Samt halda Ögmundur og Lilja áfram
Mánudagur, 31. janúar 2011
Ögmundur Jónasson gefur Jóhönnu Sigurðardóttur, verkstjóra sínum og ríkisstjórnarinnar einkunn: Hana skortir góða dómgrein. Hún er ekki sanngjörn.
En Ögmundur ætlar samt sem áður að halda áfram að starfa undir verkstjórn Jóhönnu eins og ekkert hafi í skorist.
Lilja Mósesdóttir, samherji Ögmundar innan VG, segir í viðtali við Fréttablaðið í dag að hættulegt sé að flokksformenn beiti hótunum til þess að fá þingmenn til fylgis við stefnu ríkisstjórnarinnar:
"Það getur verið mjög hættulegt að ganga að öllu því sem kemur inn á borð þingsins og ekki leyfa ólíkum sjónarmiðum að koma fram. Hvað á ég til dæmis að gera þegar við förum að ræða breytingar á kvótakerfinu? Á ég þá bara að fylgja Jóhönnu? Eigum við þá ekki að ræða málin svo hægt sé að koma í veg fyrir stórslys?"
Lilja gefur Jóhönnu ekki háa einkunn og segir hana vera gamaldags stjórnmálamann, "sem rannsóknarnefnd Alþingis taldi að hefði átt þátt í hruninu".
Ætlar Lilja að gera það sama og Ögmundur? Sitja áfram og starfa undir stjórn "gamaldags" stjórnmálamanns sem beitir hótunum til að ná sínum fram og koma í veg fyrir gagnrýni. Lilja virðist telja að slíkt leiði til ófarnaðar. Á meðan Lilja styður ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur verður hún að taka pólitíska ábyrgð á gerðum hennar.
Skortur á sanngirni og dómgreind | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook