Hversu mikil var sanngirnin og réttlætið?

Ein mikilvægasta regla réttarríkisins er sú að ákæruvaldið gefi því aðeins út ákæru ef taldar eru meiri líkur en minni að sekt verði sönnuð fyrir dómi. Ákæruvald getur aldrei gefið úr ákæru á hendur einstaklingum til þess eins að kanna hvort hugsanlega sé hægt að ná fram sektardómi. Með sama hætti getur ákæruvald aldrei gengið fram með þeim hætti að leggja fram ákæru til þess eins að „okkar vísustu lögspekingar“ geti tekið afstöðu til sektar eða sýknu.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur brugðist illa við að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins skuli leggja fram þingsályktunartillögu og ætlast til þess að hún komist á dagskrá Alþingis. Tillaga Bjarna hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fella úr gildi ályktun um málshöfðun gegn ráðherra frá 28. september 2010 og felur saksóknara Alþingis að afturkalla í heild ákæru útgefna með stefnu sem þingfest var fyrir landsdómi 7. júní 2011.“

Í morgunþætti Rásar 2 gagnrýndi Jóhanna tillöguna harðlega og talaði um ótrúlegan yfirgang sjálfstæðismanna. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins hafði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ekkert við tillöguna að athuga.

Merkilegt var að fylgjast um umræðum sem spunnust á Alþingi í morgun vegna málsins. Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar sagði að Alþingi ætti ekki að grípa inn í feril málsins. Þingmaðurinn var einn þeirra sem taldi rétt að ákæra þrjá af fjórum ráðherrum og þar með gætu „okkar vísustu lögspekingar ákvarðað hvort fyrrverandi forsætisráðherra hefði brotið lög um ráðherraábyrgð eða ekki“. [Magnús Orri taldi ekki rétt að Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, sætti ákæru.]

Magnús Orri sagði að með því að vísa málinu til Landsdóms væri ekki „sagt fyrir um sekt eða sakleysi“. Þetta er mikill misskilningur hjá Magnúsi Orra. Með því að styðja að höfðað yrði mál gegn Geir H. Haarde, var þingmaðurinn ekki aðeins að lýsa því yfir að hann teldi að fyrrverandi forsætisráðherra hefði brotið lög um ráðherraábyrgð, heldur var hann einnig að lýsa því yfir að meiri líkur en minni væru til þess að ákæran leiddi til sektardóms. Magnús Orri getur ekki skotið sér undan þessari ábyrgð með því að segjast treysta því að Geir H. Haarde njóti sanngjarnar og réttlátrar málsmeðferðar. Hafi þingmaðurinn talið leika vafa á sekt ráðherrans fyrrverandi og/eða að minni líkur en meiri væru á sakfellingu, bar honum að greiða atkvæði gegn ákæru. Þetta er ekki flóknara en þetta.

Ólína Þorvarðardóttir, sem einnig greiddi atkvæði með því að ákæra Geir sagði í áðurnefndum umræðum á þingi:

„Alþingi Íslendinga getur ekki verið þekkt fyrir það að ganga inn í réttarhald sem er hafið fyrir dómstól. Það væri að bíta höfuðið af skömminni.“

Í huga þingmannsins er það fráleitt að þingályktunartillagan verði tekin á dagskrá þingsins. Afhverju skyldi það nú vera? Er það óeðlilegt að þingmenn ræði það af fullri ábyrgð hvort það kunni að vera rétt að falla frá málshöfðun, meðal annars í ljósi nýrra upplýsinga en ekki síður með hliðsjón af því að Landsdómur hefur þegar vísað frá dómi alvarlegustu sakarefnunum?

Í upphafi var lagt upp með að fjórir fyrrverandi ráðherra yrðu dregnir fyrir landsdóm; Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni M. Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson. Niðurstaða Alþingis var að Geir skyldi einn sæta ákæru.

Í þessu sambandi er rétt að rifja upp atkvæðagreiðsluna og hvernig einstaka þingmenn greiddu atkvæði til að tryggja að Geir stæði einn frammi fyrir landsdómi.

Eftirtaldir þingmenn [allir í Samfylkingunni] studdu ákæruna gegn Geir en lögðust gegn því að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu:

  • Ólína Þorvarðardóttir,
  • Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
  • Skúli Helgason,
  • Helgi Hjörvar.

Eftirtaldir þingmenn voru á móti því að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu en töldu rétt að stefna Árna M. Mathiesen fyrir landsdóm:

  • Ólína Þorvarðardóttir,
  • Sigríður Ingibjörg Ingadóttir

Eftirtaldir þingmenn studdu ákæruna gegn Geir en vildu ekki ákæra Björgvin G. Sigurðsson [allir í Samfylkingunni]:

  • Helgi Hjörvar,
  • Magnús Orri Schram,
  • Oddný G. Harðardóttir,
  • Skúli Helgason,
  • Valgerður Bjarnadóttir,

Mörður Árnason greiddi ekki atkvæði um ákæruna gegn Björgvin G. Sigurðssyni.

Með hliðsjón af atkvæðagreiðslunni geta menn velt því fyrir sér hve mikil sanngirni og réttlæti ríki í hugum þeirra þingmann Samfylkingarinnar sem greiddu atkvæði með ofangreindum hætti.


mbl.is „Ótrúlegur yfirgangur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband