Hugsjónir á spottprís

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra lýsti því yfir á flokksráðsfundi Vinstri grænna í gærkvöldi, að brýnt sé að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Samkvæmt frétt á Vísir.is kyrjar Árni Þór Sigurðsson þingmaður undir.

Það er merkilegt ef það er yfirlýst markmið stjórnmálaflokks að halda öðrum flokki utan ríkisstjórnar eins lengi og hægt er. Til að ná þessu markmiði sínu er ekkert heilagt. Hugsjónir eru settar á uppboðstorg stjórnmálanna og þær seldar á spottprís. Í hatursherferð gegn Sjálfstæðisflokknum voru Svandís Svavarsdóttir, Árni Þór Sigurðsson og aðrir þingmenn vinstri grænna tilbúnir til að svíkja loforð sem kjósendum voru gefin.   

Mikið hefði nú verið ánægjulegra að heyra fréttir um hvað Svandís Svavarsdóttir vill gera í atvinnumálum landsmanna í stað þess að lýsa því yfir að kapítalismi, sem gerir ráð fyrir endalausum hagvexti, leiði mannkynið til glötunar. Ég veit að Suðurnesjamenn hefðu haft áhuga á slíkum fréttum og Þingeyingar einnig. Raunar allir landsmenn. En eitt er ljóst; Svandís vill koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn komist í ríkisstjórn og þar með hlýtur atvinnumálum þjóðarinnar að vera borgið.

Árni Þór Sigurðsson, sem er orðinn sérstakur sendisveinn Evrópusambandsins hér á Íslandi, er skelfingu lostinn. Í ræðu á flokksráðsfundinum sagði hann, samkvæmt frásögn Vísis:

"Baneitraðir armar kolkrabbans eru enn víða í samfélaginu. Látum þá ekki eitra meira og ná yfirhöndinni á ný. Við vitum hvaðan þeim er stjórnað."

Auðvitað mega þessir eitruðu armar ekki ná yfirhöndinni á ný. Slíkt gæti komið í veg fyrir að Steingrími J. Sigfússyni tækist að semja við Breta og Hollendinga um Icesave. Slíkt gæti sett allt aðlögunarferlið að Evrópusambandinu í uppnám. En verst af öllu er hugsanlegt að hjól atvinnulífsins tækju að snúast á ný, sem er í andstöðu við grunnhugmyndir umhverfisráðherra, sem lítur á hagvöxt sem afkæmi hins illa. 

En kannski er þetta allt innantómt hjal sem ekki ber að taka mark á ekki frekar en stefnuyfirlýsingu vinstri grænna þar sem segir meðal annars:

"Samskipti við Evrópusambandið ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála. Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of."

Hugsjónin um að halda Sjálfstæðisflokknum frá ríkisstjórn verður að líkindum til sölu fyrir spottprís líkt og andstaðan við Evrópusambandið. Vandi vinstri grænna er auðvitað sá að kaupandinn verður ekki til staðar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband