Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Árni Páll í ónáð hjá Steingrími J.

Áhugamenn um stjórnmál hafa áttað sig á því að lítil vinátta er á milli Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, og Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra. Sá síðarnefndi vill losna við þann fyrrnefnda úr ríkisstjórn og Jóhanna virðist meira en tilbúin til að fórna eigin manni.

Viðskiptablaðið birtir áhugaverða fréttaskýringu um málið og segir að óvild Steingríms J. í garð Árna Páls nái til þess tíma þegar Árni Páll tók þátt í ingliðastarfi Alþýðubandalagsins. Árni Páll studdi Ólaf Ragnar Grímsson dyggilega, þegar honum tókst að ná völdum úr höndum flokkseigendafélagsins, líkt og lesa má um hér. Viðskiptablaðið tekur fram að þessi skýring sé sett fram í hálfkæringi, en líklega er meira til í henni en blaðið vill vera láta. Árni Páll var í miðstjórn og framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins á fyrstu formannsárum Ólafs Ragnar og síðar oddviti Æskulýðsfylkingar Alþýðubandalagsins.

Í fréttaskýringunni kemur fram að samstarf þeirra Steingríms J. og Árna Páls hafi verið stirt frá því að þeir settust saman í ríkisstjórn árið 2009:

„Á síðasta ári myndaðist síðan mikil kergja á milli þeirra í aðdraganda umræðu um skuldaafskriftir en Árni Páll var þá félagsmálaráðherra. Ágreiningur þeirra sneri fyrst og fremst að því að samkvæmt ráðleggingu Indriða H. Þorlákssonar stóð til að skattleggja afskriftir skulda bæði á heimili og fyrirtæki. Sem félagsmálaráðherra beitti Árni Páll sér gegn því að afskriftirnar yrðu skattlagðar með þeim rökum að afskriftir myndu lítið gagnast skuldsettum heimilum ef þau þyrftu síðan að greiða skatt af þeim.“

Blaðið segir að þegar Árni Páll settist í stól efnahags- og viðskiptaráðherra hafi hann „safnað liði“ og fengið hagsmunasamtök atvinnulífsins með sér í baráttunni. Þessu reiddist Steingrímur:

„Steingrímur J. leit á það sem persónulega árás á sig og sitt ráðuneyti og viðraði þá skoðun við vopnabræður sína í Vinstri grænum að koma þyrfti Árna Páli úr ríkisstjórninni.“

Viðskiptablaðið heldur því síðan fram að Árni Páll hafi fallið í „algjöra“ ónáð þegar hann gagnrýndi kjarasamninga síðastliðið sumar og varaði við afleiðingum þeirra.


Gæfa Árna Páls

Ekki var hægt að skilja Árna Pál Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, í Silfri Egils síðasta sunnudag, með öðrum hætti en að hann sé ágætlega sáttur við að hverfa úr ríkisstjórn. Hann brosti sínu breiðasta, tók til varna fyrir Jón Bjarnason en varaði við að Steingrími J. Sigfússyni yrði færð of mikil völd.

Árni Páll hefur áttað sig á því að það væri pólitísk gæfa ef Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, tæki þá ákvörðun að fórna honum til þess eins að bola Jóni Bjarnasyni – hinum óþekka ráðherra – úr ríkisstjórn. Með því fái hann nýtt tækifæri til að sækja fram sem forystumaður Samfylkingarinnar.

Gæfa Árna Pál gæti því verið handað við hornið.

Sjá T24

 

 

 

 

 


mbl.is Þingmenn og fjölmiðlar komnir fram úr sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólína gegn forseta Alþingis

Af þessu tilefni er rétt að rifja upp þegar Ólína sakaði sama forseta Alþingis í valdníðslu. 

Í umræðum um fyrirkomulag umræðu um störf þingsins15. apríl síðastliðinn tók Ólína til máls. Hér á eftir er textinn en miklu skemmtilegra er að horfa á orðaskiptin milli Olínu og Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur forseta þingsins:

Frú forseti. Það er bagalegt við þennan lið, störf þingsins, þegar verið er að taka upp og efna til viðræðna við einstaka þingmenn úti í sal sem komast síðan ekki að í umræðunni til að svara fyrir það sem fram er haldið.

Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir hélt því hér fram og gerði það sem í raun og veru er iðulega … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Um fundarstjórn forseta.)

Já, ég er að ræða um …

(Forseti (ÁRJ): Ekki efnisleg umræða undir liðnum um fundarstjórn forseta.)

Frú forseti. Ég er að ræða um fundarstjórn forseta.

(Forseti (ÁRJ): Þingmaðurinn hefur orðið.)

Takk. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir kom hér upp áðan og sakaði mig um að tala hér sjávarútvegsmál í ágreining og komst upp með það án þess að ég ætti þess kost, frú forseti, að svara fyrir mig. (Forseti hringir.) Að slá fram slíkri fullyrðingu án þess að færa … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Þetta er efnisleg umræða.)

Ég ætla að vona, frú forseti, að við þurfum ekki að endurtaka hér bjöllusólóið frá því sumarið 2009 þegar ég var rekin úr ræðustóli.

(Forseti (ÁRJ): Hv. þingmaður ræði fundarstjórn forseta.)

Ég er að ræða fundarstjórn forseta, frú forseti. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti hefur farið að fundarstjórn.) (Gripið fram í: Þú hefur ekki …)

Má ég velja mér orð mín sjálf? Hversu langan tíma hef ég til að ræða fundarstjórn forseta?

(Forseti (ÁRJ): Hv. þingmaður hefur eina mínútu og hún er liðin.)

Er hún liðin? Þá vík ég úr ræðustóli en ég geri alvarlega athugasemd við þessa valdbeitingu forseta því að hér hefur þessi liður verið tilefni manna til efnislegra umræðna skipti eftir skipti þar sem stjórnarandstaðan hefur átt sjálfvirka aðkomu að efnislegum (Forseti hringir.) umræðum hér og ég fæ ekki að ljúka máli mínu og fæ ekki sjálf að velja mín eigin orð (Gripið fram í.) þegar ég er að ræða hér fundarstjórn forseta. (Forseti hringir.) Ég geri alvarlega athugasemd við þetta.

Nokkru síðar tók Ólína aftur til máls og vildi bera af sér sakir:

Ég vil bera af mér sakir og geri jafnframt alvarlega athugasemd og ítreka athugasemdir mínar við fundarstjórn forseta sem mér finnst vera komin út úr öllu góðu hófi.

Ég óska eftir því að hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir rökstyðji það með dæmum með hvaða hætti ég hafi talað hér sjávarútvegsmál í ágreining. (Gripið fram í: Er þetta að bera af sér sakir?) Sannleikurinn er sá … (Forseti hringir.)

Sannleikurinn er sá að fáir þingmenn hafa gengið lengra í að skýra sjónarmið sín og vera í opinberri umræðu um (Forseti hringir.) þann málaflokk. Því hefur aftur á móti verið svarað með dæmafáum (Forseti hringir.) persónuof…

Frú forseti. Er tími minn búinn?

(Forseti (ÁRJ): Það er ekki unnt að fara hér í efnislega umræðu undir þeim lið að bera af sér sakir. Hér voru efnislegar umræður um stjórnmál áðan undir liðnum um störf þingsins. Þeim lið er lokið.)

Frú forseti. Það er rætt hér sérstaklega um mig og bornar á mig sakir. Hvað er að gerast hér? Ég hef aldrei vitað annað eins. Hvað er að gerast hér, frú forseti? Ég óska eftir nánari rökstuðningi fyrir því hvernig ég hef ekki farið að þingsköpum og bið forseta um að rökstyðja það af hverju mér er ekki heimilt hér að (Forseti hringir.) bera af mér sakir.

(Forseti (ÁRJ): Ræðutíminn er liðinn fyrir 20 sekúndum.) [Hlátur í þingsal.]


Sundurþykkja Framsóknarflokksins

Vandi Framsóknarflokksins er sundurlyndi þingflokksins. Ef þingmenn flokksins væru samstíga væri staða flokksins allt önnur og sterkari en skoðanakannanir benda til.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur reynst mikill málafylgjumaður, harður í horn að taka og sjálfum sér samkvæmur. Honum hefur hins vegar ekki tekist að ná stjórn á þingflokkinum. Guðmundur Steingrímsson hefur sagt skilið við flokkinn og leitar á mið Besta flokksins og Siv Friðleifsdóttir á litla samleið með öðrum í þingflokkinum og virðist fremur hallast að ríkisstjórninni. 

Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokksins, hefur vakið mikla athygli fyrir stefnufestu og góðan málflutning. Vigdís Hauksdóttir er málafylgjukona sem gengur hreint til verka og því umdeild. Sigurður Ingi Jóhannsson hefur öðlast traust og trúverðugleika með framgöngu sinni á þingi. 

Þingflokkur Framsóknarflokksins er fámennur en hefur á að skipa öflugum talsmönnum. Ef allt væri eðlilegt ætti flokkurinn að vera í stórsókn. En sundurþykkja og misklíð kemur í veg fyrir pólitíska sigra.


mbl.is Siv skammaði Vigdísi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjör ekki gallalaus

Ákveðnar efasemdir hafa alla tíð verið upp um ágæti prófkjara til að velja einstaklinga á framboðslista stjórnmálaflokkanna.  Jónína Michaelsdóttir veltir því fyrir sér í ágætum pistli í Fréttablaðinu, hvort prófkjörin séu besta leiðin. Hún segir að það sé "lýðræðislegt að allir fái að kjósa um hverjir fara á stjórnlagaþing, hverjir setjast á þing og hverjir verða borgarfulltrúar". Jónína virðist ekki fyllilega sátt við niðurstöðuna:

"Hún [niðurstaðan] er sú að fólk kýs fólk með andlit sem það þekkir úr fjölmiðlum. Ekki endilega fjölmiðlafólkið sjálft þó að það sé líka með, heldur fólk með nafn og andlit sem menn kannast við þegar þeir skoða framboðslistana. Stjórnlaganefnd er gott dæmi um þetta, svo ágæt sem hún er."

Jónína segir að eflaust yrði litið á það  sem gamaldags klíkufyrirkomulag ef lagt verði til að frambjóðendur í næstu kosningum yrðu valdir af nefndum innan flokkanna:

"Menn myndu vísast velja vini sína, klíkubræður og klíkusystur. Tortryggnin yrði ofan á ef þetta yrði lagt til. En er úr háum söðli að detta?"

Jónína rifjar upp að að í Sjálfstæðisflokknum hafi skipan framboðslista verið í höndum fimmtán manna fulltrúaráðs. Skoðanakannanir hafi verið gerðar í félögum og kjördæmum sem var unnið úr. Lagður var metnaður í að verða "með fólk á öllum aldri og fólk sem þekkti vel stoðir samfélagsins, og menningarlíf" á framboðslistum:

"Í hverjum kosningum hefði verið skipt út einhverjum til að koma með nýtt blóð inn í hópinn. Ég er ekki frá því að þessi tilhögun yrði betri en það sem nú tíðkast. Hún yrði allavega ekki verri."

Niðurstaða Jónínu er síðan þessi:

"Er ekki farsælast fyrir blessað lýðræðið og þjóðina sem alltaf er verið að vitna í, að fulltrúar hennar á Alþingi sé fólk sem hún treystir, og að það sé fólk sem hefur þekkingu og skilning á atvinnulífi, heilbrigðismálum, sjávarútvegi, iðnaði, utanríkismálum, menningarmálum og íþróttum, en þurfi ekki að reiða sig á ráðgjafa að öllu leyti?

Er það virkilega svo að við treystum fólki fyrir lífi okkar og limum af því að við höfum séð það í sjónvarpi, myndir af því í blöðum eða á netinu? Sé það svo, eigum við ekkert betra skilið."

Margföldun rekstrarkostnaðar FME

fme-starfsmenn.png

Gangi áætlanir Fjármálaeftirlitsins [FME] eftir munu starfsmenn stofnunarinnar verða 143 á komandi ári. Þegar umfang íslenska fjármálamarkaðarins var mest, árið 2007, voru starfsmenn FME 54 en þarf af voru 45 í fullu starfi. Þannig verða starfsmenn 2,6-sinnum fleiri árið 2012 en á frægu ári velmegunar, 2007.

Árið 2006 nam rekstrarkostnaður FME um 389 milljónum króna og jókst um nær 63 milljónir á milli ára. Árið 2007 nam rekstrarkostnaðurinn 594 milljónum. Árið 2010 var rekstrarkostnaðurinn kominn í 1.223 milljónir króna. Í endurskoðaðri áætlun fyrir yfirstandandi ár er reiknað með að gjöld FME nemi alls 1.843 milljónum króna. Þannig hefur kostnaður við rekstur stofnunarinnar aukist um 1.249 milljónir sem er meira en þreföldun.

Vert er að taka fram að stjórnendur FME gera ráð fyrir að starfsmönnum fækki frá og með árinu 2013 og verði um 100 í lok árs 2015.

 


mbl.is Kalla eftir rannsókn á FME
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjaðningavígin halda áfram innan ríkisstjórnarinnar

Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður hefur haldið því fram að ástandið á stjórnarheimilinu minni á kóngaleikrit eftir Shakespeares. Allir helstu leikendur eru æstir og móðir. Ákveðnir ráðherrar vilja losna við aðra ráðherra og brugga alls kyns launráð sín á milli. En kannski væri enn betra að lýsa ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrímssonar sem grátbrotlegum farsa eftir Dario Fo.

Einn kafli í farsanum var fluttur fyrir alþjóð um helgina.

Sjá T24


10 syndir Barney Franks

Barney Frank er einn þekktasti og valdamesti þingmaður demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Hann var fyrst kjörinn á þing árið 1980 en hann hafði áður verið þingmaður í fulltrúadeild Massachusetts-ríkis í átta ár. Í fyrstu kosningunum til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hlaut hann 52% en hann hefur síðan náð endurkjöri með yfirgnæfandi stuðningi. Barney er þingmaður 4. umdæmis í Massachusetts. Alls hefur Barney unnið 16 kosningar til fulltrúadeildarinnar.

Barney hefur alla tíð verið í hópi vinstrisinnuðustu þingmanna demókrata. Margir hægri menn hafa því haft á honum ímigust. Barney hefur í mörg ár setið í fjármálanefnd þingsins og var formaður hennar frá 2007 til 2011. Tengsl hans við Fannie Mae og Freddie Mac húsnæðislánasjóðina, hafa verið gagnrýnd harðlega og því verið haldið fram að hann beri mikla ábyrgð á fjármálakreppunni, en hann barðist mjög fyrir að alríkið niðurgreiddi íbúðaverð og tryggði aðgang að ódýru lánsfé til íbúðakaupa.

Barney Frank kom út úr skápnum árið 1987 og hefur alla tíð barist fyrir réttindum samkynhneigðra. Hann þykir einnig mjög frjálslyndur í öllum siðferðilegum málum, sem ekki hefur aflað honum vinsælda hjá hægri mönnum.

En nú hefur Barney Frank ákveðið að hætta, en þar spila inn breytingar á kjördæminu.

Sjá lista yfir 10 syndir á T24.is 


Varadekk vinstri stjórnar stofnar flokk

Guðmundur Steingrímsson alþingismaður segir í viðtali við Mbl.is að flokkurinn sem hann vinnur að því að stofna með Besta flokknum og fleirum verði með í næstu alþingiskosningum, hvenær sem þær verða. Haft er eftir Guðmundi að gríðarlegur áhugi sé á framboðinu.

uðmundur er bjartsýnn og í viðtali við Mbl.is segir hann:

 „Maður veit ekki alveg hvenær næstu kosningar verða en við göngum út frá því í okkar plönum að kosningar verði eins og stefnt er að árið 2013. Það er eitt og hálft ár í það og við lítum á það sem kost að hafa þá smá tíma til að vinna hlutina í ró og næði. En ef það breytist rjúkum við fram úr öllu og verðum með.“

Ekki þarf að fara mörgum orðum um að hagsmunir Guðmundar Steingrímssonar liggja í því að ríkisstjórnin lifi til loka kjörtímabilsins. Hann telur það vera „kost“. Einmitt þess vegna líta Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon á Guðmund sem varadekk undir vagn hinnar sundurþykku ríkisstjórnar. Hvort það telst gott veganesti við stofnun nýrra stjórnmálasamtaka, að vera „varadekk“ vinstri stjórnarinnar, er annað mál.

Sjá T24


mbl.is Gríðarlegur áhugi á framboðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð þerraði tár Jóhönnu

Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og ráðherra, bendir á í Morgunblaðsgrein í dag að Jóhanna Sigurðardóttir muni tímana tvenna í pólitík "og sjálf gekk hún úr ríkisstjórn af því að skoðanir hennar til félagshyggjunnar voru ekki falar". Guðni segir að það sé jafnan verkefni forsætisráðherra að "miðla málum, leysa úr ágreiningi í ráðherraliði sínu og segja ekkert misjafnt um einstaka ráðherra opinberlega".

Tilefni skrifa Guðna er atlagan að Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landsbúnaðarráðherra, sem Guðni segir að hafi skrifað undir eiðstafinn að fylgja sannfæringu sinni. Jón er nú í svipaðri stöðu og Jóhanna forðum sem ráðherra í Viðeyjarstjórn Davíðs Oddssonar.

Guðni skrifar:

"Í fornum deilum Jóhönnu félagsmálaráðherra og Jóns Baldvins Hannibalssonar 1991 til 1994 átti Jóhanna aðeins einn vin í ríkisstjórninni sem var forsætisráðherrann Davíð Oddsson sem þerraði tár hennar og leysti úr ágreiningi flokkssystkinanna. Við sem sátum á Þingvelli á afmælishátíð lýðveldisins 1994 minnumst enn fyrirboðans um að Jóhanna hyrfi úr ríkisstjórninni. Þá flugu tíu hvítir svanir yfir þingstaðinn og komu að vörmu spori níu til baka en ráðherrarnir voru þá tíu talsins. Þá spáði sá glöggi maður Ólafur Þ. Þórðarson því að Jóhanna gengi út strax að hátíð lokinni sem varð niðurstaðan."

Nú ætlar Jóhanna að fórna eigin liðsmanni - Árna Páli Árnasyni, - til að ná að snúna Jón Bjarnason niður. Þessi frásögn Eyjunnar hefur ekki verið staðfest, en sú spurning vaknar hver ætli sér að þerra tár Árna Páls. Varla tekur Davíð það verk að sér.


mbl.is Árni Páll sagður vera á útleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband