Íslendingar eru orðnir þreyttir og dasaðir

Niðurstaða könnunar Fréttablaðsins um afstöðu landsmanna til Icesave-samkomulags við Breta og Hollendinga, bendir til þess að Íslendingar séu búnir að gefast upp. Breskum og hollenskum stjórnvöldum, hefur tekist með dyggum stuðningi ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms, að lýja meirihluta Íslendinga.

Áróðurinn fyrir nýjum Icesave-samningi hefur verið mikill og því haldið fram að nú loksins sé kominn á samningur sem sé sanngjarn og viðráðanlegur. Mér er það hulin ráðgáta hvernig hægt er að halda því fram að samningur sem byggir ekki á lagalegum grunni getur talist sanngjarn fyrir skattgreiðendur sem ekkert hafa til sakar unnið, annað en búa á Íslandi. Óskiljanlegt er hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu að Jón og Gunna á Skagaströnd eigi að greiða fyrir óstjórn einkafyrirtækis og græðgi erlendra sparifjáreigenda sem tóku gylliboði um háa ávöxtun.

Fjármálaráðuneytið reiknar með að kostnaðurinn við Icesave geti orðið allt að 59 milljarðar króna fram til ársins 2016. Samkvæmt útreikningum Gamma gætu allt að 233 milljarðar fallið á íslenska skattgreiðendur en a.m.k. 26 milljarðar. 

Eitthvað segir mér að útkoma skoðanakönnunar Fréttablaðsins hefði orðið önnur ef spurt hefði verið:

Ert þú fylgjandi eða andvígur nýju Icesave-samkomulagi sem felur í sér að íslenskir skattgreiðendur greiði a.m.k. 26 milljarða og allt að 233 milljarða?

En niðurstaða könnunarinnar bendir til að við Íslendingar séu búnir að mæðast mjög í baráttunni um Icesave. En einmitt þá reynir á þá sem harðast hafa barist gegn ósanngjörnum kröfum Breta og Hollendinga. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar verða að sýna kjark og berjast. Þá er von til þess að skynsamir þingmenn innan VG sláist í hópinn og komið verði í veg fyrir að enn einu sinni verði tap einkafyrirtækis þjóðnýtt.


mbl.is Meirihluti vill samþykkja Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband