Er allt tal um ábyrgð innihaldslaust?

Þingmaðurinn Jóhanna Sigurðardóttir hefur haldið því fram að nauðsynlegt sé að samfara valdi fylgi ábyrgð. Vegna þessa sé nauðsynlegt að styrkja lög um ráðherraábyrgð. Forsætisráðherrann, Jóhanna Sigurðardóttir telur hins vegar ekki að sá sem valdið hefur þurfi að bera ábyrgð á framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings sem reyndust ólöglegar. Ekki er einu sinni nauðsynlegt að biðjast afsökunar á því sem miður fór, eins og Ólafur Stephensen bendir réttilega á í leiðara Fréttablaðsins.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur talað gegn staðreyndum um stjórnlagaþingið eins og bent hefur verið á. Um leið neitar hún að axla pólitíska ábyrgð á því hversu hrapalega tókst til við framkvæmd kosninganna. Varla getur það liðist að landskosningar séu dæmdar ólöglegar án þess að nokkur beri ábyrgð.

Í þessu sambandi er vert að vekja athygli á því sem segir í siðferðiskafla skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis:

"Það er mikilvægur hluti af lýðræðislegum stjórnarháttum að haga ákvörðunum stjórnvalda jafnan þannig að þær standist skoðun og séu teknar í sæmilegri átt við þá sem málið varðar. Frá því sjónarmiði séð krefjast lýðræðislegir stjórnarhættir þess að mál séu faglega undirbúin, ígrunduð og vel kynnt, en ekki bara að verk stjórnmálamanna séu lögð í dóm kjósenda í lok kjörtímabils."

Jóhanna Sigurðardóttir hefur ekki lesið þennan kafla skýrslunnar og hún er einnig búin að gleyma orðum sínum á Alþingi 15. mars 2005. Þá hafði hún framsögu fyrir tillögu til þingsályktunar, sem flutt er af öllum þingmönnum Samfylkingarinnar, um að fram fari heildarendurskoðun á lögum um landsdóm og lögum um ráðherraábyrgð. Þá sagði þingmaðurinn Jóhanna meðal annars:

"Ég vil þá víkja að endurskoðun á lögum um ráðherraábyrgð. Ástæða þess að gerð er tillaga um endurskoðun á lögum um ráðherraábyrgð er sú að telja verður að ýmis ákvæði laganna séu ófullkomin og óskýr og má þá t.d. nefna ákvæði 6. og 7. gr. um ábyrgð ráðherra vegna athafna undirmanna og er rík þörf á að þau verði tekin sérstaklega til skoðunar. Má t.d. benda á að í Danmörku geta ráðherrar orðið ábyrgir vegna athafna undirmanna á grundvelli skorts á eftirliti og leiðbeinandi fyrirmælum. Einnig má nefna að engin ákvæði er að finna varðandi ábyrgð ráðherra ef hann gefur Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða leynir upplýsingum er hafa verulega þýðingu við meðferð máls á Alþingi. Slík ákvæði er t.d. að finna í lögum um ábyrgð ráðherra bæði í Danmörku og Noregi eins og nánar er lýst í greinargerð með tillögunni.

Ljóst er að æðstu embættismenn framkvæmdarvaldsins fara með vandmeðfarið vald og nauðsynlegt er að samhliða slíku valdi fari rík ábyrgð, enda bera ráðherrar ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum samkvæmt lögunum og stjórnarskrá. Því er nauðsynlegt að styrkja lög um ráðherraábyrgð og veita með því ráðherrum nauðsynlegt aðhald, ekki síst þar sem lögin eru óljós núna og matskennd á köflum og inn í þau vantar mikilvægt ákvæði sem t.d. er að finna í norskum og dönskum lögum um ráðherraábyrgð, t.d. að ráðherra er ábyrgur samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð ef hann gefur Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða leynir upplýsingum er hafa verulega þýðingu við meðferð máls á Alþingi. Varla þarf um það að deila að mikilvægt er að hægt sé að treysta upplýsingum sem ráðherrar gefa Alþingi. Það er grundvallaratriði til að styrkja þingræðið í landinu og eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Því er nauðsynlegt að lög um ráðherraábyrgð taki til tilvika eins og þeirra ef ráðherrar veita röng eða villandi svör við fyrirspurnum frá alþingismönnum eða við meðferð mála á Alþingi, svo og gagna og upplýsinga sem ráðherrar eða ráðuneytin gefa Alþingi eða einstökum þingnefndum við umfjöllun stjórnarfrumvarpa eða annarra mála sem fyrir liggja."

 


mbl.is Stjórnlagaþing verið þrætuepli flokkanna frá upphafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband