Hagsmunir Íslendinga vs. pólitískir hagsmunir Steingríms Jóhanns
Fimmtudagur, 15. desember 2011
Treystir þú sitjandi ríkisstjórn til að gæta hagsmuna Íslands vegna Icesave fyrir EFTA-dómstólnum? Nær öruggt er að meirihluti landsmanna svarar spurningunni neitandi. Sporin hræða. En það væri einnig hægt að spyrja: Hvort treystir þú betur Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, eða Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra, til að gæta hagsmuna Íslands fyrir EFTA-dómstólnum vegna Icesave? Hér skal fullyrt að mikill meirihluti mun velja Árna Pál og hafna því að Steingrímur Jóhann fái forræði yfir málsvörn Íslands. Íslendingar gleyma seint hvernig fjármálaráðherra hélt á málum í Icesave-deilunni með aðstoð Svavars Gestssonar og Indriða Þorlákssonar.
Um það verður ekki deilt að barátta InDefence skipti sköpum í baráttunni gegn þeim nauðungarsamningum sem ríkisstjórnin gerði ítrekað við Breta og Hollendinga. Ólafur Egilsson, einn liðsmanna InDefence-hópsins, segist hafa gríðarlegar áhyggjur af því að þetta mál lendi í höndum stjórnmálamanna sem hafi mikinn siðferðisvanda í málinu".
Í samtali við Vísi er Ólafur hreinskilinn:
Ef við tökum sem dæmi Steingrím J. Sigfússon þá er hann með þá stöðu í málinu að það yrði afar þægilegt fyrir hans pólitísku stöðu að þetta mál færi illa og yrði kostnaðarsamt fyrir íslensku þjóðina. Hann hefur alla vega ekki mikinn hvata gagnvart sínum pólitíska ferli að reka þetta mál með hagsmuni þjóðarinnar í forgrunni."
Það er hreint magnað ef það reynist rétt að meirihluti þingmanna, þar með taldir margir stjórnarþingmenn Samfylkingar og VG, treysti ekki fjármálaráðherra til að gæta hagsmuna Íslendinga í erfiðu deilumáli. Kannski er það vegna þess að þeir eru sammála Ólafi Egilssyni um að Steingrímur J. Sigfússon hefur ekki ekki mikinn hvata gagnvart sínum pólitíska ferli að reka þetta mál með hagsmuni þjóðarinnar í forgrunni.
Vel haldið á Icesave-máli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook