Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Atli Gíslason gagnrýnir Steingrím J. og Samfylkinguna harðlega

Atli Gíslason, þingmaður og félagi í órólegu deildinni í Vinstri grænum, er með skýr skilaboð til forystu flokksins: Ég felli mig ekki við flokksræði og ég mun berjast gegn hjarðhegðun. Alti er einnig með skilaboð til Samfylkingarinnar: Framkoma ykkar er ódrengileg og ómálefnaleg.

Í grein sem Atli Gíslason birtir í Morgunblaðinu í dag - sama dag og þingflokkur VG kemur saman - er harðorð gagnrýni á Steingrím J. Sigfússon, formann flokksins, Árna Þór Sigurðsson starfandi þingflokksformann og Björn Val Gíslason varaformann fjárlaganefndar og sérstakan talsmann Steingríms J. Alti sendir forystu Samfylkingarinnar einnig kaldar kveðjur vegna framkomu hennar í garð þremenninganna sem sátu hjá við afgreiðslu fjárlaga.

Atli minnir á niðurstöðu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Skýrsla þingmannanefndarinnar, sem Atli veitti forystu var samþykkt samhljóða á þingi en þar er meðal annars bent á að "eitt einkenni stjórnmálamenningar hér á landi sé að foringjar eða oddvitar flokkanna leiki lykilhlutverk en hinn almenni þingmaður sé atkvæðalítill". Þar sem stjórnsiðir séu slæmir og stjórnkerfið veikt geti sterkir stjórnmálamenn verið varasamir (skot á Steingrím J. Sigfússon?):

"Í foringjaræði verði hlutverk löggjafarþingsins einkum að afgreiða mál sem undirbúin hafa verið í litlum hóp lykilmanna."

Atli dregur í efa að dreginn hafi verið lærdómur af þeirri gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu sem sett hafi verið fram:

"Ég hef um langa hríð innan flokks míns og þingflokks leitast við að koma fram sjónarmiðum gegn ESB umsókninni, gegn einkavæðingu auðlinda, fyrir breyttri efnahagsstefnu o.fl. en sjónarmiðin hafa að mestu fallið í grýttan jarðveg flokksforystunnar. Síðast lagði ég ásamt flokkssystkinum mínum, Ásmundi Einari Daðasyni og Lilju Mósesdóttur, fram ítarlegar hugmyndir og tillögur um breytingu á fjárlögum. Rauði þráðurinn var að verja grunnstoðirnar og koma í veg fyrir aukið atvinnuleysi og brottflutning af landinu. Ég batt vonir við að fá málefnalega umræðu. Þær rættust ekki. Varaformaður fjárlaganefndar taldi þær lítilsvirðingu við störf nefndarinnar og starfandi þingflokksformaður VG kvað upp úr með það í greinargerð að skoðanir okkar væru ódrengilegar."

Hér skýtur Atli föstum skotum á félaga sína í þingflokki Vinstri grænna. En hann lætur ekki þar við sitja heldur snýr sér að samstarfsflokknum. Hann bendir réttilega á að forystumenn Samfylkingarinnar (Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson) hafi kallað þingmenn VG ketti, Lilju Mósesdóttur hryssu, Ásmund Einar Daðason og Atla folöld hennar. Ágreiningurinn hefur verið persónugerður, segir Atli og þau þremenningar gerð tortryggileg:

"Hvað skyldi koma næst úr dýraríki þessarar umræðu? Eigum við að tala um nöðrur, amöbur og kamelljón? Ég tek ekki þátt í því. Ég tek heldur ekki þátt í því að leggja illt til ráðherra Samfylkingarinnar. Að sama skapi frábið ég mér ómálefnalega og persónulega gagnrýni liðsmanna Samfylkingarinnar á Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Hefjum íslenska stjórnmálamenningu til virðingar og forðumst þá hjarðhegðun sem varð okkur svo dýrkeypt fyrir hrunið."

Það er enginn sáttatónn í skrifum Atla og ljóst að honum er stórlega misboðið. Ekki verður séð hvernig Atli Gíslason og félagar í órólegu deildinni geta tekið höndum saman við aðra í þingliði Vinstri grænna, án þess að komið verði til móts við sjónarmið þeirra. Og harla er það ólíklegt að Atli og félagar séu það geðlausir að sitja áfram og styðja Jóhönnu og Össur, án formlegrar afsökunar þeirra samhliða loforði um breytt vinnubrögð.


mbl.is Pirringurinn eykst innan VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað gilda engin lögmál hér á landi

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra telur að allt önnur lögmál gildi hér á landi en í öllum öðrum löndum heims. Þannig sé Ísland eyland.

Eftir því sem ríkið fer dýpra í vasa skattgreiðenda því meiri  peningum verja þeir í neyslu. Samkvæmt þessu lögmáli fjármálaráðherra ætti hann að hækka skatta hressilega til að koma einkaneyslu af stað - gefa henni vítamínssprautu. Því hærri skattar því meiri einkaneysla, samkvæmt röksemdum fjármálaráðherra.

Þetta minnir dálítið á þegar Steingrímur Hermannsson hélt því fram að almenn lögmál efnahagslífsins giltu ekki hér á landi. Þetta var á þeim árum þegar óðaverðbólga ríkti hér á landi og við buðum Grænhöfðaeyjum sérstaka ráðgjöf í efnahagsmálum.

Þá var spurt og nú er spurt: Er annað þyngdarlögmál á Íslandi en í öðrum löndum?


mbl.is „Óverulegar skattahækkanir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Órólega deildin í Framsókn

Því miður er staðan þannig að þingflokkur Framsóknarflokksins gengur ekki í takt. Færa má rök fyrir því að líkt og innan þingflokks Vinstri grænna, sé óróleg deild í þingliði Framsóknar. Siv Friðleifsdóttir tilheyrir hinum órólegu sem hafa aldrei sætt sig við Sigmund Davíð sem formann.

Með yfirlýsingu sinni á Rás 2 gengur Siv hart fram gegn formanninum en í áramótagrein í Morgunblaðinu sagði Sigmundur Davíð meðal annars:

"Augljóst er að hin stóru vandamál sem við blasa verða ekki leyst nema með traustri landsstjórn og góðri samstöðu um meginverkefnin. Hvorugt er til staðar.

Daglega berast fréttir af deilum stjórnarliða og efasemdir heyrast frá þeim sjálfum um hvort ríkisstjórnin hafa í raun meirihlutastuðning. Ringulreið og lausatök við stjórn landsins skapa óvissu og óöryggi innanlands og álitsbrest erlendis. Við þetta ástand er ekki hægt að búa.

Margt gott er að finna í öllum flokkum m.a. þeim flokkum sem mynda núverandi ríkisstjórn. Það þarf bara að skapa þær aðstæður sem laða fram það besta í öllum. Því legg ég til við forystumenn annarra flokka að við hittumst hið bráðasta og freistum þess að ná saman um meginverkefni og myndum nýja ríkisstjórn um tiltekin verkefni til ákveðins tíma en boðum til kosninga að þeim tíma liðnum.

Hef ég þar helst í huga þjóðstjórn, þó ég útloki ekki aðra möguleika fyrirfram."

Það hefur lengi legið ljóst fyrir að samstaða er lítil innan þingflokks Framsóknarflokksins, sem kann að skýra það af hverju fylgi flokksins hefur ekki aukist, þrátt fyrir góðan málflutning formannsins. Siv metur stöðuna þannig í upphafi ársins, að nú sé tækifæri til að ganga gegn formanninum opinberlega. Staðreyndin er sú að Siv og Guðmundur Steingrímsson eiga mun meiri samleið með Samfylkingunni en öðrum framsóknarmönnum.


mbl.is Ekki hrifin af þjóðstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sæll félagi!!

Fékk þetta myndband sent og gat ekki staðist freistinguna að setja þar hér inn.


Þetta snýst um líf ríkisstjórnarinnar

Steingrímur J. Sigfússon formaður VG á tvo kosti og hvorugan góðan. Hann getur annars vegar haldið áfram og stutt yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum eða hins vegar breytt um stefnu og krafist þess að umsóknin að Evrópusambandinu verði dregin til baka.

Velji Steingrímur fyrri kostinn er vandséð hvernig komist verður hjá klofningi meðal vinstri grænna. Andstaðan við aðild er svo djúpstæð meðal fylgismanna VG, áhrifamanna innan flokksins og einstakra þingmanna, að hún verður aldrei gefin eftir. Friður verður aldrei innan VG haldi ríkisstjórnin óbreyttri stefnu. Það er því rétt sem Hjörleifur Guttormsson hefur haldið fram að forsenda þess að vinstri grænir haldi styrk sínum til frambúðar er að flokkurinn standi við stefnu sína í Evrópumálum.

Ef Steingrímur velur síðari kostinn á Jóhanna Sigurðardóttir ekki um annað að velja en að slíta samstarfinu við vinstri græna. Hún og Samfylkingin í heild, hafa sett of mikið undir í Evrópumálunum til að kyngja því að breytt verði um stefnu. Ekki verður séð að hægt sé að mynda aðra ríkisstjórn og því verða kosningar óhjákvæmilegar. Fyrsta hreina vinstri stjórnin leggur þar með upp laupana.

Steingrímur glímir því við það sem á enska tungu er kallað catch-22. Hann er í pólitískri sjálfheldu.


mbl.is Átökin mest um ESB-stefnu VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brussel í stað Kaupmannahafnar? - Brot úr ræðu Bjarna Ben

Þeir sem harðast berjast fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa reynt að halda því fram að andstaða Sjálfstæðisflokksins gangi í berhögg við sögu og grunnhugsjónir flokksins. Jafnvel meðal kjörinna fulltrúa flokksins virðist þetta viðhorf vera ríkjandi, eins og ég benti á fyrir skömmu

Ég rakst á ræðu sem Bjarni Benediktsson, hélt í júní árið 1943 á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þar gerði hann stöðu sjálfstæðismálsins að umtalsefni. Mér finnst rétt að birta brot úr ræðunni:

 "Mundi sá bóndi telja sig að fullu frjálsan, sem að vísu mætti ákveða sjálfum sér og heimafólki sínu reglur til að fara eftir, en þyrfti þó að leita samþykkis óðalsbónda á fjarlægri jörð til þess að fyrirmælin hefðu nokkra þýðingu? Ef hann mætti ekki hafa skipti við nágranna sína nema fyrir milligöngu óðalsbóndans eða öllu heldur vinnumanna hans, yrði að hafa einhvern þessara vinnumanna með í förinni, ef hann skryppi í kaupstað, og engin þessara viðskipta hefði lögformlegt gildi, nema óðalsbóndinn samþykkti? Ef hann að vísu mætti hafa eigin hund til að reka úr túninu, en hefði þó, til þess að víst væri, að fjárreksturinn færi fram eftir öllum listarinnar reglum, jafnframt sérstaklega vaninn hund frá óðalsbóndanum til túngæzlunnar? Og mundi bóndinn telja þann eignarrétt á jörð sinni mikils virði, sem því skilyrði væri háður, að þrjátíu menn aðrir mættu hafa af henni öll hin sömu not og sjálfur hann?

Slíku frelsi mundi enginn íslenzkur bóndi una til lengdar. Auðvitað þættu honum þessi kjör betri en alger ánauð, en honum mundi þykja það furðulegt, ef honum væri sagt, að nú væri frelsisbaráttu hans lokið. Og honum mundi þykja það óþörf spurning, ef hann væri að því spurður, hvort hann vildi nú ekki una þessum kjörum sínum enn um sinn, þegar sá tími væri kominn, að hann ætti rétt á algeru frelsi.

En aðstaða íslenzku þjóðarinnar er eftir sambandslögunum einmitt hin sama og bónda þess, sem nú var lýst.

Íslendingar mega að vísu setja sér lög en þau hafa ekki stjórnskipulegt gildi, nema konungurinn í Kaupmannahöfn samþykki þau. Íslendingar fara ekki sjálfir með utanríkismál sín og mega enga samninga gera við önnur ríki, nema í samráði við eða fyrir atbeina danska utanríkisráðuneytisins og konungurinn í Kaupmannahöfn verður að samþykkja þá, til þess að þeir hafi nokkurt gildi. Íslendingum er að vísu heimilt að hafa eigin varðskip til gæzlu landhelgi sinnar, en þeim eru jafnframt til frekara öryggis fengin dönsk skip til gæzlunnar. Íslendingar eiga að vísu sjálfir land sitt, en þeir eru skyldir til að þola þrjátíu sinnum mannfleiri þjóð, Dönum, öll hin sömu not af landinu og þeir sjálfir hafa. Ætla mætti að ekki þyrfti að hvetja neinn Íslending til að una slíku frelsi degi lengur en hann er skyldur til samkvæmt ströngustu lögum."

Varla þarf að deila um hvaða afstöðu Bjarni Benediktsson hefði tekið til hugsanlegrar aðildar að Evrópusambandinu. Hann hefði örugglega bent á að sjálfstæðisbarátta okkar Íslendinga hefði ekki falist í því að færa valdið frá Kaupmannahöfn til Brussel.


Þöggun fjölmiðla um gagnrýni Hjörleifs á forystu VG

Ég ætla að fullyrða eftirfarandi: Ef fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins kæmi fram á ritvöllinn og sakaði sinn gamla flokk um að hafa svikið stefnuna, hefðu allir fjölmiðlar slegið því upp sem frétt. Ef gamall refur og áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum fullyrti á opinberum vettvangi að forystuleysi væri vandamál og að ekki hafi tekist að halda uppi lýðræðislegu starfi innan flokksins, hefði allt logað í fjölmiðlum. Fréttastofa ríkisins hefði talið nauðsynlegt að kalla á hvern álitsgjafann á fætur öðrum, til að "varpa ljósi" á málið. Ef fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins hefði skrifað háðsádeilu á flokkinn og gert grín að varaformanni og öðrum trúnaðarmönnum hefðu allir fjölmiðlar tekið við sér og bloggheimar logað.

Ekkert af þessu hefur gerst þó Hjörleifur Guttormsson fyrrverandi ráðherra og áhrifamaður innan Vinstri grænna hafi á skömmum tíma skrifað tvær greinar þar sem forysta flokksins er harðlega gagnrýnd. Í fyrri greininni dregur Hjörleifur forystuna sundur og saman í háði og spotti. En fjölmiðlar þögðu. Síðari greinin birtist síðan í Morgunblaðinu í dag, eins og ég hef þegar bent á. 

Í greininni fyrir jól sagði Hjörleifur meðal annars:

"Nú hélt maður að eftir þrautir og vökunætur myndi þingflokkur VG fara til síns heima og láta kyrrt um sinn og sjá til hvort ekki rjátlaðist af mönnum ólundin uns aftur verði hringt bjöllum við Austurvöll. En þar misreiknuðu menn sig, því að fjórða valdið, fjölmiðlarnir okkar, gáfu sem oftar engin grið. Á fjórða sunnudegi í aðventu var varalið VG kallað fram á völlinn: Varaformaðurinn Katrín, varaformaður fjárlaganefndar Björn Valur og varaformaður þingflokks Árni Þór, öll á einni og sömu kvöldvaktinni hjá RÚV. Og þá fyrst varð landslýð ljóst í hversu bráðri hættu landsstjórnin er stödd vegna vélabragða þremenningaklíkunnar."

Síðar sagði Hjörleifur:

"Eftir á að koma í ljós hvort nokkrum detti í hug yfir hátíðarnar gömul sögn um flísina og bjálkann. Á meðan bíðum við hin í söfnuðinum eftir að þremenningaklíkan sýni umbeðin iðrunarmerki og allt falli í ljúfa löð."

Í dag gagnrýnir Hjörleifur forystuleysi VG í vandasömum ráðuneytum og að ekki hafi tekist að halda "lifandi glóðinni" í lýðræðislegu flokksstarfi. Hvorki meira né minna. Jafnframt heldur Hjörleifur því fram að flokkurinn hafi svikið stefnu flokksins í Evrópumálum.

Um það verður ekki deilt að Hjörleifur Guttormsson er áhrifamaður innan Vinstri grænna og gamall refur í pólitík. En fjölmiðlar þegja þunnu hljóði.


Forystuleysi VG og svik við stefnuna skýrir ósættið

Forystuleysi Vinstri grænna í vandasömum ráðuneytum og svikin stefna í Evrópumálum er megin ástæða þess mikla ósættis sem einkennir flokkinn. Gerða þarf gagngera breytingu á þessu, ásamt því að auka veg umhverfismála, eigi flokkurinn að halda styrk til frambúðar. Þetta er mat Hjörleifs Guttormssonar, fyrrverandi ráðherra og félaga í VG. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag heldur Hjörleifur því fram að ekki hafi tekist að halda "lifandi glóðinni í lýðræðislegu og stefnumarkandi flokksstarfi". 

Hjörleifur leggur mat á stöðu stjórnmálaflokkanna í eftirleik hrunsins:

"Flokkarnir þrír sem um stjórnvölinn héldu, lengst af Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur og Samfylkingin á lokaspretti, eru eðlilega laskaðir og í sárum eftir það sem gerðist og hafa engan veginn náð að rétta við og verða trúverðugir í augum margra fyrrum stuðningsmanna. Engin viðhlítandi endurskoðun hefur farið fram á stefnu þeirra og starfsháttum og látið hefur verið við það sitja að skipta út nokkrum andlitum og biðja alþjóð óskilgreindrar afsökunar á þætti þeirra í ófarnaði liðinna ára. Afkvæmi þessarar framgöngu flokkanna hafa birst m.a. í nýjum framboðum eins og Borgarahreyfingunni sem gufaði upp og Besta flokknum sem situr uppi með skrekkinn eftir að hafa óvænt fengið fjöldafylgi í höfuðstaðnum. Vinstri grænir sem komu óspjallaðir frá hruninu og gerðust burðarás í ríkisstjórn fyrir tveimur árum, hafa ekki megnað að veita samtímis forystu í vandasömum ráðuneytum og halda lifandi glóðinni í lýðræðislegu og stefnumarkandi flokksstarfi, sem margir höfðu átt hlut að, m.a. í aðdraganda alþingiskosninganna 2007. Það ásamt því að bregðast yfirlýstri stefnu um andstöðu við aðild að Evrópusambandinu er meginástæðan fyrir því ósætti innan VG sem blasað hefur við alþjóð nú í meira en ár. Á hvoru tveggja þarf að verða gagngerð breyting eigi flokkurinn að halda styrk til frambúðar samtímis því að umhverfismálin þurfa að fá meira vægi í stefnumörkun hans en hingað til."


Gróa á Efstaleiti

Samkvæmt hefð gerir Vefþjóðviljinn upp gamla árið með sínum hætti. Birtur er listi yfir nokkur þau atriði sem ekki ættu að hverfa með árinu 2010 s.s. pönk ársins, ósanngirni ársins, hjartasorg ársins, skýring ársins, ólestur ársins, stjórnarflokkur ársins og svo mætti lengi telja.

Mér finnst rétt að birta vísu ársins sem er eftir Þórarinn Eldjárn. Vefþjóðviljinn segir að hún þurfi ekki skýringa.

Þegar hún Gróa á Efstaleiti lýgur
er ljósvakinn varla nægur.
Svo orðrómurinn um allar jarðir flýgur.
Svo óhlutdrægur.


Ríkisstjórnin: Borgaraleg gildi og frjáls viðskipti af hinu illa

Brynjar Níelsson, hrl. og formaður Lögmannafélags Íslands heldur því fram að okkur Íslendingum hafi tekist að viðhalda sorginni og reiðinni af mikilli elju á nýliðnu ári. Þetta hafi tekist með hjálp sumra stjórnmálamanna, fjölmiðla og bloggara.

Í hnitmiðuðum áramótapistli í áramótablaði Viðskiptablaðsins segir Brynjar að stjórnvöld hafi af sérstöku lánleysi og flumbrugangi náð að auka enn á reiðina og vonbrigðin með óraunhæfum væntingum:

"Það sem bjargaði þessari þjóð frá algeru hruni er sennilega setning neyðarlaganna 2008 og neitun þjóðarinnar að borga Icesave. Þá skipti máli að ríkissjóður var nánast skuldlaus þegar ósköpin dundu yfir."

Brynjar heldur því fram að það sé mikill misskilningur að aðgerðir sitjandi ríkisstjórnar hafi bjargað einhverju. Að mati hans voru aðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja ómarkvissar, flóknar, dýrar og hafi í raun komið að litlum notum:

"Nýlegt samkomulag við bankana og lífeyrissjóðina breytir engu enda sömdu fjármálafyrirtækin ekki um aðrar afskriftir en þær sem voru óumflýjanlegar. Stjórnvöldum hefur hins vegar tekist að eyða stórfé í tilgangslaus eða ótímabær verkefni eins og þjóðfundi og stjórnlagaþing."

Dómur Brynjars yfir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar er harður og óvæginn og hér verður honum ekki mótmælt:

"Stjórnvöldum hefur tekist með mikilli lagni á þessu ári [2010] að sannfæra almenning um að hefðbundin borgaraleg gildi og frjáls viðskipti sé af hinu illa og hafi orsakað hrunið. Því hefur ríkisstjórnin náð að koma í veg fyrir stórframkvæmdir og erlendar fjárfestingar. Jafnvel fengið almenning til að trúa því að verðmætasköpun framtíðarinnar felist í peningaaustri úr ríkissjóði í listir og menningu."

Ríkisstjórninni mistókst gjörsamlega að innleiða gegnsæi og berjast gegn siðspillingu. Brynjar bendir með réttu á að leyndin hafi aldrei verið meiri og "gegnsæið er helst í pólitískum ráðningum, sem sennilega hafa aldrei verið fleiri". 

Brynjar er ekki sérlega bjartsýnn á nýtt ár ef stjórnvöld breyta ekki stefnu sinni í atvinnumálum. Og ekki er bjartara yfir stjórnmálum:

"Persónukjör og endalausar þjóðaratkvæðagreiðslur hafa ekkert með lýðræði að gera eins og margir halda. Slíkt fyrirkomulag myndi leiða í auknum mæli til lýðskrumsræðis og þrýstihóparæðis. Það er ekki það sem þjóðin þarf. Hættum pólitískum nornaveiðum og leyfum réttarkerfinu að vinna úr hrunmálunum eftir leikreglum réttarríkisins. Stjórnmálamenn eiga að leiða þjóðina úr sorginni og reiðinni með bjartsýni og áræðni að vopni. Ólíklegt er að það gerist með núverandi stjórn."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband