Ríkisstjórnin vinnur gegn fjárfestingum
Miðvikudagur, 12. janúar 2011
Auðvitað er það hárrétt hjá Vilmundi Jósefssyni að stærsta verkefnið er að koma fjárfestingum aftur af stað. En það verður ekki gert með stefnu sitjandi ríkisstjórnar. Efnahagsstefnan og þá ekki síst skattastefnan, er fjandsamleg gagnvart þeim sem hugsanlega eru til í leggja fram áhættufé, hvort heldur er í starfandi eða ný fyrirtæki. Hótun Jóhönnu Sigurðardóttur í áramótaávarpi gagnvart sjávarútvegi er ekki til þess fallin að mikið verði fjárfest í útgerð og vinnslu á komandi misserum.
Því miður er ekki mikil innistæða fyrir yfirlýsingu Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra í viðtali við Bloomberg, að óhætt sé að fjárfesta hér á landi. Hækkun fjármagnstekjuskatts, gjaldeyrishöft og neikvætt viðhorf ríkisstjórnar til atvinnurekstrar, letur en hvetur ekki til fjárfestinga. Eins og kom fram í Morgunblaðinu í dag er ætlunin að leggja um 41 milljarð á fjármálafyrirtækin á þessu ári en til samanburðar má nefna að árið 2007 námu þessi útgjöld um 21 milljarði. Formaður Samtaka atvinnulífsins bendir réttilega á að þessar auknu álögur þýða meiri fjármagnskostnað fyrir fyrirtæki og almenning. Hærri fjármagnskostnaður dregur úr fjárfestingum.
Afnám gjaldeyrishafta, lækkun skatta, friður um sjávarútveginn og gjörbreytt afstaða ríkisstjórnarinnar til atvinnulífsins, eru forsendur þess að öflug framsókn hefjist hér á landi.
Tryggingagjald
Í þessu efni er rétt að nefna lítið dæmi sem ég hef bent á áður. Ein besta leiðin til að berjast gegn atvinnuleysi er að lækka tryggingagjald. Launagreiðendur þurfa að greiða 8,65% af heildarlaunum starfsmanna sinna og 0,65% bætist við vegna sjómanna á skipum. Ekki þarf mikinn sérfræðing til að átta sig á því að álagning gjaldsins eykur launakostnað fyrirtækja verulega. Ríkisstjórnin hefur hækkað tryggingagjaldið verulega en samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2011 er þó gengið út frá því að það verði óbreytt á komandi ári.
Hærri launakostnaður fyrirtækja dregur úr möguleikum þeirra til að ráða nýja starfsmenn til vinnu. Með öðrum orðum þá er neikvætt samhengi á milli eftirspurnar vinnuafls og tryggingagjaldsins. Því hærra sem gjaldið er því minni er eftirspurnin og því lægra sem gjaldið er því meiri verður eftirspurn eftir vinnuafli, að öðru óbreyttu.
Öll skynsamleg rök hníga því að því að hluti þess að draga úr atvinnuleysi, koma atvinnulífinu aftur af stað, er að lækka gjaldið verulega. Einnig er hugsanlegt að veita fyrirtækjum sem ráða nýja starfsmenn sérstaka undanþágu í ákveðinn tíma frá gjaldinu. Og slík aðferð um spara fjármuni en einnig efla aðra skattstofna ríkisins.
Því miður er lítill eða engin skilningur á þessu.
Auka verður fjárfestingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook