Silkiklæddur kúgunarhanski

Jónína Michaelsdóttir, blaðamaður skrifar stórgóða grein í Fréttablaðið í dag, sem vert er að vekja athygli á. Yfirskriftin er Lýðræði eða ríkisræði. Eins og ætíð er Jónína rökföst og góður talsmaður frjálslyndra viðhorfa.

Jónína varar mjög við hugmyndum sem nú ráða ferðinni við stjórn landsmálanna:

"Vandaður og úthugsaður samfélagsrammi er uppistaða samfélagsins. Allir rata um hann og vita hvað má og hvað ekki. Þegar fólki er treyst fyrir sjálfu sér, eflist athafnalíf og velmegun. Þegar hið opinbera þrengir rammann smátt og smátt, dregur það bæði úr framtakssemi og farsæld. Þegar þeir sem stjórna landinu trúa því í einlægni að það sé almenningi fyrir bestu að hafa ekki of mikið svigrúm, laun eða umsvif, þá er silkiklæddur kúgunarhanski ekki langt undan. Þegar við bætist að stjórnarliðið rær hvert í sína áttina, en alltaf með yfirlæti og sjálfhól á vörum, þá er ekki nema von að almenningur sé ráðvilltur."

Og Jónína segir litla sögu um það hvernig við öll getum orðið samdauna kerfi hafna og ríkisforsjár:

"Fyrir mörgum árum var mér sagt frá virtum manni í viðskiptalífinu, sem fékk leyfi til að kaupa sér bifreið frá útlöndum á þeim tíma sem innflutningur á bifreiðum var ekki leyfður. Ekki fyrir hvern sem var. En þeir sem fengu þessi leyfi gátu sótt um að kaupa nýja bifreið á nokkurra ára fresti. Þegar að því kom að þessi höft voru leyst og allir sem höfðu ráð á því gátu keypt sér bifreið, varð þessi maður mjög áhyggjufullur. Þetta kynni ekki góðri lukku að stýra. Það væri hreint ekki fyrir alla að keyra bíl og hann sá fyrir sér slys og öngþveiti ef þetta færi í gegn. Sá sem sagði mér frá þessu var vinur mannsins. Sagði hann hafa verið heiðarlegan mann og góðgjarnan, en orðinn svo samdauna forræði ríkisins og höftum, að hugsun um opið hagkerfi og sjálfræði einstaklinga hefði hrætt hann og komið honum úr jafnvægi."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband