegn fjárfestingum

Auðvitað er það hárrétt hjá Vilmundi Jósefssyni að stærsta verkefnið er að koma fjárfestingum aftur af stað. En það verður ekki gert með stefnu sitjandi ríkisstjórnar. Efnahagsstefnan og þá ekki síst skattastefnan, er fjandsamleg gagnvart þeim sem hugsanlega eru til í leggja fram áhættufé, hvort heldur er í starfandi eða ný fyrirtæki. Hótun Jóhönnu Sigurðardóttur í áramótaávarpi gagnvart sjávarútvegi er ekki til þess fallin að mikið verði fjárfest í útgerð og vinnslu á komandi misserum.

Því miður er ekki mikil innistæða fyrir yfirlýsingu Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra í viðtali við Bloomberg, að óhætt sé að fjárfesta hér á landi. Hækkun fjármagnstekjuskatts, gjaldeyrishöft og neikvætt viðhorf ríkisstjórnar til atvinnurekstrar, letur en hvetur ekki til fjárfestinga. Eins og kom fram í Morgunblaðinu í dag er ætlunin að leggja um 41 milljarð á fjármálafyrirtækin á þessu ári en  til samanburðar má nefna að árið 2007 námu þessi útgjöld um 21 milljarði. Formaður Samtaka atvinnulífsins bendir réttilega á að þessar auknu álögur þýða meiri fjármagnskostnað fyrir fyrirtæki og almenning. Hærri fjármagnskostnaður dregur úr fjárfestingum.

Afnám gjaldeyrishafta, lækkun skatta, friður um sjávarútveginn og gjörbreytt afstaða ríkisstjórnarinnar til atvinnulífsins, eru forsendur þess að öflug framsókn hefjist hér á landi.

Tryggingagjald

Í þessu efni er rétt að nefna lítið dæmi sem ég hef bent á áður. Ein besta leiðin til að berjast gegn atvinnuleysi er að lækka tryggingagjald. Launagreiðendur þurfa að greiða 8,65% af heildarlaunum starfsmanna sinna og 0,65% bætist við vegna sjómanna á skipum. Ekki þarf mikinn sérfræðing til að átta sig á því að álagning gjaldsins eykur launakostnað fyrirtækja verulega. Ríkisstjórnin hefur hækkað tryggingagjaldið verulega en samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2011 er þó gengið út frá því að það verði óbreytt á komandi ári. 

Hærri launakostnaður fyrirtækja dregur úr möguleikum þeirra til að ráða nýja starfsmenn til vinnu. Með öðrum orðum þá er neikvætt samhengi á milli eftirspurnar vinnuafls og tryggingagjaldsins. Því hærra sem gjaldið er því minni er eftirspurnin og því lægra sem gjaldið er því meiri verður eftirspurn eftir vinnuafli, að öðru óbreyttu.

Öll skynsamleg rök hníga því að því að hluti þess að draga úr atvinnuleysi, koma atvinnulífinu aftur af stað, er að lækka gjaldið verulega. Einnig er hugsanlegt að veita fyrirtækjum sem ráða nýja starfsmenn sérstaka undanþágu í ákveðinn tíma frá gjaldinu. Og slík aðferð um spara fjármuni en einnig efla aðra skattstofna ríkisins.

Því miður er lítill eða engin skilningur á þessu.

 


mbl.is Auka verður fjárfestingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta ekki hugmynd?

Kalifornía er gjaldþrota, ólíkt Íslandi. Auðvitað er þetta táknræn aðgerð hjá Brown og skiptir engu í baráttunni við gríðarlegan fjárlagahalla. En þetta er hugmynd, sem hægt væri að nýta hér á landi. Hversu margir ríkisstarfsmenn ætli séu með frían síma og eða fá mánaðarlegar greiðslur vegna símnotkunar. Í mörgum tilfellum er þetta sanngjarnt og eðlilegt, en fínt að fara yfir þetta allt saman.
mbl.is 48.000 ríkisstarfsmenn látnir skila símum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórar mikilvægar spurningar

Einn merkasti skólamaður sem við höfum átt er minn gamli skólameistari Tryggvi Gíslason, sem gerði Menntaskólann á Akureyri að einni bestu menntastofnun landsins. Við Tryggvi verðum seint sammála í pólitík en það breytir því ekki að um margt erum við sammála.

Tryggi skrifar á bloggsíðu sína að stóra spurningin sé sú hvert "íslenska þjóðin vill stefna, hvort kjósendur vilja breytingar, hvort almenningur vill breytingar á viðhorfi til lífsgæða - og menn spyrji sjálfra sig, að hverju þeir vilja stefna í lífinu". Tryggvi skrifar síðan:

"Eitt af því sem gamall skólameistari að norðan spurði nemendur meira en aldarfjórðung var: Hver ert þú? Hvaðan ert þú? Hvert vilt þú stefna - og hvað viltu verða? Gamli skólameistarinn hefur sjálfur spurt sig þessara spurninga - og ekki haft illt  af. Því er sennilegt að ýmsir aðrir, alþýða manna, almenningur, kjósendur, alþingismenn og -konur og ráðamenn þessarar dugmiklu þjóðar hafi einnig gott af því að spyrja þessara fjögurra spurninga."


Lætur Ólafur Ragnar eins og ekkert sé?

Björn Bjarnason bendir á að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi verið mynduð sem meirihlutastjórn, en nú ræði stjórnmálafræðingar "gjarnan  um hana sem minnihlutastjórn og bæta síðan við henni til málsbóta að minnihlutastjórnir sitji oft annars staðar á Norðurlöndum". Björn telur að spekingarnir ættu að fræða okkur um hvernig staðið sé að myndun þessara minnihlutastjórna. "Er það ekki í umboði þjóðhöfðingjans sem felur einhverjum stjórnmálamanni að mynda ríkisstjórn?", spyr Björn á heimasíðu sinni. Og síðan bætir hann við hinu augljósa:

"Ólafur Ragnar veitti Jóhönnu Sigurðardóttur umboð til að mynda minnihlutastjórn 1. febrúar 2009. Framsóknarmenn lofuðu þá að verja stjórnina vantrausti. Eftir kosningar 25. apríl 2009 fékk Jóhanna umboð til að mynda meirihlutastjórn. Miðað við íhlutun Ólafs Ragnars í stjórnarmálefni, sem hann segir stundum nauðsynlega til að gæta heiðurs forsetaembættisins, er merkilegt ef hann lætur eins og ekkert sé þegar meirihlutastjórn breytist í minnihlutastjórn."


VR á villigötum

Ég verð að viðurkenna að ég botna hvorki upp né niður í þeim deilum sem verið hafa innan VR síðustu tvö ár eða svo. Á stundum virðast þær bundnar við persónur með viðeigandi hnútukasti. En á stundum er tekist á um grundvallaratriði í starfsemi verkalýðsfélaga og skipulagi lífeyrissjóða.

Boðað hefur verið til framhaldsaðalfundar hjá VR í kvöld og kannski skýrast línur þar eitthvað. Samkvæmt frétt á dv.is liggur fyrir tillaga sem felur í sér ótrúlega mismunun meðal félagsmanna. Tillagan gengur gegn öllum hugmyndum um jafnræði. Sumir verða jafnari en aðrir, nái tillagan fram að ganga. 

Málsgreinin sem bæta á í 3. grein laga VR um félagsaðild hljóðar svo samkvæmt dv.is:

„Þeir félagsmenn sem hætta störfum á vinnumarkaði vegna örorku geta verið áfram félagsmenn gegn greiðslu félagsgjalds en njóta ekki kjörgengis til stjórnar í félaginu.“

Þeir sem leggja fram tillögur sem þessa geta aldrei tekið að sér að veita verkalýðsfélagi forystu. Verkalýðsfélag sem samþykkir tillögu sem gengur gegn grungildum lýðræðis, hefur fyrirgert tilverurétti sínum.

Að lokum er vert að rifja upp ákvæði 65. greinar okkar ágætu stjórnarskrár:

"Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna."

Árni Þór hæðist enn að þremenningunum

Það er ljóst að Árni Þór Sigurðsson, starfandi þingflokksformaður VG, heldur áfram að hæðast og gera lítið úr þremenningunum - Lilju Mósesdóttur, Ásmundi Daða Einarssyni og Atla Gíslasyni. Hann kannast lítið við óskir um að hann legði fram opinbera afsökunarbeiðni til Lilju. Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpið sagði Árni Þór: "Ég hef ekki verið beðinn um það og ég hef ekkert heyrt um það."

Árni Þór ætlar sem sagt ekki að biðja Lilju afsökunar eins og þremenningarnir hafa óskað eftir. Það er ljóst að til þess hefur hann óskoraðan stuðning Steingríms J. Sigfússonar, formanns flokksins. 

Þögn þingmanna VG eftir langan fund bendir til þess að engar sættir hafi náðst.  Ég geri ekki ráð fyrir að þremenningarnir séu geðlausir og því muni þeira aldrei sætt sig við framkomu Árna Þórs.

Eins og bent var á í gær hljóta þremenningarnir að lýsa yfir andstöðu við ríkisstjórnina sem þeir segja að sé "svokölluð velferðarstjórn". Annars verða þeir hvorki trúverðug í málflutningi né samkvæm sjálfum sér. Öll gagnrýnin verður innantómt hjal sem er aðeins pólitískur hávaði sem getur verið pirrandi fyrir alla til lengdar.

Stóran spurningin er hvað þeir félagar Ögmundur Jónasson og Jón Bjarnason hyggjast gera.  
mbl.is Þingflokksfundi VG lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er gagnrýni þremenninganna pólitískur hávaði sem er truflandi til lengdar?

Ef Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason, trúa því að gagnrýni þeirra á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sé rétt og sanngjörn, hljóta þau að lýsa yfir andstöðu við sitjandi ríkisstjórn og styðja vantraust. Annars verða þeir hvorki trúverðug í málflutningi né samkvæm sjálfum sér. Öll gagnrýnin verður innantómt hjal sem er aðeins pólitískur hávaði sem getur verið pirrandi fyrir alla til lengdar. 

Þegar yfirlýsing þremenninganna, vegna greinargerðar Árna Þórs Sigurðssonar, starfandi þingflokksformanns, er lesin er óskiljanlegt hvernig þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu að hægt sé að verja sitjandi ríkisstjórn falli, ef tillaga um vantraust kæmi fram. Svo djúpstæður er ágreiningurinn um efnahagsstefnuna að þremenningarnir geta aldrei varið ríkisstjórn sem fylgir henni. Þremenningarnir eru harðorðir og tala um hina "svokölluðu" velferðarstjórn og gefa þannig lítið fyrir yfirlýsingar Jóhönnur Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar um norræna velferðarstjórn. 

Þremenningarnir eru sannfærðir um að fjárlög þessa árs muni leiða til enn meira atvinnuleysis og þá ekki síst meðal kvenna. Þeir benda á að fjölgun atvinnulausra auki ójöfnuð í samfélaginu og því gangi fjárlögin gegn "grunngildum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um félagslegan jöfnuð og kvenfrelsi". Varla geta þingmenn VG, sem telja að verið sé að ganga gegn grunngildum flokksins, staðið að því að verja ríkisstjórn sem þannig vinnur. 

Einkunnargjöf þremenninganna yfir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, jafngildir falleinkunn í hvaða meðalmenntastofnun sem er. 

Verstu spár um atvinnuleysi hafa gengið eftir, að teknu tilliti til landsflótta og lægri atvinnuþátttöku. Samdráttur efnahagslífsins er meiri og minnkandi verðbólga bendir til þess að hagkerfið stefni í hraðskreiða niðursveiflu. Lilja, Atli og Ásmundur Einar virðast sannfærð um að óbreytt stefna sé feigðarflan (og því er enn óskiljanlegra að þau lofi að verja ríkisstjórnina falli) en í yfirlýsingunni segir meðal annars:

"Í yfirvofandi skuldakreppu verður ekki afstýrt nema að ríkisstjórnin segi þegar í stað upp samningum við AGS. Þegar enn átti eftir að draga á um helming lánsfjárupphæðarinnar í lok árs 2010 var gjaldeyrisvarasjóðurinn kominn í þá stærð sem að var stefnt. Ríkisstjórnin hefur með samningum undirgengist kreppudýpkandi efnahagsstefnu AGS sem hefur falist í ávaxtastefnu strax í kjölfar bankahrunsins og síðan kreppudýpkandi fjárlögum á næsta ári. Eina leiðin til að losa um gjaldeyrishöftin er að beita skattlagningu á útstreymi fjármagns yfir ákveðinni upphæð. Þannig væri hægt að afnema höftin, afla ríkissjóði tekna og tryggja síðan frjálst flæði fjármagns með þeirri mikilvægu undantekningu að krónan yrði varin sérstaklega gegn áhlaupi spákaupmanna. Gengishrun krónunnar í kjölfar bankahrunsins ætti að sannfæra umheiminn um nauðsyn þess að örsmátt hagkerfi eins og það íslenska þurfi tæki til að verjast áhlaupi alþjóðlegra fjármagnsafla."


mbl.is Bregðast við málflutningi Árna Þórs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband