Skollaleikur
Mánudagur, 25. október 2010

Sú stjórnarskrá sem er í gildi í dag er þriðja stjórnarskrá sem Íslendingar hafa fengið. Okkar fyrsta stjórnarskrá tók gildi árið 1874, sú næsta árið 1920, í kjölfar þess að við urðum fullvalda ríki árið 1918. En gildandi stjórnarskrá tók gildi við lýðveldisstofnunina árið 1944.
Margir þingmenn og álitsgjafar hafa tekið til máls og rætt um nauðsyn þess að breyta stjórnarskránni. Látið er í veðri vaka að stjórnarskráin hafi verið óbreytt frá árinu 1944, og jafnvel frá 1974. Þetta er auðvitað kolrangt og kemur fram í skýrslu sem var gerð árið 2005 og skrifuð var af Gunnari Helga Kristinssyni stjórnmálafræðiprófessor að beiðni nefndar um breytingar á stjórnarskrá. Þar kemur fram að af 79 efnisgreinum hefur 45 verið breytt, hvorki fleiri né færri.
Ef við lítum á einstaka kafla stjórnarskrárinnar kemur hins vegar í ljós að í 1. kafla, sem er stjórnskipunin, eru tvær greinar og þeim hefur aldrei verið breytt. En í 2. kafla, sem eru forsetakosningar og ákvæði um forseta og ríkisstjórn, sem eru 28 greinar, hefur 6 verið breytt. Í 3. kafla hefur öllum greinunum verið breytt um þingkosningar. Í 4. kafla, Störf Alþingis, eru 24 greinar og 17 hefur verið breytt. Í 5. kafla, Dómsvaldið, eru 3 greinar og einni hefur verið breytt. Kirkja og trúfrelsi, þar eru þrjár greinar, tveimur hefur verið breytt. Þegar kemur að 7. kafla um mannréttindi og stjórnarskrárbreytingar, sem er 15 greinar, hefur öllum breytt og í rauninni bætt við.
Þegar menn tala um að hér sé ekki um lifandi plagg að ræða sem hafi fengið að þróast í tímanna rás eru menn að fara með rangt mál. En það á eðli málsins samkvæmt að vera erfitt að breyta stjórnarskrá. Grundvallarrit á ekki að taka breytingum eftir því hvernig tímabundnir pólitískir vindar blása. Stjórnarskráin tryggir fyrst og fremst réttindi einstaklinganna - réttindi borgaranna gagnvart ríkisvaldinu.Þegar stjórnmálamenn og misvitrir álitsgjafa hafa áhuga á því að breyta stjórnarskrá eiga landsmenn að vera í varðstöðu.