Wikileaks mótar íslenska lagasetningu

Morgunblaðið hefur það eftir Þór Saari, þingmanni Hreyfingarinnar, að Julian Assange og aðrir fulltrúar Wikileaks hafi verið gestir í skrifstofubyggingu Alþingis þar sem fartölvan, sem hugsanlega var notuð til njósna, fannst. Þar fóru fram fundir um þingsályktunartillögu um að Ísland skapaði sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi verndun tjáningar- og fjölmiðlafrelsis, eins og segir í fréttinni. Orðrétt segir Þór Saari:

"Þeir voru bara þarna sem gestir á fundum. Það var verið að vinna IMMA-þingsályktunartillöguna og þetta voru ekki bara Julian og Wikileaks sem voru þarna heldur líka bandarískur lögfræðingur, hollenskur lögfræðingur, fréttamaður frá BBC og alls konar sérfræðingar í upplýsingamálum. Þetta var flókið mál og legið lengi yfir því hvernig væri hægt að gera þetta."

Það sem vekur athygli er að það skuli teljast eðlilegt að vinna að löggjöf og/eða þingsályktunartillögu í samráði við erlenda aðila, sem eiga mikilla hagsmuna að gæta. Mér er það til efst að forráðamenn Wikileaks hafi átt slík tækifæri annars staðar í heiminum. 

Nú er sem sagt svo komið að það þykir sjálfsagt mál að hleypa erlendum hagsmunaaðilum beint að samningu íslenskra laga og reglna. 

Þingályktunartillagan um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis var lögð fram á Alþingi í febrúar 2010. Fyrsti flutningsmaður var Birgitta Jónsdóttir en meðflutningsmenn voru úr öllum flokkum.Tillagan var samþykkt í júní á liðnu ári með öllum greiddum atkvæðum en einn þingmaður greiddi ekki atkvæði.

Tillagan tók nokkrum breytingum í meðförum þingsins, eins og gengur og gerist. Þannig virðist Wikileaks vera komið með góða fótfestu við íslenska löggjöf.

Þingsályktunartillagan:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verði tryggð.
    Í þessu skyni verði:
    a.      gerð úttekt á lagaumhverfinu svo að hægt sé að afmarka viðfangsefnið og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf,
    b.      litið til löggjafar annarra ríkja með það að markmiði að sameina það besta til að skapa Íslandi sérstöðu á sviði tjáningar- og upplýsingafrelsis,
    c.      kannaðir möguleikar þess að koma á fót fyrstu alþjóðaverðlaununum sem kennd yrðu við Ísland, Íslensku tjáningarfrelsisverðlaununum,
    d.      gerð úttekt á viðbúnaði ríkisins, einkum á sviði öryggismála, vegna starfrækslu alþjóðlegra gagnavera hér á landi,
    e.      haldin alþjóðleg ráðstefna á Íslandi um breytingar á lagasetningu og netnotendaumhverfi með tilkomu gagnavera og hvaða réttarreglur gilda um netið.
    Við starfið verði leitað aðstoðar sérfróðra erlendra aðila.
    Markmiðið verði lýðræðisumbætur þar sem traustum stoðum verði komið undir útgáfustarfsemi og ásýnd landsins í alþjóðasamfélaginu efld.
    Mennta- og menningarmálaráðherra upplýsi Alþingi um framfylgd verkefna innan Stjórnarráðsins skv. 1.–4. mgr. á þriggja mánaða fresti frá samþykkt ályktunarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband