Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Gleðilegt ár - áminning frá Reagan

Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs.

Á nýju ári ættum við að hafa orð Ronalds Reagan að leiðarljósi. Þá farnast okkur Íslendingum betur.


Jóhanna kvartar yfir Davíð - Hacker kvartaði einnig

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kvartar sáran yfir Davíð Oddssyni - manninum sem hélt hlíðarhendi yfir henni gagnvart Jóni Baldvin Hannibalssyni í Viðeyjarstjórninni.

Það er hreint magnað að forsætisráðherra skuli nýta upphaf áramótagreinar í Morgunblaðinu til þess að hnýta í ritstjórann:

"Þegar ósk barst um að formaður Samfylkingarinnar skrifaði áramótagrein í Morgunblaðið hugleiddi ég að verða ekki við þeirri beiðni, enda eiga rætin og lágkúruleg skrif núverandi ritstjóra blaðsins í garð undirritaðrar vart hliðstæðu í síðari tíma blaðasögu. Ekki kveinka ég mér þó undan réttmætri gagnrýni. En níð á því fádæma lága plani sem oft á tíðum hefur verið í Morgunblaðinu í tíð núverandi ritstjóra er ekki sæmandi fjölmiðli sem vill láta taka sig alvarlega."

Jóhanna taldi rétt að hafa þennan (og raunar nokkru lengri) formála að áramótagreininni.

Jim Hacker kvartaði yfir forvera sínum og fjölmiðlum í hinum mögnuðu þáttum Já forsætisráðherra. Vert að birta þessa þætti í tilefni dagsins.


Álagning ríkisins hefur hækkað um 42 krónur að raunvirði

Í nóvember 2003 var bensíngjaldið hækkað töluvert og var samtals 42,23 krónur á hvern lítra af blýlausu bensíni. Þar af áttu nær 31 króna að renna til vegagerðar. Að raunvirði (miðað við hækkun vísitölu neysluverðs) ætti sambærileg álagning að nema um 67,5 krónum í dag. Með öðrum orðum: Ríkið hefur aukið álagningu sína um 42 krónur umfram verðlag á hvern keyptan bensínlítra.

Skemmtilegar tölur við áramótin. 


mbl.is Ríkið tekur 110 kr. af lítra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlýja í garð Ólafs Ragnars Grímssonar

Viðskiptablaðið bendir á að í leiðurum Morgunblaðsins hafi gætt nokkurrar hlýju í garð Ólafs Ragnars Grímssonar. Af einhverjum ástæðum rataði hluti viðtals við Davíð Oddsson ekki í prentaða útgáfu áramótablaðs Viðskiptablaðsins og er það birt á vef blaðsins í dag.

Davíð hælir Ólafi Ragnari þó stutt sé í gagnrýnina. En framganga forsetans í Icesave-málinu er Davíð að skapi. Hann hafi farið í fjölda viðtala við erlenda fjölmiðla og haldið fram málstað Íslendinga. Jóhanna Sigurðardóttir hafi verið ófær til þess en Steingrímur J. Sigfússon svikist um það.

Mér finnst rétt að birta þennan hluta viðtalsins orðrétt:

„Hann [Ólafur Ragnar] auðvitað gat ekki annað en synjað Icesave lögunum eins og þau voru,“ segir Davíð aðspurður um fyrrgreint atriði.

„Þetta var tæpt í þinginu og svo komu 60 þúsund undirskriftir. Hann hafði áður gengið erinda Baugs með helmingi færri undirskriftir þannig að hann gat ekki gert þetta öðruvísi.“

Þá segir Davíð að áramótaskaup síðasta árs hafi augljóslega haft mikil áhrif á afstöðu forsetans í málinu. Í skaupinu hafi Bessastöðum verið breytt í dópbæli fyrir útrásarvíkinga og jafnvel þó stærsti hluti skaupsins hafi snúist um þetta hafi ekki einn einasti Íslendingur gert athugasemdir við það. Það sé mjög sláandi.

„Ólafur Ragnar er enginn kjáni og hann áttaði sig á stöðunni,“ segir Davíð.

„Og það verður hver að eiga það sem hann á. Forsetinn fór reglulega í viðtöl við erlenda fjölmiðla vegna málsins og gerir enn. Það er rétt að hrósa honum fyrir það. Þetta var auðvitað það sem forystumenn þjóðarinnar hefðu átt að gera en hafa aldrei gert. Það væri ósanngjarnt að segja að Jóhanna hefði svikist um það, hún er bara einfaldlega ófær til þess. Við þurfum að vera hreinskilin með það. Steingrímur er sjálfsagt ekki ófær um það en hann sveikst þó um það. Ólafur Ragnar gerði þetta mjög vel og með öflugum hætti.“


Kaffihúsakratar og spunakerlingar

Það var merkilegt að fylgjast með hvernig spunavél Samfylkingarinnar var sett í gang og látin vinna eftir að þrír þingmenn Vinstri grænna tóku þá ákvörðun að styðja ekki fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Slík hjáseta jafngildir því að setja sig úr lögum við ríkisstjórn. 

Samfylkingin kann ágætlega til verka þegar kemur að pólitískum spuna og hefur á stundum tekist ágætlega upp. En í þetta skipti gekk vélin ekki vel. Hugmyndin um að hræða Vinstri græna með því að spinna leka og fréttir um að verið væri að ræða við Framsóknarflokkinn um þátttöku í ríkisstjórninni, virkaði ekki sem skyldi. Þegar spuninn var orðinn ótrúverðugur, kom Jóhanna fram á sviðið og neitaði öllu og það þrátt fyrir að hennar helsti spunameistari, Gísli Baldvinsson, héldi öðru fram. Á bloggsíðu sinni 28. desember sagði Gísli:

"Nú er ég búinn að fá það staðfest úr tveimur áttum að Framsóknarflokki hefði verið boðið nýtt atvinnumálaráðuneyti við lagabreytingu 1. mars n.k."

Gunnar Bragi Sveinsson formaður þingflokks Framsóknarflokksins, kallar Gísla kaffihúsakarl í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag:

"Það kann að vera að kaffihúsakratarnir séu orðnir svo örvinglaðir um að missa völdin að nú skuli lygi, spunakerlingum og bulli beitt til hafa hemil á "hinum óþægu".

"Hinir óþægu" innan Vinstri grænna hafa jafnvel átt meira sameiginlegt með framsóknarmönnum en þeir sem tilheyra forystu þess ágæta stjórnamálaflokks. Nægir þar að nefna málefni heimilanna. Spunakerlingarnar ættu því að velta þeim möguleika fyrir sér að "hinir óþægu" leiti til Framsóknar um samstarf. Um það mætti spinna langan lygavef.

Staðreyndin í þessum dæmalausa spuna er sú að enginn hefur leitað til forystu Framsóknarflokksins um að lappa upp á ríkisstjórnina, hvað þá að heilt ráðuneyti hafi verið boðið."

Gunnar Bragi lýkur grein sinni á eftirfarandi orðum:

"Spunakerlingarnar munu eflaust halda áfram að spinna og fjölmiðlar flytja af því fregnir. En snældan er beitt og þeir sem stinga sig á henni sofa lengi, eins og alþjóð veit."


mbl.is Vill nýja ríkisstjórn um tiltekin verkefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins vill stefnuna á sölutorg Samfylkingarinnar

Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, á erfitt með að sætta sig við að mikill meirihluti landsfundarfulltrúa flokksins, skuli hafa lagst gegn umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Skoðanakannanir sýna að þar stigu landsfundarfulltrúar í takt við mikinn meirihluta kjósenda flokksins og raunar meirihluta Íslendinga. 

Í einkar sérkennilegum pistli, sem Jórunn skrifar á Eyjuna 28. desember viðurkennir hún að sér hafi verið heitt í hamsi eftir að landsfundur samþykkti tillögu gegn aðildarumsókn. Jórunn tilheyrir minnihlutahópi sem er nokkuð hávær, en nokkrir hafa sagt skilið við Sjálfstæðisflokkinn vegna þessa, þar á meðal séra Þórir Stephensen og Guðbjörn Guðbjörnsson sem vinnur að stofnun stjórnmálaflokks. 

Ég geri enga athugasemd við að karlar og konur berjist af ástríðu fyrir hugsjónum sínum og hlaupi kapp í kinn. Það vantar meiri ástríðu og eldmóð í íslensk stjórnmál. En þegar hugsjónir verða undir eiga þeir sem taka þátt í starfi stjórnmálaflokks aðeins um tvo kosti að velja. Þeir geta sætt sig við niðurstöðu meirihlutans og unnið samkvæmt því (jafnvel í þeirri von að árangur náist síðar) eða þeir yfirgefa vettvanginn og leita annars til að vinna hugsjónum sínum fylgis.

Jórunn telur að sjálfstæðismenn eigi að elta Samfylkinguna. Þannig telur hún eðlilegt að Samfylkingin marki brautina og að Sjálfstæðisflokkurinn gangi hina ruddu braut. Jórunn skrifar meðal annars:

"Það er ekki hægt að horfa upp á það, meðan allt er á hraðri niðurleið í þessu landi og alger stöðnun að verða að veruleika að Sjálfstæðismenn og Samfylking geti ekki starfað saman. Samvinna þessara tveggja flokka er að mínu mati það eina sem getur komið hagkerfinu í gang og atvinnulífinu af stað. Núverandi ríkisstjórn er algerlega óhæf til þess og finnst mér málum svo komið að þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar beri hreinlega skylda til þess að slíðra sverðin og vinna saman að þeim brýnu málum sem nú þarf að leysa og það án tafar. Sjálfstæðismenn á alþingi með Bjarna Benediktsson í broddi fylkingar þurfa að vinna áfram að samningi við ESB og leggja frumvarp Unnar Brár til hliðar svo þessir tveir flokkar geti unnið saman."

Þannig telur Jórunn það fullkomlega eðlilegt að sjálfstæðismenn leggi hugsjónir sínar til hliðar - bjóði þær upp á pólitískum uppboðsmarkaði, þar sem Samfylkingin er eini kaupandinn. Stjórnmálamenn sem hugsa á þessum nótum eru hættulegir stjórnmálamenn. Þann dag sem Sjálfstæðisflokkurinn setur grunnhugsjónir sínar á uppboðstorg stjórnmálanna, er dagurinn sem fyrsti naglinn er rekinn í kistu flokksins. 

Jórunn heldur því fram að andstaðan við aðild að Evrópusambandinu sé í "hróplegu ósamræmi við stefnu flokksins og hugmyndafræði". Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki hvernig borgarfulltrúinn getur komist að þessari niðurstöðu. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður árið 1929 var fullveldi og sjálfstæði landsins mikilvægasta stefnumálið samhliða því að "vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum". Eftir síðari heimstyrjöldina koma það í hlut Sjálfstæðisflokksins að marka stefnuna í utanríkismálum. Sú stefna hafði það eitt að markmiði; að verja sjálfstæði þjóðarinnar.

Aðild að Evrópusambandinu, með því afsali fullveldis sem felst í aðild, gengur því gegn sögu og stefnu Sjálfstæðisflokksins. Forysta Sjálfstæðisflokksins gegnir því mikilvægu hlutverki og það hlutverk felst ekki í því að gangast undir stefnu Samfylkingarinnar, líkt og Jórunn Frímannsdóttir telur nauðsynlegt. Mikill meirihluti sjálfstæðismanna gerir þá kröfu til forystu flokksins að hún sé trú sögu og stefnu flokksins með sama hætti og gert var í sjálfstæðismálinu og á tímum kalda stríðsins. Þá fór flokkurinn aldrei á sölutorg og bauð stefnu sína til sölu.


Davíð: Stjórnarkreppa hefði verið betri

Davíð Oddsson segir að stjórnarkreppa hefði reynt Íslendingum betri en ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Efnahagsástandið væri miklu betra hér á landi.

Í ítarlegu viðtali við Gísla Frey Valdórsson í veglegu áramótablaði Viðskiptablaðsins gefur Davíð sitjandi ríkisstjórn ekki háa einkunn. Hann telur hana verri en enga:

"Ég er reyndar þeirrar skoðunar að ef þannig hefði háttað eftir að stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var farin frá og við þær aðstæður hefði verið stjórnarkreppa og engin formleg ríkisstjórn, heldur aðeins starfsstjórn alveg til þessa dags, þá væri efnahagsástandið miklu betra. Þannig að núverandi ríkisstjórn er mun verri en engin."

Aðspurður um af hverju hann telji stjórnarkreppu betri svarar Davíð:

"Vegna þess að þessi stjórn hefur lagt stein í götu allrar þróunar. Þróunin hefði getað verið markviss vegna þeirra meginlína sem dregnar höfðu verið áður en ríkisstjórn Geirs [Haarde] fór frá."


Ljúfir, góðir og hlýðnir þingmenn

Sigurður Þorsteinsson auglýsir á bloggsíðu sinni eftir hlýðnum þingmönnum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Þeir verða að vera undirgefnir og tilbúnir að éta það sem úti frýs: Síðan segir Sigurður:

"Engar kröfur eru gerða um sjálfstæða hugsun, og alls engar kröfur um þekkingu um þekkingu á efnahagsmálum. Reyndar verður þeim sem hafa þekkingu á efnahagsmálum og eru viljugir að koma þeirri þekkingu á framfæri, hafnað.

Þingmenn með áhuga á að naga kjötbein eru sérstaklega velkomnir en ekki þeir sem hafa áhuga á að veiða mýs, hamstra og fugla. 

Umsækjendur verða að undirbúa sig undir að tímabil ráðningar getur orðið mjög stutt. Umsóknir sendist í pósthólf Jóhönnu Sigurðardóttur eða Steingríms Sigfússonar merkt ,,allt á leiðinni til andskotans"." 

Jónas Bjarnason orðar þetta með öðrum hætti en hugsunin er svipuð:

"Auðvitað vilja Jóhanna og Steingrímur hafa þingmennina góða og ljúfa svo þeir bara séu sammála þeim og séu ekki með neitt múður í þinginu. Þau eiga bara að greiða atkvæði og þegja, er það ekki?"

Sagði AGS beita fjárkúgun

Lilja Mósesdóttir er hægt en örugglega að segja skilið við Vinstri græna og Steingrím J. Sigfússon sérstaklega. Það er ágætt hjá henni að halda orðum formannsins til haga en Steingrímur J. hefur farið í 180 gráður þegar kemur að samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS), og skal látið liggja á milli hluta hvort hann sem stjórnarandstæðingur hafði rétt fyrir sér eða ekki.

Lilja hefði átt að rifja upp fleiri ummæli og skoðanir Steingríms á þessum tímamótum. Læt því fylgja með nokkrar tilvitnanir um AGS en þó sérstaklega Icesave. 

Krafa AGS fjárkúgun

Ég hef heyrt þann orðróm að þarna séu tengsl á milli og ef það er svo að þetta sé fyrirfram skilyrði af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þess að koma hér að málum, að við gerum upp öll þessi ósköp í Bretlandi og Hollandi án þess að það liggi endilega fyrir að okkur sé lagalega og þjóðréttarlega skylt að gera það, þá er það auðvitað ekkert annað en fjárkúgun. Þá eru allar okkar verstu martraðir að rætast hvað varðar aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Steingrímur J. Sigfússon formaður VG í samtali við Mbl.is 22. október 2008.

Íslenska ríkið ber ekki ábyrgð

Eins og lögfræðingar hafa bent á var hlutverk innlánatryggingakerfa samkvæmt reglum ESB/EES- svæðisins aldrei að takast á við allsherjar bankahrun, heldur aðeins fall einstakra banka. Sama sjónarmið kemur fram í skýrslum og yfirlýsingum frá Seðlabaka Evrópu og framkvæmdastjórn ESB.

Veigamikil rök hnigu því strax frá upphafi að því að íslenska ríkið bæri ekki ábyrgð á skuldum vegna Icesave-reikninganna umfram þá upphæð sem var til staðar í Tryggingasjóði innistæðueigenda.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, í grein sem birtist í Morgunblaðinu í 24. janúar 2009.

Hægt af afstýra stórslysi

Í ljósi þessa er mesta örlagastundin í Icesave-málinu í raun enn eftir. Enn er hægt að afstýra stórslysi fyrir íslenska þjóð. Taki Tryggingarsjóðurinn hins vegar við skuldunum er ljóst að þá verður ekki aftur snúið: Þá hefur þjóðin endanlega verið skuldsett á grundvelli pólitískra þvingunarskilmála sem ríkisstjórnin hafði ekki dug í sér til að standa gegn. Stjórnarseta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er því að reynast þjóðinni dýrkeypt, í þessu sem öðru. En þessari vöru fæst ekki skilað, eins og sagt er, heldur virðist ríkisstjórnin ætla að sitja áfram, án þess að boða til kosninga, þar til það er orðið endanlegt og óafturkræft að skuldir vegna þessarar fjárglæfrastarfsemi lendi á þjóðinni og komandi kynslóðum.

Steingrímur J. Sigfússon  í grein sem birtist í Morgunblaðinu í 24. janúar 2009 um Icesave-málið.

Ég treysti Svavari Gestssyni

Ég treysti Svavari Gestssyni. Ég veit að hann er að gera góða hluti og ég lofa þér því að það er í sjónmáli að hann landi – og hans fólk – glæsilegri niðurstöðu fyrir okkur ...

Ég held að við getum átt þar í vændum farsælli niðurstöðu en kannski leit út fyrir að vera.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í Zetunni, umræðuþætti á mbl.is í mars 2009 aðspurður um stöðuna í Icesave-viðræðunum við Breta og Hollendinga

Ekki verið að ganga frá Icesave-samkomulagi

Það er verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær eru ekki hafnar heldur eru könnunarþreifingar eða könnunarviðræður í gangi. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála. Staða málsins er sú að það eru könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra svarar Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni 3. júní 2009 eða tveimur dögum áður en Icesace-samningar voru undirritaðir


mbl.is Lilja rifjar upp orð Steingríms um AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri menn hafa engan skilning á verðmætasköpun

Liðsmenn Vinstri grænna leita nú skýringa á þeim erfiðleikum sem flokkurinn á við að glíma. Þingflokkurinn er sundraður og líf ríkisstjórnarinnar hangir á bláþræði. Lilja Mósesdóttir hugar að því að segja skilið við þingflokkinn og Atli Gíslason svarar fjölmiðlum á latínu; Cogito ergo sum [ég hugsa, þess vegna er ég]. Ásmundur Einar Daðason bíður átekta, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir þingflokksformaður er í barnseignarleyfi og Ögmundur Jónasson tekur til varna fyrir þá þingmenn sem ekki studdu fjárlagafrumvarp formanns Vinstri grænna og ríkisstjórnarinnar.

Teitur Bergþórsson, kennari og félagi í VG, segir í grein í Fréttablaðinu að ástæða þess að það hriktir í stoðum ríkisstjórnarinnar sé sú að "VG keypti Samfylkinguna of dýru verði - seldu sannfæringu sína í ESB málinu og þurfa svo aftur að selja sjávarútvegsstefnu sína gagnvart íhaldinu, til þess að eiga möguleika á að ganga frá Ísseifsmálinu".

Teitur telur að pólitík gangi út á málamiðlanir en svo virðist sem að VG geti klofnað í tvær fylkingar:

"Munurinn á þessum klofningi og þegar Alþýðubandalagið klofnaði er sá að nú eru þetta málefnaárekstrar en í hinu tilvikinu persónulegt skítkast á báða bóga."

Framtíð Vinstri grænna er ekki sérstaklega björt í huga Teits. Flokkurinn standi frammi fyrir því að verða "lítill samstilltur stjórnarandstöðuflokkur um ókomna framtíð eða stór lítt samstilltur flokkur sem gæti komist í stjórn öðru hvoru og haft áhrif".

Teitur bendir á að innan VG séu tveir mjög svo hæfir forystumenn og á þar annars vegar við Steingrím J. Sigfússon og að líkindum Ögmund Jónasson. Teitur telur að þeir verði að víkja og leiða nýjan formann til valda, - formann sem báðar fylkingar flokksins geti sætt sig við:

"Sveigjanlegan samningamann sem þó getur haldið uppi þeim aga sem þarf að vera í hópsamstarfi."

Í huga Teits er sundrungin í þingflokki VG ekki alvond ef hún verður til þess að fella núverandi ríkisstjórn. Teitur er líkt og margir aðrir búinn að gefast upp á ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, sem hann beið svo lengi eftir. Ástæðan er sú að þegar "að uppbyggingu kemur, og endurreisn hefst, blasir við, að vinstrimenn - upp til hópa - hafa nákvæmlega engan skilning á því með hvaða hætti verðmætasköpun verður til".

Dómur Teits er afdráttarlaus:

"Þessi ríkisstjórn er komin á endastöð og nú eiga leiðir að skilja."

Teitur elur þá von í brjósti að næsta ríkisstjórn verði mynduð með þátttöku Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Hreyfingarinnar. Ekki er ég viss um að honum verði að ósk sinni, jafnvel þó Teitur hafi trú á því að Styrmir Gunnarsson nái að bræða saman slíka stjórn ásamt Steingrími J. og Þór Saari.

Grein Teits er hins vegar merkilegt og gott innlegg í umræðuna. Það er alltaf gleðilegt þegar fylgismenn Vinstri grænna skrifa á þennan hátt þar sem áhersla er lögð á uppbyggingu atvinnulífsins. Greinin ber þess merki að innan VG eru einstaklingar sem skilja vel "með hvaða hætti verðmætasköpun verður til". Þeir mættu hins vegar láta heyra meira og oftar í sér.


mbl.is Misvísandi skilaboð um samstarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband