Hjörleifur hæðist að forystu VG
Miðvikudagur, 22. desember 2010
Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherra og áhrifamaður innan Vinstri grænna hæðist að forystu flokksins í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Tilefnið er hjáseta þremenninganna svokölluðu við afgreiðslu fjárlaga og viðbrögð flokksforystunnar. Steingrímur J. Sigfússon formaður flokksins hefur lítt haft sig í frammi undanfarna daga en þess í stað sent út varamenn af ýmsu toga eins og Hjörleifur gerir góðlátlegt grín að.
Hjörleifur segir meðal annars í grein sinni:
"Nú hélt maður að eftir þrautir og vökunætur myndi þingflokkur VG fara til síns heima og láta kyrrt um sinn og sjá til hvort ekki rjátlaðist af mönnum ólundin uns aftur verði hringt bjöllum við Austurvöll. En þar misreiknuðu menn sig, því að fjórða valdið, fjölmiðlarnir okkar, gáfu sem oftar engin grið. Á fjórða sunnudegi í aðventu var varalið VG kallað fram á völlinn: Varaformaðurinn Katrín, varaformaður fjárlaganefndar Björn Valur og varaformaður þingflokks Árni Þór, öll á einni og sömu kvöldvaktinni hjá RÚV. Og þá fyrst varð landslýð ljóst í hversu bráðri hættu landsstjórnin er stödd vegna vélabragða þremenningaklíkunnar.
Öll áttu þau í varaliðinu það sammerkt að fordæma með sterkum orðum afstöðu þremenninganna og voru sammælt um að þeirra síðarnefndu biði það verkefni "að vinna sig út úr þeim vanda sem þau eru komin í og öðlast á ný traust og trúnað yfirgnæfandi meirihluta þingflokksins" (Björn Valur). Varaformaður flokksins sagði: "Að sjálfsögðu er þetta alvarlegur núningur, þetta er hreinn ágreiningur" og upp úr áramótum komi í ljós hvort þingflokkurinn klofnar eða hvort takist að bera klæði á vopnin. Árni Þór sagði málflutning þremenninganna ósanngjarnan, rangan og ódrengilegan. "Þessir þingmenn verða sjálfir að svara því hvort þeir treysti sér til að vinna með okkur hinum... þau verða að leggja sig fram um að endurheimta það traust."
Hjörleifur segir að ljóst sé að réttur hafi verið settur yfir hinum "bersyndugu" en þeir geti notað jóladagana og búið "sig undir að feta svipugöngin inn í hin helgu vé þingflokksins, þar sem postulatalan 12 stendur vörð". Hæðnislega segist Hjörleifur vonast til að þar sé enginn Júdas. Síðan lýkur Hjörleifur grein sinni á eftirfarandi orðum:
"Eftir á að koma í ljós hvort nokkrum detti í hug yfir hátíðarnar gömul sögn um flísina og bjálkann. Á meðan bíðum við hin í söfnuðinum eftir að þremenningaklíkan sýni umbeðin iðrunarmerki og allt falli í ljúfa löð."
Þannig heldur farsinn í þingflokki Vinstri grænna áfram. Árni Þór, sem er starfandi formaður þingflokksins, ræðir ekki við stóran hluta þingflokksins þar af tvo ráðherra. Steingrímur J. hefur dregið sig í hlé en sendir vara-þetta og vara-hitt til að láta svipuhöggin dynja á þeim sem ekki er rætt við.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook