Umhverfisvæn kvennastörf!!
Laugardagur, 26. nóvember 2011
Stundum er erfitt að átta sig röksemdafærslu í opinberri umræðu, ekki síst vegna þess að sífellt skjóta upp kollinum ný orð sem eru ýmist merkingarlaus eða merking þeirra svo djúpstæð að þau verða vart skilin án þess að þau séu skýrð út.
Á föstudagskvöld atti Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar kappi við Ögmund Jónasson innanríkisráðherra. Með þeim var einnig framsóknarmaðurinn, Hölskuldur Þórhallsson. Tilefnið var ákvörðun Ögmundar um að heimila ekki kaup kínversks fjárfestis á Grímstöðum á Fjöllum. Sigmundur Ernir var harður í gagnrýni sinni og gaf ráðherranum lítil grið. Eitt af því sem Sigmundur Ernir benti á var að með ákvörðun sinni væri ráðherrann að koma í veg fyrir að til yrðu um 400 störf í ferðaþjónustu og á annað hundrað óbein störf. Allt skiljanlegt en þegar þingmaðurinn undirstrikaði í tvígang að meðal annars væri um að ræða umhverfisvæn kvennastörf, þá hætti sá er hér skrifar að skilja.
Hvað eru umhverfisvæn kvennastörf? Og fyrst til eru sérstök kvennastörf sem teljast umhverfisvæn, þá hljóta að vera til kvennastörf sem ekki teljast góð út frá hagsmunum náttúrunnar. Hvaða störf eru það?Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook