Samstarf við VG kemur ekki til greina

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, hefur lengi fært rök fyrir því að skynsamlegt sé fyrir land og þjóð að sjálfstæðismenn og vinstri grænir taki höndum saman við endurreisn efnahagslífsins. Hann á sér skoðanabræður jafnt innan Sjálfstæðisflokksins og VG.

Ég var einn þeirra sem gældi við þá hugmynd að "sögulegar pólitískar sættir" milli flokkanna væru þjóðinni fyrir bestu á erfiðum tímum. Kom þar tvennt til. Annars vegar sú sannfæring að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, væri langt frá því að ná tökum á þeim verkefnum sem nauðsynlegt er að sinna, þvert á móti. Stefnan stjórnarinnar hefur aukið erfiðleikana og dýpkað kreppuna, enda fjandsamleg gagnvart atvinnulífinu og í baráttu gegn millistéttinni sem er verið að útrýma með álögum. Hins vegar hef ég sannfærst um það á síðustu misserum að útilokað sé að eiga samstarf við Samfylkinguna með þá forystu sem þar stendur í brúnni.

Í pistli á Evrópuvaktinni skrifar Styrmir ágætan pistil þar sem hann veltir því fyrir sér hvort hægt sé að byggja upp traust á milli Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. Tilefnið er fundur flokksráðs síðarnefnda flokksins um helgina, en augljóst er að djúpstætt "hatur" er meðal margra vinstri grænna í garð Sjálfstæðisflokksins. Styrmir hefur ákveðna samúð með þeim enda sé söguleg skýring á "hatrinu:

"Þessi afstaða til Sjálfstæðisflokksins á sér auðvitað djúpar rætur. Kalt stríð í hálfa öld skilur eftir sig spor. Og í ljósi þess, að stjórnmálahreyfing vinstri manna beið hvern ósigurinn á fætur öðrum í átökum við Sjálfstæðisflokkinn á þeim tíma er auðvelt að skilja, að forystumenn þeirrar hreyfingar séu tilbúnir til að ganga býsna langt til að halda þeim völdum, sem hrunið færði þeim í hendur."

Styrmir er sannfærður um að brúa verði gjánna milli VG og Sjálfstæðisflokksins:

"Þjóðin þarf líka á samstöðu að halda nú en margt bendir til að gjáin á milli ólíkra stjórnmálaafla sé breiðari en verið hefur lengi. Það eitt háir allri framþróun. Fátt er mikilvægara í stjórnmálum okkar nú en byggja upp traust á milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins."

Hugmyndin er því miður í besta falli rómantísk en óraunhæf. Það er útilokað fyrir hægri menn að ná samkomulagi við þann sem telur að kapítalisminn sé af hinu vonda, vegna þess að hann gerir ráð fyrir endalausum hagvexti. Talsmenn frjálsra viðskipta geta og mega aldrei gefa eftir gagnvart þeim sem trúa því að ekki sé hægt að sækja fram og auka velferð til framtíðar, en hagvöxtur er auðvitað forsenda aukinnar velmegunar. Þjóðfélag án hagvaxtar er þjóðfélag stöðnunar. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra er baráttukona stöðnunar - gegn hagvexti og velmegun.

Mér er það einnig óskiljanlegt hvernig þingmenn Sjálfstæðisflokksins myndu að réttlæta það að taka upp samstarf við Steingrím J. Sigfússon og Atla Gíslason eftir framgöngu hans í landsdómsmálinu. Slíkt sýndi aðeins geðleysi. Í stjórnmálum felur það feigðina í sér.

Það kann að vera að meirihluti fylgismanna vinstri grænna og meirihluti sjálfstæðismanna eigi samleið í afstöðunni til aðildar að Evrópusambandinu. En sú brúarsmíðin sem Styrmir Gunnarsson leggur til verður ekki unnin með þetta eina mál sem verkfæri. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband