Ágreiningurinn ekki brúaður

Staðan í þingflokki Vinstri grænna er furðuleg. Ásmundur Einar Daðason gerir sér vonir um að niðurstaða fáist í Evrópusambandsmálin. Lilja Mósesdóttir segist taka einn dag í einu í pólitíkinni og Atli Gíslason þegir bæði á íslensku og á latínu.

Eitt er ljóst. Það tókst ekki að brúa þann djúpstæða ágreining sem er innan þingliðs VG, þrátt fyrir "opnar" og "hreinskiptar" umræður. Árni Þór Sigurðsson starfandi þingflokksformaður hefur ekki dregið orð sín til baka um ódrengskap þremenninganna. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra telur að Ásmundur Einar, Lilja og Atli séu ekki í þingliði ríkisstjórnarinnar - séu kettir sem ekki sé hægt að smala. Gagnrýni Atla Gíslasonar í Morgunblaðsgrein í gær, stendur óhögguð enda hefur ekkert breyst.

En strax eftir að þingflokksfundi VG lauk í gær voru skeytasendingar byrjaðar. Össur Skarphéðinsson sagði að loftið hefði verið hreinsað en gat ekki setið á sér með því að hnýta í Ásmund Einar. Utanríkisráðherra segir þingmanninn misskilja Evrópusambandsferlið. Talsmenn og verjendur Samfylkingarinnar og ríkisstjórnarinnar í blokkheimum voru fljótir.

Páll Blöndal sagði ljóst að VG styddi ríkisstjórnina en bætti við:

"Tilvistarkreppa og athyglisþörf örfárra breytir engu þegar á hólminn er komið."

Jón Ingi Cæsarsson er ekki sammála um hreinsun loftsins. Það sé sama fýlan og fyrr:

"Það sem streymdi frá Framsóknarskotna VG istanum úr Dölunum var sama forneskjan og sama virðingarleysið við stjórnarsáttmálann og samstarfsflokkinn.

Gamla 78 snúninga glerplatan snérist á fóninum hjá sauðfjárbóndanum og hin tvö voru vafalaust í slíkri heilsulausri fýlu að þau gáfu ekki kost á viðtali. Það er að vísu sannarlega nýtt því þau hafa bæði verið illa haldin af athyglisýki þegar fjölmiðar eru annarsvegar."

Evrópusamtökin tóku þegar til máls á bloggsíðu sinni eftir Kastljós og beindu spjótum sínum að Ásmundi Einari:

"Það var greinilegt á viðtali í Kastljósi nú í kvöld að foringi Nei-sinna, Ásmundur Einar Daðason, hafði ekki náð sínu fram á fundi VG í dag."

Fer lítið fyrir frétt

Mér finnst merkilegt hve litla athygli frétt DV um þingflokksfund VG hefur fengið. Hægt er að fullyrða að meira kjöt hafi verið á beinunum í frétt Jóhanns Haukssonar á dv.is en hjá öðrum fjölmiðlum. Þar sagði meðal annars:

"Bókun, sem stjórn þinflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lagði fram um stuðning þingflokksins við ríkisstjórnina og stefnumál hennar, hlaut ekki stuðning þriggja þingmanna VG á löngum fundi þingflokksins í dag. Tillagan var því dregin til baka af stjórn þingflokksins, en hana skipa auk Árna Þórs Sigurðssonar þingflokksformanns þær Þuríður Backman og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Samkvæmt heimildum DV voru það Ásmundur Einar Daðason, Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason sem ekki treystu sér til þess að greiða atkvæði með bókuninni um stuðning við stefnu ríkisstjórnarinnar, en hún tekur til margvíslegra málaflokka, svo sem efnahagsmála, atvinnumála, Evrópumála og mála sem snerta auðlindir og fiskveiðar. Ljóst er því að 12 af 15 þingmönnum VG styðja ríkisstjórnina og stefnu hennar en þremenningarnir eru aðeins reiðubúnir til þess að verja ríkisstjórnina vantrausti."

Frétt DV hefur ekki verið borin til baka og engin ástæð er til annars en að ganga út frá sannleiksgildi hennar.


mbl.is Umræðunni ekki lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband