Brussel í stað Kaupmannahafnar? - Brot úr ræðu Bjarna Ben

Þeir sem harðast berjast fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa reynt að halda því fram að andstaða Sjálfstæðisflokksins gangi í berhögg við sögu og grunnhugsjónir flokksins. Jafnvel meðal kjörinna fulltrúa flokksins virðist þetta viðhorf vera ríkjandi, eins og ég benti á fyrir skömmu

Ég rakst á ræðu sem Bjarni Benediktsson, hélt í júní árið 1943 á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þar gerði hann stöðu sjálfstæðismálsins að umtalsefni. Mér finnst rétt að birta brot úr ræðunni:

 "Mundi sá bóndi telja sig að fullu frjálsan, sem að vísu mætti ákveða sjálfum sér og heimafólki sínu reglur til að fara eftir, en þyrfti þó að leita samþykkis óðalsbónda á fjarlægri jörð til þess að fyrirmælin hefðu nokkra þýðingu? Ef hann mætti ekki hafa skipti við nágranna sína nema fyrir milligöngu óðalsbóndans eða öllu heldur vinnumanna hans, yrði að hafa einhvern þessara vinnumanna með í förinni, ef hann skryppi í kaupstað, og engin þessara viðskipta hefði lögformlegt gildi, nema óðalsbóndinn samþykkti? Ef hann að vísu mætti hafa eigin hund til að reka úr túninu, en hefði þó, til þess að víst væri, að fjárreksturinn færi fram eftir öllum listarinnar reglum, jafnframt sérstaklega vaninn hund frá óðalsbóndanum til túngæzlunnar? Og mundi bóndinn telja þann eignarrétt á jörð sinni mikils virði, sem því skilyrði væri háður, að þrjátíu menn aðrir mættu hafa af henni öll hin sömu not og sjálfur hann?

Slíku frelsi mundi enginn íslenzkur bóndi una til lengdar. Auðvitað þættu honum þessi kjör betri en alger ánauð, en honum mundi þykja það furðulegt, ef honum væri sagt, að nú væri frelsisbaráttu hans lokið. Og honum mundi þykja það óþörf spurning, ef hann væri að því spurður, hvort hann vildi nú ekki una þessum kjörum sínum enn um sinn, þegar sá tími væri kominn, að hann ætti rétt á algeru frelsi.

En aðstaða íslenzku þjóðarinnar er eftir sambandslögunum einmitt hin sama og bónda þess, sem nú var lýst.

Íslendingar mega að vísu setja sér lög en þau hafa ekki stjórnskipulegt gildi, nema konungurinn í Kaupmannahöfn samþykki þau. Íslendingar fara ekki sjálfir með utanríkismál sín og mega enga samninga gera við önnur ríki, nema í samráði við eða fyrir atbeina danska utanríkisráðuneytisins og konungurinn í Kaupmannahöfn verður að samþykkja þá, til þess að þeir hafi nokkurt gildi. Íslendingum er að vísu heimilt að hafa eigin varðskip til gæzlu landhelgi sinnar, en þeim eru jafnframt til frekara öryggis fengin dönsk skip til gæzlunnar. Íslendingar eiga að vísu sjálfir land sitt, en þeir eru skyldir til að þola þrjátíu sinnum mannfleiri þjóð, Dönum, öll hin sömu not af landinu og þeir sjálfir hafa. Ætla mætti að ekki þyrfti að hvetja neinn Íslending til að una slíku frelsi degi lengur en hann er skyldur til samkvæmt ströngustu lögum."

Varla þarf að deila um hvaða afstöðu Bjarni Benediktsson hefði tekið til hugsanlegrar aðildar að Evrópusambandinu. Hann hefði örugglega bent á að sjálfstæðisbarátta okkar Íslendinga hefði ekki falist í því að færa valdið frá Kaupmannahöfn til Brussel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband