Hið illa afl - ÍHALDIÐ

Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður og kjósandi Samfylkingarinnar, er ekki hrifinn af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Ekki vegna þess að hún sé andstæðingur Jóhönnu, heldur vegna þess að hún telur að Vinstri grænir standi í vegi fyrir öllum framförum. Kolbrún er andstæðingur ríkisstjórnarinnar og hefur því miklar áhyggjur af því að stjórnarflokkarnir skuli eiga sér sameiginlegan óvin sem haldi ríkisstjórninni saman.

Í tilefni af viðbrögðum Jóhönnu Sigurðardóttur við niðurstöðu Hæstaréttar um ólögmæti kosninga til stjórnlagaþings, skrifar Kolbrún í Morgunblaðið:

"Ríkisstjórnin, jafn ósamheldin og hún nú er, hefur fundið sér óvin. Þegar fólk sem kann ekki vel hvað við annað neyðist til að vinna saman er notadrjúg aðferð að finna óvin og kenna honum um allt sem miður fer. Jóhanna er slyng við þetta og er farin að segja orðið „ÍHALDIГ í hvert sinn sem hún kemst í málefnalegt þrot. Ekki er ólíklegt að hún noti orðið líka ótæpilega til að minna Vinstri græna á tilvist hins viðurstyggilega auðvalds í Sjálfstæðisflokknum. Fátt veldur Vinstri grænum jafn mikilli ógleði og tilhugsun um stjórnmálaafl sem styður atvinnuuppbyggingu og einkavæðingu og lítur á fjármagn sem sérlega blessun. Ríkisstjórnarflokkarnir lafa saman vegna ákafrar löngunar til að halda í völd sín og andúðin á sameiginlegum óvini, Sjálfstæðisflokknum, heldur þessu brothætta ríkisstjórnarsamstarfi gangandi."

Um stjórnlagaþingið, skrifar Kolbrún:

"Eftir úrskurð Hæstaréttar síðastliðinn þriðjudag talaði forsætisráðherra fjálglega um ákall þjóðarinnar eftir stjórnlagaþingi. Enginn spurði forsætisráðherra hvaðan það ákall hefði komið. Kannski kom ákallið frá frambjóðendum til stjórnlagaþings en ekki frá þjóðinni sem sagði pass og sat heima á kjördag. Hvernig getur þessi æpandi fjarvera kjósenda hafa farið framhjá forsætisráðherra allan þann tíma sem liðinn er frá þessum mislukkuðu kosningum? En kannski lítur forsætisráðherra svo á að félagshyggjuöflin hafi farið á kjörstað meðan sjálfstæðismenn, andstæðingar lýðræðisins, sátu heima í fýlu. Ef það er raunin hafa sjálfstæðismenn fjölgað sér eins og kanínur á skömmum tíma og fylla nú landið. Eru rúmlega 60 prósent landsmanna."

En Kolbrún er ekki sérstaklega bjartsýn og lýkur pistli sínum á þessum orðum:

"Sennilega verður ekki farið fram á það að ríkisstjórnin horfist í augu við raunveruleikann og viðurkenni að þjóðin hefur ekki áhuga á stjórnlagaþingi. Þjóðin hefur hins vegar áhuga á því að skuldastaða heimilanna verði leiðrétt. En í þeim málum snýr ríkisstjórnin sér undan. Þar segist hún hafa gert allt sem hún geti gert – svo til ekki neitt."


mbl.is Fyrirkomulagið var ekki lýðum ljóst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband