Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011
Eftirlaunafrumvarpið og Steingrímur
Sunnudagur, 9. janúar 2011
Vinstri menn og þá ekki síst samfylkingar hafa sýnt einstaka tækifærismennsku í pólitík og eru umdeild eftirlaunalög þingmanna sem samþykkt voru árið 2003, gott dæmi um það. Með hreint mögnuðum hætti hefur þeim tekist að hafa endaskipti á hlutunum og talið stórum hluta þjóðarinnar trú um að einn maður beri ábyrgð á málinu og þar með tryggt sér lífeyrisréttindi langt umfram það sem aðrir njóta og langt umfram það sem réttlætanlegt og talið er eðlilegt.
Það er sérstakt rannsóknarefni fyrir fræðimenn í stjórnmálum að kanna hvernig andstæðingum Davíðs Oddssonar, tókst með snilldarlegum hætti að snúa staðreyndum á haus og láta hann sitja eftir með Svarta-Pétur.
Staðreyndin er sú að Davíð Oddsson flutti ekki frumvarpið til eftirlaunalaga. Hann átti heldur ekki frumkvæði að því að það var lagt fram. Flutningsmenn voru þingmenn allra flokka sem sátu í forsætisnefnd: Halldór Blöndal, Guðmundur Árni Stefánsson, Jónína Bjartmarz, Þuríður Backman, Sigurjón Þórðarson. Þannig var pólitísk samstaða um frumvarpið milli allra flokka, þó menn hafi síðan reynt að flýja málið eftir að í ljós kom að það féll í grýttan farveg meðal almennings.
Þeir sem áttu frumkvæði að því að frumvarpið var lagt fram voru forystumenn þáverandi stjórnarandstöðu, þeirra á meðal Steingrímur J. Sigfússon, núverandi fjármálaráðherra. Þó Davíð Oddsson staðfesti þetta ekki með beinum hætti er ljóst af skrifum hans í Reykjavíkurbréf nú um helgina að svo er. Þar segir meðal annars:
"Bréfritari hefur um áraraðir setið undir miklum árásum vegna "eftirlaunafrumvarpsins alræmda". Hann hefur allt fram til þessa stillt sig um að gera grein fyrir tilurð þess máls og aðdraganda og mun enn um hríð stilla sig um það. En honum er þó nær óskiljanlegt að Geir H. Haarde hafi aldrei upplýst um tilurð málsins og hverjir höfðu að því allt frumkvæði, ekki síst eftir að SJS lagði á hann hendur í þingsal og þóttist svo árum síðar vera með brostið hjarta í brjóstinu eftir að hafa haft forystu um að draga "heiðursmanninn" Geir H. Haarde fyrir landsdóm, fyrirbæri sem best á heima í Þjóðskjalasafninu og starfar eftir lögum sem sjálfur saksóknari Alþingis telur sig ekki geta brúkað."
Siðferðisskrúfur og ærlegheit
Sunnudagur, 9. janúar 2011
Davíð Oddsson fer hörðum orðum um forystumenn ríkisstjórnarinnar og meirihluta þeirra þingmanna sem styðja ríkisstjórnina, í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins. Hann segir að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafi beitt ómerkilegum blekkingum í umfjöllun um bankahrunið, Magma-málið, ESB-mál, Icesave, AGS og fleiri mál. Hið sama gildi um Össur Skarphéðinsson, sem sé sérstakt aðhlátursefni í evrópskum fjölmiðlum:
"Þess vegna er vaxandi óróleiki innan VG, þar sem ekki vantar siðferðisskrúfuna í alla þingmenn eins og virðist vera í Samfylkingunni."
Þúsundir kjósenda, sem kusu VG í síðustu kosningum gerðu það í góðri trú vegna þess að þeir löðuðust að loforðum, heitstrengingum og helgum stefnumiðum flokksins, segir í Reykjavíkurbréfinu:
"Vonbrigði þessara þúsunda og réttlát reiði er smám saman að skila sér í óróleika ærlegra þingmanna innan flokksins. Þar eigast því við "ærlega deildin" og "svikula deildin". Og það má öllum vera ljóst að ætli svikula deildin algjörlega að valta yfir ærlegu deildina er flokkurinn feigur."
Davíð telur enga ástæðu til að skilgreina hverjir tilheyri hvaða deild innan VG. Slíkt virðist augljóst miðað við skrifin. Þannig er niðurstaðan sú að innan VG er "svikul" deild og siðferðisskrúfuna vantar í alla þingmenn Samfylkingarinnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook
Handboltinn læstur inni
Laugardagur, 8. janúar 2011
Það hefur verið sérkennilegt að fylgjast með deilunni milli RÚV og 365 vegna handboltans. Auðvitað var það ljóst að 365 gátu aldrei fallist á tilboð frá RÚV með 20% álag, þar sem fyrirtækið hefur undanfarnar vikur verið að selja áskriftir að Stöð 2 Sport, vegna handboltans. Á mínu heimili hefur þess verið krafist að kaupa áskrift, en það verður ekki.
Aðrir fjölmiðlar ýmist gera grín að þessu öllu eða gagnrýna stjórnvöld fyrir að tryggja ekki opinn aðgang að landsleikjum Íslands. Morgunblaðið segir í leiðara:
"Hvernig stendur á því að Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra lét það viðgangast að handboltinn yrði læstur inni í sjónvarpi 365? Var ríkisstjórnin ekki búin að veita eigendum fyrirtækisins næga þjónustu? Var ekki nóg að banki ríkisins gerði eigendunum kleift að eiga fyrirtækið áfram þrátt fyrir að hafa sett það og fleira í gjaldþrot? Dugði ekki að ríkisbankinn breytti síðan lánaskilmálum til að eigendurnir gætu haldið fyrirtækinu? Var líka nauðsynlegt að leyfa eigendunum að læsa þjóðaríþróttina inni? Hversu langt ætlar ríkisstjórnin að ganga í þessari sérkennilegu þjónustu?"
Á DV hæðast menn að öllu saman en í sandkorni segir:
"Einhverjir landsmenn bíða spenntir eftir að heimsmeistaramótið í handbolta hefjist. Enn og aftur beinast augu manna að strákunum okkar eins og landsliðið er gjarnan nefnt. En nú er staðan sú að Jón Ásgeir Jóhannesson og aðrir eigendur Stöðvar 2 hafa tryggt sér einkarétt á sýningum frá leikjum landsliðsins sem verða flestir í læstri dagskrá og því ekki aðgengilegir fyrir nema lítinn hluta þjóðarinnar. Nú kalla gárungarnir landsliðið strákana hans Jóns Ásgeirs."
Vefmiðilinn AMX beinir spjótum sínum að eigendum 365 og forstjóra fyrirtækisins, sem lýsti því yfir að hann hefði miklar áhyggjur af fólkinu á Íslandi sem á ekki fyrir mat. Hann lagði til að þeir fjármunir sem RÚV ætlaði að verja til kaupa á sýningarréttinum yrðu nýttir til að eyða biðröðum eftir mat. Smáfuglar AMX eru ekki hrifnir og segja verið sé að gera grín að almenningi og segja síðan:
"Á móti spyrja smáfuglarnir hvort ekki hefði verið betra að nýta þá fjármuni ríkisbankans, sem farið hafa í að halda lífi í fjölmiðlafyrirtæki Jóns Ásgeirs, til að styðja við þá sem eiga erfitt eftir hrunið. Ef eitthvert réttlæti væri í heiminum ætti Jón Ásgeir að vera fastur í biðröðinni en þeir sem leita til hjálparstofnana í fullri vinnu."
RÚV hækkaði tilboð sitt í HM tvisvar sinnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lilja staðfestir hótanir vegna formennsku í viðskiptanefnd
Föstudagur, 7. janúar 2011
Lilja Mósesdóttir staðfestir á fésbókarsíðu sinni að henni hafi verið hótað að taka af henni formennsku í viðskiptanefnd Alþingis. Lilja skrifar eftirfarandi færslu:
"Margir velta því fyrir sér hvað ég hafi átt við með skoðanakúgun í síðustu færslu minni. Að mínu mati er það skoðanakúgun að hóta og þrýsta markvisst á að einstaklingur sé rekinn úr embætti formanns viðskiptanefndar vegna þess að viðkomandi spilar ekki í einu og öllu með meirihlutaliðinu. Engin mál hafa hingað til komið upp í viðskiptanefnd sem gefa tilefni til breytinga."
Eins og bent var á hér í gær segir Lilja að skoðanakúgun leiði til hruns samfélagsins og að hótanir "um að sumir séu ekki í liðinu og eigi að víkja úr stjórnarliðinu og þingnefndum" sé merki um skoðanakúgun.
Varla getur Lilja setið lengur undir hótunum af þessu tagi. Það er sama hvað má segja um Lilju þá verður hún seint sökuð um pólitískt geðleysi.
Agasvipum flokksins beitt af hörku gegn órólegu deildinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Það er rétt hjá Jóhönnu að staðreyndir tala sínu máli
Föstudagur, 7. janúar 2011
Jóhanna Sigurðardóttir heldur því fram, með réttu, að fagleg og trúverðug umgjörð um ráðningar skapi traust á stjórnsýslunni. Í grein í Fréttablaðinu í dag (7. janúar) hælir hún sér af breyttum vinnubrögðum og hafnar allri gagnrýni á pólitískar ráðningar.
Jóhanna skrifar:
"Frá því að ég tók við sem forsætisráðherra hef ég lagt mikla áherslu á umbætur í stjórnsýslu og eru ráðningar starfsmanna þar stór þáttur. Staðreyndirnar tala sínu máli. Frá því að ríkisstjórnir mínar tóku við hefur verið skipað í fjölmargar stöður innan stjórnkerfisins og af þeim ráðningum má ljóst vera að margt hefur færst til betri vegar. Skipað hefur verið í fjórar stöður ráðuneytisstjóra þ.e. í mennta- og menningarmálaráðuneyti, innanríkisráðuneyti, velferðarráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Stöðurnar voru allar auglýstar og í öllum tilvikum sá hæfnismatsnefnd um að meta hæfi umsækjenda og taka við þá viðtöl áður en ráðherra tók ákvörðun. Engin þessara skipana hefur verið talin pólitísk, samkvæmt skilgreiningunni hér að ofan."
Það er rétt hjá Jóhönnu að staðreyndir tala sínu máli. Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, heldur því fram að pólitískum ráðningum hafi ekki fækkað í stjórnsýslunni eftir að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis kom út. Salvör er einn höfunda siðfræðikaflans í rannsóknarskýrslunni. Jóhanna hafnar þessari gagnrýni enda er hún búinn að gleyma hvernig ætlunin var að tryggja samherja hennar embætti umboðsmanns skuldara. Jóhanna vill heldur ekki rifja upp hvernig Árni Páll barðist gegn stjórn Íbúðalánasjóðs við ráðningu á framkvæmdastjóra. Þannig hrannast dæmin upp og staðreyndir tala sínu máli.
Í skriflegu svari forsætisráðherra við fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar, varaformanns Framsóknarflokksins, kom fram að yfir þrjátíu starfsmenn hefðu verið ráðnir í ráðuneytin án auglýsingar frá nóvember 2009 til nóvember á liðnu ári.
Í umræðum á Alþingi í nóvember 2009 kom fram mikil gagnrýni á ráðningar hins opinbera. Þá var upplýst að 42 starfsmenn hefðu verið ráðnir án auglýsingar til starfa í ráðuneytunum frá ársbyrjun, en Jóhanna tók við starfi forsætisráðherra 1. febrúar það ár.
Þannig hafa tugir verið ráðnir án auglýsinga í ráðuneyti í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur. Staðreyndirnar tala sínu máli, líkt og Jóhanna segir sjálf. Vandinn er sá að hún neitar að horfast í augu við staðreyndir.
Þetta er allt gnarrað
Föstudagur, 7. janúar 2011
Gnarrað, er nýyrði sem rutt hefur sér til rúms í pólitískri umræðu. Þá er átt við eitthvað sem er vitlaust, galið, della, fásinna, fjarstæða, óvit, bull, endaleysa, fáviskuhjal, firra, grautargerð, kjaftæði, markleysa, óráðshjal, rugl, rökleysa, grín, háð og þvaður.
Vit er andheitið.
Staksteinar Morgunblaðsins nota nýyrðið og segja að borgarstjórinn geri gnarr að borgarbúum um leið og skattar og gjöld eru hækkuð jafnt og þétt. Nýjasta gnarrið er sagt vera breytingar á sorphirðu:
"Hann [borgarstjórinn] byrjar á að tilkynna að sorp verði ekki framar sótt einu sinni í viku heldur á 10 daga fresti. Og svo bætir hann um betur og breytir reglunum í miðju spili. Hann ætlar að hætta að láta sækja sorptunnur ef lengra en 15 metrar er í þær frá sorpbílnum."
Jón Baldur L'Orange heldur því fram að margir hristi hausinn þessa dagana. Þar bendir hann á að hugmyndir um vegtolla séu galnar og að hugmyndir meirihluta borgarstjórnar um skrefagjald starfsmanna við sorphirðu séu gnarraðar.Ætli næst verði ekki talað um gnörrun íslenskra stjórnmála.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook
Er enn verið að hóta Lilju?
Fimmtudagur, 6. janúar 2011
Lilja Mósesdóttir skrifar á fésbókarsíðu sína í morgun:
"Í lýðræðisríki fá ólík sjónarmið að koma fram og fólk ræðir sig til niðurstöðu um ákveðnar lausnir. Hótanir um að reka fólk úr liði til að þurfa ekki að takast á við gagnrýna hugsun er merki um að þeir sem eru við völd ráða ekki við verkefnið. Skoðanakúgun leiðir til samfélagshruns! Það þekkjum við Íslendingar af biturri reynslu."
Klukkustund síðar bætir hún við:
"Á þingflokksfundi VG í gær ræddum við málefnalegan ágreining eins og gera á í lýðræðislegu ríki. Okkur tókst hins vegar ekki að klára umræðuna, enda mörg og stór mál undir. Hótanir um að sumir séu ekki í liðinu og eigi því að víkja úr stjórnarliðinu og þingnefndum er merki um skoðanakúgun."
Af þessum orðum Lilju verður ekki dregin önnur ályktun en að enn sé haldið fast við hótanir í garð þingmannsins, sem hefur lítið gert annað en vera sjálfum sér samkvæm. Spurning hvort hótanirnar ná til félaga hennar, Ásmundar Einars og Atla Gíslasonar. Lilja er formaður viðskiptanefndar, Ásmundur Einar situr í fjárlaganefnd og Atli er formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.
Ágreiningurinn ekki brúaður
Fimmtudagur, 6. janúar 2011
Staðan í þingflokki Vinstri grænna er furðuleg. Ásmundur Einar Daðason gerir sér vonir um að niðurstaða fáist í Evrópusambandsmálin. Lilja Mósesdóttir segist taka einn dag í einu í pólitíkinni og Atli Gíslason þegir bæði á íslensku og á latínu.
Eitt er ljóst. Það tókst ekki að brúa þann djúpstæða ágreining sem er innan þingliðs VG, þrátt fyrir "opnar" og "hreinskiptar" umræður. Árni Þór Sigurðsson starfandi þingflokksformaður hefur ekki dregið orð sín til baka um ódrengskap þremenninganna. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra telur að Ásmundur Einar, Lilja og Atli séu ekki í þingliði ríkisstjórnarinnar - séu kettir sem ekki sé hægt að smala. Gagnrýni Atla Gíslasonar í Morgunblaðsgrein í gær, stendur óhögguð enda hefur ekkert breyst.
En strax eftir að þingflokksfundi VG lauk í gær voru skeytasendingar byrjaðar. Össur Skarphéðinsson sagði að loftið hefði verið hreinsað en gat ekki setið á sér með því að hnýta í Ásmund Einar. Utanríkisráðherra segir þingmanninn misskilja Evrópusambandsferlið. Talsmenn og verjendur Samfylkingarinnar og ríkisstjórnarinnar í blokkheimum voru fljótir.
Páll Blöndal sagði ljóst að VG styddi ríkisstjórnina en bætti við:
"Tilvistarkreppa og athyglisþörf örfárra breytir engu þegar á hólminn er komið."
Jón Ingi Cæsarsson er ekki sammála um hreinsun loftsins. Það sé sama fýlan og fyrr:
"Það sem streymdi frá Framsóknarskotna VG istanum úr Dölunum var sama forneskjan og sama virðingarleysið við stjórnarsáttmálann og samstarfsflokkinn.
Gamla 78 snúninga glerplatan snérist á fóninum hjá sauðfjárbóndanum og hin tvö voru vafalaust í slíkri heilsulausri fýlu að þau gáfu ekki kost á viðtali. Það er að vísu sannarlega nýtt því þau hafa bæði verið illa haldin af athyglisýki þegar fjölmiðar eru annarsvegar."
Evrópusamtökin tóku þegar til máls á bloggsíðu sinni eftir Kastljós og beindu spjótum sínum að Ásmundi Einari:
"Það var greinilegt á viðtali í Kastljósi nú í kvöld að foringi Nei-sinna, Ásmundur Einar Daðason, hafði ekki náð sínu fram á fundi VG í dag."
Fer lítið fyrir frétt
Mér finnst merkilegt hve litla athygli frétt DV um þingflokksfund VG hefur fengið. Hægt er að fullyrða að meira kjöt hafi verið á beinunum í frétt Jóhanns Haukssonar á dv.is en hjá öðrum fjölmiðlum. Þar sagði meðal annars:
"Bókun, sem stjórn þinflokks Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs lagði fram um stuðning þingflokksins við ríkisstjórnina og stefnumál hennar, hlaut ekki stuðning þriggja þingmanna VG á löngum fundi þingflokksins í dag. Tillagan var því dregin til baka af stjórn þingflokksins, en hana skipa auk Árna Þórs Sigurðssonar þingflokksformanns þær Þuríður Backman og Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Samkvæmt heimildum DV voru það Ásmundur Einar Daðason, Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason sem ekki treystu sér til þess að greiða atkvæði með bókuninni um stuðning við stefnu ríkisstjórnarinnar, en hún tekur til margvíslegra málaflokka, svo sem efnahagsmála, atvinnumála, Evrópumála og mála sem snerta auðlindir og fiskveiðar. Ljóst er því að 12 af 15 þingmönnum VG styðja ríkisstjórnina og stefnu hennar en þremenningarnir eru aðeins reiðubúnir til þess að verja ríkisstjórnina vantrausti."
Frétt DV hefur ekki verið borin til baka og engin ástæð er til annars en að ganga út frá sannleiksgildi hennar.
Umræðunni ekki lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:29 | Slóð | Facebook
Eru handboltamenn upp til hópa sjálfstæðismenn?
Miðvikudagur, 5. janúar 2011
Páll Blöndal, bloggari og stuðningsmaður Samfylkingarinnar lætur handboltamenn fara eitthvað í taugarnar á sér. Nú liggur fyrir að flestir leikir íslenska landsliðsins á HM verða í læstri dagskrá Stöðvar 2. Einar Þorvarðarson framkvæmdastjóri HSÍ sagði í samtali við Morgunblaðið að þar á bæ hefðu menn viljað hafa alla leikina í opinni dagskrá.
Páll Blöndal gerir athugasemd við þetta á bloggsíðu sinni og segir að ef HM í handbolta sé ekki meira virði í hugum áhorfenda en svo að þeir séu tilbúnir til að greiða fyrir, þá sé það hið besta en bætir síðan við:
"Merkilegt hvað þessir Sjálfstæðismenn (eins og handboltamenn eru upp til hópa) eru æstir í að láta skattgreiðendur borga fyrir sín áhugamál. En eins og allir vita, þá eru handboltinn útungunarstöð fyrir tryllta markaðshyggjumenn og útrásavíkinga.
Réttast væri að senda reikninginn til Valhallar."
Ég hef ekki gert sérstaka athugun á stjórnmálaskoðunum handboltamanna frekar en hjá öðrum íþróttamönnum. Vonandi að Páll hafi rétt fyrir sér. Það er ekki ónýtt fyrir stjórnmálaflokk að eiga stuðning glæsilegra íþróttamanna um land allt.
Þversagnakenndur fjármálaráðherra
Miðvikudagur, 5. janúar 2011
Ef allt væri með felldu myndi fjármálaráðherrann Steingrímur J. Sigfússon segja við Steingrím J. Sigfússon, formann Vinstri grænna: Skilurðu núna samhengið á milli skatta og efnahagslegra athafna. Því lægri skattar því meiri umsvif, því hærri skattar því minni umsvif. Þess vegna eigum við að lækka skatta og örva efnahagslífið, koma hjólunum af stað, styrkja þannig skattkerfið og afla ríkissjóði stóraukinna tekna.
Skattalækkun eykur umsvif | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |