Gömul loforð rifjuð upp
Föstudagur, 2. september 2011
Enn og aftur lofar Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra þúsundum nýrra starfa. Nú lofar hún 7.000 nýjum störfum um allt land auk fjöldra afleiddra starfa. Þetta er stærra loforð en oftast áður.
Af þessu tilefni er vert að rifja upp fyrri loforð forsætisráðherra.
Í mars síðastliðnum taldi Jóhanna að bjart væri yfir en í umræðum á Alþingi utan dagskrár um atvinnumál sagði forsætisráðherra að 2.200-2.300 ársverk yrðu sköpuð fljótlega.
Í lok október á síðasta ári var Jóhanna Sigurðardóttir enn bjartsýnni og talaði um 3-5 þúsund ný störf á nýju ári [2011] og hagvöxtur skyldi verða 3-5%.
Í ávarpi á Viðskiptaþingi í mars 2009 sagði Jóhanna:"Ríkisstjórnin hefur þegar gripið til margvíslegra aðgerða til þess að styrkja vinnumarkaðinn og atvinnulífið í landinu. Nýjar tillögur í atvinnumálum ættu að skapa um 6.000 ársverk, þar af munu verða til um 2.000 störf í orkufrekum iðnaði, svo fátt eitt sé nefnt."
Jóhanna Sigurðardóttir var á svipuðum nótum í ræðu á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins í apríl 2009:
"Ég vil vinna með ykkur að framgangi áætlunar stjórnvalda 6.000 störf sem allar forsendur eru fyrir. Stærstur hluti þessara starfa mun verða til á almennum vinnumarkaði."
Á bak við loforð um þúsundir starfa hefur öll ríkisstjórnin staðið eins og kom t.d. fram í fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar í mars 2009 þar sem sagði meðal annars:"Ríkisstjórnin fjallaði á ríkisstjórnarfundi sínum í morgun um tillögur Stýrihóps ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í atvinnumálum til þess að sporna gegn atvinnuleysi. Samþykkt var að vinna að framgangi ellefu tillagna sem gætu skapað ríflega 4000 ársverka á næstu misserum."
7 þúsund ný störf í augsýn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook