Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010
Þess vegna skipta réttindi Geirs litlu
Þriðjudagur, 30. nóvember 2010
Alþingi samþykkti með 33 atkvæðum gegn 30 að höfða sakamál fyrir landsdómi gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, 28. september síðastliðinn eða fyrir liðlega tveimur mánuðum. Í tvö mánuði hefur Geir ekki haft verjanda til að undirbúa vörn. Forseti landsdóms lagðist svo lágt að óska eftir áliti skipaðs saksóknara á skipan verjanda fyrir Geir.
Ekki heyrist eitt orð frá þeim sem hafa gefið sig út fyrir að vera sérstakir talsmenn mannréttinda vegna þessarar fráleitu framkomu. Mannréttindi sumra eru ekki jafn dýrmæt og mannréttindi annarra. Ragnar Aðalsteinsson, verjandi níumenningana svokölluðu sem gerðu innrás í Alþingishúsið, þegir þrátt fyrir að mannréttindi séu honum hjartfólgin. Eitthvað hefði Ragnar sagt ef skipan verjanda í máli níumenninganna hefði verið borin undir saksóknara.Ögmundur Jónasson ráðherra mannréttinda, er ánægður í þögn sinni, líkt og aðrir sem hæst tala í þingsal um mannréttindi.
Hugmyndir manna sem aðhyllast pólitískan rétttrúnað mótast af því hvaða réttindi verið er að verja og fyrir hverja. Þannig er hið nýja Ísland sem er mótað af norrænni velferð, jafnrétti og gagnsæi. Geir Haarde er hægri maður - sjálfstæðismaður og þess vegna skipta réttindi hans litlu.
Ákvörðun um verjanda í dag eða á morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook
Enska tekur völdin
Þriðjudagur, 30. nóvember 2010
Mér er það óskiljanlegt af hverju forráðamenn íslenskra fyrirtækja telja að það sé betri leið til árangurs að birta auglýsingar á ensku en ekki á íslensku. Þá er það hulin ráðgáta hvers vegna fjölmiðlar, sem hafa reynt að leggja rækt við gott íslenskt mál, skuli taka það að sér að birta auglýsingar á ensku.
Á mbl.is er auglýsingaborði í haus þar sem vakin er athygli á kostum Nikon ljósmyndavéla. Fyrirsögnin er: I am your best winter deal.
Ég átta mig ekki á því hvort það er leti, kæruleysi eða hreint virðingarleysi fyrir íslenskum neytendum að birta auglýsingu á ensku. Eitt er víst að auglýsandinn hefur enga tilfinningu fyrir því sem er íslenskt.
Með sama hætti þótt mér það miður þegar Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM, taldi rétt að birta grein í Fréttablaðinu fyrir skömmu þar sem fyrirsögnin var á ensku. Efni greinarinnar skiptir engu.
Ekki treysta stjórnmálamönnum!
Þriðjudagur, 30. nóvember 2010
Nigel Farage þingmaður Sjálfstæðisflokks Bretlands á Evrópuþinginu er með skýr skilaboð til Íslendinga: Ekki treysta stjórnmálamönnum og ekki fórna landhelginni. Þetta voru skilaboðin í stuttri ræðu sem hann flutti í júlí síðastliðnum.
Nigel er umdeildur en frábær ræðumaður og illa hægt að vera ósammála honum að þessu sinni.
Stefnuleysi kallar á trúnað
Þriðjudagur, 30. nóvember 2010
Trúnaður um það sem ekkert er? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ríkisstjórn gagnsæis hlýtur að opna skjalageymslur
Mánudagur, 29. nóvember 2010
Merkilegur pistill hjá Styrmi Gunnarssyni, en vert er að benda á niðurlagið þar sem hann beinir sjónum sínum að íslensku utanríkisþjónustunni. Styrmir segir orðrétt:
"Líka um sendiráð Íslands í öðrum löndum. Það verður t.d. fróðlegt að sjá, þegar fram líða stundir hvers konar upplýsingar starfsmenn sendiráða Íslands í öðrum löndum eða utanríkisráðuneytisins hér hafa veitt fulltrúum annarra ríkja um afstöðu Íslendinga til ESB-umsóknarinnar þessa mánuði og misseri.
Kannski Wikileaks geti séð um það!"
Engin pólitísk sátt er um aðild Íslands að Evrópusambandinu. En orð Styrmis vekja upp þá áleitnu spurningu hvort ekki sé rétt að ríkisstjórn gagnsæis - þar sem allt á að upp á borðum - hafi frumkvæði að því að birta öll skjöl um samskipti íslensku utanríkisþjónustunnar við erlend ríki vegna aðildarumsóknarinnar. En væri það ekki í stíl við annað að landsmenn þurfi að treysta á Wikileaks til að hin "opna stjórnsýsla" Jóhönnu Sigurðardóttur fái að njóta sín?
Hæfileikalítið sendiráðsfólk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
160 atkvæði á frambjóðenda
Mánudagur, 29. nóvember 2010
Engu skiptir hvaða mælikvarði er notaður. Kjörsókn á laugardaginn var skelfileg. Rétt um 36% kjósenda lögðu leið sína á kjörstað til að velja fulltrúa á stjórnlagaþing. Samkvæmt nýjustu tölum kusu 83.576 af 227.656 kjósendum. Það þýðir að rúmlega 144 þúsund sátu heima.
Ég hef verið á móti því að boða til stjórnlagaþings en ætla ekki að rekja þær ástæður hér. Hitt er svo annað að ég hef það sem reglu að taka þátt í kosningum og það gerði ég á laugardaginn og kaus tíu frambjóðendur.
Nú er byrjað að leita skýringa á lélegri þátttöku. Ég sé að sumir frambjóðendur og aðdáendur stjórnlagaþingsins kenna fjölmiðlum og jafnvel Háskóla Íslands um að hafa brugðist. Sjálfstæðisflokkurinn fær einnig skammir. En af hverju líta þeir frambjóðendur sem skammast út fjölmiðla eða aðra aðila, ekki í eigin barm. Alls buðu 522 sig fram til setu á stjórnlagaþingi. Að meðaltali "skilaði" hver frambjóðandi 160 kjósendum á kjörstað. Varla telst það góður árangur í kosningum.Úrslit kynnt annað kvöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Furðulegar hugmyndir Árna Páls
Föstudagur, 26. nóvember 2010
Hæstiréttur komst að þeirri eðlilegu niðurstöðu í dómi, sem kveðinn var upp síðastliðinn fimmtudag, að ekki sé hægt að ganga gegn stjórnarskrá ekki einu sinni Alþingi geti staðið að lagasetningu sem gengur í berhögg við ákvæði stjórnarskrár. Árni Páll Árnason, viðskipta- og efnahagsráðherra átti erfitt um tal í viðtali við Ríkissjónvarpið. Viðbrögð ráðherrans eru ekki aðeins fráleit heldur vekja þau alvarlegar spurningar um hugmyndir ráðherrans um stjórnarskrá lýðveldisins.
Dómur Hæstaréttar snérist um ábyrgðarmenn. Á síðasta ári fékk kona greiðsluaðlögun og voru allar samningskröfur gefnar eftir. Sparisjóður Vestmannaeyja taldi hins vegar að ábyrgð ábyrgðarmannanna væri ekki fallin niður og höfðaði mál á hendur þeim þegar þeir neituðu að greiða. Hæstiréttur segir að kröfuréttur sparisjóðsins á hendur ábyrgðarmönnunum njóti verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar og þau réttindi verði ekki skert án bóta með afturvirkri íþyngjandi löggjöf.
Í dómsorði Hæstaréttar segir meðal annars:
Með 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009, sbr. 12. gr. laganna, var kveðið á um brottfall ábyrgða, sem til hafði verið stofnað fyrir gildistöku þeirra, án tillits til þess hver greiðslugeta ábyrgðarmanna væri. Verður með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest sú niðurstaða hans að kröfuréttur stefnda á hendur áfrýjendum sem sjálfskuldarábyrgðarmönnum skuldabréfsins njóti verndar 72. gr. stjórnarskrár og að þau réttindi verði ekki skert án bóta með afturvirkri íþyngjandi löggjöf á þann hátt sem að framan var lýst.
Stjórnarskráin er skýr þegar kemur að eignarréttinum en í 72. grein segir:
Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.
Árni Páll Árnason er lögfræðingur að mennt. Í stað þess að bregðast við dómi Hæstaréttar af hógværð og lýsa því yfir að hann muni beita sér fyrir að lögum verði breytt svo þau gangi ekki gegn stjórnarskrá, hnýtir hann í Hæstarétt. Orðrétt sagði Árni Páll í viðtali við Ríkissjónvarpið:
Þessi dómur veldur vonbrigðum. Það er ljóst á honum að Hæstiréttur metur meira bókstafsskilning á eignarréttarvernd kröfuhafa en vernd einkalífs og heimilis eignalauss fólks.
Síðan bætti ráðherrann, líkt og hann sæi örlítið að sér, að nú skipti miklu að menn meti dóminn af yfirvegun.
Er nema furða að margir landsmenn telji rétt að endurskoða stjórnarskránna þar sem ekki sé farið eftir henni? Viðhorf Árna Páls Árnasonar ýta undir viðhorf af þessu tagi. Virðing ráðamanna fyrir stjórnarskrárvörðum réttindum er ekki mikil. En stjórnarskráin stendur ágætlega fyrir sínu ef Hæstiréttur heldur áfram vakandi varðstöðu sinni og ef viðhorfum viðskipta- og efnahagsráðherra, er hafnað af öllum almenningi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:12 | Slóð | Facebook
Og hvað?
Þriðjudagur, 23. nóvember 2010
Ég er ekki viss um að Oddný Harðardóttir sé með það á hreinu hvað stefna ríkisstjórnarinnar þýðir, - hvað þá að hún átti sig á þeirri einföldu staðreynd að verið er draga úr möguleikum okkar til hagvaxtar. Samverkamenn hennar innan VG eru á móti hagvexti og telja hann af hinu illa, eins og Svandís Svavarsdóttir, lýsti yfir um helgina. Því miður er hægt að draga í efa skilning Oddnýjar og margra stjórnarþingmanna á samhengi hlutanna - samhengi á milli skatta og atvinnulífs, hagvaxtar og ríkisfjármála.
En eitt veit ég, eftir að hafa kynnst hinum nýja formanni fjárlaganefndar, að hún er hrein og bein. Tækifæri framsóknarmanna, sjálfstæðismanna og meirihluta þingmanna Samfylkingarinnar, liggja í því að taka höndum saman og umbylta fjárlagafrumvarpi komandi árs, sem felur feigðina í sér. Oddný býr yfir þeiri skynsemi að taka höndum saman við þá sem hafa réttar hugmyndir.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður fjárlaganefndar Alþingi, sagði á Alþingi að endurmeta þyrfti forsendur fjárlagafrumvarpsins í ljósi nýrrar þjóðhagsspár sem Hagstofan birti í morgun.
Oddný sagði, að unnið verði eftir efnahagsáætluninni, sem lögð var fram í júní í fyrra, sem gerði ráð fyrir frumjöfnuði árið 2011.
Oddný sagði ljóst, að endurskoða þurfi tekjuhlið fjárlaga næsta árs. Hún benti þó á að ýmsir þættir nýju hagspárinnar væru jákvæðar og allar hagspár, sem birst hafa að undanförnu, gerðu ráð fyrir hagvexti á næsta ári sem sýndi, að Íslendingar séu á leið út úr kreppunni. Þá fari verðbólgan áfram minnkandi og aðstæður séu því að skapast fyrir frekari lækkun vaxta.
Þarf að endurmeta forsendur fjárlaganna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:43 | Slóð | Facebook
Samstarf við VG kemur ekki til greina
Mánudagur, 22. nóvember 2010
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, hefur lengi fært rök fyrir því að skynsamlegt sé fyrir land og þjóð að sjálfstæðismenn og vinstri grænir taki höndum saman við endurreisn efnahagslífsins. Hann á sér skoðanabræður jafnt innan Sjálfstæðisflokksins og VG.
Ég var einn þeirra sem gældi við þá hugmynd að "sögulegar pólitískar sættir" milli flokkanna væru þjóðinni fyrir bestu á erfiðum tímum. Kom þar tvennt til. Annars vegar sú sannfæring að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, væri langt frá því að ná tökum á þeim verkefnum sem nauðsynlegt er að sinna, þvert á móti. Stefnan stjórnarinnar hefur aukið erfiðleikana og dýpkað kreppuna, enda fjandsamleg gagnvart atvinnulífinu og í baráttu gegn millistéttinni sem er verið að útrýma með álögum. Hins vegar hef ég sannfærst um það á síðustu misserum að útilokað sé að eiga samstarf við Samfylkinguna með þá forystu sem þar stendur í brúnni.
Í pistli á Evrópuvaktinni skrifar Styrmir ágætan pistil þar sem hann veltir því fyrir sér hvort hægt sé að byggja upp traust á milli Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. Tilefnið er fundur flokksráðs síðarnefnda flokksins um helgina, en augljóst er að djúpstætt "hatur" er meðal margra vinstri grænna í garð Sjálfstæðisflokksins. Styrmir hefur ákveðna samúð með þeim enda sé söguleg skýring á "hatrinu:
"Þessi afstaða til Sjálfstæðisflokksins á sér auðvitað djúpar rætur. Kalt stríð í hálfa öld skilur eftir sig spor. Og í ljósi þess, að stjórnmálahreyfing vinstri manna beið hvern ósigurinn á fætur öðrum í átökum við Sjálfstæðisflokkinn á þeim tíma er auðvelt að skilja, að forystumenn þeirrar hreyfingar séu tilbúnir til að ganga býsna langt til að halda þeim völdum, sem hrunið færði þeim í hendur."
Styrmir er sannfærður um að brúa verði gjánna milli VG og Sjálfstæðisflokksins:
"Þjóðin þarf líka á samstöðu að halda nú en margt bendir til að gjáin á milli ólíkra stjórnmálaafla sé breiðari en verið hefur lengi. Það eitt háir allri framþróun. Fátt er mikilvægara í stjórnmálum okkar nú en byggja upp traust á milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins."
Hugmyndin er því miður í besta falli rómantísk en óraunhæf. Það er útilokað fyrir hægri menn að ná samkomulagi við þann sem telur að kapítalisminn sé af hinu vonda, vegna þess að hann gerir ráð fyrir endalausum hagvexti. Talsmenn frjálsra viðskipta geta og mega aldrei gefa eftir gagnvart þeim sem trúa því að ekki sé hægt að sækja fram og auka velferð til framtíðar, en hagvöxtur er auðvitað forsenda aukinnar velmegunar. Þjóðfélag án hagvaxtar er þjóðfélag stöðnunar. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra er baráttukona stöðnunar - gegn hagvexti og velmegun.
Mér er það einnig óskiljanlegt hvernig þingmenn Sjálfstæðisflokksins myndu að réttlæta það að taka upp samstarf við Steingrím J. Sigfússon og Atla Gíslason eftir framgöngu hans í landsdómsmálinu. Slíkt sýndi aðeins geðleysi. Í stjórnmálum felur það feigðina í sér.
Það kann að vera að meirihluti fylgismanna vinstri grænna og meirihluti sjálfstæðismanna eigi samleið í afstöðunni til aðildar að Evrópusambandinu. En sú brúarsmíðin sem Styrmir Gunnarsson leggur til verður ekki unnin með þetta eina mál sem verkfæri.
Hugsjónir á spottprís
Laugardagur, 20. nóvember 2010
Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra lýsti því yfir á flokksráðsfundi Vinstri grænna í gærkvöldi, að brýnt sé að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Samkvæmt frétt á Vísir.is kyrjar Árni Þór Sigurðsson þingmaður undir.
Það er merkilegt ef það er yfirlýst markmið stjórnmálaflokks að halda öðrum flokki utan ríkisstjórnar eins lengi og hægt er. Til að ná þessu markmiði sínu er ekkert heilagt. Hugsjónir eru settar á uppboðstorg stjórnmálanna og þær seldar á spottprís. Í hatursherferð gegn Sjálfstæðisflokknum voru Svandís Svavarsdóttir, Árni Þór Sigurðsson og aðrir þingmenn vinstri grænna tilbúnir til að svíkja loforð sem kjósendum voru gefin.
Mikið hefði nú verið ánægjulegra að heyra fréttir um hvað Svandís Svavarsdóttir vill gera í atvinnumálum landsmanna í stað þess að lýsa því yfir að kapítalismi, sem gerir ráð fyrir endalausum hagvexti, leiði mannkynið til glötunar. Ég veit að Suðurnesjamenn hefðu haft áhuga á slíkum fréttum og Þingeyingar einnig. Raunar allir landsmenn. En eitt er ljóst; Svandís vill koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn komist í ríkisstjórn og þar með hlýtur atvinnumálum þjóðarinnar að vera borgið.
Árni Þór Sigurðsson, sem er orðinn sérstakur sendisveinn Evrópusambandsins hér á Íslandi, er skelfingu lostinn. Í ræðu á flokksráðsfundinum sagði hann, samkvæmt frásögn Vísis:
"Baneitraðir armar kolkrabbans eru enn víða í samfélaginu. Látum þá ekki eitra meira og ná yfirhöndinni á ný. Við vitum hvaðan þeim er stjórnað."
Auðvitað mega þessir eitruðu armar ekki ná yfirhöndinni á ný. Slíkt gæti komið í veg fyrir að Steingrími J. Sigfússyni tækist að semja við Breta og Hollendinga um Icesave. Slíkt gæti sett allt aðlögunarferlið að Evrópusambandinu í uppnám. En verst af öllu er hugsanlegt að hjól atvinnulífsins tækju að snúast á ný, sem er í andstöðu við grunnhugmyndir umhverfisráðherra, sem lítur á hagvöxt sem afkæmi hins illa.
En kannski er þetta allt innantómt hjal sem ekki ber að taka mark á ekki frekar en stefnuyfirlýsingu vinstri grænna þar sem segir meðal annars:"Samskipti við Evrópusambandið ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála. Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of."
Hugsjónin um að halda Sjálfstæðisflokknum frá ríkisstjórn verður að líkindum til sölu fyrir spottprís líkt og andstaðan við Evrópusambandið. Vandi vinstri grænna er auðvitað sá að kaupandinn verður ekki til staðar.