Ákærum Geir Haarde fyrir Grikkland

Eftir því sem lengra líður frá falli íslensku bankanna gera fleiri sér grein fyrir því hversu fráleitt það var af meirihluta þingmanna að ákæra Geir H, Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Það eru margir sem eiga eftir að biðjast afsökunar á málsókninni. 

En gárungarnir eru á því að meirihluti þingmanna hafi gert mikil mistök þegar ákveðið var að stefna Geir fyrir Landsdóm. Ákæran hafi ekki verið nægilega víðtæk. Þannig hefði verið eðlilegt að ákæra Geir fyrir hrun gríska efnahagskerfisins, fyrir 25% atvinnuleysi á Spáni og fyrir efnahagslega kreppu í Portúgal og á Írlandi. Jafnvel hefði átt að athuga hvort Geir gæti ekki tekið vandræði Ítalíu og Berlusconis að sér. Það hafi einnig verið rétt að ákæra Geir fyrir erfiðleika Belgíu, fyrir minnkandi traust á Frakklandi og síðast en ekki síst fyrir gjaldþrot yfir 200 banka í Bandaríkjunum. Með slíkri ákæru hefði heimurinn getað sameinast um einn sökudólg. 

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi færir sannfærandi rök fyrir því að ekki sé hægt að kenna frelsinu um hvernig fór. Í pistli í Fréttablaðinu segir hún meðal annars:

"Einfaldar skýringar á okkar stöðu og annarra Evrópuríkja eru ekki til. Vitlausar viðskiptahugmyndir og hegðun banka á Íslandi, spár manna á Írlandi og Spáni um þróun fasteignaverðs og spilling í Grikklandi og á Ítalíu eru sennilegar skýringar. Þó er eitt sem öll þessi lönd áttu sameiginlegt. Í þeim öllum hefur þjónusta hins opinbera vaxið úr hófi fram. Í góðærinu sem á undan gekk reyndist auðvelt að fjármagna vöxtinn með sköttum og aukinni skuldsetningu. Nú þegar kreppir að reynist illmögulegt hvort heldur sem er að vaxa út úr vandanum eða draga nógu hratt saman útgjöld til að laga skuldastöðuna.

Verkefnið fram undan er hið sama hjá öllum þessum löndum og mun felast í niðurskurði, hagræðingu og áherslu á vöxt efnahagslífsins. Forgangsröðunin verður unnin í pólitísku samhengi einstakra landa en mun reynast afar erfið stjórnmálamönnum sem þurfa að sækjast eftir endurkjöri. Ríkisstjórnir sem þora að taka erfiðar ákvarðanir og leggja áherslu á uppbyggingu efnahagslífsins eru þær sem munu sjá hvað skjótastan bata. Hugsanlega skiptir þá máli hvort menn hugsa til hægri eða vinstri."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband