Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011
Óstjórn og spilling í skjóli merkingarlausra orða
Mánudagur, 31. janúar 2011
Sigurður Líndal, lagaprófessor, segir að í skjóli merkingarleysis orða hafi þrifist óstjórn og spilling bæði í stjórnmálum og atvinnulífi og til hennar megi rekja margvíslegan ófarnað.Í grein sem Sigurður skrifar í Fréttablaðið í dag fjallar hann um tískuorð sem einkenna umræðuna, þar á meðal að "auðlindir verði þjóðareign". Hann bendir einnig að að það séu draumórar að halda því fram að rekja megi hrunið 2008 til stjórnarskrárinnar - draumórar til að dylja vandann.
Um "auðlindir verði þjóðareign" skrifar Sigurður meðal annars:
"En um hvað er verið að tala; hvað merkir þetta orð: "þjóðareign"? - Nú eru lendur og lóðir margar í einkaeign, einnig eru víðlend svæði eign ríkis og sveitarfélaga. Auðlindir sem þar er að finna eru eign eigandans, hvort heldur einkaaðila, ríkis eða sveitarfélags. Með veiðireynslu öfluðu menn sér upphaflega veiðiréttinda með námi eða töku á eigendalausum verðmætum - fiski - sem síðar voru nánar afmörkuð með lögum þegar nauðsynlegar reyndist að takmarka sókn í nytjastofnana. Þessi réttindi njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar a.m.k. sem atvinnuréttindi, jafnvel bein eignarréttindi að sumra mati. Þessu hefur aldrei verið andmælt með lagalegum rökum. Orðið þjóðareign í þessu samhengi er þannig merkingarlaust í lögfræðilegum skilningi. Ef nota á það í víðtækari merkingu - eins og Íslendingar "eigi" landið, tunguna og fornbókmenntirnar - er það ónothæft í lagatextum og allri rökræðu."
Sigurður segir að orsakir hrunsins séu margvíslegar en enginn vafi sé á því að merkingarlaus orðræða eigi þar drjúgan þátt og "henni að baki þrífist stjórnarhættir sem bjóða heim óvissu og aðhaldsleysi bæði í landstjórn og lagaframkvæmd".
Sigurður gefur ekki mikið fyrir orð forsætisráðherra um þjóðareign auðlindanna:
"Þegar hugað er að orðum forsætisráðherra um þjóðareign á auðlindunum sem virðist helzta baráttumál hennar, verður ekki annað ályktað en fella eigi hina merkingarlausu orðræðu stjórnmálanna inn í ákvæði stjórnarskrárinnar og síðan fylgi ámóta yfirlýsingar eftir. Með því er verið að veita þessari orðræðu sérstaka vernd, þannig að stjórnmálamenn, hvernig sem þeir eru þenkjandi, geti haldið henni áfram í skjóli stjórnarskrárinnar með þeim afleiðingum sem þegar hefur verið lýst."
Grunni kerfis breytt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:39 | Slóð | Facebook
Samt halda Ögmundur og Lilja áfram
Mánudagur, 31. janúar 2011
Ögmundur Jónasson gefur Jóhönnu Sigurðardóttur, verkstjóra sínum og ríkisstjórnarinnar einkunn: Hana skortir góða dómgrein. Hún er ekki sanngjörn.
En Ögmundur ætlar samt sem áður að halda áfram að starfa undir verkstjórn Jóhönnu eins og ekkert hafi í skorist.
Lilja Mósesdóttir, samherji Ögmundar innan VG, segir í viðtali við Fréttablaðið í dag að hættulegt sé að flokksformenn beiti hótunum til þess að fá þingmenn til fylgis við stefnu ríkisstjórnarinnar:
"Það getur verið mjög hættulegt að ganga að öllu því sem kemur inn á borð þingsins og ekki leyfa ólíkum sjónarmiðum að koma fram. Hvað á ég til dæmis að gera þegar við förum að ræða breytingar á kvótakerfinu? Á ég þá bara að fylgja Jóhönnu? Eigum við þá ekki að ræða málin svo hægt sé að koma í veg fyrir stórslys?"
Lilja gefur Jóhönnu ekki háa einkunn og segir hana vera gamaldags stjórnmálamann, "sem rannsóknarnefnd Alþingis taldi að hefði átt þátt í hruninu".
Ætlar Lilja að gera það sama og Ögmundur? Sitja áfram og starfa undir stjórn "gamaldags" stjórnmálamanns sem beitir hótunum til að ná sínum fram og koma í veg fyrir gagnrýni. Lilja virðist telja að slíkt leiði til ófarnaðar. Á meðan Lilja styður ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur verður hún að taka pólitíska ábyrgð á gerðum hennar.
Skortur á sanngirni og dómgreind | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vindhanar
Fimmtudagur, 27. janúar 2011
Því miður hefur Lýður mikið til síns mál. Staðan er einfaldlega sú að "íhaldið" virðist ætla að samþykkja enn einn Steingríms-samninginn.
Þeir sem standa gegn pólitískum rétttrúnaði munu uppskera þegar til lengri tíma er litið. Þess vegna verður þingflokkur sjálfstæðismanna að hafna rétttrúnaðinum á öllum sviðum. Það kann að vera að flokkurinn tapi einhverju fylgi til skamms tíma en þegar til lengdar lætur munu kjósendur meta þá stjórnmálamenn sem standa fast í sínu. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins ættu einnig að hafa í huga að kjósendur flokksins hafa aldrei stutt vindhana.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.1.2011 kl. 07:10 | Slóð | Facebook
Enn og aftur er allt öðrum að kenna
Fimmtudagur, 27. janúar 2011
Auðvitað er Jóhanna Sigurðardóttir saklaus af öllu. Aðrir bera ábyrgð en aldrei sú sem Jón Baldvin kallaði heilaga. Skiptir engu hvort um er að ræða laun seðlabankastjóra (þar þurfti gamall samherji að axla ábyrgð), skort á upplýsingum um einkavæðingu fyrirtækja (það er Davíð Oddssyni allt að kenna), framkvæmt kosninga til stjórnlagaþings (þar er ÍHALDIÐ sekt), og auðvitað ber Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, ábyrgð á því að þingmönnum var haldið í myrkri þegar grunur var um að njósnað væri um þingheim.
Jón Gunnarsson er ósanngjarn að ætlast til þess að Jóhanna Sigurðardóttir axli ábyrgð á einu eða neinu.
Einu afskiptin snerta stjórnsýsluna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hið illa afl - ÍHALDIÐ
Fimmtudagur, 27. janúar 2011
Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður og kjósandi Samfylkingarinnar, er ekki hrifinn af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Ekki vegna þess að hún sé andstæðingur Jóhönnu, heldur vegna þess að hún telur að Vinstri grænir standi í vegi fyrir öllum framförum. Kolbrún er andstæðingur ríkisstjórnarinnar og hefur því miklar áhyggjur af því að stjórnarflokkarnir skuli eiga sér sameiginlegan óvin sem haldi ríkisstjórninni saman.
Í tilefni af viðbrögðum Jóhönnu Sigurðardóttur við niðurstöðu Hæstaréttar um ólögmæti kosninga til stjórnlagaþings, skrifar Kolbrún í Morgunblaðið:
"Ríkisstjórnin, jafn ósamheldin og hún nú er, hefur fundið sér óvin. Þegar fólk sem kann ekki vel hvað við annað neyðist til að vinna saman er notadrjúg aðferð að finna óvin og kenna honum um allt sem miður fer. Jóhanna er slyng við þetta og er farin að segja orðið ÍHALDIÐ í hvert sinn sem hún kemst í málefnalegt þrot. Ekki er ólíklegt að hún noti orðið líka ótæpilega til að minna Vinstri græna á tilvist hins viðurstyggilega auðvalds í Sjálfstæðisflokknum. Fátt veldur Vinstri grænum jafn mikilli ógleði og tilhugsun um stjórnmálaafl sem styður atvinnuuppbyggingu og einkavæðingu og lítur á fjármagn sem sérlega blessun. Ríkisstjórnarflokkarnir lafa saman vegna ákafrar löngunar til að halda í völd sín og andúðin á sameiginlegum óvini, Sjálfstæðisflokknum, heldur þessu brothætta ríkisstjórnarsamstarfi gangandi."
Um stjórnlagaþingið, skrifar Kolbrún:
"Eftir úrskurð Hæstaréttar síðastliðinn þriðjudag talaði forsætisráðherra fjálglega um ákall þjóðarinnar eftir stjórnlagaþingi. Enginn spurði forsætisráðherra hvaðan það ákall hefði komið. Kannski kom ákallið frá frambjóðendum til stjórnlagaþings en ekki frá þjóðinni sem sagði pass og sat heima á kjördag. Hvernig getur þessi æpandi fjarvera kjósenda hafa farið framhjá forsætisráðherra allan þann tíma sem liðinn er frá þessum mislukkuðu kosningum? En kannski lítur forsætisráðherra svo á að félagshyggjuöflin hafi farið á kjörstað meðan sjálfstæðismenn, andstæðingar lýðræðisins, sátu heima í fýlu. Ef það er raunin hafa sjálfstæðismenn fjölgað sér eins og kanínur á skömmum tíma og fylla nú landið. Eru rúmlega 60 prósent landsmanna."
En Kolbrún er ekki sérstaklega bjartsýn og lýkur pistli sínum á þessum orðum:
"Sennilega verður ekki farið fram á það að ríkisstjórnin horfist í augu við raunveruleikann og viðurkenni að þjóðin hefur ekki áhuga á stjórnlagaþingi. Þjóðin hefur hins vegar áhuga á því að skuldastaða heimilanna verði leiðrétt. En í þeim málum snýr ríkisstjórnin sér undan. Þar segist hún hafa gert allt sem hún geti gert svo til ekki neitt."
Fyrirkomulagið var ekki lýðum ljóst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Seðlabanki á villigötum
Fimmtudagur, 27. janúar 2011
Þrátt fyrir gjaldeyrishöft, samdrátt og gríðarlegt verðfall krónunnar hefur raunstýrivaxtastig Seðlabankans verið 40% hærra eftir hrun fjármálakerfisins en það var að meðaltali síðustu 10 ár fyrir hrun. Á þessa merkilegu staðreynd bendir Agnar Tómas Möller, verkfræðingur og sjóðsstjóri hjá Gamma, í grein sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins.
Þannig er ljóst að peningastefna Seðlabankans undir stjórn Más Guðmundssonar er á villigötum og ekki í neinum tengslum við raunveruleikann. Það er ekki aðeins að ríkisstjórnin vinni skipulega að því að koma í veg fyrir uppbyggingu atvinnulífsins, heldur er Seðlabankinn góður liðsmaður í að vinna gegn fjárfestingum. Allt er í frosti og fyrirtæki berjast í bökkum eða verða gjaldþrota.
Eins og Agnar Tómas bendir á í grein sinni telja flestir hagfræðingar að eðlilegt sé að raunstýrivextir séu lágir þegar samdráttur er í hagkerfi en hærri í þenslu. Frá janúar 2001 til október 2008 voru raunstýrivextir Seðlabankans 2,5%, en 3,4% frá þeim tíma til dagsins í dag. Tólf mánaða raunvextir Seðlabankans eru nú 4,8% eða næstum tvöfalt hærri en þeir voru að meðaltali áratuginn fyrir hrun.
Agnar Tómas bendir á afleiðingarnar:
"Afleiðingarnar hafa meðal annars verið þær að innlendir aðilar, þ.m.t. ríkissjóður og sveitarfélög, hafa frá hruni neyðst til að fjármagna sig á umtalsvert hærri vöxtum en annars hefði verið nauðsynlegt.
Önnur afleiðing hárra raunvaxta sem ómögulegt verður að meta áhrifin af er að í skjóli hárra raunvaxta er í raun loku skotið fyrir fjárfestingu innanlands þar sem fæst fjárfestingaverkefni atvinnulífsins geta staðið undir núverandi raunvaxtastigi."
Er nema von að lítið gerist í atvinnumálum landsmanna. Skattar eru hækkaðir, raunvöxtum er haldið óeðlilega háum og atvinnulífinu er hótað öllu illu af stjórnvöldum. En kannski er þetta allt saman íhaldinu og Davíð Oddssyni að kenna!
978 fyrirtæki gjaldþrota | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Er allt tal um ábyrgð innihaldslaust?
Miðvikudagur, 26. janúar 2011
Þingmaðurinn Jóhanna Sigurðardóttir hefur haldið því fram að nauðsynlegt sé að samfara valdi fylgi ábyrgð. Vegna þessa sé nauðsynlegt að styrkja lög um ráðherraábyrgð. Forsætisráðherrann, Jóhanna Sigurðardóttir telur hins vegar ekki að sá sem valdið hefur þurfi að bera ábyrgð á framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings sem reyndust ólöglegar. Ekki er einu sinni nauðsynlegt að biðjast afsökunar á því sem miður fór, eins og Ólafur Stephensen bendir réttilega á í leiðara Fréttablaðsins.
Jóhanna Sigurðardóttir hefur talað gegn staðreyndum um stjórnlagaþingið eins og bent hefur verið á. Um leið neitar hún að axla pólitíska ábyrgð á því hversu hrapalega tókst til við framkvæmd kosninganna. Varla getur það liðist að landskosningar séu dæmdar ólöglegar án þess að nokkur beri ábyrgð.
Í þessu sambandi er vert að vekja athygli á því sem segir í siðferðiskafla skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis:
"Það er mikilvægur hluti af lýðræðislegum stjórnarháttum að haga ákvörðunum stjórnvalda jafnan þannig að þær standist skoðun og séu teknar í sæmilegri átt við þá sem málið varðar. Frá því sjónarmiði séð krefjast lýðræðislegir stjórnarhættir þess að mál séu faglega undirbúin, ígrunduð og vel kynnt, en ekki bara að verk stjórnmálamanna séu lögð í dóm kjósenda í lok kjörtímabils."
Jóhanna Sigurðardóttir hefur ekki lesið þennan kafla skýrslunnar og hún er einnig búin að gleyma orðum sínum á Alþingi 15. mars 2005. Þá hafði hún framsögu fyrir tillögu til þingsályktunar, sem flutt er af öllum þingmönnum Samfylkingarinnar, um að fram fari heildarendurskoðun á lögum um landsdóm og lögum um ráðherraábyrgð. Þá sagði þingmaðurinn Jóhanna meðal annars:
"Ég vil þá víkja að endurskoðun á lögum um ráðherraábyrgð. Ástæða þess að gerð er tillaga um endurskoðun á lögum um ráðherraábyrgð er sú að telja verður að ýmis ákvæði laganna séu ófullkomin og óskýr og má þá t.d. nefna ákvæði 6. og 7. gr. um ábyrgð ráðherra vegna athafna undirmanna og er rík þörf á að þau verði tekin sérstaklega til skoðunar. Má t.d. benda á að í Danmörku geta ráðherrar orðið ábyrgir vegna athafna undirmanna á grundvelli skorts á eftirliti og leiðbeinandi fyrirmælum. Einnig má nefna að engin ákvæði er að finna varðandi ábyrgð ráðherra ef hann gefur Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða leynir upplýsingum er hafa verulega þýðingu við meðferð máls á Alþingi. Slík ákvæði er t.d. að finna í lögum um ábyrgð ráðherra bæði í Danmörku og Noregi eins og nánar er lýst í greinargerð með tillögunni.
Ljóst er að æðstu embættismenn framkvæmdarvaldsins fara með vandmeðfarið vald og nauðsynlegt er að samhliða slíku valdi fari rík ábyrgð, enda bera ráðherrar ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum samkvæmt lögunum og stjórnarskrá. Því er nauðsynlegt að styrkja lög um ráðherraábyrgð og veita með því ráðherrum nauðsynlegt aðhald, ekki síst þar sem lögin eru óljós núna og matskennd á köflum og inn í þau vantar mikilvægt ákvæði sem t.d. er að finna í norskum og dönskum lögum um ráðherraábyrgð, t.d. að ráðherra er ábyrgur samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð ef hann gefur Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða leynir upplýsingum er hafa verulega þýðingu við meðferð máls á Alþingi. Varla þarf um það að deila að mikilvægt er að hægt sé að treysta upplýsingum sem ráðherrar gefa Alþingi. Það er grundvallaratriði til að styrkja þingræðið í landinu og eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Því er nauðsynlegt að lög um ráðherraábyrgð taki til tilvika eins og þeirra ef ráðherrar veita röng eða villandi svör við fyrirspurnum frá alþingismönnum eða við meðferð mála á Alþingi, svo og gagna og upplýsinga sem ráðherrar eða ráðuneytin gefa Alþingi eða einstökum þingnefndum við umfjöllun stjórnarfrumvarpa eða annarra mála sem fyrir liggja."
Stjórnlagaþing verið þrætuepli flokkanna frá upphafi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lofsvert er að loka kjaft
Miðvikudagur, 26. janúar 2011
Forsíðumynd Morgunblaðsins í dag segir meira en mörg orð. Jóhanna Sigurðardóttir var reið í ræðustól Alþingis í gær. Kannski hún ætti að hafa eftirfarandi vísukorn Bólu-Hjálmars í huga:
Málæði
Lofsvert er að loka kjaft
og lukku þráðbeinn vegur,
en Satan hefur segulkraft,
syndarann að sér dregur.
Og kannski lýsir Bólu-Hjálmar ágætlega líðan landsmanna í þessari vísu:
Kvíði
Langt mér verður þetta vor,
vílmóður þótt kreiki.
Kvíði eg fyrir hungri, hor,
hafís, taugaveiki.
Framkvæmdir í Ofanleiti í biðstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Jóhanna talar gegn staðreyndum
Þriðjudagur, 25. janúar 2011
Jóhanna Sigurðardóttir heldur áfram að fullyrða að "íhaldið" sé á móti því að setja ákvæði um þjóðareign auðlinda í stjórnarskrá. Hún veit betur. Jóhanna hamrar á því að að þjóðin hafi kallað á að sérstakt stjórnlagaþing kæmi saman. Hún veit betur. Aðeins tæp 37% kjósenda tóku þátt í kosningunum sem reyndust ólöglegar og þar af voru margir sem voru á móti slíku þinghaldi.
Þannig talar Jóhanna gegn staðreyndum og ekki í fyrsta skipti. Kannski er réttast að vitna í ræðu Þráins Bertelssonar á Alþingi 8. júní þegar rætt var um stjórnlagaþingið. Þar sagði Þráinn meðal annars, en hann var fjarverandi við lokaafgreiðslu málsins:
"Frú forseti. Inn í þennan þingsal berast raddir, það heyrast köll, það er kallað eftir auknu lýðræði, betra stjórnarfari og það er kallað eftir einhverju sem heitir stjórnlagaþing svo núna er til meðferðar frumvarp til laga um stjórnlagaþing. Vissulega fjallar þetta frumvarp um stjórnlagaþing í þeim skilningi sem leiðtogar stjórnarflokkanna leggja í það orð. Ég efast um að sá skilningur sé réttur, ég held að þetta frumvarp til laga um stjórnlagaþing sé ekki svar við því ákalli sem heyrst hefur og hefur borist inn í þessa sali. Það er kallað eftir auknu lýðræði, það er kallað eftir því að hlustað sé á allar raddir samfélagsins úr öllum hornum þess og afkimum.
Enginn hefur kallað eftir því að kosinn verði 2531 fulltrúi til að gera nokkurn skapaðan hlut. Fólk hefur kallað eftir því að rödd þess megi heyrast. Þess vegna er ég andsnúinn þessu frumvarpi og tala gegn því hérna. Lýðræði er okkur öllum hjartans mál, ég dreg það ekki í efa. Ég efast ekki um að allir þeir sem sitja hér á þingi séu einlægir lýðræðissinnar. En þá vildi ég að þessi lýðræðisást þingmanna birtist í lýðræðislegum vinnubrögðum. Skynsamleg vinnubrögð virðast vera okkur ofviða oft og tíðum, en lýðræðisleg vinnubrögð gætum við þó haft í hávegum. Lýðræðisleg vinnubrögð eru fólgin í því að taka tillit til allra sjónarmiða, að vaða ekki á skítugum skónum yfir þá sem ekki eru sama sinnis. Það er inntak lýðræðisins. Það frumvarp til laga sem hérna liggur frammi er dæmi um það hvernig meiri hluti ætlar að vaða á skítugum skónum yfir minni hluta. Meiri hlutinn er skipaður Samfylkingu og Vinstri grænum. Minni hlutinn samanstendur af Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Hreyfingu og óháðum þingmanni. Það er ekkert tillit tekið til þess að það eru deildar meiningar um þetta frumvarp, það er lagt fram á lokaspretti núna á vorþingi og það á að reyna að rusla því í gegn svo hægt sé að kjósa til stjórnlagaþings í haust."
Íhaldið er skíthrætt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook
Draumur Jóhönnu verður martröð
Þriðjudagur, 25. janúar 2011
Nú liggur fyrir niðurstaða Hæstaréttar. Kosning til stjórnlagaþings var ólögleg. Draumur Jóhönnu Sigurðardóttur er að breytast í martröð.
Ekki veit ég hvort Jóhanna gerir tilraun til að láta kjósa að nýju en þá þarf að breyta lögum eða setja ný. Mér er til efst að fyrir því sé þingmeirihluti. Í umræðum á þingi síðasta sumar, þegar lögin um stjórnlagaþingið voru afgreidd, sýndu þingmenn Vinstri grænna lítinn sem engan áhuga á málefninu. Það var ljóst að þeir höfðu samþykkt ráðgefandi stjórnlagaþing til að halda friðinn innan ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega við Jóhönnu Sigurðardóttur.
Það verður fróðlegt að heyra hvaða spinn Jóhanna ætlar að taka á niðurstöðu Hæstaréttar.
Jóhanna flytur skýrslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |