Innantóm loforð
Miðvikudagur, 17. nóvember 2010
Eftir að ríkisstjórnin áttaði sig á því að niðurskurður í heilbrigðismálum gerði allt vitlaust, enda beint fyrst og fremst að landsbyggðinni, gaf heilbrigðisráðherra til kynna að endurskoða þyrfti fjárlagafrumvarpið. Guðbjartur Hannesson heilbrigðisráðherra var formaður fjárlaganefndar Alþingis áður en hann tók við ráðherraembætti í haust, þegar reynt var að gefa ríkisstjórninni ný andlit.
Hann hefur komið fram sem hvítvoðungur gagnvart heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni sem standa frammi fyrir því að skera niður með þeim hætti að ekki er hægt annað en tala um eðlisbreytingu á starfsemi sem á ekkert skylt við hagræðingu. Á sumum stöðum er verið að leggja niður þjónustuna. Guðbjartur kannast vegar ekki við niðurskurðinn, sem m.a. felur í sér að eldra fólk, sem lagði grunninn að velferð okkar sem erum yngri verður flutt "hreppaflutningum" líkt og í Vopnafirði.
Guðbjartur lofar að skoða málið og segist ekki bera ábyrgð á einu eða neinu. Merkilegt að þó að niðurskurðurinn skuli hins vegar vera takmarkaður í hans heimabyggð.
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segir við stúdenta að hún vonist til að við aðra umræðu um fjárlagafrumvarpið verði hnífurinn ekki jafnbeittur og félagi hennar, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, ætlar að nota,
Þeir ráðherrar sem fara með stærsta hluta útgjalda ríkissjóðs lofa bót og betrun. Það þýðir aðeins tvennt. Annað hvort verður skorið meira niður hjá öðrum eða skattar hækkaðir. Þetta er jú vinstri stjórn, sem hefur engan skilning á því að lægri skattar geti skilað hærri tekjum. Stjórn sem skipulega berst gegn þyngdarlögmálinu.
Er nema von að efnahagsbatinn láti á sér standa?
Ráðherra ræddi við mótmælendur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook