Okkur skjátlaðist, segir skáldið
Mánudagur, 13. desember 2010
Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur er ekki fullur iðrunar en iðrast þó í grein sem hann skrifar í Fréttablaðið í dag. En iðrunin kemur ekki í veg fyrir að hann haldi áfram að ausa úr skálum reiði sinnar gagnvart Sjálfstæðisflokknum.
Rithöfundurinn játar að hafa haft rangt fyrir sér í Icesave-málinu og skrifar:
"Um það er þarflaust að þrefa: Okkur skjátlaðist. Við, þessi minnihluti landsmanna sem vildum ljúka Icesave-málinu um síðustu áramót, fá þetta út úr heiminum og halda áfram út úr kreppunni með hjálp annarra þjóða - okkur skjátlaðist, við paníkeruðum.
Samningurinn sem nú liggur fyrir í Icesave-málinu er svo miklu hagstæðari en sá sem þá lá fyrir að um það er þarflaust að þrefa heldur ættum við að gleðjast og þakka þeim sem náðu fram svo miklu hagfelldari niðurstöðu - ekki síst forsetanum.
Vera kann að á móti komi tjón vegna frosinna lánamarkaða - þótt ef til sé það lánafrost líka viss blessun því að engar virkjanaframkvæmdir hafa fyrir vikið orðið og engin lán verið tekin í ámóta hálfvitagang - og forsendur hafa breyst en það breytir engu: Okkur skjátlaðist."
Guðmundur Andri reynir (fullur iðrunar) að réttlæta fyrir lesendum af hverju hann og skoðanabræður hans vildu samþykkja Icesave-samninginn sem að öllu öðru óbreyttu hefði leitt til þjóðargjaldþrots. En allt er þetta Sjálfstæðisflokknum að kenna því eins og skáldið segir:
"Icesave er afurð Sjálfstæðisflokksins sem afhenti vildarmönnum á silfurfati banka sem tók þá sex ár að setja í þrot með óvenju miklum tilþrifum. Í Icesave-deild bankans starfaði gjörvöll ungliðadeild Sjálfstæðisflokksins og það voru helstu innherjar flokksins sem gerðu fyrsta og versta Icesave-samninginn."
Það er merkilegt með menn eins og Guðmund Andra að þegar hann hefur rangt fyrir sér þá er skýringanna alltaf að leita hjá hinu vonda íhaldi.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook