Hversu mikil var sanngirnin og réttlætið?

Ein mikilvægasta regla réttarríkisins er sú að ákæruvaldið gefi því aðeins út ákæru ef taldar eru meiri líkur en minni að sekt verði sönnuð fyrir dómi. Ákæruvald getur aldrei gefið úr ákæru á hendur einstaklingum til þess eins að kanna hvort hugsanlega sé hægt að ná fram sektardómi. Með sama hætti getur ákæruvald aldrei gengið fram með þeim hætti að leggja fram ákæru til þess eins að „okkar vísustu lögspekingar“ geti tekið afstöðu til sektar eða sýknu.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur brugðist illa við að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins skuli leggja fram þingsályktunartillögu og ætlast til þess að hún komist á dagskrá Alþingis. Tillaga Bjarna hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fella úr gildi ályktun um málshöfðun gegn ráðherra frá 28. september 2010 og felur saksóknara Alþingis að afturkalla í heild ákæru útgefna með stefnu sem þingfest var fyrir landsdómi 7. júní 2011.“

Í morgunþætti Rásar 2 gagnrýndi Jóhanna tillöguna harðlega og talaði um ótrúlegan yfirgang sjálfstæðismanna. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins hafði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ekkert við tillöguna að athuga.

Merkilegt var að fylgjast um umræðum sem spunnust á Alþingi í morgun vegna málsins. Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar sagði að Alþingi ætti ekki að grípa inn í feril málsins. Þingmaðurinn var einn þeirra sem taldi rétt að ákæra þrjá af fjórum ráðherrum og þar með gætu „okkar vísustu lögspekingar ákvarðað hvort fyrrverandi forsætisráðherra hefði brotið lög um ráðherraábyrgð eða ekki“. [Magnús Orri taldi ekki rétt að Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, sætti ákæru.]

Magnús Orri sagði að með því að vísa málinu til Landsdóms væri ekki „sagt fyrir um sekt eða sakleysi“. Þetta er mikill misskilningur hjá Magnúsi Orra. Með því að styðja að höfðað yrði mál gegn Geir H. Haarde, var þingmaðurinn ekki aðeins að lýsa því yfir að hann teldi að fyrrverandi forsætisráðherra hefði brotið lög um ráðherraábyrgð, heldur var hann einnig að lýsa því yfir að meiri líkur en minni væru til þess að ákæran leiddi til sektardóms. Magnús Orri getur ekki skotið sér undan þessari ábyrgð með því að segjast treysta því að Geir H. Haarde njóti sanngjarnar og réttlátrar málsmeðferðar. Hafi þingmaðurinn talið leika vafa á sekt ráðherrans fyrrverandi og/eða að minni líkur en meiri væru á sakfellingu, bar honum að greiða atkvæði gegn ákæru. Þetta er ekki flóknara en þetta.

Ólína Þorvarðardóttir, sem einnig greiddi atkvæði með því að ákæra Geir sagði í áðurnefndum umræðum á þingi:

„Alþingi Íslendinga getur ekki verið þekkt fyrir það að ganga inn í réttarhald sem er hafið fyrir dómstól. Það væri að bíta höfuðið af skömminni.“

Í huga þingmannsins er það fráleitt að þingályktunartillagan verði tekin á dagskrá þingsins. Afhverju skyldi það nú vera? Er það óeðlilegt að þingmenn ræði það af fullri ábyrgð hvort það kunni að vera rétt að falla frá málshöfðun, meðal annars í ljósi nýrra upplýsinga en ekki síður með hliðsjón af því að Landsdómur hefur þegar vísað frá dómi alvarlegustu sakarefnunum?

Í upphafi var lagt upp með að fjórir fyrrverandi ráðherra yrðu dregnir fyrir landsdóm; Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni M. Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson. Niðurstaða Alþingis var að Geir skyldi einn sæta ákæru.

Í þessu sambandi er rétt að rifja upp atkvæðagreiðsluna og hvernig einstaka þingmenn greiddu atkvæði til að tryggja að Geir stæði einn frammi fyrir landsdómi.

Eftirtaldir þingmenn [allir í Samfylkingunni] studdu ákæruna gegn Geir en lögðust gegn því að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu:

  • Ólína Þorvarðardóttir,
  • Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
  • Skúli Helgason,
  • Helgi Hjörvar.

Eftirtaldir þingmenn voru á móti því að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu en töldu rétt að stefna Árna M. Mathiesen fyrir landsdóm:

  • Ólína Þorvarðardóttir,
  • Sigríður Ingibjörg Ingadóttir

Eftirtaldir þingmenn studdu ákæruna gegn Geir en vildu ekki ákæra Björgvin G. Sigurðsson [allir í Samfylkingunni]:

  • Helgi Hjörvar,
  • Magnús Orri Schram,
  • Oddný G. Harðardóttir,
  • Skúli Helgason,
  • Valgerður Bjarnadóttir,

Mörður Árnason greiddi ekki atkvæði um ákæruna gegn Björgvin G. Sigurðssyni.

Með hliðsjón af atkvæðagreiðslunni geta menn velt því fyrir sér hve mikil sanngirni og réttlæti ríki í hugum þeirra þingmann Samfylkingarinnar sem greiddu atkvæði með ofangreindum hætti.


mbl.is „Ótrúlegur yfirgangur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunir Íslendinga vs. pólitískir hagsmunir Steingríms Jóhanns

Treystir þú sitjandi ríkisstjórn til að gæta hagsmuna Íslands vegna Icesave fyrir EFTA-dómstólnum? Nær öruggt er að meirihluti landsmanna svarar spurningunni neitandi. Sporin hræða. En það væri einnig hægt að spyrja: Hvort treystir þú betur Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, eða Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra, til að gæta hagsmuna Íslands fyrir EFTA-dómstólnum vegna Icesave? Hér skal fullyrt að mikill meirihluti mun velja Árna Pál og hafna því að Steingrímur Jóhann fái forræði yfir málsvörn Íslands. Íslendingar gleyma seint hvernig fjármálaráðherra hélt á málum í Icesave-deilunni með aðstoð Svavars Gestssonar og Indriða Þorlákssonar.

Um það verður ekki deilt að barátta InDefence skipti sköpum í baráttunni gegn þeim nauðungarsamningum sem ríkisstjórnin gerði ítrekað við Breta og Hollendinga. Ólafur Egilsson, einn liðsmanna InDefence-hópsins, segist hafa „gríðarlegar áhyggjur af því að þetta mál lendi í höndum stjórnmálamanna sem hafi mikinn siðferðisvanda í málinu".

Í samtali við Vísi er Ólafur hreinskilinn:

„Ef við tökum sem dæmi Steingrím J. Sigfússon þá er hann með þá stöðu í málinu að það yrði afar þægilegt fyrir hans pólitísku stöðu að þetta mál færi illa og yrði kostnaðarsamt fyrir íslensku þjóðina. Hann hefur alla vega ekki mikinn hvata gagnvart sínum pólitíska ferli að reka þetta mál með hagsmuni þjóðarinnar í forgrunni."

Það er hreint magnað ef það reynist rétt að meirihluti þingmanna, þar með taldir margir stjórnarþingmenn Samfylkingar og VG, treysti ekki fjármálaráðherra til að gæta hagsmuna Íslendinga í erfiðu deilumáli. Kannski er það vegna þess að þeir eru sammála Ólafi Egilssyni um að Steingrímur J. Sigfússon hefur ekki „ekki mikinn hvata gagnvart sínum pólitíska ferli að reka þetta mál með hagsmuni þjóðarinnar í forgrunni“.

Sjá nánar T24


mbl.is Vel haldið á Icesave-máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geðþótta ákvarðanir og lögbrot ráðherra

Magnús Þór Ásgeirsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Akureyrar auglýsir eftir atvinnustefnu. Í viðtali við vikublaðið Akureyri heldur hann því fram að fyrirtæki treysti sér ekki til að fjárfesta á Íslandi vegna geðþóttaákvarðana, lögbrota ráðherra og endalausra breytinga á skattalögum:

„Það er ekki ríkisstjórnarinnar að búa til atvinnu en hún á heldur ekki að þvælast fyrir og koma í veg fyrir atvinnu uppbyggingu. Ég hef séð í hælana á fjárfest um sem voru til búnir að koma hingað með fjárfestingar og atvinnustarfsemi, vegna umræðu ríkisstjórnarflokkana um þjóðnýtingu fyrirtækja og eigna. Geðþótta ákvarðanir, lögbrot ráðherra og endalausar og yfirvofandi breytingar á skattalögum gera það að verkum að fyrirtæki treysta sér ekki til að fjárfesta á Íslandi í dag. Nýjasta upphlaupið vegna kolefnisskatts segir allt sem segja þarf.“

Magnús Þór bendir á að Ísland sé hluti af alþjóðlegu hagkerfi og vegna smæðar landsins snúast flest atvinnutækifæri um viðskipti við erlenda aðila, með einum eða öðrum hætti:

„Útlendingar koma ekki og bjarga okkur en þeir gætu fjárfest hér í samstarfi við Íslendinga ef báðir hagnast á slíkum viðskiptum, annars ekki. Eins og staðan er þá eru þeir ekki í biðröðum, það er nokkuð ljóst.“

Hér talar maður með reynslu. Lýsingin er ekki fögur, en varla er þess að vænta að ný störf verði til þegarfjárfestar óttast Ísland.


mbl.is Atvinnulausum fjölgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðlindaskattur 14-faldast – hver íbúi á Rifi greiðir 1,4 milljónir króna

Auðlindaskattur eða veiðileyfagjald sem sjávarútvegurinn greiðir hefur hækkað gríðarlega á undanförnum árum. Fiskveiðiárið 2005/2006 nam það alls liðlega 649 milljónum króna. En þar með er sagan ekki öll sögð því sjávarútvegsráðherra stefnir að því að hækka auðlindaskattinn í 9,1 milljarð vegna fiskveiðiársins 2012/2013. Þetta þýðir að gjald sem sjávarútvegsfyrirtæki greiða verður 14 sinnum hærra en fiskveiðiárið 2005/2006.

Forvitnilegt er að finna út hvernig veiðileyfagjaldið skiptist eftir útgerðarstöðum þegar gjaldið hefur verið hækkað í 9,1 milljarð króna. T24 reiknaði út gjaldið og miðað var við að samsetning veiðiheimilda haldist óbreytt.

Samkvæmt þeim forsendum sem lagðar eru til grundvallar þessum útreikningi munu Vestmannaeyjar greiða yfir 1,2 milljarða króna sem jafngildir því að hver Eyjamaður greiði um 300 þúsund krónur. Reykjavík mun greiða liðlega 1,1 milljarð sem þýðir innan við 10 þúsund krónur á hvern Reykvíking. Fiskiskip með heimahöfn á Rifi munu greiða nær 212 milljónir króna eða tæpar 1,4 milljónir króna á hvern íbúa.

Sjá nánar á T24


Atvinnuleysisbætur 847 karla og kvenna í utanlandsferðir ríkisins

Heildarkostnaður ráðuneyta og stofnana við utanlandsferðir nam alls 1,2 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Alls var farið í yfir 4.900 ferðir á þessum níu mánuðum eða um 18 ferðir á hverjum einasta degi. Að meðaltali þurftu skattgreiðendur að standa undir liðla 4,5 milljóna króna kostnaði við þessar ferðir á hverjum degi eða 31,6 milljónir á viku og yfir 137 milljónir á mánuði að meðaltali.

Hægt er að setja kostnað við ferðir embættismanna í samhengi við ýmislegt.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru meðallaun verkafólks á liðnu ári 342 þúsund krónur á mánuði. Miðað við þetta hefði þurft öll laun 400 verkamanna til að greiða ferðakostnað fyrstu níu mánuði ársins.

Sjá T24


mbl.is 333 ferðir kostuðu 52 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Egill telur ESB-viðræður tilgangslitlar

Egill Helgason sér lítinn tilgang í að halda áfram aðildarviðræðum að Evrópusambandinu. Hann segist sannfærður um að samningur við sambandið verði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í pistli á bloggsíðu sinni segir Egill að það sé smávægilegt mál hvort Ísland gengur í ESB  þegar erfiðleikar sambandsins eru hafðir í huga. Umræðan hér á landi sé með ólíkindum þröng og einkennist af stanslausum upphrópunum:

"En maður veltir samt fyrir sér hvort þetta sé rétti tíminn fyrir viðræður. Staðan í Evrópu er ansi mikið öðruvísi en hún var þegar sótt var um aðild sumarið 2009. ESB leikur á reiðiskjálfi, það eru haldnir stöðugir neyðarfundir sem slá þó ekki á kreppuna.

En íslenska ríkisstjórnin virðist staðráðin í að halda aðildarviðræðum til þrautar – og helst semja nógu hratt – við bandalag sem við vitum ekki hvert er að fara.

Maður veltir því næstum fyrir sér hvort Nei-sinnar eigi sinn besta bandamann í ríkisstjórninni – það er samið á tíma þegar er nær útilokað að íslenska þjóðin samþykki aðild. Verði hún felld er ljóst að málið verður ekki á dagskránni í að minnsta kosti áratug – og líklega lengur."

Lífleg umræða fór þegar af stað eftir skrif Egils og einn þeirra sem gerir athugasemdir er Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins:

"Ég skil ekki hvernig þú færð það endurtekið út að einhver mikill meirihluti muni hafna aðildarviðræðum. Launamenn eru allalvega búnir fá meir en nóg af því að búa við þetta ástand og eru í vaxandi mæli að greiða atkvæði með fótunum. Eins er það endurtekið í skoðanakönnunum að 2/3 vill klára viðræðurnar. Ég skil að Heimsýnarmenn eru að fara á taugum, en ekki hvert þú ert að fara."

Egill svarar Guðmundi stutt og skorinort:

"Ég tel 99 prósent öruggt að samningur verður felldur."

10 óþægulegustu staðreyndirnar um hlýnun jarðar

Tímaritið Human Events birtir vikulega svokallaðan Topp 10 lista. Þar eru tekin ýmis mál. Fyrir nokkru var birtur hér listi yfir 10 helstu syndir Barney Franks, fulltrúadeildarþingmanns demókrata, sem nú hefur ákveðið að láta af þingmennsku. Nýjasti listinn er yfir 10 óþægilegustu staðreyndirnar um hlýnun jarðar. Líkt og áður er listinn birtur á ensku.

Sjá T24


Foringjaræði til að tryggja góða innivinnu

Skoðanakönnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins um fylgi stjórnmálaflokkanna sýnir að þremur árum eftir hrun fjármálakerfisins ríkir djúpstæð tortryggni í garð stjórnmálaflokkanna. Aðeins 43,5% aðspurðra tók afstöðu og af þeim sagðist nær helmingur styðja Sjálfstæðisflokkinn.

Það er því í besta falli varastamt að draga miklar ályktanir af skoðanakönnuninni. Þó virðist tvennt vera ljóst. Annars vegar að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur meiri stuðnings en nokkur annar stjórnmálaflokkur og hins vegar að stjórnmálaflokkunum í heild sinni hefur ekki tekist að byggja upp traust meðal almennings. Einnig virðist ljóst að stór hluti kjósenda Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í kosningunum 2009 hefur snúið baki við stjórnarflokkunum.

Því hefur verið haldið fram að niðurstaða könnunarinnar sýni að mikil tækifæri séu fyrir nýja stjórnmálaflokka. Í liðinni viku var tilkynnt um sambræðing Guðmundar Steingrímssonar og Besta flokksins og Lilja Mósesdóttir, fyrrverandi þingmaður VG, vinnur að stofnun flokks. Reynslan sýnir hins vegar að nýir stjórnmálaflokkar eiga erfitt með að ná fótfestu a.m.k. til lengri tíma, ekki síst þeir flokkar sem stofnaðir eru á grunni óánægju. Slíkt fylgi er í eðli sínu fallvalt. Hreyfingin (áður Borgarahreyfingin) er ágætt dæmi. Eftir að hafa setið á þingi í liðlega hálft kjörtímabil benda skoðanakannir til þess að flokkurinn hafi ekki náð að festa rætur og verði flokkur eins kjörtímabils. Um 2,8% kjósenda (af þeim sem afstöðu tóku í áðurnefndri könnun), segjast styðja Hreyfinguna, sem undir merkjum Borgarahreyfingarinnar boðaði ný vinnubrögð og ný stjórnmál.

Guðmundur Steingrímsson og Besti flokkurinn boða eitthvað sem kallað er frjálslyndi á miðjunni, sem enginn veit hvað þýðir. Í raun veit enginn fyrir hvað sá flokkur, sem ekki hefur fengið nafn, stendur fyrir utan að Guðmundur er hallur undir aðild að Evrópusambandinu. En eitt er vitað með vissu og það er hvernig hið nýja stjórnmálaafl – hin nýja frjálslynda miðja – ætlar að vinna. Það verður stuðst við foringjaræði en ekki hugmyndir um lýðræði og áhrif flokksfélaga. Í samræmi við þetta hafa foringjarnir ákveðið að Guðmundur Steingrímsson og Heiða Helgadóttir skipi oddvitasæti á framboðslistum ónefnda flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur.

Sé almenningur að leita eftir opnum og lýðræðislegum stjórnmálaflokkum, bjóða Guðmundur og Besti flokkurinn ekki upp á nýjan kost. Þvert á móti. Ef almenningur er bara að leita eftir einhverju allt öðru en gömlu stjórnmálaflokkunum, getur ónefndi sambræðingurinn vissulega heillað, með svipuðum hætti og grasið sem sumir telja að sé alltaf grænna hinumegin. Fyrr eða síðar komast menn að hinu sanna.

Guðmundur Steingrímsson segir að sambræðingurinn vilji „grænt hagkerfi sem skapar fullt af fólki atvinnu, góða skóla og heilbrigðiskerfi, arðbæra og sjálfbæra nýtingu auðlindanna okkar, stöðugt efnahagslíf, óttalausa samvinnu við aðrar þjóðir, víðsýni, lýðræði, frjálslyndi, frið og mannúð“. Þegar menn stíga fram á svið stjórnmála með óljósa hugmyndafræði en tilkynna um  leið að búið sé að ákveða hverjir skuli skipa oddvitasæti í mikilvægustu kjördæmunum, læðist að sá grunur að flokkurinn sé ekki stofnaður um hugmyndir heldur hagsmuni einstaklinga sem vilja „þægilega innivinnu“ eins og ónefndur borgarstjóri sagði.

 


Hvað með Steingrím J. og Jóhönnu?

Niðurstaða könnunar Fréttablaðsins kemur ekki á óvart. En mikið hefði verið gaman ef blaðið hefði einnig kannað fylgi stjórnarleiðtoganna, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.

Annars er alltaf hægt að leika sér að tölum. Þannig er hægt að færa rök fyrir því að Jón Bjarnason geti verið sæmilega sáttur við niðurstöðu könnunarinnar. Í könnun Fréttablaðsins í september kom fram að aðeins fjórðungur landsmanna studdi ríkisstjórnina en 74% voru henni andvíg. Jón getur haldið því fram að hann njóti meiri stuðnings en ríkisstjórnin.

Samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup styðja 14% kjósenda Vinstri græna. Jón nýtur stuðnings nær 36%. Um 22% styðja Samfylkinguna. Þannig njóta stjórnarflokkarnir svipaðs stuðnings og Jón Bjarnason. 


mbl.is Meirihluti vill að Jón hætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Partý Guðmundar Steingrímssonar

Guðmundur Steingrímsson og félagar hans segja að nú sé "kominn tími til að stofna stjórnmálaflokk eða bandalag eða hóp eða afl eða klúbb eða hreyfingu eða samtök eða party eða bara eitthvað sem leggur áherslu á að stunda uppbyggileg og gefandi stjórnmál, nútímaleg og þjónandi fyrir alls konar fólk á Íslandi". Ruglið og bullið heldur því áfram.

Á heimasíðu nýja stjórnmálaflokksins sem Besti flokkurinn og Guðmundur Steingrímsson ætla að stofna segir jafnframt:

"Við viljum vera opinn vettvangur eða farvegur fyrir vel meinandi einstaklinga til þess að hafa áhrif á samfélag sitt. Við viljum grænt hagkerfi sem skapar fullt af fólki atvinnu, góða skóla og heilbrigðiskerfi, arðbæra og sjálfbæra nýtingu auðlindanna okkar, stöðugt efnahagslíf, óttalausa samvinnu við aðrar þjóðir, víðsýni, lýðræði, frjálslyndi, frið og mannúð.

Það sem við þurfum áður en lengra er haldið er NAFN."

Nú er svo komið fyrir íslenskum stjórnmálum að þeir sem sækjast eftir að verða kjörnir fulltrúar á Alþingi eða í sveitarstjórnir, eru sannfærðir um að best sé að slá öllu uppi í kæruleysi - bjóða í partý - til að heilla kjósendur. Hugmyndir og hugsjónir skipta engu.

Sjá T24


mbl.is Nýtt nafnlaust stjórnmálaafl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband