Árni Páll í ónáð hjá Steingrími J.

Áhugamenn um stjórnmál hafa áttað sig á því að lítil vinátta er á milli Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, og Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra. Sá síðarnefndi vill losna við þann fyrrnefnda úr ríkisstjórn og Jóhanna virðist meira en tilbúin til að fórna eigin manni.

Viðskiptablaðið birtir áhugaverða fréttaskýringu um málið og segir að óvild Steingríms J. í garð Árna Páls nái til þess tíma þegar Árni Páll tók þátt í ingliðastarfi Alþýðubandalagsins. Árni Páll studdi Ólaf Ragnar Grímsson dyggilega, þegar honum tókst að ná völdum úr höndum flokkseigendafélagsins, líkt og lesa má um hér. Viðskiptablaðið tekur fram að þessi skýring sé sett fram í hálfkæringi, en líklega er meira til í henni en blaðið vill vera láta. Árni Páll var í miðstjórn og framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins á fyrstu formannsárum Ólafs Ragnar og síðar oddviti Æskulýðsfylkingar Alþýðubandalagsins.

Í fréttaskýringunni kemur fram að samstarf þeirra Steingríms J. og Árna Páls hafi verið stirt frá því að þeir settust saman í ríkisstjórn árið 2009:

„Á síðasta ári myndaðist síðan mikil kergja á milli þeirra í aðdraganda umræðu um skuldaafskriftir en Árni Páll var þá félagsmálaráðherra. Ágreiningur þeirra sneri fyrst og fremst að því að samkvæmt ráðleggingu Indriða H. Þorlákssonar stóð til að skattleggja afskriftir skulda bæði á heimili og fyrirtæki. Sem félagsmálaráðherra beitti Árni Páll sér gegn því að afskriftirnar yrðu skattlagðar með þeim rökum að afskriftir myndu lítið gagnast skuldsettum heimilum ef þau þyrftu síðan að greiða skatt af þeim.“

Blaðið segir að þegar Árni Páll settist í stól efnahags- og viðskiptaráðherra hafi hann „safnað liði“ og fengið hagsmunasamtök atvinnulífsins með sér í baráttunni. Þessu reiddist Steingrímur:

„Steingrímur J. leit á það sem persónulega árás á sig og sitt ráðuneyti og viðraði þá skoðun við vopnabræður sína í Vinstri grænum að koma þyrfti Árna Páli úr ríkisstjórninni.“

Viðskiptablaðið heldur því síðan fram að Árni Páll hafi fallið í „algjöra“ ónáð þegar hann gagnrýndi kjarasamninga síðastliðið sumar og varaði við afleiðingum þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband