Öfgakennd og órökrétt pólitísk stefna
Mánudagur, 6. desember 2010
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, skrifar stórgóða grein í Morgunblaðið í dag. Hann bendir á að með neyðarlögunum í október 2009 hafi íslenska ríkið verið varið. Sigmundur veltir því fyrir sér hvort núverandi ríkisstjórn hefði haft kjark til að setja neyðarlögin - ríkisstjórn sem stöðugt bugtar sig og beygir fyrir kröfuhöfum og alþjóðastofnunum. Með neyðarlögunum voru eignir varðar en það gleymdist að huga að skuldunum. Þannig var það verk að verja íslenskan almenning fyrir áhrifum af falli einkabankanna ekki nema hálfklárað, að mati Sigmundar Davíðs.
Niðurstaða formanns Framsóknarflokksins er einföld og undir hana er tekið:
"Í stað þess að klára verkið og nýta hina miklu kosti sem Ísland hafði í stöðunni hafa valdhafarnir litið fyrst og fremst á hrunið sem tækifæri til að innleiða öfgakennda og órökrétta pólitíska stefnu. Á sama tíma hefur fólk sem hefur aldrei talið það nógu merkilegt að vera Íslendingur reynt að upphefja sjálft sig og afstöðu sína með því að túlka hrunið sem skipbrot íslensks samfélags og Íslendinga sem þjóðar. Það telur sig hafa fengið sönnun þess að Íslendingar séu spilltir aular; allir nema það sjálft, sjálfskipuðu gáfumennirnir og utangarðsmennirnir.
Þrot bankakerfisins hér og annars staðar var afleiðing af sama falska fjármálakerfinu. Það varð ekki vegna íslensku stjórnarskrárinnar, umræðuhefðar þingsins, smæðar samfélagsins eða sölu ríkisfyrirtækja. En ef við viljum leysa efnahagsvandann verðum við að gera okkur grein fyrir raunverulegum orsökum hans. Hætti menn að líta á hrunið fyrst og fremst sem réttlætingu fyrir pólitískum öfgum blasir við að við Íslendingar höfum meiri og betri tækifæri en flestar aðrar þjóðir ef við þorum að nýta þau."
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:42 | Facebook