Óstjórn og spilling í skjóli merkingarlausra orða

Sigurður Líndal, lagaprófessor, segir að í skjóli merkingarleysis orða hafi þrifist óstjórn og spilling bæði í stjórnmálum og atvinnulífi og til hennar megi rekja margvíslegan ófarnað.Í grein sem Sigurður skrifar í Fréttablaðið í dag fjallar hann um tískuorð sem einkenna umræðuna, þar á meðal að "auðlindir verði þjóðareign". Hann bendir einnig að að það séu draumórar að halda því fram að rekja megi hrunið 2008 til stjórnarskrárinnar - draumórar til að dylja vandann.

Um "auðlindir verði þjóðareign" skrifar Sigurður meðal annars:

"En um hvað er verið að tala; hvað merkir þetta orð: "þjóðareign"? - Nú eru lendur og lóðir margar í einkaeign, einnig eru víðlend svæði eign ríkis og sveitarfélaga. Auðlindir sem þar er að finna eru eign eigandans, hvort heldur einkaaðila, ríkis eða sveitarfélags. Með veiðireynslu öfluðu menn sér upphaflega veiðiréttinda með námi eða töku á eigendalausum verðmætum - fiski - sem síðar voru nánar afmörkuð með lögum þegar nauðsynlegar reyndist að takmarka sókn í nytjastofnana. Þessi réttindi njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar a.m.k. sem atvinnuréttindi, jafnvel bein eignarréttindi að sumra mati. Þessu hefur aldrei verið andmælt með lagalegum rökum. Orðið þjóðareign í þessu samhengi er þannig merkingarlaust í lögfræðilegum skilningi. Ef nota á það í víðtækari merkingu - eins og Íslendingar "eigi" landið, tunguna og fornbókmenntirnar - er það ónothæft í lagatextum og allri rökræðu."

Sigurður segir að orsakir hrunsins séu margvíslegar en enginn vafi sé á því að merkingarlaus orðræða eigi þar drjúgan þátt og "henni að baki þrífist stjórnarhættir sem bjóða heim óvissu og aðhaldsleysi bæði í landstjórn og lagaframkvæmd".

Sigurður gefur ekki mikið fyrir orð forsætisráðherra um þjóðareign auðlindanna: 

"Þegar hugað er að orðum forsætisráðherra um þjóðareign á auðlindunum sem virðist helzta baráttumál hennar, verður ekki annað ályktað en fella eigi hina merkingarlausu orðræðu stjórnmálanna inn í ákvæði stjórnarskrárinnar og síðan fylgi ámóta yfirlýsingar eftir. Með því er verið að veita þessari orðræðu sérstaka vernd, þannig að stjórnmálamenn, hvernig sem þeir eru þenkjandi, geti haldið henni áfram í skjóli stjórnarskrárinnar með þeim afleiðingum sem þegar hefur verið lýst."


mbl.is Grunni kerfis breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband