Vinstri menn hafa engan skilning á verðmætasköpun
Miðvikudagur, 29. desember 2010
Liðsmenn Vinstri grænna leita nú skýringa á þeim erfiðleikum sem flokkurinn á við að glíma. Þingflokkurinn er sundraður og líf ríkisstjórnarinnar hangir á bláþræði. Lilja Mósesdóttir hugar að því að segja skilið við þingflokkinn og Atli Gíslason svarar fjölmiðlum á latínu; Cogito ergo sum [ég hugsa, þess vegna er ég]. Ásmundur Einar Daðason bíður átekta, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir þingflokksformaður er í barnseignarleyfi og Ögmundur Jónasson tekur til varna fyrir þá þingmenn sem ekki studdu fjárlagafrumvarp formanns Vinstri grænna og ríkisstjórnarinnar.
Teitur Bergþórsson, kennari og félagi í VG, segir í grein í Fréttablaðinu að ástæða þess að það hriktir í stoðum ríkisstjórnarinnar sé sú að "VG keypti Samfylkinguna of dýru verði - seldu sannfæringu sína í ESB málinu og þurfa svo aftur að selja sjávarútvegsstefnu sína gagnvart íhaldinu, til þess að eiga möguleika á að ganga frá Ísseifsmálinu".
Teitur telur að pólitík gangi út á málamiðlanir en svo virðist sem að VG geti klofnað í tvær fylkingar:
"Munurinn á þessum klofningi og þegar Alþýðubandalagið klofnaði er sá að nú eru þetta málefnaárekstrar en í hinu tilvikinu persónulegt skítkast á báða bóga."
Framtíð Vinstri grænna er ekki sérstaklega björt í huga Teits. Flokkurinn standi frammi fyrir því að verða "lítill samstilltur stjórnarandstöðuflokkur um ókomna framtíð eða stór lítt samstilltur flokkur sem gæti komist í stjórn öðru hvoru og haft áhrif".
Teitur bendir á að innan VG séu tveir mjög svo hæfir forystumenn og á þar annars vegar við Steingrím J. Sigfússon og að líkindum Ögmund Jónasson. Teitur telur að þeir verði að víkja og leiða nýjan formann til valda, - formann sem báðar fylkingar flokksins geti sætt sig við:
"Sveigjanlegan samningamann sem þó getur haldið uppi þeim aga sem þarf að vera í hópsamstarfi."
Í huga Teits er sundrungin í þingflokki VG ekki alvond ef hún verður til þess að fella núverandi ríkisstjórn. Teitur er líkt og margir aðrir búinn að gefast upp á ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, sem hann beið svo lengi eftir. Ástæðan er sú að þegar "að uppbyggingu kemur, og endurreisn hefst, blasir við, að vinstrimenn - upp til hópa - hafa nákvæmlega engan skilning á því með hvaða hætti verðmætasköpun verður til".
Dómur Teits er afdráttarlaus:
"Þessi ríkisstjórn er komin á endastöð og nú eiga leiðir að skilja."
Teitur elur þá von í brjósti að næsta ríkisstjórn verði mynduð með þátttöku Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Hreyfingarinnar. Ekki er ég viss um að honum verði að ósk sinni, jafnvel þó Teitur hafi trú á því að Styrmir Gunnarsson nái að bræða saman slíka stjórn ásamt Steingrími J. og Þór Saari.
Grein Teits er hins vegar merkilegt og gott innlegg í umræðuna. Það er alltaf gleðilegt þegar fylgismenn Vinstri grænna skrifa á þennan hátt þar sem áhersla er lögð á uppbyggingu atvinnulífsins. Greinin ber þess merki að innan VG eru einstaklingar sem skilja vel "með hvaða hætti verðmætasköpun verður til". Þeir mættu hins vegar láta heyra meira og oftar í sér.
Misvísandi skilaboð um samstarf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:41 | Facebook