Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Jóhanna í frjálsu falli

johanna-graf.jpgÞað kemur á óvart að stuðningur við ríkisstjórnina skuli aukast á milli mánaða en ljóst er að stjórnarandstaðan er ekki að ná vopnum sínum. En annað sem er merkilegt er hve fall Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra er hátt.

Þegar Jóhann settist í stól forsætisráðherra í febrúar 2009 voru yfir 65% kjósenda ánægð með störf hennar. Nú 22 mánuðum síðar eru aðeins 21% ánægð. Þetta segir meira en mörg orð um gjörbreytta stöðu Jóhönnu. Hún hefur misst traust almennings í störfum sínum. Jóhanna hlýtur að skoða stöðu sína alvarlega.

Hitt er svo ljóst að niðurstöður þjóðarpúlsins eru áfall fyrir stjórnarandstöðuna og alvarleg skilaboð til Sjálfstæðisflokksins. Um skilaboðin skrifa ég pistil á T24.is.


mbl.is Stuðningur eykst við ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin týnda atvinnustefna

Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar boðar skattahækkanir í fjárhagsáætlun fyrir komandi ár. Sigurður Bessason, formaður Eflingar stéttarfélags bendir á hið augljósa í viðtali við Morgunblaðið:

"Hættan er sú að þetta sé að gerast mjög víða í samfélaginu, hvort sem er hjá ríkinu eða sveitarfélögunum. Allt er þetta skattfé tekið úr sömu buddunni og hefur áhrif á afkomu fólks. Og síðan inn í samfélagið með auknum samdrætti."

Dagur B. Eggertsson og Samfylkingin höfðu uppi stór orð fyrir borgarstjórnarkosningarnar og lögðu áherslu á atvinnumál. Bent var á að hagvöxtur í Reykjavík yrði að vera 3,5% að meðaltali næstu fjögur ár, (líkt og höfuðborgin væri sjálfstætt hagvaxtarsvæði). Loforðin voru stór og meðal annars átti að skuldsetja borgarsjóð til að halda uppi framkvæmdastigi.

Í stefnuyfirlýsingu Samfylkingarinnar sagði meðal annars:

"Taka lán til að halda uppi framkvæmdastigi í kreppunni í stað þess að skera framkvæmdir niður um 70% eins og nú er ráðgert. Borgarsjóður ræður við þessar lántökur, hægt er að fá hagstæð tilboð og forða þannig algeru hruni í framkvæmda- og byggingariðnaði."

Og frambjóðendur Samfylkingarinnar til borgarstjórnar voru þess fullvissir að umsókn Íslands að Evrópusambandinu skapaði mikla möguleika fyrir borgina:

"Samfylkingin vill að Reykjavíkurborg nýti þau tækifæri sem felast í stöðu Íslands sem umsóknarríkis að ESB. Samfylkingin hefur látið taka saman stutt yfirlit yfir samfélags- og uppbyggingasjóði Evrópusambandsins með sérstakri áherslu á borgarsvæði og fjármögnunarmöguleika þeirra. Möguleikar Reykjavíkurborgar eru miklir ef rétt er á málum haldið.

Samstarf við evrópskar fjármálastofnanir og samstarfsáætlanir gætu nýst Reykjavík og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu m.a. við:

i)    endurskipulagningu á skuldum sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra
ii)   fjármögnun á endurnýjun eldri hverfa og atvinnusvæða
iii)  fjárfestingar í grænni orku, orkuskiptum í samgöngum, hjóla- og göngustígakerfi og öðrum fjárfestingum í innviðum og umhverfismálum
iv)   uppbyggingu vísinda- og þekkingarklasa, t.d. á háskólasvæðum
v)   endurlánum til lítilla og meðalstórra fyrirtækja."

Í stefnuyfirlýsingu Besta flokksins og Samfylkingarinnar segir meðal annars um fjármál:

Velferð og þjónusta við íbúana njóti forgangs við ráðstöfun fjármuna borgarinnar.
 
"Fjármál Reykjavíkurborgar eru fjármál borgarbúa. Fjármál borgarinnar verða sett fram á mannamáli og með myndrænum hætti sem öllum er skiljanlegur.
 
Unnin verði áætlun um efnahags- og fjármálastjórn Reykjavíkurborgar til fimm og tíu ára. Samhliða gerð hennar verði unnar fjármálareglur, stefna um áhættu- og lánastýringu þar sem fjárhagslegt eftirlit verði styrkt í ljósi reynslunnar.
 
Áætlunin og stefnan nái jafnt til borgarsjóðs og fyrirtækja borgarinnar."
 
Mér er það hulin ráðgáta hvernig hin aukna skattheimta sem þeir fóstbræður, Dagur B. og Jón Gnarr, boða samrýmist stærsta loforði Samfylkingarinnar um aukna atvinnu. Atvinnustefna sem átti að byggjast á skuldsetningu (sem Dagur taldi borgina hafa efni á), er fyrir löngu gleymd líkt og loforðið um að fjármál borgarinnar verði sett fram á mannamáli.  Þess í stað er farið dýpra í vasa borgarbúa.

 


mbl.is Skattheimta sögð auka samdrátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elton John í Kasakstan og á Íslandi

elton.jpg

Ég á ekki von á því að bandarískir sendiráðsmenn á Íslandi hafi sent minnisblað til yfirboðara sinna um fimmtugsafmæli Ólafs Ólafssonar, sem oftast er kenndur við Samskip. Samkvæmt frétt á RÚV voru Bandaríkjamenn yfir sig hneykslaðir vegna veisluhalda ráðamanna í Kasakstan þar sem Elton John var fenginn til að skemmta. Sama ár mætti Elton í afmælisveislu Ólafs en þá voru íslenskir auðmenn loðnari um lófana en flestir og Tom Jones söng í áramótaveislu efnaðra Íslendinga í London.

Frétt RÚV hljóðar svona:

"Nursultan Nazarbaev, forseti Kasakstans, greiddi söngvaranum Elton John meira en hundrað og áttatíu milljónir íslenskra króna fyrir að koma fram í afmælisveislu tengdasonar síns. Þetta kemur fram í leynilegum skjölum bandarísku utanríkisþjónustunnar sem vefsíðan Wikileaks hefur nú birt.

Þar segir að nautnalíf ráðamanna í Kasakstan sé á allt öðrum mælikvarða en fólk eigi að venjast og því til sönnunar fylgja skrautlegar lýsingar á ótæpilegri drykkju og eyðslusemi þeirra. Munaðurinn er sagður svo yfirgengilegur að forsetann hafi ekki munað um að fá sjálfan Elton John til Kasakstans til þess eins að syngja í einni afmælisveislu. Það var árið tvö þúsund og sjö, sama ár og Sir Elton kom til Reykjavíkur til að syngja í afmælisveislu Ólafs Ólafssonar, athafnamanns. Á þeim tíma var talað um að söngvarinn hefði tekið eina milljón dollara fyrir. Það er nokkru minna en hann er sagður hafa fengið fyrir að veita sömu þjónustu í Kasakstan."


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband