Skilur ekki samhengi
Þriðjudagur, 25. janúar 2011
Ef jafn skynsamur maður og Guðbjartur Hannesson sér ekki samhengi hlutanna, er borin von til þess að flokksformaður hans og forsætisráðherra átti sig á því að staða og afkoma helstu útflutningsgreinar landsmanna, hefur áhrif á allt þjóðfélagið. Ef stoðunum er kippt undan sjávarútvegi hefur það ekki aðeins áhrif á fyrirtæki í sjávarútvegi, heldur á öll byggðarlög landsins, allt frá Reykjavík til Akureyrar, frá Reykjanesbæ til Vestmannaeyja, frá Akranesi til Eskifjarðar. Áhrifin munu seytlast um allt þjóðfélagið. Bifvélaverkstæðið á Eskifirði mun finna fyrir samdrætti, verslun í Vestmannaeyjum mun dragast saman. Opinberir starfsmenn og þá ekki síst á höfuðborgarsvæðinu munu finna fyrir samdrætti þar sem ríkið þarf að herða sultarólina vegna lækkandi tekna.
Því miður skilur Guðbjartur Hannesson ekki þetta samhengi. Hann skilur ekki að stálsmiðjan sem þjónustar útgerð missir spón úr sínum aski, hann áttar sig ekki á því að verslun sem sér um kostinn um borð í skip verður af tekjum, og þannig má lengi telja.
Þeir sem stóðu í þeirri trú að Guðbjartur Hannesson væri rödd skynseminnar innan ríkisstjórnarinnar hafa orðið fyrir áfalli.
Furðar sig á kröfu SA í viðræðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook