Þöggun fjölmiðla um gagnrýni Hjörleifs á forystu VG

Ég ætla að fullyrða eftirfarandi: Ef fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins kæmi fram á ritvöllinn og sakaði sinn gamla flokk um að hafa svikið stefnuna, hefðu allir fjölmiðlar slegið því upp sem frétt. Ef gamall refur og áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum fullyrti á opinberum vettvangi að forystuleysi væri vandamál og að ekki hafi tekist að halda uppi lýðræðislegu starfi innan flokksins, hefði allt logað í fjölmiðlum. Fréttastofa ríkisins hefði talið nauðsynlegt að kalla á hvern álitsgjafann á fætur öðrum, til að "varpa ljósi" á málið. Ef fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins hefði skrifað háðsádeilu á flokkinn og gert grín að varaformanni og öðrum trúnaðarmönnum hefðu allir fjölmiðlar tekið við sér og bloggheimar logað.

Ekkert af þessu hefur gerst þó Hjörleifur Guttormsson fyrrverandi ráðherra og áhrifamaður innan Vinstri grænna hafi á skömmum tíma skrifað tvær greinar þar sem forysta flokksins er harðlega gagnrýnd. Í fyrri greininni dregur Hjörleifur forystuna sundur og saman í háði og spotti. En fjölmiðlar þögðu. Síðari greinin birtist síðan í Morgunblaðinu í dag, eins og ég hef þegar bent á. 

Í greininni fyrir jól sagði Hjörleifur meðal annars:

"Nú hélt maður að eftir þrautir og vökunætur myndi þingflokkur VG fara til síns heima og láta kyrrt um sinn og sjá til hvort ekki rjátlaðist af mönnum ólundin uns aftur verði hringt bjöllum við Austurvöll. En þar misreiknuðu menn sig, því að fjórða valdið, fjölmiðlarnir okkar, gáfu sem oftar engin grið. Á fjórða sunnudegi í aðventu var varalið VG kallað fram á völlinn: Varaformaðurinn Katrín, varaformaður fjárlaganefndar Björn Valur og varaformaður þingflokks Árni Þór, öll á einni og sömu kvöldvaktinni hjá RÚV. Og þá fyrst varð landslýð ljóst í hversu bráðri hættu landsstjórnin er stödd vegna vélabragða þremenningaklíkunnar."

Síðar sagði Hjörleifur:

"Eftir á að koma í ljós hvort nokkrum detti í hug yfir hátíðarnar gömul sögn um flísina og bjálkann. Á meðan bíðum við hin í söfnuðinum eftir að þremenningaklíkan sýni umbeðin iðrunarmerki og allt falli í ljúfa löð."

Í dag gagnrýnir Hjörleifur forystuleysi VG í vandasömum ráðuneytum og að ekki hafi tekist að halda "lifandi glóðinni" í lýðræðislegu flokksstarfi. Hvorki meira né minna. Jafnframt heldur Hjörleifur því fram að flokkurinn hafi svikið stefnu flokksins í Evrópumálum.

Um það verður ekki deilt að Hjörleifur Guttormsson er áhrifamaður innan Vinstri grænna og gamall refur í pólitík. En fjölmiðlar þegja þunnu hljóði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband