Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Forystuleysi VG og svik við stefnuna skýrir ósættið
Mánudagur, 3. janúar 2011
Forystuleysi Vinstri grænna í vandasömum ráðuneytum og svikin stefna í Evrópumálum er megin ástæða þess mikla ósættis sem einkennir flokkinn. Gerða þarf gagngera breytingu á þessu, ásamt því að auka veg umhverfismála, eigi flokkurinn að halda styrk til frambúðar. Þetta er mat Hjörleifs Guttormssonar, fyrrverandi ráðherra og félaga í VG. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag heldur Hjörleifur því fram að ekki hafi tekist að halda "lifandi glóðinni í lýðræðislegu og stefnumarkandi flokksstarfi".
Hjörleifur leggur mat á stöðu stjórnmálaflokkanna í eftirleik hrunsins:
"Flokkarnir þrír sem um stjórnvölinn héldu, lengst af Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur og Samfylkingin á lokaspretti, eru eðlilega laskaðir og í sárum eftir það sem gerðist og hafa engan veginn náð að rétta við og verða trúverðugir í augum margra fyrrum stuðningsmanna. Engin viðhlítandi endurskoðun hefur farið fram á stefnu þeirra og starfsháttum og látið hefur verið við það sitja að skipta út nokkrum andlitum og biðja alþjóð óskilgreindrar afsökunar á þætti þeirra í ófarnaði liðinna ára. Afkvæmi þessarar framgöngu flokkanna hafa birst m.a. í nýjum framboðum eins og Borgarahreyfingunni sem gufaði upp og Besta flokknum sem situr uppi með skrekkinn eftir að hafa óvænt fengið fjöldafylgi í höfuðstaðnum. Vinstri grænir sem komu óspjallaðir frá hruninu og gerðust burðarás í ríkisstjórn fyrir tveimur árum, hafa ekki megnað að veita samtímis forystu í vandasömum ráðuneytum og halda lifandi glóðinni í lýðræðislegu og stefnumarkandi flokksstarfi, sem margir höfðu átt hlut að, m.a. í aðdraganda alþingiskosninganna 2007. Það ásamt því að bregðast yfirlýstri stefnu um andstöðu við aðild að Evrópusambandinu er meginástæðan fyrir því ósætti innan VG sem blasað hefur við alþjóð nú í meira en ár. Á hvoru tveggja þarf að verða gagngerð breyting eigi flokkurinn að halda styrk til frambúðar samtímis því að umhverfismálin þurfa að fá meira vægi í stefnumörkun hans en hingað til."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:34 | Slóð | Facebook
Gróa á Efstaleiti
Sunnudagur, 2. janúar 2011
Samkvæmt hefð gerir Vefþjóðviljinn upp gamla árið með sínum hætti. Birtur er listi yfir nokkur þau atriði sem ekki ættu að hverfa með árinu 2010 s.s. pönk ársins, ósanngirni ársins, hjartasorg ársins, skýring ársins, ólestur ársins, stjórnarflokkur ársins og svo mætti lengi telja.
Mér finnst rétt að birta vísu ársins sem er eftir Þórarinn Eldjárn. Vefþjóðviljinn segir að hún þurfi ekki skýringa.
Þegar hún Gróa á Efstaleiti lýgur
er ljósvakinn varla nægur.
Svo orðrómurinn um allar jarðir flýgur.
Svo óhlutdrægur.
Ríkisstjórnin: Borgaraleg gildi og frjáls viðskipti af hinu illa
Sunnudagur, 2. janúar 2011
Brynjar Níelsson, hrl. og formaður Lögmannafélags Íslands heldur því fram að okkur Íslendingum hafi tekist að viðhalda sorginni og reiðinni af mikilli elju á nýliðnu ári. Þetta hafi tekist með hjálp sumra stjórnmálamanna, fjölmiðla og bloggara.
Í hnitmiðuðum áramótapistli í áramótablaði Viðskiptablaðsins segir Brynjar að stjórnvöld hafi af sérstöku lánleysi og flumbrugangi náð að auka enn á reiðina og vonbrigðin með óraunhæfum væntingum:
"Það sem bjargaði þessari þjóð frá algeru hruni er sennilega setning neyðarlaganna 2008 og neitun þjóðarinnar að borga Icesave. Þá skipti máli að ríkissjóður var nánast skuldlaus þegar ósköpin dundu yfir."
Brynjar heldur því fram að það sé mikill misskilningur að aðgerðir sitjandi ríkisstjórnar hafi bjargað einhverju. Að mati hans voru aðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja ómarkvissar, flóknar, dýrar og hafi í raun komið að litlum notum:
"Nýlegt samkomulag við bankana og lífeyrissjóðina breytir engu enda sömdu fjármálafyrirtækin ekki um aðrar afskriftir en þær sem voru óumflýjanlegar. Stjórnvöldum hefur hins vegar tekist að eyða stórfé í tilgangslaus eða ótímabær verkefni eins og þjóðfundi og stjórnlagaþing."
Dómur Brynjars yfir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar er harður og óvæginn og hér verður honum ekki mótmælt:
"Stjórnvöldum hefur tekist með mikilli lagni á þessu ári [2010] að sannfæra almenning um að hefðbundin borgaraleg gildi og frjáls viðskipti sé af hinu illa og hafi orsakað hrunið. Því hefur ríkisstjórnin náð að koma í veg fyrir stórframkvæmdir og erlendar fjárfestingar. Jafnvel fengið almenning til að trúa því að verðmætasköpun framtíðarinnar felist í peningaaustri úr ríkissjóði í listir og menningu."
Ríkisstjórninni mistókst gjörsamlega að innleiða gegnsæi og berjast gegn siðspillingu. Brynjar bendir með réttu á að leyndin hafi aldrei verið meiri og "gegnsæið er helst í pólitískum ráðningum, sem sennilega hafa aldrei verið fleiri".
Brynjar er ekki sérlega bjartsýnn á nýtt ár ef stjórnvöld breyta ekki stefnu sinni í atvinnumálum. Og ekki er bjartara yfir stjórnmálum:
"Persónukjör og endalausar þjóðaratkvæðagreiðslur hafa ekkert með lýðræði að gera eins og margir halda. Slíkt fyrirkomulag myndi leiða í auknum mæli til lýðskrumsræðis og þrýstihóparæðis. Það er ekki það sem þjóðin þarf. Hættum pólitískum nornaveiðum og leyfum réttarkerfinu að vinna úr hrunmálunum eftir leikreglum réttarríkisins. Stjórnmálamenn eiga að leiða þjóðina úr sorginni og reiðinni með bjartsýni og áræðni að vopni. Ólíklegt er að það gerist með núverandi stjórn."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook
Eykon varði hagsmuni Íslendinga
Laugardagur, 1. janúar 2011
Einn af merkari stjórnmálamönnum okkar Íslendinga, á síðari hluta 20 aldarinnar var helsti baráttumaður fyrir hagsmunum okkar á Rockallsvæðinu. Því miður lögðu ekki allir við eyrun þegar Eyjólfur Konráð Jónsson þingmaður lagði fram rök fyrir hagsmunum Íslendinga.
Fáir voru ötulli baráttumenn fyrir að Íslendingar fengju viðurkenningu á nýtingu auðæva á og undir hafsbotni, en Eyjólfur Konráð eða Eykon eins og hann var alltaf kallaður. Baráttan var ekki bundin við 200 mílna lögsöguna. Eykon hóf því baráttu fyrir því að íslensk stjórnvöld gerðu tilkall til réttinda á Rockallsvæðinu meðal annars.
Hér er hægt að nálgast þrjár greinar eftir Eykona sem birtust í Morgunblaðinu á sínum tíma:
og hér
SÞ rannsaka eignarhald á Rockall | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.1.2011 kl. 12:59 | Slóð | Facebook
Gleðilegt ár - áminning frá Reagan
Föstudagur, 31. desember 2010
Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs.
Á nýju ári ættum við að hafa orð Ronalds Reagan að leiðarljósi. Þá farnast okkur Íslendingum betur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.1.2011 kl. 12:02 | Slóð | Facebook
Jóhanna kvartar yfir Davíð - Hacker kvartaði einnig
Föstudagur, 31. desember 2010
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kvartar sáran yfir Davíð Oddssyni - manninum sem hélt hlíðarhendi yfir henni gagnvart Jóni Baldvin Hannibalssyni í Viðeyjarstjórninni.
Það er hreint magnað að forsætisráðherra skuli nýta upphaf áramótagreinar í Morgunblaðinu til þess að hnýta í ritstjórann:
"Þegar ósk barst um að formaður Samfylkingarinnar skrifaði áramótagrein í Morgunblaðið hugleiddi ég að verða ekki við þeirri beiðni, enda eiga rætin og lágkúruleg skrif núverandi ritstjóra blaðsins í garð undirritaðrar vart hliðstæðu í síðari tíma blaðasögu. Ekki kveinka ég mér þó undan réttmætri gagnrýni. En níð á því fádæma lága plani sem oft á tíðum hefur verið í Morgunblaðinu í tíð núverandi ritstjóra er ekki sæmandi fjölmiðli sem vill láta taka sig alvarlega."
Jóhanna taldi rétt að hafa þennan (og raunar nokkru lengri) formála að áramótagreininni.
Jim Hacker kvartaði yfir forvera sínum og fjölmiðlum í hinum mögnuðu þáttum Já forsætisráðherra. Vert að birta þessa þætti í tilefni dagsins.
Álagning ríkisins hefur hækkað um 42 krónur að raunvirði
Föstudagur, 31. desember 2010
Í nóvember 2003 var bensíngjaldið hækkað töluvert og var samtals 42,23 krónur á hvern lítra af blýlausu bensíni. Þar af áttu nær 31 króna að renna til vegagerðar. Að raunvirði (miðað við hækkun vísitölu neysluverðs) ætti sambærileg álagning að nema um 67,5 krónum í dag. Með öðrum orðum: Ríkið hefur aukið álagningu sína um 42 krónur umfram verðlag á hvern keyptan bensínlítra.
Skemmtilegar tölur við áramótin.
Ríkið tekur 110 kr. af lítra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hlýja í garð Ólafs Ragnars Grímssonar
Föstudagur, 31. desember 2010
Viðskiptablaðið bendir á að í leiðurum Morgunblaðsins hafi gætt nokkurrar hlýju í garð Ólafs Ragnars Grímssonar. Af einhverjum ástæðum rataði hluti viðtals við Davíð Oddsson ekki í prentaða útgáfu áramótablaðs Viðskiptablaðsins og er það birt á vef blaðsins í dag.
Davíð hælir Ólafi Ragnari þó stutt sé í gagnrýnina. En framganga forsetans í Icesave-málinu er Davíð að skapi. Hann hafi farið í fjölda viðtala við erlenda fjölmiðla og haldið fram málstað Íslendinga. Jóhanna Sigurðardóttir hafi verið ófær til þess en Steingrímur J. Sigfússon svikist um það.
Mér finnst rétt að birta þennan hluta viðtalsins orðrétt:
Hann [Ólafur Ragnar] auðvitað gat ekki annað en synjað Icesave lögunum eins og þau voru, segir Davíð aðspurður um fyrrgreint atriði.
Þetta var tæpt í þinginu og svo komu 60 þúsund undirskriftir. Hann hafði áður gengið erinda Baugs með helmingi færri undirskriftir þannig að hann gat ekki gert þetta öðruvísi.
Þá segir Davíð að áramótaskaup síðasta árs hafi augljóslega haft mikil áhrif á afstöðu forsetans í málinu. Í skaupinu hafi Bessastöðum verið breytt í dópbæli fyrir útrásarvíkinga og jafnvel þó stærsti hluti skaupsins hafi snúist um þetta hafi ekki einn einasti Íslendingur gert athugasemdir við það. Það sé mjög sláandi.
Ólafur Ragnar er enginn kjáni og hann áttaði sig á stöðunni, segir Davíð.
Og það verður hver að eiga það sem hann á. Forsetinn fór reglulega í viðtöl við erlenda fjölmiðla vegna málsins og gerir enn. Það er rétt að hrósa honum fyrir það. Þetta var auðvitað það sem forystumenn þjóðarinnar hefðu átt að gera en hafa aldrei gert. Það væri ósanngjarnt að segja að Jóhanna hefði svikist um það, hún er bara einfaldlega ófær til þess. Við þurfum að vera hreinskilin með það. Steingrímur er sjálfsagt ekki ófær um það en hann sveikst þó um það. Ólafur Ragnar gerði þetta mjög vel og með öflugum hætti.
Kaffihúsakratar og spunakerlingar
Föstudagur, 31. desember 2010
Það var merkilegt að fylgjast með hvernig spunavél Samfylkingarinnar var sett í gang og látin vinna eftir að þrír þingmenn Vinstri grænna tóku þá ákvörðun að styðja ekki fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Slík hjáseta jafngildir því að setja sig úr lögum við ríkisstjórn.
Samfylkingin kann ágætlega til verka þegar kemur að pólitískum spuna og hefur á stundum tekist ágætlega upp. En í þetta skipti gekk vélin ekki vel. Hugmyndin um að hræða Vinstri græna með því að spinna leka og fréttir um að verið væri að ræða við Framsóknarflokkinn um þátttöku í ríkisstjórninni, virkaði ekki sem skyldi. Þegar spuninn var orðinn ótrúverðugur, kom Jóhanna fram á sviðið og neitaði öllu og það þrátt fyrir að hennar helsti spunameistari, Gísli Baldvinsson, héldi öðru fram. Á bloggsíðu sinni 28. desember sagði Gísli:
"Nú er ég búinn að fá það staðfest úr tveimur áttum að Framsóknarflokki hefði verið boðið nýtt atvinnumálaráðuneyti við lagabreytingu 1. mars n.k."
Gunnar Bragi Sveinsson formaður þingflokks Framsóknarflokksins, kallar Gísla kaffihúsakarl í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag:
"Það kann að vera að kaffihúsakratarnir séu orðnir svo örvinglaðir um að missa völdin að nú skuli lygi, spunakerlingum og bulli beitt til hafa hemil á "hinum óþægu".
"Hinir óþægu" innan Vinstri grænna hafa jafnvel átt meira sameiginlegt með framsóknarmönnum en þeir sem tilheyra forystu þess ágæta stjórnamálaflokks. Nægir þar að nefna málefni heimilanna. Spunakerlingarnar ættu því að velta þeim möguleika fyrir sér að "hinir óþægu" leiti til Framsóknar um samstarf. Um það mætti spinna langan lygavef.
Staðreyndin í þessum dæmalausa spuna er sú að enginn hefur leitað til forystu Framsóknarflokksins um að lappa upp á ríkisstjórnina, hvað þá að heilt ráðuneyti hafi verið boðið."
Gunnar Bragi lýkur grein sinni á eftirfarandi orðum:
"Spunakerlingarnar munu eflaust halda áfram að spinna og fjölmiðlar flytja af því fregnir. En snældan er beitt og þeir sem stinga sig á henni sofa lengi, eins og alþjóð veit."
Vill nýja ríkisstjórn um tiltekin verkefni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins vill stefnuna á sölutorg Samfylkingarinnar
Fimmtudagur, 30. desember 2010
Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, á erfitt með að sætta sig við að mikill meirihluti landsfundarfulltrúa flokksins, skuli hafa lagst gegn umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Skoðanakannanir sýna að þar stigu landsfundarfulltrúar í takt við mikinn meirihluta kjósenda flokksins og raunar meirihluta Íslendinga.
Í einkar sérkennilegum pistli, sem Jórunn skrifar á Eyjuna 28. desember viðurkennir hún að sér hafi verið heitt í hamsi eftir að landsfundur samþykkti tillögu gegn aðildarumsókn. Jórunn tilheyrir minnihlutahópi sem er nokkuð hávær, en nokkrir hafa sagt skilið við Sjálfstæðisflokkinn vegna þessa, þar á meðal séra Þórir Stephensen og Guðbjörn Guðbjörnsson sem vinnur að stofnun stjórnmálaflokks.
Ég geri enga athugasemd við að karlar og konur berjist af ástríðu fyrir hugsjónum sínum og hlaupi kapp í kinn. Það vantar meiri ástríðu og eldmóð í íslensk stjórnmál. En þegar hugsjónir verða undir eiga þeir sem taka þátt í starfi stjórnmálaflokks aðeins um tvo kosti að velja. Þeir geta sætt sig við niðurstöðu meirihlutans og unnið samkvæmt því (jafnvel í þeirri von að árangur náist síðar) eða þeir yfirgefa vettvanginn og leita annars til að vinna hugsjónum sínum fylgis.
Jórunn telur að sjálfstæðismenn eigi að elta Samfylkinguna. Þannig telur hún eðlilegt að Samfylkingin marki brautina og að Sjálfstæðisflokkurinn gangi hina ruddu braut. Jórunn skrifar meðal annars:
"Það er ekki hægt að horfa upp á það, meðan allt er á hraðri niðurleið í þessu landi og alger stöðnun að verða að veruleika að Sjálfstæðismenn og Samfylking geti ekki starfað saman. Samvinna þessara tveggja flokka er að mínu mati það eina sem getur komið hagkerfinu í gang og atvinnulífinu af stað. Núverandi ríkisstjórn er algerlega óhæf til þess og finnst mér málum svo komið að þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar beri hreinlega skylda til þess að slíðra sverðin og vinna saman að þeim brýnu málum sem nú þarf að leysa og það án tafar. Sjálfstæðismenn á alþingi með Bjarna Benediktsson í broddi fylkingar þurfa að vinna áfram að samningi við ESB og leggja frumvarp Unnar Brár til hliðar svo þessir tveir flokkar geti unnið saman."
Þannig telur Jórunn það fullkomlega eðlilegt að sjálfstæðismenn leggi hugsjónir sínar til hliðar - bjóði þær upp á pólitískum uppboðsmarkaði, þar sem Samfylkingin er eini kaupandinn. Stjórnmálamenn sem hugsa á þessum nótum eru hættulegir stjórnmálamenn. Þann dag sem Sjálfstæðisflokkurinn setur grunnhugsjónir sínar á uppboðstorg stjórnmálanna, er dagurinn sem fyrsti naglinn er rekinn í kistu flokksins.
Jórunn heldur því fram að andstaðan við aðild að Evrópusambandinu sé í "hróplegu ósamræmi við stefnu flokksins og hugmyndafræði". Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki hvernig borgarfulltrúinn getur komist að þessari niðurstöðu. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður árið 1929 var fullveldi og sjálfstæði landsins mikilvægasta stefnumálið samhliða því að "vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum". Eftir síðari heimstyrjöldina koma það í hlut Sjálfstæðisflokksins að marka stefnuna í utanríkismálum. Sú stefna hafði það eitt að markmiði; að verja sjálfstæði þjóðarinnar.
Aðild að Evrópusambandinu, með því afsali fullveldis sem felst í aðild, gengur því gegn sögu og stefnu Sjálfstæðisflokksins. Forysta Sjálfstæðisflokksins gegnir því mikilvægu hlutverki og það hlutverk felst ekki í því að gangast undir stefnu Samfylkingarinnar, líkt og Jórunn Frímannsdóttir telur nauðsynlegt. Mikill meirihluti sjálfstæðismanna gerir þá kröfu til forystu flokksins að hún sé trú sögu og stefnu flokksins með sama hætti og gert var í sjálfstæðismálinu og á tímum kalda stríðsins. Þá fór flokkurinn aldrei á sölutorg og bauð stefnu sína til sölu.