Efnt til ófriðar með fimmtung þjóðarinnar að baki

Ýmislegt er hægt að lesa út úr skoðanakönnunum. Könnun Fréttablaðsins á fylgi stjórnmálaflokkanna, sem birt var í síðustu viku, sýnir að enn hefur almenningur ekki tekið flokkana í fulla sátt en það virðist engu skipta í huga Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra sem telur sig hafa fullt umboð til þess að kollvarpa fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Samkvæmt könnun Fréttablaðsins styðja 42,3% ríkisstjórnarflokkana sé miðað við þá sem afstöðu tóku. Þetta er nokkru minna fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn nýtur. Alls styðja liðlega 57% stjórnarandstöðuna . Myndin breytist hins vegar mikið þegar litið er til heildarúrtaksins, því rúm 46% gefa ekki upp stuðning við stjórnmálaflokk. Þá er stuðningur við ríkisstjórnina aðeins 22,8% en nær 31% styðja Sjálfstæðisflokkinn.

Jóhanna Sigurðardóttir telur þetta ekki skipta máli og hefur hent tillögum sáttanefndarinnar, svokölluðu undir forystu Guðbjarts Hannessonar, út í hafsauga. Hún telur rétt að efna til ófriðar um sjávarútveg. Kannski er það vegna þess að Jóhanna finnur hve hratt það flæðir undan ríkisstjórninni, líkt og könnun Fréttablaðsins, bendir til. Árásir á sjávarútveginn eru einnig til þess fallnar að reyna að "þétta" raðir stjórnarliða og breiða yfir ágreiningsmál sem sundra allt frá stefnunni í ríkisfjármálum til aðildar að Evrópusambandinu. 

Það er hreint magnað að ríkisstjórn sem nýtur stuðnings liðlega fimmtungs þjóðarinnar skuli telja sig hafa pólitísk bakland og pólitískt umboð til að halda mikilvægustu atvinnugrein landsmanna í gíslingu og ætla sér að umturna öllu rekstrarumhverfi greinarinnar. Kannski er það vegna þess að talsmenn sjávarútvegsins, hafa ekki haldið vel á sínum spilum á síðustu árum. Ef til vill er skýringanna einnig að leita í málflutningi stjórnarandstöðunnar.

Afleiðingar af stefnu ríkisstjórnarinnar og stöðugra hótana Jóhönnu koma æ betur í ljós. Það þorir enginn að hreyfa sig í sjávarútvegi. Flestar fjárfestingar hafa verið frystar og ekki aðeins í sjávarútvegi, heldur á öðrum sviðum atvinnulífsins.

Morgunblaðið greindi frá því 15. janúar síðastliðinn að mikill óvissa sé að nýtt skip Ísfélags Vestmannaeyja, sem er í smíðum í Chile, komi til landsins.  Skipið er tankaskip þar sem besta mögulega aðstaða verður til að kæla afla í tönkum.Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins sagði í samtali við Morgunblaðið:

"Staða sjávarútvegsins hér á landi og það rekstrarumhverfi sem okkur verður skipað að búa við er í uppnámi og við vitum ekki hvað tekur við. Skipið kemur ekki hingað ef ekki verður grundvöllur fyrir rekstri þess. Við bíðum eftir að heyra hvaða útspil kemur frá ráðamönnum."

Þetta er langt í frá eina dæmið um afleiðingar þeirrar óvissu sem Jóhanna Sigurðardóttir og ríkisstjórn hennar hefur skapað. Því miður vekja fréttir sem þessar litla athygli. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband