Gott að línur skýrist

Ég vona að Guðbirni og öðrum þeim sem standa að stofnun þessa flokks gangi allt í haginn. Fyrirfram verður það hins vegar dregið í efa að mikil eftirspurn sé meðal miðju- og hægrimanna á Íslandi eftir flokki sem kennir sig við eitthvað norrænt - ekki eftir að hafa fengið að kynnast norrænni velferð í tæp tvö ár.

Guðbjörn starfaði lengi innan Sjálfstæðisflokksins en var mjög ósáttur við mikinn meirihluta landsfundarfulltrúa vegna stefnunnar í Evrópumálum. Á bloggsíðu sinni 27. júní síðastliðinn tilkynnti hann úrsögn sína og neitaði því að hún væri eingöngu vegna óánægju með stefnu flokksins varðandi aðild að Evrópusambandinu. Helst var á honum að skilja að ástæðuna mætti rekja til Davíðs Oddssonar, sem hætti í stjórnmálum fyrir liðlega fimm árum. En Guðbjörn boðaði þegar stofnun nýs stjórnmálaflokks:

"Það er vinna framundan við að skipuleggja og stofna nýjan heiðarlegan og ráðvandan miðjuflokk með léttri hægri sveiflu. Hér verður um að ræða flokk, þar sem venjulegt fólk ræður ferðinni og þar sem hagsmunir Íslendinga og íslenskra fyrirtækja verða settir í fyrsta sæti. Við munum ekki gera mun á fyrirtækjum eða mönnum og reyna að hygla sérstaklega að bændum eða útgerðarmönnum – þó þeir eigi allt gott skilið. Miðju- og hægrimenn gera sér grein fyrir að við verðum að framleiða og vinna okkur út úr vandanum og að öflugt atvinnulíf er undirstaða velferðar, menntunar og menningar. Við munum ekki aðeins hafa í huga og styðjast við ákvæði stjórnsýslulaga, stjórnarskrár og annarra laga þegar okkur hentar – líkt og margir ráðherrar virðast gera – heldur fylgja lagafyrirmælum út í ystu æsar. Ólíkt gömlu flokkunum, sem allir voru stofnaðir til að verja hagsmuni einhverra ákveðinna hópa í þjóðfélaginu, mun þessi flokkur einmitt að forðast sérhagsmunagæslu. Hagsmunir borgaranna og fyrirtækjanna í landinu, velferð þeirra og frelsi verður í forgrunni. Það er ekki ekki nóg að tala um frelsi, ábyrgð og umhyggju, heldur verður maður að lifa í samræmi við þessi orð og það hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki gert undanfarin 10 ár og engar líkur á að hann geri það á næstu árum eða áratugum."

17. nóvember skrifar Guðbjörn á bloggsíðu sína:

"Einsýnt er að nýr frjálslyndur og ESB hlynntur flokkur á miðjunni mun fæðast og gera Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki lífið leitt og taka til sín mikið fylgi á miðjunni."

Það er ágætt ef til verður borgaralegur flokkur undir forystu Guðbjörns eða einhvers félaga hans sem leggur áherslu á aðild Íslands að Evrópusambandinu. Slíkt skerpir aðeins línurnar í stjórnmálunum - línur sem oft hafa ekki verið skýrar.


mbl.is Segir viðbrögð góð við nýjum flokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband