Ungt afreksfólk vekur bjartsýni
Mánudagur, 25. október 2010
Ef rétt er á málum haldið eiga Íslendingar bjartari framtíð en flestar aðrar þjóðir. Þrátt fyrir allt eru undirstöður þjóðfélagsins traustar og ungt hæfileikaríkt fólk er á "hverju strái".
Þegar þjóð glímir við erfiðleika er mikilvægt að þeir sem veljast til forystu komi fram af sannfæringu og berji kjark í almenning og viðskiptalífið. Því miður hefur ríkisstjórnin unnið skipulega að því að drepa allt í dróma og dregið úr vongleði og áræðni. Hjól efnahagslífsins eru því í hægagangi og sum hafa stöðvast.
Við slíkar aðstæður er það ómetanlegt að eiga glæsilega fulltrúa þeirrar kynslóðar sem innan tíðar tekur við völdum, ef okkur auðnast að koma í veg fyrir landflótta. Afreksmenn U21 landsliðsins í knattspyrnu hafa þegar tryggt sér sæti í úrslitakeppi Evrópumótsins í Danmörku á komandi ári, og í dag vann kvennalið Gerplu það afrek að ná Evrópumeistaratitli í hópfimleikum. Vert er að óska þessu unga afreksfólki til hamingju með einstakan árangur, þó ekki væri fyrir annað en að kveikja loga bjartsýni í brjóstum landsmanna.