Foringjaræði til að tryggja góða innivinnu

Skoðanakönnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins um fylgi stjórnmálaflokkanna sýnir að þremur árum eftir hrun fjármálakerfisins ríkir djúpstæð tortryggni í garð stjórnmálaflokkanna. Aðeins 43,5% aðspurðra tók afstöðu og af þeim sagðist nær helmingur styðja Sjálfstæðisflokkinn.

Það er því í besta falli varastamt að draga miklar ályktanir af skoðanakönnuninni. Þó virðist tvennt vera ljóst. Annars vegar að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur meiri stuðnings en nokkur annar stjórnmálaflokkur og hins vegar að stjórnmálaflokkunum í heild sinni hefur ekki tekist að byggja upp traust meðal almennings. Einnig virðist ljóst að stór hluti kjósenda Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í kosningunum 2009 hefur snúið baki við stjórnarflokkunum.

Því hefur verið haldið fram að niðurstaða könnunarinnar sýni að mikil tækifæri séu fyrir nýja stjórnmálaflokka. Í liðinni viku var tilkynnt um sambræðing Guðmundar Steingrímssonar og Besta flokksins og Lilja Mósesdóttir, fyrrverandi þingmaður VG, vinnur að stofnun flokks. Reynslan sýnir hins vegar að nýir stjórnmálaflokkar eiga erfitt með að ná fótfestu a.m.k. til lengri tíma, ekki síst þeir flokkar sem stofnaðir eru á grunni óánægju. Slíkt fylgi er í eðli sínu fallvalt. Hreyfingin (áður Borgarahreyfingin) er ágætt dæmi. Eftir að hafa setið á þingi í liðlega hálft kjörtímabil benda skoðanakannir til þess að flokkurinn hafi ekki náð að festa rætur og verði flokkur eins kjörtímabils. Um 2,8% kjósenda (af þeim sem afstöðu tóku í áðurnefndri könnun), segjast styðja Hreyfinguna, sem undir merkjum Borgarahreyfingarinnar boðaði ný vinnubrögð og ný stjórnmál.

Guðmundur Steingrímsson og Besti flokkurinn boða eitthvað sem kallað er frjálslyndi á miðjunni, sem enginn veit hvað þýðir. Í raun veit enginn fyrir hvað sá flokkur, sem ekki hefur fengið nafn, stendur fyrir utan að Guðmundur er hallur undir aðild að Evrópusambandinu. En eitt er vitað með vissu og það er hvernig hið nýja stjórnmálaafl – hin nýja frjálslynda miðja – ætlar að vinna. Það verður stuðst við foringjaræði en ekki hugmyndir um lýðræði og áhrif flokksfélaga. Í samræmi við þetta hafa foringjarnir ákveðið að Guðmundur Steingrímsson og Heiða Helgadóttir skipi oddvitasæti á framboðslistum ónefnda flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur.

Sé almenningur að leita eftir opnum og lýðræðislegum stjórnmálaflokkum, bjóða Guðmundur og Besti flokkurinn ekki upp á nýjan kost. Þvert á móti. Ef almenningur er bara að leita eftir einhverju allt öðru en gömlu stjórnmálaflokkunum, getur ónefndi sambræðingurinn vissulega heillað, með svipuðum hætti og grasið sem sumir telja að sé alltaf grænna hinumegin. Fyrr eða síðar komast menn að hinu sanna.

Guðmundur Steingrímsson segir að sambræðingurinn vilji „grænt hagkerfi sem skapar fullt af fólki atvinnu, góða skóla og heilbrigðiskerfi, arðbæra og sjálfbæra nýtingu auðlindanna okkar, stöðugt efnahagslíf, óttalausa samvinnu við aðrar þjóðir, víðsýni, lýðræði, frjálslyndi, frið og mannúð“. Þegar menn stíga fram á svið stjórnmála með óljósa hugmyndafræði en tilkynna um  leið að búið sé að ákveða hverjir skuli skipa oddvitasæti í mikilvægustu kjördæmunum, læðist að sá grunur að flokkurinn sé ekki stofnaður um hugmyndir heldur hagsmuni einstaklinga sem vilja „þægilega innivinnu“ eins og ónefndur borgarstjóri sagði.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband