Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Jóhanna svíkur Björk

Björk Guðmundsdóttir gekk á fund Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og afhenti henni undirskriftir 48 þúsund Íslendinga sem skoruðu á stjórnvöld að koma í veg fyrir sölu á HS Orku og á Alþingi að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á auðlindum og nýtingu þeirra. Mikill var fögnuðurinn og það var sungið. Þetta var 17. janúar síðastliðinn.

Jóhanna var kát og sagði áskorunina í miklu samræmi við stefnu stjórnvalda.  Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon héldu síðan fund með Björk og félögum hennar sem stóðu að undirskriftarsöfnuninni. Sá fundur blés Björk greinilega von í brjóst því nokkrum dögum síðar fullyrti söngkonan í viðtali við kanadíska dagblaðið National Post að íslensk stjórnvöld ætli sér að endurheimta fyrirtækið HS Orku frá Magma Energy. Frá þessu greindi Eyjan og þar var haft eftir Björk:

"Þau [ríkisstjórnin] sögðu okkur að þau vilji fella samninginn úr gildi og tryggja að íslensk orkufyrirtæki og íslenskar orkuauðlindir verði í almannaeigu. Þeim er alvara."

Samkvæmt frásögn Eyjunnar fullyrti Björk að einungis sé verið að ákveða með hvaða leiðum verði staðið að því að fella samninginn úr gildi.

Nú átta dögum eftir sönginn við Stjórnarráðið hefur komið í ljós að Jóhanna Sigurðardóttir hafði Björk að fífli. Hún meinti ekkert með orðum sínum. Björk Guðmundsdóttir hefur kynnst forsætisráðherra.


mbl.is Semja um styttri nýtingarrétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar eru orðnir þreyttir og dasaðir

Niðurstaða könnunar Fréttablaðsins um afstöðu landsmanna til Icesave-samkomulags við Breta og Hollendinga, bendir til þess að Íslendingar séu búnir að gefast upp. Breskum og hollenskum stjórnvöldum, hefur tekist með dyggum stuðningi ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms, að lýja meirihluta Íslendinga.

Áróðurinn fyrir nýjum Icesave-samningi hefur verið mikill og því haldið fram að nú loksins sé kominn á samningur sem sé sanngjarn og viðráðanlegur. Mér er það hulin ráðgáta hvernig hægt er að halda því fram að samningur sem byggir ekki á lagalegum grunni getur talist sanngjarn fyrir skattgreiðendur sem ekkert hafa til sakar unnið, annað en búa á Íslandi. Óskiljanlegt er hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu að Jón og Gunna á Skagaströnd eigi að greiða fyrir óstjórn einkafyrirtækis og græðgi erlendra sparifjáreigenda sem tóku gylliboði um háa ávöxtun.

Fjármálaráðuneytið reiknar með að kostnaðurinn við Icesave geti orðið allt að 59 milljarðar króna fram til ársins 2016. Samkvæmt útreikningum Gamma gætu allt að 233 milljarðar fallið á íslenska skattgreiðendur en a.m.k. 26 milljarðar. 

Eitthvað segir mér að útkoma skoðanakönnunar Fréttablaðsins hefði orðið önnur ef spurt hefði verið:

Ert þú fylgjandi eða andvígur nýju Icesave-samkomulagi sem felur í sér að íslenskir skattgreiðendur greiði a.m.k. 26 milljarða og allt að 233 milljarða?

En niðurstaða könnunarinnar bendir til að við Íslendingar séu búnir að mæðast mjög í baráttunni um Icesave. En einmitt þá reynir á þá sem harðast hafa barist gegn ósanngjörnum kröfum Breta og Hollendinga. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar verða að sýna kjark og berjast. Þá er von til þess að skynsamir þingmenn innan VG sláist í hópinn og komið verði í veg fyrir að enn einu sinni verði tap einkafyrirtækis þjóðnýtt.


mbl.is Meirihluti vill samþykkja Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilur ekki samhengi

Ef jafn skynsamur maður og Guðbjartur Hannesson sér ekki samhengi hlutanna, er borin von til þess að  flokksformaður hans og forsætisráðherra átti sig á því að staða og afkoma helstu útflutningsgreinar landsmanna, hefur áhrif á allt þjóðfélagið. Ef stoðunum er kippt undan sjávarútvegi hefur það ekki aðeins áhrif á fyrirtæki í sjávarútvegi, heldur á öll byggðarlög landsins, allt frá Reykjavík til Akureyrar, frá Reykjanesbæ til Vestmannaeyja, frá Akranesi til Eskifjarðar. Áhrifin munu seytlast um allt þjóðfélagið. Bifvélaverkstæðið á Eskifirði mun finna fyrir samdrætti, verslun í Vestmannaeyjum mun dragast saman. Opinberir starfsmenn og þá ekki síst á höfuðborgarsvæðinu munu finna fyrir samdrætti  þar sem ríkið þarf að herða sultarólina vegna lækkandi tekna.

Því miður skilur Guðbjartur Hannesson ekki þetta samhengi. Hann skilur ekki að stálsmiðjan sem þjónustar útgerð missir spón úr sínum aski, hann áttar sig ekki á því að verslun sem sér um kostinn um borð í skip verður af tekjum, og þannig má lengi telja.

Þeir sem stóðu í þeirri trú að Guðbjartur Hannesson væri rödd skynseminnar innan ríkisstjórnarinnar hafa orðið fyrir áfalli.


mbl.is Furðar sig á kröfu SA í viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efnt til ófriðar með fimmtung þjóðarinnar að baki

Ýmislegt er hægt að lesa út úr skoðanakönnunum. Könnun Fréttablaðsins á fylgi stjórnmálaflokkanna, sem birt var í síðustu viku, sýnir að enn hefur almenningur ekki tekið flokkana í fulla sátt en það virðist engu skipta í huga Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra sem telur sig hafa fullt umboð til þess að kollvarpa fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Samkvæmt könnun Fréttablaðsins styðja 42,3% ríkisstjórnarflokkana sé miðað við þá sem afstöðu tóku. Þetta er nokkru minna fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn nýtur. Alls styðja liðlega 57% stjórnarandstöðuna . Myndin breytist hins vegar mikið þegar litið er til heildarúrtaksins, því rúm 46% gefa ekki upp stuðning við stjórnmálaflokk. Þá er stuðningur við ríkisstjórnina aðeins 22,8% en nær 31% styðja Sjálfstæðisflokkinn.

Jóhanna Sigurðardóttir telur þetta ekki skipta máli og hefur hent tillögum sáttanefndarinnar, svokölluðu undir forystu Guðbjarts Hannessonar, út í hafsauga. Hún telur rétt að efna til ófriðar um sjávarútveg. Kannski er það vegna þess að Jóhanna finnur hve hratt það flæðir undan ríkisstjórninni, líkt og könnun Fréttablaðsins, bendir til. Árásir á sjávarútveginn eru einnig til þess fallnar að reyna að "þétta" raðir stjórnarliða og breiða yfir ágreiningsmál sem sundra allt frá stefnunni í ríkisfjármálum til aðildar að Evrópusambandinu. 

Það er hreint magnað að ríkisstjórn sem nýtur stuðnings liðlega fimmtungs þjóðarinnar skuli telja sig hafa pólitísk bakland og pólitískt umboð til að halda mikilvægustu atvinnugrein landsmanna í gíslingu og ætla sér að umturna öllu rekstrarumhverfi greinarinnar. Kannski er það vegna þess að talsmenn sjávarútvegsins, hafa ekki haldið vel á sínum spilum á síðustu árum. Ef til vill er skýringanna einnig að leita í málflutningi stjórnarandstöðunnar.

Afleiðingar af stefnu ríkisstjórnarinnar og stöðugra hótana Jóhönnu koma æ betur í ljós. Það þorir enginn að hreyfa sig í sjávarútvegi. Flestar fjárfestingar hafa verið frystar og ekki aðeins í sjávarútvegi, heldur á öðrum sviðum atvinnulífsins.

Morgunblaðið greindi frá því 15. janúar síðastliðinn að mikill óvissa sé að nýtt skip Ísfélags Vestmannaeyja, sem er í smíðum í Chile, komi til landsins.  Skipið er tankaskip þar sem besta mögulega aðstaða verður til að kæla afla í tönkum.Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins sagði í samtali við Morgunblaðið:

"Staða sjávarútvegsins hér á landi og það rekstrarumhverfi sem okkur verður skipað að búa við er í uppnámi og við vitum ekki hvað tekur við. Skipið kemur ekki hingað ef ekki verður grundvöllur fyrir rekstri þess. Við bíðum eftir að heyra hvaða útspil kemur frá ráðamönnum."

Þetta er langt í frá eina dæmið um afleiðingar þeirrar óvissu sem Jóhanna Sigurðardóttir og ríkisstjórn hennar hefur skapað. Því miður vekja fréttir sem þessar litla athygli. 


Wikileaks mótar íslenska lagasetningu

Morgunblaðið hefur það eftir Þór Saari, þingmanni Hreyfingarinnar, að Julian Assange og aðrir fulltrúar Wikileaks hafi verið gestir í skrifstofubyggingu Alþingis þar sem fartölvan, sem hugsanlega var notuð til njósna, fannst. Þar fóru fram fundir um þingsályktunartillögu um að Ísland skapaði sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi verndun tjáningar- og fjölmiðlafrelsis, eins og segir í fréttinni. Orðrétt segir Þór Saari:

"Þeir voru bara þarna sem gestir á fundum. Það var verið að vinna IMMA-þingsályktunartillöguna og þetta voru ekki bara Julian og Wikileaks sem voru þarna heldur líka bandarískur lögfræðingur, hollenskur lögfræðingur, fréttamaður frá BBC og alls konar sérfræðingar í upplýsingamálum. Þetta var flókið mál og legið lengi yfir því hvernig væri hægt að gera þetta."

Það sem vekur athygli er að það skuli teljast eðlilegt að vinna að löggjöf og/eða þingsályktunartillögu í samráði við erlenda aðila, sem eiga mikilla hagsmuna að gæta. Mér er það til efst að forráðamenn Wikileaks hafi átt slík tækifæri annars staðar í heiminum. 

Nú er sem sagt svo komið að það þykir sjálfsagt mál að hleypa erlendum hagsmunaaðilum beint að samningu íslenskra laga og reglna. 

Þingályktunartillagan um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis var lögð fram á Alþingi í febrúar 2010. Fyrsti flutningsmaður var Birgitta Jónsdóttir en meðflutningsmenn voru úr öllum flokkum.Tillagan var samþykkt í júní á liðnu ári með öllum greiddum atkvæðum en einn þingmaður greiddi ekki atkvæði.

Tillagan tók nokkrum breytingum í meðförum þingsins, eins og gengur og gerist. Þannig virðist Wikileaks vera komið með góða fótfestu við íslenska löggjöf.

Þingsályktunartillagan:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verði tryggð.
    Í þessu skyni verði:
    a.      gerð úttekt á lagaumhverfinu svo að hægt sé að afmarka viðfangsefnið og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf,
    b.      litið til löggjafar annarra ríkja með það að markmiði að sameina það besta til að skapa Íslandi sérstöðu á sviði tjáningar- og upplýsingafrelsis,
    c.      kannaðir möguleikar þess að koma á fót fyrstu alþjóðaverðlaununum sem kennd yrðu við Ísland, Íslensku tjáningarfrelsisverðlaununum,
    d.      gerð úttekt á viðbúnaði ríkisins, einkum á sviði öryggismála, vegna starfrækslu alþjóðlegra gagnavera hér á landi,
    e.      haldin alþjóðleg ráðstefna á Íslandi um breytingar á lagasetningu og netnotendaumhverfi með tilkomu gagnavera og hvaða réttarreglur gilda um netið.
    Við starfið verði leitað aðstoðar sérfróðra erlendra aðila.
    Markmiðið verði lýðræðisumbætur þar sem traustum stoðum verði komið undir útgáfustarfsemi og ásýnd landsins í alþjóðasamfélaginu efld.
    Mennta- og menningarmálaráðherra upplýsi Alþingi um framfylgd verkefna innan Stjórnarráðsins skv. 1.–4. mgr. á þriggja mánaða fresti frá samþykkt ályktunarinnar.


Á réttri leið en ekki fagna

Sjálfstæðismenn geta glaðst yfir niðurstöðu skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem leiðir í ljós að liðlega 43% þeirra sem afstöðu taka styðja flokkinn. En það væri rangt og óskynsamlegt að fagna, því enn er mikið verk óunnið.

Aðeins tæp 54% af 800 einstaklingum gefa upp afstöðu sína í könnun Fréttablaðsins. Vegna þessa er mikil óvissa um niðurstöðuna um fylgi stjórnmálaflokkanna. Könnunin bendir til þess að enn er mikil ótrú á stjórnmálaflokkunum. 

Verkefni stjórnmálaflokkanna og þá ekki síst Sjálfstæðisflokksins er að leita skýringa á því af hverju 46 af hverjum 100 kjósendum virðast ekki bera traust til þeirra. 

Tækifærin eru vissulega til staðar fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hvernig væri annað hægt í stjórnarandstöðu með verklausa og sundurlausa ríkisstjórn. En til að nýta tækifærin verða sjálfstæðismenn að tala með skýrum, afgerandi og trúverðugum hætti. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að endurnýja trúnaðarsamband sitt við samtök launþega og við atvinnurekendur. En fyrst og fremst þarf flokkurinn að endurnýja sáttmála við millistéttina og við sjálfstæðu atvinnurekendurna sem hafa lagt allt sitt undir. Slíkur sáttmáli er forsenda nýrrar sóknar flokksins. Á þessa einföldu staðreynd benti ég í pistli 1. desember á liðnu ári og sagði meðal annars:

"Sjálfstæðisflokkurinn gaf Íslendingum ákveðin loforð og flokkurinn verður að viðurkenna í fullkominni hreinskilni, að í hraða nýrrar aldar og í sjálfumgleði velgengninnar, misstu menn á stundum sjónar á því sem mestu skiptir og er rist í steintöflur sjálfstæðisstefnunnar."


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framganga ASÍ-forystunnar er rannsóknarefni

Það kemur Gunnari Braga Sveinssyni, formanni þingflokks Framsóknarflokksins, ekki á óvart að Jóhanna Sigurðardóttir sé óánægð með Samtök atvinnulífsins, sem hafa bent á að forsenda kjarasamninga sé að óvissu um sjávarútveg verði eytt. Gunnar Bragi segir í grein í Morgunblaðinu í dag að forsætisráðherra hafi hvað eftir annað opinberað þekkingarleysi sitt á málefnum sjávarútvegsins. En málflutningur forystumanna ASÍ virðist hafa komið þingflokksformanninum í opna skjöldu. Gunnar Bragi telur það sérstakt rannsóknarefni hvernig Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ og Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, hafa haldið á málum:

"Fyrst vildu þeir kumpánar þröngva vonlausum Icesave-samningum upp á þjóðina. Síðan brugðust þeir skuldugum heimilum og tóku þar sérhagsmuni sína sem forystuafls í lífeyrissjóðnum fram yfir hagsmuni skuldugra heimila. Nú virðast þeir ætla að taka hagsmuni ríkisstjórnarinnar fram yfir hag vélvirkja, smiða, verkafólks, sjómanna, verkfræðinga, rafvirkja, skipstjórnarmanna, tölvunarfræðinga, líffræðinga, netagerðarmanna, tæknifræðinga, bifreiðastjóra, fiskverkafólks, járniðnaðarmanna, vélstjóra, verslunarmanna, rafeindavirkja o.fl. o.fl. með því að tengja ekki lausn á framtíð sjávarútvegsins kjaraviðræðum. Í raun ætti það að vera ASÍ sem setur hnefann í borðið og segir: "Við semjum ekki með sjávarútveginn í óvissu" því mjög margir þeirra sem hér að framan eru taldir og fjöldi annarra fá aurana í launaumslagið frá sjávarútveginum."

Gunnar Bragi bendir á að sú mynd sem forsætisráðherra dregur upp af sjávarútveginum sé röng, óréttlát og óheiðarleg. Verið sé að stunda atkvæðaveiðar í gruggugu vatni:

"Sjávarútvegurinn er fyrst og fremst hátækniiðnaður sem skapar þúsundir starfa fyrir ómenntað og menntað fólk á vinnumarkaði, við rannsóknir, þróun og nýsköpun ásamt því að vera helsta gjaldeyrisöflunartæki þjóðarinnar. Því miður hafa hagsmunasamtök sjávarútvegsins ekki staðið sig, vegna þeirrar röngu ímyndar sem dregin er upp af greininni. Ekki hef ég alltaf skilið Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og stundum undrast nálgun samtaka atvinnulífsins en nú tek ég ofan fyrir þeim fyrir að setja sjávarútveginn í öndvegi. Að sama skapi er mér öllum lokið yfir stöðu Alþýðusambands Íslands sem virðist lítið annað en pólitískt leikfang forseta sambandsins sem bauð sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar 2006 (dró svo framboðið til baka).

Vitanlega verður að ná kjarasamningum og þar getur ríkisvaldið ekki skorast undan ábyrgð. Það er hins vegar eðlilegt að hagsmunum þeirra þúsunda sem vinna við sjávarútveg og þjónusta hann sé haldið á lofti."


Samfylkingin hefur ekki afhent ársreikninga

Eftir allt talið um gegnsæi og alla baráttuna fyrir að opna reikninga stjórnmálaflokkanna hefur Jóhanna Sigurðardóttir ekki enn afhent Ríkisendurskoðun, reikninga Samfylkingarinnar. Hún mun örugglega kenna einhverjum um þetta og tala um mistök. 

Fyrirsögnin á þessari frétt Morgunblaðsins er ekki sú sem hún ætti að vera. Það eru engar sérstakar fréttir að VG skuldi miklar fjárhæðir, þó auðvitað sé það áhyggjumál að flokkur fjármálaráðherra sé háður lánardrottnum. Í prentútgáfu Moggans segir að enn vanti reikninga Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar. Með hliðsjón af sögunni og öllu því sem Jóhanna hefur sagt og sakað aðra stjórnmálaflokka um, ætti fréttin að snúast um þá staðreynd að Samfylkingin hefur ekki skilað sínum reikningum.


mbl.is Skuldir VG miklar eftir 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru þau í Heimsýn?

Átökin innan Vinstri grænna taka á sig margar myndir. Guðmundur Andri Thorsson, samfylkingarpenni, blandaði sér í deilurnar í grein í Fréttablaðinu 10. janúar síðastliðinn. Þar réðist hann á þremenninganna, Ásmund Einar, Lilju og Atla.

Þórarinn Magnússon, bóndi á Frostastöðum, er ekki sérstaklega hrifinn af stílbrögðum Guðmundar Andra. Þórarinn segir að Guðmundi Andra "finnst augljóslega brýnt, eins og ýmsum fleiri mannvitsbrekkum úr fjölmiðlaflóru höfuðborgarinnar að koma höggi á "afdaladrenginn" Ásmund Einar Daðason, alþingismann". Síðan segir Þórarinn:

"Bersýnilega kannast Guðmundur Andri við stílbragð Njáluhöfundar. Hann telur upp meinta samherja Ásmundar Einars og ekki er fríður flokkurinn, maður minn; Jón Valur Jensson, Páll Vilhjálmsson, Styrmir Gunnarsson og Davíð Oddsson!! Steingrímur J. Sigfússon, Árni Þór Sigurðsson, Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir eru hins vegar ekki samherjar Ásmundar Einars. (Skyldu þau vera félagar í Heimssýn?) Ég les það á milli línanna að þau séu hins vegar samherjar Guðmundar Andra Thorssonar enda mun geðþekkari hópur en Jón Valur Jensson og co.

Mér er spurn. Er þetta það sem fylgjendur aðildar Íslands að Evrópusambandinu kalla svo ákaft eftir og nefna "upplýsta umræðu"? eða "að lyfta umræðunni á hærra plan". Ef við viljum temja okkur "rökræður" af þessu tagi getum við sem best haldið áfram og talið upp nokkra liðsmenn Guðmundar Andra Thorssonar. Við gætum t.d. byrjað á því að nafngreina nokkra "útrásarvíkinga" sem ólmir vildu/vilja inn í Evrópusambandið. Nokkrir fyrrverandi bankastjórar myndu ekki óprýða flokkinn né heldur helstu eigendur og aðstandendur Fréttablaðsins. Og svo framvegis."

Hér er fast skotið á Guðmund Andra en ekki síður á Steingrím J. Sigfússon, Árna Þór Sigurðsson, Katrínu Jakobsdóttur og Svandísi Svavarsdóttur, með því að velta upp þeirri spurningu hvort þau séu félagar í Heimsýn. Með stuttri setningu innan sviga, gefur Þórarinn það í skyn að forystumenn Vinstri grænna séu í raun ekki andvíg aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hér er komin ein helsta skýringin á þeim djúpstæðu deilum sem eru innan VG. Almennir félagsmenn um land allt trúa því að forystumenn flokksins séu í raun "laumu"-Evrópusinnar.


mbl.is Átök í VG ekki í rénun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Silkiklæddur kúgunarhanski

Jónína Michaelsdóttir, blaðamaður skrifar stórgóða grein í Fréttablaðið í dag, sem vert er að vekja athygli á. Yfirskriftin er Lýðræði eða ríkisræði. Eins og ætíð er Jónína rökföst og góður talsmaður frjálslyndra viðhorfa.

Jónína varar mjög við hugmyndum sem nú ráða ferðinni við stjórn landsmálanna:

"Vandaður og úthugsaður samfélagsrammi er uppistaða samfélagsins. Allir rata um hann og vita hvað má og hvað ekki. Þegar fólki er treyst fyrir sjálfu sér, eflist athafnalíf og velmegun. Þegar hið opinbera þrengir rammann smátt og smátt, dregur það bæði úr framtakssemi og farsæld. Þegar þeir sem stjórna landinu trúa því í einlægni að það sé almenningi fyrir bestu að hafa ekki of mikið svigrúm, laun eða umsvif, þá er silkiklæddur kúgunarhanski ekki langt undan. Þegar við bætist að stjórnarliðið rær hvert í sína áttina, en alltaf með yfirlæti og sjálfhól á vörum, þá er ekki nema von að almenningur sé ráðvilltur."

Og Jónína segir litla sögu um það hvernig við öll getum orðið samdauna kerfi hafna og ríkisforsjár:

"Fyrir mörgum árum var mér sagt frá virtum manni í viðskiptalífinu, sem fékk leyfi til að kaupa sér bifreið frá útlöndum á þeim tíma sem innflutningur á bifreiðum var ekki leyfður. Ekki fyrir hvern sem var. En þeir sem fengu þessi leyfi gátu sótt um að kaupa nýja bifreið á nokkurra ára fresti. Þegar að því kom að þessi höft voru leyst og allir sem höfðu ráð á því gátu keypt sér bifreið, varð þessi maður mjög áhyggjufullur. Þetta kynni ekki góðri lukku að stýra. Það væri hreint ekki fyrir alla að keyra bíl og hann sá fyrir sér slys og öngþveiti ef þetta færi í gegn. Sá sem sagði mér frá þessu var vinur mannsins. Sagði hann hafa verið heiðarlegan mann og góðgjarnan, en orðinn svo samdauna forræði ríkisins og höftum, að hugsun um opið hagkerfi og sjálfræði einstaklinga hefði hrætt hann og komið honum úr jafnvægi."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband