Björn Valur er vanur dylgjum
Miðvikudagur, 22. desember 2010
Björn Valur Gíslason, sem er sérstakur sendiherra Steingríms J. Sigfússonar, er vanur því að fara fram með dylgjur og aðdróttanir í garð pólitískra andstæðinga. Það kemur ekkert á óvart lengur í þeim efnum.
Á fundi Alþingis 10. júní síðastliðinn gekk Björn Valur fram af öllum sómakærum mönnum sem hlustuðu á umræðu á Alþingi. Þá réðist Björn Valur með ótrúlegum og svívirðilegum hætti að Sigurði Kára Kristjánssyni. Mér finnst rétt að rifja þá umræðu upp:
Björn Valur Gíslason:
"Virðulegi forseti. Undir lok síðasta árs krafðist minni hlutinn á Alþingi undir forustu Sjálfstæðisflokksins þess að fá hina mjög svo virtu lögfræðistofu Mishcon de Reya til liðs við sig vegna Icesave-málsins sem þá var til umræðu. Alþingi varð við óskum stjórnarandstöðunnar og sagðist greiða lögfræðistofunni fyrir viðvikið enda var fullyrt af hálfu stjórnarandstöðunnar að umrædd lögfræðistofa væri öðrum fremri á þessu sviði og til þess bærari en aðrar að varpa nýju ljósi á málið. Annað kom í ljós. (Gripið fram í: Hún vann fyrir ríkisstjórnina.) Pappírarnir streymdu reyndar úr tölvum stofunnar hingað til lands í hundraðavís (Gripið fram í: Hún vann fyrir ríkisstjórnina.) en reyndust við frekari skoðun einskis virði og ekki til að varpa nýju ljósi á málið að nokkru leyti. Látum það (Gripið fram í.) liggja á milli hluta, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson.
Fyrir þessa gagnslausu vinnu greiddi Alþingi 22 millj. kr. (Gripið fram í.) eftir að hafa náð að kría út afslátt hjá lögfræðistofunni. Það var hins vegar greinilegt á þessum tíma að umrædd lögfræðistofa, Mishcon de Reya, hafði náin tengsl hingað til lands, til stjórnarandstöðunnar, og nokkuð ljóst hvert þau tengsl lágu. Því langar mig til að spyrja hv. þingmann ég tek það fram að ég var ekki búinn að vara hv. þingmann við þessari spurningu og ætlast ekki til þess að hann svari hér og nú. (Gripið fram í.) Ég varpa þeirri spurningu til hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar í þessu sambandi: Hver, ef einhver, hafa tengsl hans við þessa lögfræðistofu verið? Átti hv. þingmaður einhver samskipti við lögfræðistofuna Mishcon de Reya á þeim tíma þegar hann var aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins eða meðan hann gegndi þingmennsku fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og hver voru þessi tengsl?
Síðast en ekki síst, í ljósi viðhorfa þingmannsins til styrkjamála, þeirrar umræðu sem hefur verið á þingi og þeirrar háu upphæðar sem Alþingi greiddi lögfræðistofunni fyrir enga vinnu: Þáði hv. þingmaður einhverjar greiðslur frá stofunni fyrir vinnu hans og (Gripið fram í.) og aðkomu að málinu? (Forseti hringir.) Ég óska eftir því að þingmaðurinn svari þessari spurningu ef hann getur, (Forseti hringir.) annars láti hann það bíða."
Sigurður Kári Kristjánsson:
"Herra forseti. Ég ætla að svara hérna þessum makalausu yfirlýsingum og aðdróttunum hv. þm. Björns Vals Gíslasonar um meint tengsl mín við lögfræðistofuna Mishcon de Reya sem hæstv. ríkisstjórn réði til starfa fyrir sig. Hann lætur að því liggja að ég hafi síðar, vegna aðkomu þeirrar stofu að vinnu fyrir þingið, haft einhverja aðkomu að því máli og jafnvel þegið greiðslur frá lögmannsstofunni.
Það er algjörlega rangt. Þetta eru svívirðilegar ávirðingar sem hv. þingmaður kemur með á hendur mér. Ég hef engin tengsl við þessa stofu. Ég samdi ekki við hana um að hún ynni fyrir Alþingi. Það gerðu formaður fjárlaganefndar og skrifstofa Alþingis. Það gerði ég ekki og það gerði Sjálfstæðisflokkurinn ekki. Ég skil ekki af hverju íslensk stjórnmál þurfa að vera komin niður (Forseti hringir.) á það plan sem hv. þm. Björn Valur Gíslason (Forseti hringir.) hefur dregið þau niður á. Það er honum (Forseti hringir.) og flokki hans til skammar að bera þessar sakir á mig eða (Forseti hringir.) aðra þingmenn hér og hann ætti að skammast sín og biðjast afsökunar." [Kliður í þingsal.]
Einar K. Guðfinnsson:
"Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum dagskrárlið vegna þess að ég tel að hæstv. forseti hefði átt að víta hv. þm. Björn Val Gíslason. (Gripið fram í: Heyr.) Það er óþolandi að hv. þingmaður bregði sér hér í hlutverk rógberans og beri sakir á menn til þess eins að láta þá reyna að afneita þeim. Þetta er þekkt fyrirbæri en hefur aldrei notið mikillar virðingar.
Látum þá neita því, sögðu menn vestur í Bandaríkjunum, og höfðu skömm fyrir. Hv. þingmaður ætti að skammast sín. Hv. þingmaður hefur verið í þeirri stöðu sem varaformaður fjárlaganefndar að kalla eftir alls konar nefndarálitum og sérfræðiálitum sem greitt er fyrir. Engum dettur í hug að ætla að hann hafi haft af því fjárhagslega hagsmuni, en þetta var það sem hann sagði í raun og veru, hann fór niður á slíkt plan. (VigH: Rétt.) Ef hv. þingmaður er maður að meiri ætti hann að koma hér upp og biðjast afsökunar."
Hægt er að lesa eða hlusta á umræðuna á vef Alþingis. Umræðan var tvíþætt, annars vegar um störf þingsins og hins vegar um fundarstjórn.
Biður Kristján Þór afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook