Framganga ASÍ-forystunnar er rannsóknarefni

Það kemur Gunnari Braga Sveinssyni, formanni þingflokks Framsóknarflokksins, ekki á óvart að Jóhanna Sigurðardóttir sé óánægð með Samtök atvinnulífsins, sem hafa bent á að forsenda kjarasamninga sé að óvissu um sjávarútveg verði eytt. Gunnar Bragi segir í grein í Morgunblaðinu í dag að forsætisráðherra hafi hvað eftir annað opinberað þekkingarleysi sitt á málefnum sjávarútvegsins. En málflutningur forystumanna ASÍ virðist hafa komið þingflokksformanninum í opna skjöldu. Gunnar Bragi telur það sérstakt rannsóknarefni hvernig Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ og Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, hafa haldið á málum:

"Fyrst vildu þeir kumpánar þröngva vonlausum Icesave-samningum upp á þjóðina. Síðan brugðust þeir skuldugum heimilum og tóku þar sérhagsmuni sína sem forystuafls í lífeyrissjóðnum fram yfir hagsmuni skuldugra heimila. Nú virðast þeir ætla að taka hagsmuni ríkisstjórnarinnar fram yfir hag vélvirkja, smiða, verkafólks, sjómanna, verkfræðinga, rafvirkja, skipstjórnarmanna, tölvunarfræðinga, líffræðinga, netagerðarmanna, tæknifræðinga, bifreiðastjóra, fiskverkafólks, járniðnaðarmanna, vélstjóra, verslunarmanna, rafeindavirkja o.fl. o.fl. með því að tengja ekki lausn á framtíð sjávarútvegsins kjaraviðræðum. Í raun ætti það að vera ASÍ sem setur hnefann í borðið og segir: "Við semjum ekki með sjávarútveginn í óvissu" því mjög margir þeirra sem hér að framan eru taldir og fjöldi annarra fá aurana í launaumslagið frá sjávarútveginum."

Gunnar Bragi bendir á að sú mynd sem forsætisráðherra dregur upp af sjávarútveginum sé röng, óréttlát og óheiðarleg. Verið sé að stunda atkvæðaveiðar í gruggugu vatni:

"Sjávarútvegurinn er fyrst og fremst hátækniiðnaður sem skapar þúsundir starfa fyrir ómenntað og menntað fólk á vinnumarkaði, við rannsóknir, þróun og nýsköpun ásamt því að vera helsta gjaldeyrisöflunartæki þjóðarinnar. Því miður hafa hagsmunasamtök sjávarútvegsins ekki staðið sig, vegna þeirrar röngu ímyndar sem dregin er upp af greininni. Ekki hef ég alltaf skilið Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og stundum undrast nálgun samtaka atvinnulífsins en nú tek ég ofan fyrir þeim fyrir að setja sjávarútveginn í öndvegi. Að sama skapi er mér öllum lokið yfir stöðu Alþýðusambands Íslands sem virðist lítið annað en pólitískt leikfang forseta sambandsins sem bauð sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar 2006 (dró svo framboðið til baka).

Vitanlega verður að ná kjarasamningum og þar getur ríkisvaldið ekki skorast undan ábyrgð. Það er hins vegar eðlilegt að hagsmunum þeirra þúsunda sem vinna við sjávarútveg og þjónusta hann sé haldið á lofti."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband