Prófkjör ekki gallalaus

Ákveðnar efasemdir hafa alla tíð verið upp um ágæti prófkjara til að velja einstaklinga á framboðslista stjórnmálaflokkanna.  Jónína Michaelsdóttir veltir því fyrir sér í ágætum pistli í Fréttablaðinu, hvort prófkjörin séu besta leiðin. Hún segir að það sé "lýðræðislegt að allir fái að kjósa um hverjir fara á stjórnlagaþing, hverjir setjast á þing og hverjir verða borgarfulltrúar". Jónína virðist ekki fyllilega sátt við niðurstöðuna:

"Hún [niðurstaðan] er sú að fólk kýs fólk með andlit sem það þekkir úr fjölmiðlum. Ekki endilega fjölmiðlafólkið sjálft þó að það sé líka með, heldur fólk með nafn og andlit sem menn kannast við þegar þeir skoða framboðslistana. Stjórnlaganefnd er gott dæmi um þetta, svo ágæt sem hún er."

Jónína segir að eflaust yrði litið á það  sem gamaldags klíkufyrirkomulag ef lagt verði til að frambjóðendur í næstu kosningum yrðu valdir af nefndum innan flokkanna:

"Menn myndu vísast velja vini sína, klíkubræður og klíkusystur. Tortryggnin yrði ofan á ef þetta yrði lagt til. En er úr háum söðli að detta?"

Jónína rifjar upp að að í Sjálfstæðisflokknum hafi skipan framboðslista verið í höndum fimmtán manna fulltrúaráðs. Skoðanakannanir hafi verið gerðar í félögum og kjördæmum sem var unnið úr. Lagður var metnaður í að verða "með fólk á öllum aldri og fólk sem þekkti vel stoðir samfélagsins, og menningarlíf" á framboðslistum:

"Í hverjum kosningum hefði verið skipt út einhverjum til að koma með nýtt blóð inn í hópinn. Ég er ekki frá því að þessi tilhögun yrði betri en það sem nú tíðkast. Hún yrði allavega ekki verri."

Niðurstaða Jónínu er síðan þessi:

"Er ekki farsælast fyrir blessað lýðræðið og þjóðina sem alltaf er verið að vitna í, að fulltrúar hennar á Alþingi sé fólk sem hún treystir, og að það sé fólk sem hefur þekkingu og skilning á atvinnulífi, heilbrigðismálum, sjávarútvegi, iðnaði, utanríkismálum, menningarmálum og íþróttum, en þurfi ekki að reiða sig á ráðgjafa að öllu leyti?

Er það virkilega svo að við treystum fólki fyrir lífi okkar og limum af því að við höfum séð það í sjónvarpi, myndir af því í blöðum eða á netinu? Sé það svo, eigum við ekkert betra skilið."

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband